14.05.1980
Neðri deild: 77. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2696 í B-deild Alþingistíðinda. (2677)

94. mál, sjómannalög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég gat þess við 2. umr. um þetta frv. í gær, að mér hefði ekki verið kunnugt um annað en að þeir aðilar, sem málið snerti, hefðu verið nokkurn veginn ásáttir með frv. eins og það var þegar ráðh. lagði það fyrir Alþ. í vetur. Með tilliti til þess svo og þess grundvallarsjónarmiðs, að ekki eigi með lagaboði að hrófla við samningum aðila nema í ítrustu neyð og í sérstökum undantekningartilfellum, flutti ég við 2. umr. brtt. við 3. mgr. frv. sem færði þann þátt þess til upphaflegs horfs.

Ég hafði hugsað mér að sýna þá till. aftur við 3. umr. og jafnvel bæta þar við annarri, eins og ég gat um í ræðu minni í gær. En nú þegar hæstv. samgrh. hefur gefið þá yfirlýsingu, sem menn hafa heyrt, mun ég, í trausti þess að ráðh. beiti sér fyrir því að leiðrétting verði gerð á frv. í Ed., ekki flytja brtt. að þessu sinni, tel það vænlegra heldur en fara að efna til umr. um það á þessu stigi hér í deildinni.