16.05.1980
Sameinað þing: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2718 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á ræðu hæstv. utanrrh., þegar hann fylgir úr hlaði till. sinni til þál. um heimild fyrir ríkisstj. að staðfesta samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál. Það vekur auðvitað athygli að þessi till. til þál. um svo mikilvægan milliríkjasamning skuli vera flutt af utanrrh., en ekki af ríkisstj. í heild. Á borðum okkar þm. liggur í dag till. til þál. um fullgildingu á alþjóðasamþykkt varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála. Þar er öðru máli að gegna. Ríkisstj. stendur öll að flutningi þeirrar till. Það er eðlilegt að menn staðnæmist við þetta mikilvæga atriði sem er meira en formsatriði — í raun efnisatriði.

Hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa opinberlega látið það eftir sér hafa í fjölmiðlum, að skýringin á þessu sé sú, að einn stuðningsflokka ríkisstj., Alþb. og þm. Alþb., treysti sér ekki að fylgja þessu samkomulagi og þess vegna sé þessi háttur hafður á varðandi flutning þáltill. Nú segir það sig sjálft, ef slíkur þverbrestur er í stjórnarsamstarfinu að ríkisstj, getur ekki komið sér saman um svo mikilvægt mál sem samning við Norðmenn um Jan Mayen, fiskveiðiréttindi og landgrunnsréttindi, að það er vitnisburður um að slík ríkisstj. er ekki til stórræðanna fallin, er ekki fær um að stjórna landinu. Sú reynsla, sem fengist hefur af starfi þessarar ríkisstj. síðustu þrjá mánuðina, staðfestir og þessa skoðun. (Gripið fram í.) Vill þm. gera svo vel að tala á eftir mér og grípa ekki fram í og hafa þingsköp í heiðri. Ég vænti þess að forseti sjái til þess. (StJ: Ef hv. þm. treystir sér ekki til þess að þola almennar reglur og hefðir við umr. í þinginu ætti hann að taka sér hvíld.) Ef hv. þm. treystir sér ekki til að koma í ræðustól og skýra málstað sinn ætti viðkomandi þm. að ganga út úr þingsal.

Varðandi flutning þessarar þáltill. vildi ég vekja athygli á því og láta þá skoðun mína í ljós, að ríkisstj. er í nokkrum vanda. Ef þessi þáltill. er samþykkt felur hún í sér heimild fyrir ríkisstj. í heild að staðfesta samkomulag milli Íslands og Noregs. Nú hefur hæstv. forsrh. skýrt frá því, að það sé samkomulag milli stuðningsmanna ríkisstj. að afgreiðsla mála í ríkisstj. fari ekki fram með atkvgr. Af þessu leiðir að ráðh. Alþb. hafa neitunarvald varðandi nýtingu þeirrar heimildar sem hér er um að ræða ríkisstj. til handa. Ef ráðh. Alþb. notfæra sér þennan rétt og þetta neitunarvald er auðvitað spurningin hvað hæstv. utanrrh. gerir, hvort hann sættir sig við slíka meðferð á till. sinni eða aðrir ráðh. sem styðja þetta samkomulag. Vilja þeir halda slíku stjórnarsamstarfi áfram og láta kúga sig með þeim hætti? Það er þeirra að svara því þegar þar að kemur.

Við skulum taka hinn möguleikann, að ráðh. Alþb. lyppist niður og beiti ekki neitunarvaldinu, þrátt fyrir stóru orðin um hve hættulegt þetta samkomulag sé hagsmunum Íslands, og þá verði þessi heimild nýtt að fengnu samþykki Alþingis. Spurningin er þá: Sitja Alþb.-ráðh. áfram í ráðherrastólunum eftir sem áður og ómerkja gagnrýnisorð sín varðandi þessi samkomulagsdrög? Reynslan á eftir að sýna hvorn kostinn Alþb. velur, en það má geta nærri að ráðh. Alþb. meina ekkert það sem þeir segja þegar þeir gagnrýna þetta samkomulag. Þm. Alþb. munu væntanlega styðja ráðh. áfram í ráðherrastólunum og ómerkja þannig orð sín varðandi þennan samning. Það eru fordæmi fyrir því, að Alþb. ráðh. hafi farið þannig að, að þeir hafa talið einhverja bókun nægja í fundargerð ríkisstj. og setið sem fastast á hverju sem gengur. Menn muna lengingu flugbrautarinnar í Keflavík, svo dæmi sé nefnt. Menn muna í raun afstöðu þeirra til varnarsamningsins við Bandaríkin í þeim ríkisstj. sem Alþb. hefur stutt og setið í. Því er yfirhöfuð lítið hald í orðum þeirra Alþb.-manna og lítið að marka hvað þeir segja þegar möguleiki á valdastólum er annars vegar. Þeir meta meir ráðherrastólana en að fylgja eftir orðum þeim sem þeir telja tjá skoðanir sínar og hugsanir. Orðagjálfrið er eingöngu til að slá ryki í augu fylgismanna sem reyndar — spái ég — verða þreyttir á þessari tvöfeldni og tvískinnungi Alþb. manna.

Það er alveg nauðsynlegt að vekja athygli á þessari tvöfeldni Alþb.-manna. Það er alveg nauðsynlegt að vekja athygli á þessum veikleika ríkisstj., ekki síst vegna þess að það skýrir líka að meðferð þessa máls, bæði af hálfu núv. ríkisstj. og þeirra ríkisstj. sem hafa setið frá hausti 1978, er gagnrýnisverð.

Ég vil þegar í upphafi máls míns lýsa því yfir, að þingflokkur sjálfstæðismanna mun standa að samþykkt þessarar þáltill. Þótt þm. Sjálfstfl. séu engan veginn alls kostar ánægðir með þessi samkomulagsdrög er það lokaályktun þeirra að þó sé betra að staðfesta þennan samning en hafa engan samning.

Eins og kunnugt er fluttu þm. Sjálfstfl. þrjár þáltill í upphafi þings 1978. Það voru 1., 2. og 3. mál þess þings. Það var í fyrsta lagi till. til þál. um rannsókn landgrunns Íslands, sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að ráða nú þegar íslenska og erlenda sérfræðinga til að afla sem ítarlegastra upplýsinga um landgrunn Íslands og afstöðu til landgrunns nálægra ríkja.“

Það var í öðru lagi till. til þál. um samninga við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi, svo hljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að taka nú þegar upp samninga við Norðmenn um fiskveiðiréttindi og hagnýtingu auðæfa landgrunnsins utan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands í Norðurhöfum, umhverfis Jan Mayen.“

Og í þriðja lagi var það till. til þál. um landgrunnsmörk Íslands til suðurs, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að mótmæla nú þegar öllum tilraunum Breta til að reyna að slá eignarhaldi á klettinn Rokk (Rockall).

Alþingi lýsir því jafnframt yfir, að ákvörðun ytri landgrunnsmarka Íslands til suðurs miðast við, að engri þjóð beri tilkall til Rokksins.“

Fyrsta till. var afgreidd sem ályktun Alþingis 22. des. 1979, annarri till. var vísað til ríkisstj. sama dag með meðmælum frsm. utanrmn. og þriðju till. var vísað til ríkisstj. nokkuð breyttri þennan sama dag einnig. Hins vegar er það gagnrýnisvert, að ríkisstj. þær, sem setið hafa síðan þessar þáltill. hlutu afgreiðslu Alþ., hafa ekki unnið að efnislegri meðferð þessara mála sem skyldi. Það kom t. d. fram í ræðu hæstv. utanrrh. áðan, að sendinefnd Íslands, viðræðunefndin sem fjallaði um samningana í Osló á dögunum, hefði verið vanbúin til að gera tillögur um afmörkun landgrunnsréttinda Íslendinga og Norðmanna á Jan Mayen svæðinu. Ég tel að ástæðan til þess hafi m. a. verið sú, að fyrsta till. okkar sjálfstæðismanna til þál., um rannsókn landgrunns Íslands, sem samþ. var sem ályktun Alþingis 22. des. 1979, hefur ekki verið framkvæmd sem skyldi. Ég vænti þess, að hæstv, ríkisstj. láti hendur standa fram úr ermum og hraði þessari rannsókn sem Alþ. hefur kveðið á um að fram skyldi fara.

Veturinn 1978–1979 komu þessi mál oft til umr. hér á þingi og vænti ég að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem var 1. flm. þeirra þáltill. sem ég hef hér getið um, mundi rekja þau mál nánar, þannig að ég mun ekki gera þau frekar að umtalsefni. En það var í raun og veru ekki fyrr en sumarið 1979 sem menn tóku við sér og fóru alvarlega að hugsa um þessi mál og gera eitthvað í þeim. Í raun og veru var frumkvæði Eyjólfs Konráðs og Matthíasar Bjarnasonar í upphafi þings 1978 talið vera að vissu leyti þýðingarlítill tillöguflutningur og menn úr öðrum flokkum tóku hann ekki alvarlegar en svo, að sumir höfðu þennan tillöguflutning í flimtingum þótt um væri að ræða mikilvæg hagsmunamál, eins og komið hefur á daginn. Það var sem sagt í raun og veru ekki fyrr en s. l. sumar, þegar loksins tókst að fá fram samningaviðræður við Norðmenn um Jan Mayen málið, að menn fóru að gera sér ljóst að hér var um alvarlegt mál að ræða sem sjálfstæðismenn áttu frumkvæði að að flytja inn í þingsalina. Og þá er það sem hv. þm. Matthías Bjarnason, fulltrúi okkar í landhelgisnefnd, lagði fram ákveðna punkta varðandi samningaviðræður við Norðmenn, drög sem fara skyldi eftir í þeim samningaviðræðum. Höfuðatriði þeirra punkta, sem Matthías Bjarnason lagði fram á fundi landhelgisnefndar 23. júlí 1979, voru fyrst og fremst að leitað yrði eftir við Norðmenn að Norðmenn og Íslendingar stæðu sameiginlega að útfærslu annaðhvort efnahagslögsögu við Jan Mayen eða fiskveiðilögsögu. Ef það næðist ekki fram fólst það í till. Matthíasar Bjarnasonar að Norðmenn færðu einir út efnahagslögsögu eða fiskveiðilögsögu við Jan Mayen, enda væru réttindi Íslendinga í fyrra tilvikinu, ef um útfærslu efnahagslögsögu væri að ræða, tryggð bæði hvað snertir landgrunnsréttindi og fiskveiðiréttindi og í seinna tilvikinu, ef eingöngu væri um útfærslu fiskveiðilögsögu að ræða, jafn réttur Íslendinga til fiskveiða.

Það hefur verið sagt að sjálfstæðismenn gætu ómögulega samþykkt þessi samkomulagsdrög vegna þess að þessum skilmálum væri ekki fullnægt. Ég tel að vísu að það vanti töluvert á að jafn réttur Íslendinga sé tryggður samkv. þessum samkomulagsdrögum, en tel þó engri loku fyrir það skotið að með áframhaldandi samningaviðræðum og viðleitni okkar Íslendinga til að ná árangri megi komast mjög nálægt því marki. Nú er gert ráð fyrir að um útfærslu fiskveiðilögsögu verði að ræða að svo stöddu af Norðmanna hálfu. Samkv. samkomulagsdrögunum er það svo, að jafn réttur okkar er tryggður hvað loðnuveiði snertir og það er á okkar valdi að ákveða hámarksafla loðnu. Ég er sammála hæstv. utanrrh. um að það er heldur ósennilegt að Norðmenn geti nokkru sinni borið fyrir sig, að um bersýnilega ósanngjarna ákvörðun Íslendinga verði að ræða hvað heildarafla loðnu snertir, þegar af þeirri ástæðu að við Íslendingar erum ekki kunnir að því að ákveða heildaraflamagn í lægra lagi og síst af öllu lægra en fiskifræðingar mæla með og almennt viljum við ekki vera ósanngjarnir. Að þessu leyti tel ég því þennan fyrirvara Norðmanna ekki hættulegan okkur Íslendingum, þótt ég á hinn bóginn taki fram að ég tel 15% aflahlutdeild Norðmanna í það hæsta sem viðunandi sé.

Þetta ákvæði vil ég líka túlka sem nokkurt fordæmi þegar út í þá sálma verður farið að ræða við Dani, Grænlendinga eða Efnahagsbandalagið varðandi loðnuveiðar á miðunum við Grænland, að í því felist það fordæmi að Íslendingar, sem mestra hagsmuna hafa að gæta varðandi nýtingu loðnustofnsins, hafi eðli málsins samkv. rétt til að ákveða hámarksafla loðnu. En sannleikurinn er sá, að oftar mun loðnan veiðast Grænlands megin, hvort heldur um er að ræða miðlínu á milli Grænlands og Jan Mayen eða miðlínu milli Íslands og Grænlands, en jafnvel á Jan Mayen svæðinu sjálfu.

Varðandi aðra fiskstofna en loðnu er því miður ekki í samkomulaginu tryggt að við höfum jafnan rétt á við Norðmenn, en þó er heldur ekkert sagt sem kemur í veg fyrir að svo geti farið og því marki verði náð í áframhaldandi samkomulagsviðræðum við Norðmenn og samskiptum sem þessi samningur kveður nánar á um. Varðandi aðra fiskstofna en loðnu er líka tillit til þess að taka, að þar eiga væntanlega fleiri þjóðir en Norðmenn og við um málið að fjalla og því e. t. v. erfiðara að ákveða skýr aflamörk eða hlutföll hvað þá fiskstofna snertir. En ég ítreka: ég skil samninginn svo, að hér sé ekki loku skotið fyrir að við Íslendingar höldum fast við þann skilning okkar að við eigum jafnan rétt á við Norðmenn varðandi nýtingu þeirra fiskstofna sem veiddir eru á Jan Mayen svæðinu.

Þar sem ekki er um það að ræða á þessu stigi málsins að færa efnahagslögsöguna út má segja að landgrunnsmálin séu ekki eins brýn og ella hefði verið. En ljóst er þó að Norðmenn hyggjast færa efnahagslögsöguna út í kjölfar útfærslu fiskveiðilögsögu, og þótt þeir hafi skuldbundið sig til að fresta því fram yfir næstu áramót a. m. k. er nauðsynlegt að hyggja að landgrunnsréttinum. Ákvæði þar um er í því samkomulagi sem við erum að ræða. Það fer auðvitað eftir niðurstöðu þeirrar nefndar og frekari umfjöllun málsins hvaða árangri við Íslendingar náum á þessu sviði, en ég sé ekki heldur að hvað þennan þátt málsins snertir sé neitt sem komi í veg fyrir eða hindri að við getum haldið fast á þeirri skoðun okkar og stefnu að landgrunnsréttindin séu a. m. k. að hálfu leyti okkar miðað við Norðmenn á þessu svæði.

Ég gat um að fáir hefðu gert sér ljósa grein fyrir mikilvægi Jan Mayen málsins þar til á s. l. sumri, og það er ástæðan til þess að stjórnvöld hafa því miður minna sinnt þessum málum en skyldi. En þegar Matthías Bjarnason lét bóka þau drög, sem ég hef lítillega gert hér að umræðuefni og leggja skyldi til grundvallar í viðræðunum við Norðmenn, tók fulltrúi Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, nokkurt viðbragð og skrifaði tillögur Matthíasar Bjarnasonar upp að nýju. Sumir sögðu að hann hefði notað nokkurs konar kalkipappír. Var ekkert nema gott um það að segja að hann notaði ráð sér reyndari manna og lærði af þeim, og ágætt var fyrir Matthías Bjarnason og aðra, sem hugsuðu um þessi mál, að fá liðsmann til framfylgdar þeim tillögum sem Matthías hafði borið fram í landhelgisnefndinni. En þá skeði það, að hæstv. þáv. forsrh., núv. hæstv. utanrrh., fannst eitthvað að sér þrengt, og það var ekki alveg laust við að hann færi í yfirboð við þá Matthías Bjarnason og Ólaf Ragnar Grímsson og taldi nú alls ekki viðunandi að taka í mál að sætta sig aðeins við svo sem helming af landgrunnsréttindum á Jan Mayen svæðinu, heldur ættum við Íslendingar langtum frekari rétt. Svipuð ummæli hef ég heyrt frá hæstv. núv. forsrh.

Gott er til þess að hugsa að þessir hæstv. ráðh. eru svo bjartsýnir á niðurstöðu varðandi framkvæmd samkomulagsdraganna um skiptingu landgrunnsréttinda, ella væru þeir sjálfsagt ekki meðmælendur þessara samkomulagsdraga, að þeir telja líklegt að við fáum mun meiri rétt á landgrunninu en Norðmenn. A. m. k. álykta ég svo af fyrri ummælum þessara hæstv. ráðh. og vona einlæglega að skoðanir þeirra megi í reynd verða að veruleika.

En í öllu þessu máli hygg ég að við Íslendingar hljótum að gera okkur grein fyrir því, að við verðum í fyrsta lagi að gera upp við okkur, hvort Jan Mayen hefur sjálfstæð réttindi til útfærslu fiskveiðilögsögu og/eða efnahagslögsögu, og í öðru lagi, hver er handhafi þess réttar ef hann er fyrir hendi. Við Íslendingar höfum haldið því fram og vísað til framsýnna ummæla og fyrirvara Jóns heitins Þorlákssonar forsrh. á sínum tíma, og reyndar Jóns heitins Magnússonar forsrh. einnig, að Íslendingar áskildu sér sama rétt til nýtingar Jan Mayen og hver önnur þjóð. Á þeim grundvelli byggjum við ekki síst kröfu okkar og samningsstöðu í viðræðunum við Norðmenn að við eigum jafnan rétt til nýtingar fiskveiðiréttinda og landgrunnsréttinda. En hins vegar hef ég ekki heyrt þá kröfu borna fram í þessum sölum að við Íslendingar ættum að lýsa Jan Mayen sem eign okkar eða að því marki draga í efa eignarhald Norðmanna á eyjunni. Og spurningin er einmitt hvort staða okkar Íslendinga er ekki sterkust með því að viðurkenna eignarhald Norðmanna á Jan Mayen og rétt þess, er hefur yfirráð yfir eyjunni, til að færa út fiskveiðilögsögu og efnahagslögsögu að því tilskildu að við slíka útfærslu gæti Norðmenn þess að taka sanngjarnt tillit til þeirra réttinda sem við Íslendingar höfum á þessum slóðum.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að það hafi verið misskilningur, svo ekki sé sterkara að orði kveðið, hjá Norðmönnum og andstætt þeirra eigin hagsmunum að samþykkja ekki þá aðaltillögu sem við sjálfstæðismenn gerðum, nefnilega að Norðmenn og Íslendingar færðu út efnahagslögsöguna við Jan Mayen sameiginlega. En það var þegar ljóst eftir samningafundina í fyrra að um það var ekki að ræða, og þá vorum við sjálfstæðismenn á því að taka upp aðra þá valkosti sem getið var um í tillögum Matthíasar Bjarnasonar í landhelgisnefnd.

Ég ítreka, að ég tel að þessi samningsdrög séu ekki fullnægjandi vegna þess að þau tryggja ekki þau réttindi sem við Íslendingar teljum okkur hafa í þessum efnum á Jan Mayen svæðinu, en hins vegar skjóta samningsdrögin ekki loku fyrir að við getum með áframhaldandi viðræðum, með því að vinna áfram að framgangi réttinda okkar, náð viðunandi marki að þessu leyti.

Það er svo alvarlegur þáttur í þessum málum öllum, þær fregnir sem borist hafa um útfærslu Dana norðan 67. breiddarbaugs og ekki síst annars vegar þær fyrirætlanir að virða að engu sem grunnlínupunkt varðandi efnahagslögsögu okkar Íslendinga Kolbeinsey og hins vegar að ætla sér fullá 200 mílna útfærslu í átt til Jan Mayen. Ég hef þegar getið um að í þessu geti falist að Danir séu að slá eign Grænlendinga eða auka réttindi Efnahagsbandalagsins yfir mikilvægum loðnumiðum með þessum hætti. Okkur ber að bregðast við af fullri einurð og ákveðni og andmæla þessum fyrirætlunum Dana. Ég tel að við hljótum að snúast á sveif með Norðmönnum og mótmæla annarri skiptingu milli Jan Mayen og Grænlands en miðlínuskiptingunni. Hvað snertir vefengingu Kolbeinseyjar sem grunnlínupunkts hljótum við að vitna til þess, að mér vitanlega hafa ekki komið fram mótmæli gegn Kolbeinsey sem grunnlínupunkti af Dana hálfu sem ég tel þess eðlis að gild séu. En þar að auki er e. t. v. ástæða til að beita sanngirnisreglunni, þegar um skiptingu hafsvæða milli tveggja landa er að ræða þar sem minni fjarlægð er á milli en 400 mílur, frekar en miðlínunni. Það er ljóst að á austurströnd Grænlands er lítil sem engin byggð, gagnstætt því sem er hér á Íslandi, og hagsmunir þessara þjóða því ólíkir hvað snertir hagnýtingu hafsvæðisins á milli Grænlands og Íslands, að ég tali nú ekki um ef ekki á að nýta þessa auknu fiskveiðilögsögu Grænlendinga í þágu Grænlendinga sjálfra, heldur annarra þjóða sem fjær búa og fleiri kosta eiga völ.

Ég tel nauðsynlegt að taka þessi mál mjög ákveðið til meðferðar, og bar það raunar á góma á fundi sem haldinn var í utanrmn. á þriðjudagsmorgun er var.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða frekar að sinni um till. þá til þál. sem hér er til umr., enda mun það verða gert af öðrum af hálfu þingflokks sjálfstæðismanna, auk þess sem við munum í utanrmn. og í seinni umr. um till. fjalla, eftir því sem ástæða er til, um það sem máli skiptir og fram kemur í þessum umr.