16.05.1980
Sameinað þing: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að inn í umr. um samkomulag við Norðmenn hafi dregist öll forsaga málsins og skal ég síst ásaka þá Alþb. menn fyrir að rifja aðdragandann upp og meta niðurstöður með hliðsjón af þeirri forustu sem Sjálfstfl. hefur haft í þessu máli. Ég skal fúslega taka þátt í þeirri umr., bæði vegna þess að almenningur á heimtingu á að fá að vita, hvernig á málum hefur verið haldið, og ekki síður af hinu, að mat það, sem við nú leggjum á samningsdrögin, hlýtur að verða að byggjast á því, hvort við teljum að hagsmuna okkar verði betur gætt með því að hafna þeim en samþ. þau. Það mat verður m. a. að byggjast á þeim grunni sem lagður hefur verið við meðferð málsins frá upphafi.

Upphaf málsins er það, eins og alþjóð veit, að á fyrsta degi þingsins, hinn 10. okt. 1978, fluttu nokkrir sjálfstæðisþingmenn þrjár þáltill. um hafréttarmálið. Var hin fyrsta um samninga við Norðmenn um réttindi á Jan Mayen svæðinu utan okkar 200 mílna, önnur um rannsókn landgrunns Íslands og hin þriðja um landgrunnsmörk Íslands til suðurs og samvinnu við Færeyinga til að gæta sameiginlegra réttinda landanna. Ekki minnist ég þess að neinn hafi þá hreyft því opinberlega að við þyrftum að hefja baráttu til að tryggja þau réttindi sem þarna var um að ræða. Má því kannske segja að skiljanlegt hafi verið að till. þessar kæmu ýmsum spánskt fyrir sjónir og jafnvel að þær væru hafðar í flimtingum, eins og raunin varð á. Hitt er aftur á móti óskiljanlegt og ófyrirgefanlegt, að það skyldi taka stjórnvöld landsins heilan meðgöngutíma að byrja að skilja hvað hér var í húfi. Og það verður mönnum áreiðanlega enn þá óskiljanlegra þegar fram í dagsljósið verða dregin þau átök sem áttu sér stað bak við tjöldin til að knýja ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, núv. hæstv. utanrrh., til einhverra aðgerða í málinu.

Mun ég nú drepa á örfáa þætti þeirra átaka sem þarna áttu sér stað, en það bíður þó seinni tímans að skrifa þá ljótu sögu sinnuleysis, skilningsleysis og vesaldóms sem einkenndi afskipti eða öllu heldur afskiptaleysi þessarar vinstri stjórar af íslenskum hagsmunamálum á sviði hafréttarmála.

Eins og kunnugt er gildir sú regla um umr. í utanrmn., að mönnum er heimilt að greina frá því sem þeir þar hafa sagt, en hins vegar ekki frá sjónarmiðum annarra. Við sjálfstæðismenn ákváðum í þingflokksfundi í gær að greina í nokkrum dráttum, frá nokkrum af þeim sjónarmiðum sem við höfum sett fram í utanríkismálunum, og þar sem það kom oftast í minn hlut að flytja þar sjónarmið flokksins var mér falið að lesa ýmislegt það upp sem ég þar hef sagt, og það mun ég gera eftir því sem bókað hefur verið af orðum mínum á níu mánaða meðgöngutíma málsins, þ. e. frá því í októberbyrjun 1978 og til júníloka 1979. Fulltrúar annarra flokka hafa að sjálfsögðu rétt til að greina frá sínum sjónarmiðum, því sem þeir þar sögðu eða sögðu ekki, og mundi ég raunar skora á þá að gera það ef ég óttaðist ekki að það kynni að skaða hinn íslenska málstað. En raunar ætti menn að renna grun í það, hvernig þessar umræður fóru tíðum fram, af því einu sem eftir mér var bókað. Rétt er þó að geta þess, að það eru einstaklega kurteisir menn úr utanrrn. sem skrifa fundargerðirnar, og skal ég játa að hið diplómatíska orðalag var ekki alltaf nákvæmlega þau orð sem féllu, því að tíðum var mér heitt í hamsi og lái mér það hver sem vill. En nú fá menn sem sagt að heyra nokkrar þessara bókana í utanrrn.

Vík ég þá fyrst að 507. fundi nefndarinnar, sem haldinn var 30. okt. 1978. Þar stendur bókað:

„Eyjólfur Konráð Jónsson sagði að till. varðandi Jan Mayen væri mjög mikilvæg og tímans vegna yrði að taka afstöðu til hennar strax. Óskaði hann að eftirfarandi væri bókað:

Áríðandi er að ríkisstj. óski þegar í stað eftir samningsviðræðum við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi á Jan Mayen svæðinu. Legði hann til að helst enginn dagur liði áður en ósk um formlegar viðræður við Norðmenn yrði fram borin. Væri það honum þá ekkert kappsmál að þáltill. um þetta mál væri samþykkt. Hins vegar væri mikilvægt að Alþingi samþ. ályktun um ytri landgrunnsmörk Íslands í suðri, þar sem miðað væri við að Rokkurinn tilheyrði engri þjóð.“

Síðar í þessari sömu fundargerð — miklu síðar, þetta er löng fundargerð, — er bókað:

„Eyjólfur K. Jónsson sagðist vilja snúa aftur að þáltill. varðandi Jan Mayen og vildi hann spyrja hvort það væri ekki styrkur fyrir utanrrh. gagnvart Norðmönnum ef nefndin sendi nú ráðh. samhljóða áskorun um formlegar samningaviðræður.“

Og enn síðar:

„Eyjólfur K. Jónsson sagði að það væri rétt að ríki ættu að leysa sjálf deilur sínar og notast við sanngirnissjónarmið og væri Jan Mayen og svæðið kringum Jan Mayen glöggt dæmi um það að Norðmenn og Íslendingar ættu að semja. Hann sagðist álíta að deila Rússa og Norðmanna væri ekki sambærileg við kröfu okkar um samninga á Jan Mayen svæðinu. Hann sagði að að sínu áliti væri ekki lengur nokkur vafi á því, að strandríki hefðu rétt á svæðinu utan 200 mílna.

Eyjólfur K. Jónsson bætti við í lokin, að þar til fyrir lægju yfirlýsingar frá utanrrh., að hann gæti tryggt að Norðmenn færðu ekki út í 200 mílur við Jan Mayen, yrði hann að krefjast þess að fjallað yrði hér um þáltill.“ Og enn síðar í þessari sömu fundargerð:

„Eyjólfur K. Jónsson sagðist vilja endurtaka að nauðsynlegt væri að semja um öll réttindi á Jan Mayen svæðinu.“

Menn getur rennt grun í hvað hafi verið rætt þarna inn á milli. (Gripið fram í.) A. m. k. hv. þm. Stefán Jónsson rennir grun í það.

Þá er það mánudagur 20. nóv. Og þá stendur bókað: „Eyjólfur K. Jónsson sagði í sambandi við till. þrjár, að Norðmenn gætu upp á eindæmi sitt fært út í 200 mílur við Jan Mayen.“ Þetta er bókað svona, en áframhaldið er á þessa leið: „Jan Mayen væri á landgrunni Íslands og Norðmenn gætu ekki krafist fullra réttinda við eyjuna. Nágrannaþjóðir ættu að semja á sanngirnisgrundvelli.

Um Rokkinn sagði hann að það væri ekki síður mál Íslendinga en Færeyinga, Íra og Breta. Að mati Guðmundar Pálmasonar væri svæðið ekki „natural prolongation“ Skotlands og Írlands, heldur rekið frá Grænlandi. Við yrðum að gæta hagsmuna okkar í þessu máli.“ Og síðar í sömu fundargerð:

„Eyjólfur Konráð Jónsson ítrekaði nauðsyn þess að ræða þessi mál sem fyrst og sem ítarlegast.“

Og enn í sömu fundargerð:

„Eyjólfur Konráð Jónsson sagðist vilja láta eitthvað gerast í málinu, þar sem það væri mikilvægt að Norðmenn gætu ákveðið að krefjast 200 mílnanna við Jan Mayen hvenær sem er.“

Og enn síðar:

„Eyjólfur Konráð Jónsson kvaðst vilja leggja áherslu á það, að nauðsynlegt væri að samkomulag yrði í nefndinni um afgreiðslu þeirra.“

Og loks:

„Eyjólfur Konráð Jónsson sagði að það væri ekkert höfuðatriði hvernig þessar till. yrðu afgreiddar, svo fremi að eitthvað verði gert sem allra fyrst til að hefja samninga við Norðmenn þannig að þeir flytji ekki út í 200 mílur nú strax.“

Þá er komið að fundargerð frá 7. maí og skal ég ekki vera að þreyta menn miklu meir með lestrinum. Mér láðist víst að biðja forseta leyfis, en ég skal stytta þennan lestur. — 7. maí 1979, um það leyti sem þingi var þá að ljúka, stendur bókað:

„Eyjólfur Konráð Jónsson sagði að hann hefði nú heyrt hin alvarlegustu tíðindi, sem væru að Norðmenn ætli að taka sér lögsögu við Jan Mayen, þeir ætli að gerast svo djarfir að seilast inn á íslensk landsréttindi algerlega ólöglega. Hann sagðist gera það að tillögu sinni að utanrmn. sendi ályktun þess efnis að slík framkoma þýði fullkominn fjandskap í garð Íslendinga. Hann bætti við að hann teldi það algerlega óafsakanlegt að láta Norðmenn sölsa undir sig íslenskt svæði.“

Og síðar í þessari sömu fundargerð:

„Eyjólfur K. Jónsson sagðist leggja til að Norðmönnum yrði sýndur alger samhugur Íslendinga í þessu máli. Hann sagði að Alþ. ætti að gera ályktun, þar sem stæði að það teldi fullkominn fjandskap við Íslendinga ef Norðmenn tækju sér lögsögu við Jan Mayen þar sem þeir hefðu engan rétt, hvorki á hafsvæði né hafsbotni. Hann sagði að Alþingi og nefndin ættu að leggja niður öll önnur störf og leggja nótt við dag til að ná fram fullkominni samstöðu í þessu máli og undirbúa ferð ráðh. á fund Norðmanna. Honum yrði að fá í hendur öll þau vopn er við hefðum yfir að ráða. Alþingi, utanrmn. og formenn allra stjórnmálaflokkanna ættu þegar í stað að koma saman til þess að undirbúa viðræðurnar við Norðmenn.“

Þetta mun hafa verið á mánudegi 7. maí, en þáv. utanrrh. átti að hitta Frydenlund fimmtudaginn í þeirri sömu viku.

Menn minnast kannske hvaða framhald varð af þessu máli, að ekkert heyrðist frá utanrmn., en þingflokkarnir tóku þá til sinna ráða og gerðu þennan sama dag eða daginn eftir samþykktir í málinu. — En síðar í þessari sömu fundargerð er bókað:

„Eyjólfur K. Jónsson sagðist enn einu sinni vilja taka það fram, að Norðmenn hefðu engan rétt til að taka sér lögsögu. Þeir hefðu engan lagalegan rétt í þessu máli.“

Eins og ég sagði skal ég ekki víkja að fleiri fundargerðum, þótt þær séu fleiri til sem síðar verður áreiðanlega talið fróðlegt að skoða.

Á því tímabili, sem hér um ræðir, þ. e. meðgöngutímanum sem ég svo nefni, urðu tvívegis harkaleg átök um málið hér í þingsölunum. Í fyrra skiptið var það hinn 21. des. 1978, á tímabilinu frá kl. 10–12, en spurðist þó ekki — ekki mikið — út fyrir þingsali. Þannig var mál með vexti, að daginn áður hafði náðst um það samkomulag — eða a. m. k. taldi ég svo vera — að á utanríkismálanefndarfundi morguninn eftir yrðu till. þær, sem ég ræddi um í upphafi máls míns, afgreiddar og síðan mundi Alþ. afgreiða þær á síðasta degi fyrir jólafrí eða hinn 22. des. Þetta samkomulag var svikið og þegar þingfundir hófust kl. 10 tilkynnti ég forsrh. að ég og fleiri þm. mundum halda uppi málþófi í öllum málum og hindra m. a. afgreiðslu fjárlaga ef slíkum vinnubrögðum yrði haldið áfram, — en ég skal geta þess, að löngu áður hafði verið lofað að þessar till. yrðu afgreiddar fyrir jól. Um ellefuleytið tilkynnti þáv. forsrh. mér, núv. hæstv. utanrrh., að hann teldi að utanrmn. ætti að afgreiða málin, og skömmu fyrir hádegið var gert samkomulag við þáv. utanrrh., hv. þm. Benedikt Gröndal, og þáv. formann utanrmn., Einar Ágústsson, um afgreiðslu málsins. Þannig tókst að forðast stórhneyksli.

Næst urðu harðar umr. um þessi mál utan dagskrár í Ed. Alþingis S. febr. 1979 í tilefni af ummælum þáv. utanrrh. í norska sjónvarpinu, sem menn minnast, og daginn eftir, 6. febr., í Sþ. En einmitt í þeim umr. vekur hv. þm. Stefán Jónsson að gefnu tilefni máls á atburðinum 21. des. 1978 og segir þá orðrétt, með leyfi forseta:

„Fallist var á það af hálfu 1. flm. að vísa þessum till. til ríkisstj. Það var sátt af hans hálfu. Það var komið að lokadegi í afgreiðslu fjárlaga. Hann hótaði því þá, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, og hafði raunar stuðning þm. úr fleiri flokkum á bak við þá hótun, að ef þessar þáltill. þeirra sjálfstæðismanna hlytu ekki afgreiðslu fyrir jól, vegna þess hversu brýnt væri að afgreiða þær, þá skyldi verða haldið uppi þess háttar umr. um einstaka liði fjárlaga að fjárlagaafgreiðslan drægist fram yfir jól af þeim sökum. Reyndar var þá viðbúið að fjárlagaafgreiðslan drægist fram yfir jól af öðrum sökum. En forustumenn stjórnarflokkanna sömdu um það við 1. flm. þessara þáltill., að þær yrðu afgr. með þessum hætti. Það var það sem kallast á enska tungu „gentlemen's agreement“, sem var á vitorði ég vil segja allra þm. og hann féllst á í því trausti að með till. yrði farið eins og þær hefðu hlotið þinglega meðferð. Þetta vissi hver maður sem var hér í þingsölunum þá.“

Þessar umr. í Sþ. voru um fiskveiðiheimildir Færeyinga, en inn í þær blönduðust landhelgismálin öll og tóku margir til máls. Skylt er að geta þess, að auk hv. þm. Stefáns Jónssonar tóku bæði þm. Jónas Árnason og Gils Guðmundsson fremur jákvæða afstöðu í þessu máli. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafði í alllangri ræðu sinni aðeins þetta um málið að segja, — hann eyddi sínum ræðutíma í annað og ómerkilegra að mínum dómi, — en hann sagði orðrétt, með leyfi forseta, aðeins þetta: „Mér finnst, án þess að ég ætli að lengja hér umr. um hið svokallaða Jan Mayen mál, að þar séu aftur á ferðinni hin lausu tök, þar hefði ég kosið að fá skýrar og afdráttarlausar fram afstöðu ríkisstj. Íslands, eins og óskað var eftir í Ed. í gær, en komið hefur fram í umr. hér í dag. Ég vil hins vegar taka undir með hv. þm. Stefáni Jónssyni, að þar til annað kemur fram er ég reiðubúinn að túlka þau ummæli, sem hér voru höfð, á þann veg að þetta liggi ljóst fyrir. En formsins vegna og í milliríkjaviðskiptum er formið oft það sem máli skiptir, formsins vegna þyrfti það að liggja miklu skýrar fyrir.“

Hv. þm., sem sæti átti í Ed., tók þar ekki til máls daginn áður. Er því alveg ljóst að þegar hér var komið, í byrjun febr. 1979, hafði enginn áhugi vaknað hjá honum á þessu máli. Hitt vil ég strax taka alveg skýrt fram, að hann var fyrsti maðurinn úr herbúðum stjórnarliða á þessum tíma sem mér fannst skilja hvað í húfi væri, að hv. þm. Stefáni Jónssyni einum undanskildum, en það gerðist hins vegar ekki fyrr en í lok júnímánaðar.

Þannig vildi til að við tveir — við hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson — vorum þá valdir af flokkum okkar til að taka þátt í viðræðum við Norðmenn í ráðherrabústaðnum nær fyrirvaralaust. Daginn áður en Norðmenn komu ræddum við hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson saman í síma um málið, og ég hygg að það hafi ekki tekið lengri tíma en 20 mínútur eða svo að gera honum grein fyrir helstu atriðum málsins. — Og segi menn mig bara monta ef ég orða þetta svona, en það var á þennan veg. — Síðan hefur samstarfið við hann í einu og öllu verið hið ánægjulegasta og er skylt að þakka honum það, þótt svo hafi æxlast að hann telji — gagnstætt mínum skoðunum — að hafna beri samkomulaginu við Norðmenn nú.

Ekki þarf að taka það fram, að í umr. þeim, sem áður var getið um, heyrðist engin rödd frá Alþfl.-manni til stuðnings hinum íslenska málstað og því síður frá Framsfl., enda minnist ég þess ekki að neinn þm. þessara flokka hafi á meðgöngutímanum opinberlega lagt málinu lið. Ég minnist þess ekki, og það verður þá dregið fram í dagsljósið ef svo hefur verið. Einu afskiptin, sem mér er kunnugt um að þáv. forsrh., hæstv. núv. utanrrh., hafi af málinu haft, eru þau sem ég gat um fyrr, hinn 21. des. 1979, og er ég honum raunar ævinlega þakklátur fyrir hlutdeild hans í því samkomulagi sem þá var gert, þótt það virðist fremur hafa verið sprottið af því að halda saman ríkisstj. en af áhuga á málinu. — Í sambandi við umr. 5. og 6. febr. upplýstist raunar líka að ríkisstj. hafði aldrei rætt málið á tæplega hálfs árs starfsferli.

Ljóst er að mikið vandaverk var að marka stefnu Íslendinga í Jan Mayen málinu og hefði sannarlega ekki veitt af samstöðu stjórnmálaflokkanna til að ná þar árangri. Upplýsingar voru líka af skornum skammti. T. d. hefði ekki verið ónýtt að hafa bréf Jóns Þorlákssonar í höndum 10 mánuðum áður en raun varð á, en það merka skjal hefði e. t. v. valdið því að fastar hefði verið staðið í ístaðinu og málatilbúnaður að einhverju leyti kannske orðið annar og heppilegri.

Næst gerist það á þingi að Matthías Bjarnason, fulltrúi Sjálfstfl. í landhelgisnefnd, gerði grein fyrir helstu röksemdum Íslendinga í ræðu 7. maí. Var þá fyrir skömmu lokið fundi Hafréttarráðstefnunnar í Genf og ég hafði í samráði við hann afhent þáv. utanrrh., Benedikt Gröndal, grg. um Jan Mayen málið strax daginn eftir að ég kom heim og boðið öðrum fulltrúum stjórnmálaflokkanna að undirrita það skjal. Finnur Torfi Stefánsson neitaði að undirrita það, og úr hömlu dróst að þeir Lúðvík Jósepsson og Þórarinn Þórarinsson skrifuðu undir skjalið, hvað sem kann að hafa valdið.

Mun ég nú lesa þetta skjal upp og geta þá allir menn séð, sem sjá vilja, að stefna Sjálfstfl. í málinu hefur verið samfelld allt frá því að till. var flutt um að hefja samninga við Norðmenn, haustið 1978, og til þessa dags. Skjal þetta hefur ekki áður verið opinberlega til umræðu hér í þinginu og rétt að ég fái leyfi forseta til að lesa það upp svo að þm. kynnist því og það verði í Alþingistíðindum sem grundvallarskjal í þeirri stefnumörkun sem varð síðan stefna Íslendinga allra og þar sem taldar eru upp, að ég hygg, allar röksemdir sem við höfum síðan notað, að einni undanskilinni vegna þess að mér var um hana ókunnugt, þ. e. hið merka bréf Jóns Þorlákssonar. En skjal þetta heitir: „Punktar til utanrrh.“ Það var sem sagt afhent 30. apríl 1979:

„Fulltrúar stjórnmálaflokkanna á Hafréttarráðstefnunni ræddu Jan Mayen málið mikið í sínum hóp og vilja beina eftirfarandi til utanrrh., ef það gæti orðið honum að einhverju liði í viðræðum við Norðmenn.“ — Ég skrifa þetta í fleirtölu eins og menn heyra, þar sem ég reiknaði með að þetta yrði sameiginlegt álit fjögurra fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem mikið höfðu rætt þetta mál í sinum hópi í Genf.

„Allt er enn óráðið um réttindi eyja eins og Jan Mayen, þó að ákvæði 121. gr. uppkastsins að hafréttarsáttmála sé Norðmönnum vissulega styrkur í þeirri baráttu sem þeir heyja. Yfirlýsing Norðmanna um að þeir hyggist taka sér 200 mílna efnahagslögsögu er þess eðlis, að við verðum að standa vel á verði og tína saman öll þau rök sem styrkt geta hinn íslenska málstað. Við ýmsu hafa þeir auðvitað gagnrök, en samt er rétt að benda á eftirfarandi:

1) Jan Mayen er á okkar landgrunni.

2) Svæðið heitir á öllum jarðfræðikortum í íslenska hásléttan, „Icelandic plateau“, og dýpi yfirleitt 1–2 þús. m þar sem það er ekki enn þá minna.

3) Úthafssjór er á milli Noregs og Jan Mayen u. þ. b. 3500 m á dýpt.

4) Jan Mayen var fyrst annexía Noregs 1921 og ekki innlimuð fyrr en 1930. Fram að þeim tíma var hún allt eins talin íslensk eins og norsk.

5) Íslendingar sóttu til Jan Mayen rekavið og töldu sér fullheimilt á undan Norðmönnum og hafa ætíð litið svo á að þeim væri heimil hagnýting þessa hafsvæðis.

6) Hafréttarreglur eiga að byggjast á sanngirnissjónarmiðum fyrst og fremst og óbyggð smáeyja, sem fyrir tilviljun var norsk, en ekki íslensk, getur ekki haft sambærilegan rétt við þjóðland.

7) Engar alþjóðareglur hafa myndast um óbyggðar smáeyjar á landgrunni annars ríkis. Fulltrúar Norðmanna hafa verið beðnir um að benda á dæmi um slíka eignatöku, en ekki getað fram til þessa.

8) Efnahagslögsaga Norðmanna við Jan Mayen mundi skerða hafsbotnsréttindi okkar, jafnvel þótt þeir viðurkenndu óskoraða 200 mílna efnahagslögsögu okkar, því að efnahagslögsagan tekur bæði til hafsins og hafsbotnsins.

9) Réttur til efnahagslögsögu einskorðast við þjóðlönd og hefur verið að myndast „de facto“ þar sem ríki hafa tekið sér hann. Engin slík lög hafa myndast um óbyggðar smáeyjar á landgrunni annarrar. Sjálft orðið „efnahagslögsaga“ sýnir að tilvist þessarar nýju þjóðréttarreglu byggist á því að tryggja þurfi hag fólksins sem strandríki byggir, en þessi nýskipan er ekki tekin upp vegna fjarlægra eyja.

10) 121. gr, uppkastsins að hafréttarsáttmála er ekki alþjóðalög fremur en annað sem í uppkastinu stendur. Ekkert af því hefur verið samþ., er því ekki alþjóðareglur að lögum (de jure) og aðeins það sem almennt hefur komið til framkvæmda er réttur í raun (de facto).

11) Norðmenn yrðu fyrstir þjóða til að ryðjast inn á landgrunn annars ríkis vegna óbyggðrar smáeyjar með þeim hætti sem þeir nú hafa tilkynnt að þeir hugsi sér.

Að öllu þessu athuguðu hljótum við að standa fast á okkar rétti. Í fyrsta lagi verðum við að halda til streitu óskertri 200 mílna efnahagslögsögu okkar og í öðru lagi að krefjast jafnréttis við Norðmenn að því er varðar réttindi á Jan Mayen svæðinu. Mikilvægt er þess vegna í þeim samningaviðræðunum, sem fram undan eru, að ræða ekki um íslenska efnahagslögsögu og lögsögu við Jan Mayen í einu og sama orðinu áa þess þó að norsk efnahagslögsaga sé meðtalin. Líklegast til árangurs er að ræða um hafsvæðið allt, verndun fiskstofna á öllu Norður-Atlantshafi innan norskra efnahagslögsögu, íslenskrar efnahagslögsögu og á Jan Mayen svæðinu sem aðskilið er frá efnahagslögsögu þessara ríkja.

Norðmenn vilja aðeins tala um íslenska efnahagslögsögu og þá lögsögu sem þeir telja sér heimila við Jan Mayen. Það má ekki gera, heldur að ræða um aðstöðu Norðmanna annars vegar og Íslendinga hins vegar á Jan Mayen svæðinu, sem við teljum vera sameiginlegt hagsmunasvæði Íslendinga og Norðmanna. Ef einhver bókun eða samþykkt verður gerð um þetta efni verður að gæta þess rækilega að Íslendingar og íslensk hagsmunasvæði séu annars vegar og Norðmenn og norsk hagsmunasvæði hins vegar, en Jan Mayen sé þar mitt á milli og Íslendingar séu því aðeins til viðtals um einhver afskipti Norðmanna af íslenskri efnahagslögsögu að þeir hafi afskipti Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál. 2760 af fiskveiðimálum innan efnahagslögsögu Noregs. Eðlilegt er að bera þessar kröfur fram, þar sem síldarstofninn er ekki síður mikilvægur en loðnustofninn og við eigum að hafa ítök eða áhrif að því er varðar síldveiðar Norðmanna.

Ef Norðmenn fallast ekki á viðræður á þessum grundvelli hljótum við að gripa til harkalegra aðgerða. Rétt er þó að benda á að hugsanleg er bráðabirgðalausn á þeim grundvelli, að Íslendingar og Norðmenn lýsi sameiginlega yfir fiskverndarráðstöfunum á öllu Jan Mayen svæðinu, og jafnvel að fallast á að Norðmenn lýsi formlega yfir útfærslu fiskveiðitakmarka á svæðinu, ef Íslendingar hafa a. m. k. helmingsrétt á móti þeim með bindandi samningum. Þar væri um að ræða svipaðar aðgerðir og Bretar hafa kunngert að því er svæðið út frá Rockall varðar. En aðförum Breta þar um slóðir þarf raunar að mótmæla bæði í orði og verki, t. d. með því að íslensk fiskiskip fari inn á það svæði til fiskveiða, því að aðgerðir Breta þar eru með öllu ólögmætar.

Jan Mayen málið er svo erfitt viðureignar og viðkvæmt að ekki kemur til greina að fiskifræðingar einir fjalli um það, heldur hlýtur það að verða málefni stjórnmálamannanna ekki síður en vísindamannanna. Þess vegna leggjum við til, að málin verði ítarlega rædd í utanrmn. og landhelgisnefndinni, og bjóðum fram okkar aðstoð, ef hún gæti orðið að einhverju liði.

En niðurstaðan er sú, að Norðmenn munu taka allt það sem þeir geta fengið og við munum glata rétti ef við ekki verðum fastir fyrir og sameinaðir í okkar réttargæslu. Hins vegar er 1jóst að Jan Mayen svæðið þarf að vernda fyrir rányrkju utanaðkomandi þjóða og það ættu ekki síður að vera hagsmunir Norðmenna en Íslendinga.“ — Og hér lýkur þessum lestri.

Ég get getið þess að það var einmitt þetta skjal, sem ég las upp í símann fyrir hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson m. a., og við spjölluðum um málið. Mér fannst hann skilja málið til fullnustu um leið og hann hafði heyrt þetta skjal, sem þá var ekki á vitorði nema örfárra manna.

Ég hygg, eins og ég sagði áðan, að öll okkar rök, sem síðan hafa verið notuð, hafi þarna komið fram. Þau voru fyrst afhent utanrrh., að sjálfsögðu sem trúnaðarmál, og öðrum þeim sem sérstakan áhuga höfðu. Öll rökin, sem þá var hægt að koma fram með, voru þarna, því að við höfðum ekki hugmynd um bréf Jóns Þorlákssonar, og ég vil undirstrika, að þótt svo færi að þeir Lúðvík Jósepsson og Þórarinn Þórarinsson, sem voru fyrir sína flokka þarna úti, hefðu ekki undirskrifað þetta skjal, þá hygg ég að þeir hafi meira og minna verið sammála því, svo mikið ræddum við um þetta. A. m. k. minnist ég þess, að Lúðvík var mjög ánægður með þetta skjal þegar ég afhenti honum það 30. apríl, en eins og ég sagði dróst úr hömlu að það yrði undirritað, og einn af fulltrúum flokkanna neitaði að skrifa undir, eins og áður er getið.

Næst er þar til að taka að norsk stórmenni tilkynna með litlum fyrirvara að Norðmenn séu reiðubúnir að hefja viðræður við Íslendinga og vilji koma til Reykjavíkur, og 29. og 30. júní var hinn sögulegi fundur haldinn í ráðherrabústaðnum. Þessi fundur endaði, eins og kunnugt er, með því að Norðmennirnir lentu í hári saman og deildu innbyrðis allan síðari daginn, þannig að samninganefndirnar naumast hittust. Hins vegar áttu ráðherrar beggja landanna alloft einkaviðræður.

Í upphafi þessa fundar var ljóst að Norðmennirnir voru hingað komnir til að fá Íslendinga til að fallast á, að Norðmenn ættu Jan Mayen svæðið, gegn því að við fengjum að veiða eitthvað smávegis á því svæði og Norðmenn takmörkuðu loðnuveiðar sínar þar eitthvað. En það var þó aðeins um að ræða eitt ár sem átti að semja um eða kannske bara einn mánuð eða jafnvel eina viku, því að svo öflugur er loðnufloti þeirra að hann hefði kannske getað aflað þetta mikið á einni viku. Það átti sem sagt að fá okkur til þess, beint eða óbeint, með einhverjum hætti að fórna rétti okkar fyrir nokkrar loðnur í eitt ár.

Þegar Íslendingar voru ófáanlegir til að gefa neina yfirlýsingu í þessa átt óskuðu Norðmenn eftir að bóka að þeir mundu grípa til einhliða fiskverndarráðstafana á svæðinu ef þriðja ríki virtist ætla að spilla þeim árangri sem með samkomulagi um loðnuveiðar Norðmanna og Íslendinga átti að nást. Íslendingar neituðu að taka við þessari bókun nema gera samhljóða bókun af sinni hálfu. Raunar komu þrjár tillögur frá norsku samninganefndarmönnunum og við gátum fallist á orðalag þeirra allra út af fyrir sig, en við sögðum alltaf: Við höfum sambærilegt orðalag af okkar hálfu. — Þá og þá fyrst varð Norðmönnum ljóst að Íslendingar hugðust ekki gefa eftir réttindi sin á Jan Mayen svæðinu, heldur standa þar jafnfætis við Norðmenn og hindra að þeir sölsuðu þessi réttindi undir sig. Út af því var allt fjaðrafokið í norsku samninganefndinni, sem að lokum kvaddi og neitaði meira að segja í lokin að einskorða samningana við loðnuveiðar, þar sem tvö ríki veiddu á svæði sem umdeilt væri, þ. e. Jan Mayen svæðinu, utan íslenskra 200 mílna. Þeir vildu ekki undirrita eitt eða neitt nema þeir gætu í leiðinni styrkt rétt sinn til frambúðar og þá liggur mér við að segja: snúið á okkur.

Á þessum fundi urðu sem sagt þáttaskil í Jan Mayen málinu, og í framhaldi af þeim atburðum lagði Matthías Bjarnason fram þau drög að umræðugrundvelli við Norðmenn sem mjög hefur borið á góma og voru lögð fram í landhelgisnefndinni hinn 23. júlí eða rúmum þremur vikum eftir að Norðmennirnir fóru. En í framhaldi af þessum tillögum hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar fóru hjólin loks að snúast og ríkisstj. sá að hún gat ekki lengur stungið höfðinu í sandinn. Hinn 7. ágúst, hygg ég að hafi verið, 1979 dreifði þáv. utanrrh., hv. þm. Benedikt Gröndal, tillögum að umræðugrundvelli í ríkisstj., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lagði fram sínar hugmyndir í landhelgisnefnd 10. ágúst og ríkisstj. gerði samþykkt um málið hinn 14. ágúst.

Ég mun nú, með leyfi forseta, lesa upp „Drög til að leggja fram við framhald samningaviðræðna við Norðmenn“ frá Matthíasi Bjarnasyni, dagsett 23. júlí, eða þessa fimm punkta sem svo mjög hafa verið hér til umr. í dag og í blöðum að undanförnu, því að þeir hafa verið undirstaða aðgerða af okkar hálfu, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson o. fl. hafa á bent, en hann undirstrikar að sínar tillögur hafi verið í samræmi við hugmyndir Sjálfstfl. og er það rétt. Í Morgunblaðinu í gær talar hann um þá „ítarlegu og afdráttarlausu kröfugerð sem Sjálfstfl. setti fram á sínum tíma og Alþb. tók undir og síðar varð uppistaðan í stefnumótun þriggja ríkisstj.“, eins og hann kemst að orði. Nú les ég þessa fimm punkta, — sá sjötti fjallar um heimild til handa Færeyingum og kemur ekki að öðru leyti beint við þetta mál. Fyrirsögn þessa plaggs er: „Drög til að leggja fram við framhald samningaviðræðna við Norðmenn,“ og það hljóðar svo:

„Þess verði óskað að framhald samningaviðræðna á milli Íslendinga og Norðmanna verði sem allra fyrst. Íslendingar bjóði að viðræðurnar fari fram í Osló. Þátttakendur frá Íslands hálfu verði undir forustu ríkisstj. og stjórnarandstaðan eigi aðild að viðræðunum. Íslendingar bjóði nokkra kosti til lausnar málsins.:

1) Norðmenn og Íslendingar lýsi yfir að þeir hafi komið sér saman um sameiginlega fiskveiðilögsögu umhverfis Jan Mayen utan 12 sjómílna landhelgi Jan Mayen.

2) Norðmenn lýsi yfir fiskveiðilögsögu á Jan Mayen svæðinu utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögu Íslands. Ísland viðurkenni þessa útfærslu, enda verði jafnhliða gerður samningur um að Norðmenn og Íslendingar veiði að jöfnu þann afla sem veiddur er utan 12 sjómílna fiskveiðilögsögu Jan Mayen.

3) Samningur verði gerður á milli Norðmanna og Íslendinga um útfærslu efnahagslögsögu á Jan Mayen svæðinu, sem nær til sameiginlegra yfirráða Norðmanna og Íslendinga bæði hvað snertir nýtingu hafs og hafsbotns.

4) Norðmenn lýsi yfir efnahagslögsögu á Jan Mayen svæðinu utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögu Íslands. Ísland viðurkenni þessa útfærslu, enda verði jafnhliða gerðir samningar um að Norðmenn og Íslendingar eigi rétt til að nýta að jöfnu auðlindir hafs og hafsbotns utan 12 sjómílna efnahagslögsögu Jan Mayen.

5) Norðmenn og Íslendingar lýsi yfir sameiginlegum fiskverndaraðgerðum á Jan Mayen svæðinu og verði um það gerður sérstakur samningur sem þar með útiloki veiðar annarra þjóða nema samþykki beggja þessara þjóða komi til.“

Þetta eru sem sagt þessir punktar. Að þessu máli hefur hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vikið í ræðu sinni í dag, en þó enn þá greinilegar kannske í greininni, sem ég minntist á, í Morgunblaðinu í gær, en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Vissulega á það rétt á sér að telja að í samningum náist ekki allar kröfur fram. Hinu verður þó ekki trúað, að Sjálfstfl. hafi á sínum tíma gert sér leik að því að setja fram röð af tillögum, aðaltillögum og varatillögum, sem engan möguleika hefðu á að hljóta framgang og viðurkenningu Norðmanna“ o. s. frv.

Menn heyrðu hér — þeir sem hlustuðu í dag — þessi rök eða rökleysur. En þessi röksemdafærsla hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar er raunar með því furðulegasta sem ég hef lesið eða heyrt og var undrandi á að hann skyldi setja hana fram.

Sjálfstæðismenn afhenda í landhelgisnefnd drög til að leggja fram við framhald samningaviðræðna við Norðmenn, þ. e. að sýna Norðmönnum og bjóða þeim ýmsa kosti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lýsir fyllsta stuðningi við þessa stefnu og þessi drög. En þegar Norðmenn fallast ekki umyrðalaust á einn þeirra kosta, sem Íslendingar þannig sameinast um að setja fram, því að Framsfl. og Alþfl. dröttuðust að lokum með, byrjar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson að tala um aðaltillögur og varatillögur, uppgjöf og svik. Auðvitað er alveg ljóst að enga för þurfti að fara til Noregs ef Norðmenn hefðu getað fallist á einhverja þeirra fimm punkta sem hv. þm. Matthías Bjarnason lagði fram, og auðvitað er og var ljóst að hvorki sjálfstæðismönnum né Alþb.-mönnum gat dottið í hug að Norðmenn mundu möglunarlaust samþ. og fyrirvaralaust eitthvert þessara útspila af Íslendinga hálfu, fremur en að okkur hefði nokkurn tíma dottið í hug að láta ekki á það reyna hve langt væri hægt að teygja Norðmenn þegar þeir sjálfir spiluðu út sínum kortum.

Þessi meginvörn Alþb. fyrir þeirri afstöðu sinni að snúast gegn samkomulaginu er auðvitað alveg haldlaus og gegnsæ. En afstaða Alþb.-manna hefur þó það gildi, að hún sannar að þeir eiga erfitt með að gagnrýna samkomulagið efnislega. Er það vissulega ánægjulegt, því að það sýnir þó að margt er gott í því samkomulagi. Tilraunir hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar í dag til að koma með lögskýringar voru mjög bágbornar. Ég hefði e. t. v. getað hjálpað honum m. a. s. til að benda á eitthvað sem kynni að vera veikara í þessum samningsuppkasti en það sem hann var að reyna með alröngum lögskýringum að túlka Íslendingum í sem mestan óhag og Norðmönnum í sem mestan hag, sem gæti auðvitað verið mjög alvarlegt mál, hvort heldur væri í áframhaldandi samningum, sáttanefnd eða gerðardómi. Við skulum láta það liggja á milli hluta, en lögskýringar hans voru auðvitað svo fáránlegar að engu tali tekur.

Nú skal ég fúslega játa, að þegar ég sá þessi samningsuppköst á laugardaginn var þótti mér hart við það að búa að við skyldum ekki ná fram ákveðnari og skilmerkilegri samningi og gremja og sárindi blossuðu upp yfir því að dýrmætum tíma skyldi hafa verið sóað, eins og hér að framan hefur verið rakið. Síðan hef ég að sjálfsögðu marglesið samkomulagið á báðum tungumálum og borið saman við margvísleg ákvæði og orðalag í uppkasti að hafréttarsáttmála, auk þess sem ég hef rætt við suma þá sem voru í viðræðunum. Ég hef sannfærst um að þetta samkomulag eigi að staðfesta og í því felist raunar miklu meira en menn gera sér grein fyrir við fyrstu sýn.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson og fleiri ræðumenn hér í dag hafa gert þessu máli góð skil. Ég þarf ekki miklu við það að bæta, sem formaður Sjálfstfl. hér sagði og vil ekki eyða tímanum í að endurtaka það sem hefur komið hér fram, kannske oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. En ég vil undirstrika að þetta er í fyrsta skipti sem Norðmenn viðurkenna formlega og afdráttarlaust að við Íslendingar eigum óafturkallanleg réttindi bæði til fiskveiða og hafsbotnsins á Jan Mayen svæðinu utan okkar 200 mílna. Það hafa þeir aldrei fengist til að gera áður. Sumir segja að vísu að hér sé aðeins um að ræða samning um að semja. En sannleikurinn er sá, að í heilan áratug hafa þjóðir heimsins verið að semja um að semja. Á hafréttarráðstefnu hafa aldrei verið atkvæðagreiðslur, heldur gengur allt starfið út á það að ná samkomulagi og þróa málin í samkomulagsátt. Finnst sumum seint ganga, en þó hefur ótrúlega mikið áunnist.

Þótt ekki væri hér um annað að ræða en samning milli Norðmanna og Íslendinga um að semja um réttindi þjóðanna á Jan Mayen svæðinu væri sá samningur ekki lítils virði, því að í honum felst full viðurkenning á því, að við eigum réttindi á þessu umdeilda svæði, — viðurkenning sem aldrei áður hefur fengist eins og ég gat um áðan. En í samkomulaginu felst auðvitað miklu meira en bara þetta, eins og áður hefur komið fram hér í umr. og ummælum manna og ég skal ekki endurtaka.

En önnur haldlaus rök andstæðinga þessa samkomulags eru á þann veg, að við ákvörðun hafsbotnsréttindanna og skiptingu þeirra á milli Norðmanna og Íslendinga eigi líka að fjalla um hafsbotninn innan 200 mílna efnahagslögsögu okkar. Þessi falsrök eru út í bláinn, því að það er alveg skýrt tekið fram í drögum að hafréttarsáttmála, í 56. gr., að efnahagslögsagan taki jafnt til hafsbotnsins og hafsins yfir honum. Þess vegna kemur auðvitað hafsbotn okkar innan 200 mílna ekki til álita í þessu sambandi. (StJ: Það var nákvæmlega míla, þm., á milli 200 mílna okkar og ...) Já, Jan Mayen. (Gripið fram í.) Ég skildi ekki alveg. (Gripið fram í.) Þetta er á milli 200 mílna marka okkar og eyjarinnar Jan Mayen. (SU: Og efnahagslögsögu Jan Mayen.) Og eyjarinnar sjálfrar Jan Mayen. Það er einmitt tilefni til þess misskilnings sem hefur komið upp að þetta er orðað „svæðið á milli Íslands og Jan Mayen“ í samningsdrögunum: „Fjallað verður um afmörkun landgrunnsins á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen í framhaldsviðræðum.“ Þetta orðalag hefur valdið þessum misskilningi sem upp hefur komið, að það eigi líka að fjalla um hafsbotninn innan okkar 200 mílna, en þegar viðurkennd er efnahagslögsaga okkar út í 200 mílur tekur hún alveg jafnt til hafsbotnsins og hafsins yfir honum samkv. 56. gr. hafréttarsáttmála. Og þá skiljum við hvor annan.

Það er því auðvitað ekki til neins annars fallið að halda þessum skoðunum fram en að skaða íslenskan málstað í þeim samningaviðræðum eða hugsanlegum úrskurðum sem fram undan eru. Að vísu kannske ekki í úrskurðum, þetta er svo augljóst, en í samningaviðræðum gæti það auðvitað eitthvað veikt málstað okkar þegar slíkum skoðunum er haldið fram hér uppi á Íslandi. Og ég vil mega bera þá ósk fram til hv. þm. allra, að hvað sem afstöðu þeirra kann að líða reyni þeir að forðast ummæli sem nota mætti gegn okkur í hugsanlegum gerðardómi. Eins og ég sagði áðan er því miður orðinn nokkur misbrestur á því. Menn skilja það að vísu, að þegar svona átök verða í þjóðþingum segja menn kannske meira en þeir beint meina, og ég á von á því að það þurfi ekki að skaða okkur þó að slíkt hafi hent hér í dag. En ég vil sérstaklega taka fram, að mér líkaði vel við ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar fram eftir lengi vel, en svo fannst mér nokkur galsi hlaupa í hann í lokin. Ég held þó að við fyrirgefum það nú.

Okkur ber miklu frekar að undirstrika þá þýðingu sem hin ýmsu ákvæði samkomulagsins hafa einmitt lögfræðilega í hugsanlegum dómi og eins raunar í samningum okkur í hag. Þar er t. d. einhliða ákvörðunarréttur okkar um hámarksafla á loðnu m. a. á þessu umdeilda svæði mikilvægur lögfræðilega, lögfræðilegur styrkur. Ég legg miklu minna upp úr því en ýmsir aðrir, hvaða þýðingu það hafi nákvæmlega varðandi loðnuveiðarnar að við höfum þennan einkarétt. Ég held að það skipti ekki öllu máli um framkvæmdina hvort við höfum hann eða ekki. En lögfræðilega hefur þetta gífurlega mikla þýðingu, vegna þess að með því er viðurkennt jafnrétti okkar við Norðmenn á Jan Mayen svæðinu og meira að segja meira en það, því að við getum tekið allan aflann innan okkar 200 mílna ef loðnan fer ekki norður fyrir, en jafnt og Norðmenn ef hún fer norður. Okkar lagalegi réttur er því meiri. Þetta gæti haft mikla þýðingu fyrir gerðardómi vegna þess að þarna er helmingaskiptaregla algerlega viðurkennd og meiri hagsmunir okkar en Norðmanna virtir.

Það má einnig benda á að þar sem talað er um „sérstakar aðstæður“, sem þarna um ræði, er alveg ljóst að með því orðalagi er átt við þá sérstöðu sem Íslendingar hafa bent á og upphaflega kom fram í „Punktum til utanrrh.“ sem ég las hér áðan.

Af öllu þessu verður sáttanefnd eða dómur að hafa hliðsjón. Um það er beinlínis samið og það felst í þessu samkomulagi og raunar mörgu fleira sem okkur er til styrktar, — t. d. í orðalagi 6. gr., þar sem segir að það skuli tekið sanngjarnt tillit til þess, hve Ísland er almennt háð fiskveiðum, svo og fiskveiðihagsmuna Íslands á Jan Mayen svæðinu. Þegar þessi grein er lesin með hliðsjón af 5. gr. þar sem um helmingareglu er að ræða, er auðvitað stoð í 5. gr. fyrir því að tekið sé sanngjarnt tillit til þess, hve Ísland sé almennt háð fiskveiðunum. Svo er einnig vitnað til 71. gr. í hafréttarsáttmála í inngangi samkomulagsins. Það er auðvitað mikil stoð líka vegna þess að sú grein er, held ég, nánast algjört einsdæmi í uppkastinu að hafréttarsáttmála. Það vita allir að hún er sett inn fyrir eitt land í veröldinni og hún heitir „íslenska greinin“ á allra manna máli, þ. e. greinin um lönd sem byggja afkomu sína mestmegnis á fiskveiðum.

Þegar vitnað er í þetta tvennt sýnist mér að sérhver dómari mundi hafa mikla tilhneigingu til þess að meta þessi réttindi okkur svo hagstætt að við ættum líka að hafa þar a. m. k. helmingsrétt á við Norðmenn.

Þetta kemur auðvitað allt til álita og mér miklu færari menn munu túlka þetta þegar samningar hefjast og samkomulagsumleitanir og sáttastarf — eða þá ef til dómsmáls kemur.

Þá er látinn í ljós ótti um að Norðmenn kunni eftir 1. jan. n. k. að lýsa yfir einhliða efnahagslögsögu, þar sem bréf Frydenlunds gildir aðeins — eða loforð hans í bréfi — til 1. jan. En við því höfum við auðvitað mjög áhrifamikið svar og ég er ekkert hræddur við þetta. Ef það gerist lýsum við samstundis yfir eignarrétti á öllum hafsbotninum. Þá er að vísu komin upp alvarleg deila á milli þessara tveggja ríkja því að þetta væri ósamrýmanlegt, en þá höfum við stoð í samkomulaginu sem hér er til umræðu. Þegar til úrskurðar kæmi eða sáttastarfs hlytu auðvitað að verða miklir árekstrar, en með einhverjum hætti yrði það að leysast.

Við höfum sem sagt þarna mjög verðugt svar og áhrifaríkt svar ef til þess kæmi, sem mér dettur ekki í hug að geti gerst, að Norðmenn mundu með þeim hætti stofna til ófriðar. Það væri enn þá verri aðferð en nokkurn tíma það sem ég hef óttast fram að þessu að þeir gerðu vegna skeytingarleysis hér uppi á Íslandi, að þeir flýttu sér og tækju 200 mílurnar. Ég vil segja að það er mikil mildi að þeir skyldu ekki hafa gert það, vegna þess að þá hefðum við auðvitað staðið meira og minna varnarlaus.

Það veit enginn á þessari stundu hver muni verða afdrif 121. gr. uppkastsins að hafréttarsáttmálanum í Genf, þar sem jafnvel er gert ráð fyrir atkvæðagreiðslum og þá þurfi ekki nema 2/3 til að samþykkja greinar. En ef svo færi að greinin yrði samþ. óbreytt styrkir það auðvitað málstað okkar að hafa þegar samning um réttindi okkar þarna, því að slíkt ákvæði tæki þá ekki til þessa svæðis sem þegar væri búið að semja um.

Það er vafalaust að það hefði verið hagstæðast fyrir báðar þjóðirnar að semja um sameiginleg yfirráð um aldur og ævi. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Og ég held að Norðmenn séu í stöðugt ríkari mæli að gera sér grein fyrir því, að þetta hefði verið hyggilegast. Ég vil benda á að ekkert í þessum drögum útilokar að það geti orðið. Hægt er að framkvæma 9. gr. þannig að ekki verði landfræðileg skipting, heldur t. d. skipt yfirráðunum til helminga, sameiginleg yfirráð eins og við höfum keppt að. Ef við vinnum vel að þessu máli næstu mánuðina má vel vera að það verði hægt að vinna þeirri skoðun fylgi. Þær hugmyndir, sem komu fram í Noregi um sameiginlegt fyrirtæki sem hugsanlega gerði rannsóknir á svæðinu öllu og ynni jarðefni — ef samkomulag yrði um slíkt — eða olíu, gætu vel þróast í það að styðja að því að niðurstaðan yrði þrátt fyrir allt endanlega sú sem við höfum að keppt.

Þótt ég sé auðvitað ekki ánægður með samningsdrögin í eina og öllu tel ég engan vafa leika á því, að þau eigi að samþykkja. Auðvitað hefðum við náð lengra ef málið hefði verið tekið föstum tökum strax haustið 1978 í stað þess að láta allt reka á reiðanum og glata dýrmætum tíma. Ég skal ekki eyða frekari orðum að því sem misfarist hefur í fortíðinni, en vil hins vegar undirstrika að mjög margir hafa lagt hönd á plóginn síðustu mánuðina til að vinna málstað okkar fylgi. Í utanrrn. hefur Ólafur Egilsson t. d. unnið mjög gott verk, og sama er að segja um aðra vísindamenn eins og Sigurð Líndal, Pál Imsland og Guðmund Pálmason. Þá hefur að sjálfsögðu verið lagður pólitískur þrýstingur á norsk stjórnvöld og hafa þar margir látið til sin taka. En eitt nafn verð ég sérstaklega að nefna, nafn Björns Bjarnasonar, sem í norskt tímarit um alþjóðamál ritaði merka grein um Jan Mayen deiluna og benti Norðmönnum á, svo að þeir hlutu að skilja, hvaða afleiðingar það gæti haft ef þeir sýndu ekki meiri samningalipurð en þá voru horfur á.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann frekar en orðið er. Mín skoðun er eindregið sú, að samþykkja beri þetta samkomulag. Vona ég að sem allra flestir hv. þm. geri það. En að lokum þetta: Með samþykkt þessa samkomulags er að sjálfsögðu ekki lokið baráttu okkar fyrir eðlilegum réttindum á Jan Mayen svæðinu. Þvert á móti er einungis um að ræða áfanga í baráttunni. Við sjálfstæðismenn höfum ákveðið að gera við lokaafgreiðslu málsins ljósa grein fyrir þessum sjónarmiðum okkar, þeim að þetta sé aðeins áfangi og við hyggjumst ganga lengra. Æskilegast væri að í utanrmn. verði reynt að ná samstöðu um að gefa slíka yfirlýsingu, helst á þann veg að allir þm. gætu sæmilega við unað og jafnvel yrði reynt á það til þrautar að allir 60 þm. gætu staðið að afgreiðslu málsins. Á þessu stigi er líklega ekki æskilegt að fara lengra út í þessa sálma því að það kynni að spilla tilraunum til samstöðu um áframhaldandi réttargæslu. En málið verður tekið upp í utanrmn. og það strax í fyrramálið.