16.05.1980
Sameinað þing: 59. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2766 í B-deild Alþingistíðinda. (2730)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki gerast mjög langorður um þau samkomulagsdrög sem hér liggja fyrir. En ég vil í upphafi fara nokkrum orðum um tvö atriði sem komu fram í málflutningi fyrr í dag og mér þykir rétt að fram komi í réttu ljósi.

Hæstv. utanrrh. sagði við upphaf umr., að í fyrra hefði nálega orðið samkomulag um 90 þús. tonna afla Norðmanna við Jan Mayen af 600 þús. tonna heildarafla, og gat þess í leiðinni, að þessi 90 þús. tonn svöruðu einmitt til 15% af nefndum 600 þús. tonnum. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. utanrrh., að Norðmenn höfðu samþykkt 90 þús. tonna markið á sig í viðræðunum í fyrra áður en upp úr slitnaði þá og þá af öðrum ástæðum. Hitt er ekki eðlilegt, að tengja þessi 90 þús. tonn við 600 þús. tonna heildarafla, eins og mér fannst hæstv. utanrrh. gera ótvírætt. Það er ekki rétt vegna þess að engar yfirlýsingar voru gefnar af okkar hálfu um að afli yrði í heild einungis 600 þús. tonn. Þvert á móti leituðu fulltrúar Norðmanna þá mjög fast eftir því að fá vitneskju um hve mikinn loðnuafla við Íslendingar mundum taka og þá hvaða heildarafla mundi verða um að ræða. En einmitt um þetta atriði neituðum við staðfastlega að gefa nokkrar yfirlýsingar. Um það sögðumst við fulltrúar Íslands ekki vilja gefa neina yfirlýsingu og engin slík yfirlýsing var gefin. Eru aðrir nm. til vitnis um það.

Í þessu sambandi bentum við á að við mundum meta ástand loðnustofnsins síðar á veiðitímabilinu og taka ákvarðanir samkv. því, sem við og gerðum eins og kunnugt er. Þetta er mikilvægt vegna þess að þegar Norðmenn samþykktu 90 þús. tonna markið á sig var þeim þannig ljóst að það var ekki bundið við 600 þús. tonna heildaraflamagn þótt fiskifræðingar hefðu stungið upp á því.

Ég vil að þetta komi skýrt fram, nefnilega það, að þegar Norðmenn samþykktu 90 þús. tonnin gerðu þeir það án nokkurra yfirlýsinga af okkar hálfu um 600 þús. tonna heildarafla. Þvert á móti var þeim neitað um staðfestingu á þessu og það beinlínis látið koma fram af okkar hálfu, að heildaraflamagn mundum við ákveða sjálfir síðar, eins og við gerðum. Þeim var því ljóst að þessi 90 þús. tonn yrðu engin 15% af heildaraflamagninu. Þess vegna er auðvitað ekki eðlilegt né heldur rétt að nota þennan samanburð núna. Norðmönnum var 1jóst þá að þeir mundu ekki ná 15%, og þess vegna eigum við ekki heldur að tala um það núna sem einhvern sannleika eða eitthvað sem megi halda fram.

En í þessu sambandi er rétt að benda á hvað í rauninni fólst í því af okkar hálfu að neita að gefa yfirlýsingu við þessar aðstæður um fyrirhugað heildaraflamagn. Þessi neitun okkar var ekki síst út frá því og á grundvelli þess, að við höfðum sagt og haldið fast á því að Íslendingar ættu einir að ákveða heildaraflamagnið og að þess vegna mundum við ekki gera það mál að neinu samningamáli og ekki ræða það við aðra aðila og þá auðvitað ekki heldur við Norðmenn. Þetta var grundvallarafstaðan sem við tókum, og á þessari grundvallarafstöðu byggðist það að því var þverneitað að gefa neinar yfirlýsingar um hvert heildaraflamagnið mundi verða.

Með því að við héldum á málum með þessum hætti var Norðmönnum beinlínis sýnt fram á að það væri afdráttarlaus stefna okkar Íslendinga að við ákvæðum heildaraflamagnið einir og sjálfir. Og ég vek athygli á því, að einmitt við þessar aðstæður, þegar Norðmönnum var beinlínis sýnt fram á það og haldið var þannig á málum að við einir ákvæðum heildaraflamagnið, samþykktu Norðmenn 90 þús. tonna aflahámarkið á sínar veiðar áður en upp úr slitnaði af öðrum orsökum. Þeir samþykktu því þennan 90 þús. tonna afla sér til handa við þær aðstæður að við einir mundum ákveða okkar afla og þá um leið heildaraflann.

Talað var um það hér fyrr, og hæstv. utanrrh. gerði það, að ekki hefðu komið fram hugmyndir um það í landhelgisnefnd í fyrra að Íslendingar ákvæðu sjálfir heildaraflann. Ég skal að vísu ekki fullyrða nákvæmlega um hvað fram hafi komið í landhelgisnefnd, en ég tel að það sé ljóst af þessari málsmeðferð, að sá grundvallarpunktur hafi verið sérstaklega uppi hafður í samningaviðræðunum við Norðmenn. Ég get reyndar bætt því við, að leynt og ljóst og aftur og aftur hef ég og fleiri talsmenn Íslands beinlínis sagt það við norska embættismenn, við norska stjórnmálamenn, norska blaðamenn og fréttamenn, að það væri grundvallaratriði í sambandi við alla samninga að Íslendingar ákvæðu einir heildarafla loðnu. Ég minnist þess sérstaklega að hafa ítrekað sagt ýmsum norskum aðilum, að ef Íslandar hefðu ekki þetta úrslitaorð um heildaraflann væri að mínum dómi ekki samninga að vænta við Íslendinga. Ég tel að þessu hafi verið haldið jafnafdráttarlaust fram og því, að ekki kæmi til greina nein skerðing á 200 mílna efnahagslögsögu okkar í átt til Jan Mayen.

Í sambandi við það mál, þ. e. 200 mílna mörk okkar efnahagslögsögu í átt til Jan Mayen, vil ég minna á að þeirri stefnu var fast fram fylgt í reynd af fyrrv. ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar þegar upp komu vangaveltur um svokallað „grátt svæði“ eða umdeilt svæði í þessu samhengi, að þegar í stað var með samþykki allrar ríkisstj. gefin út reglugerðarbreyting af hálfu sjútvrn. sem tók af allan vafa í þessu sambandi og því fylgt eftir með yfirlýsingu um að þar giltu sömu reglur og annars staðar í íslenskri efnahagslögsögu, þ. á m. að því er varðaði landhelgisgæslu.

Ég hef með þessum orðum viljað benda á þessar tvær grundvallarforsendur og um leið að þær hafa verið Norðmönnum ljósar frá því í fyrra, — nefnilega að hugsanlegur grundvöllur samninga væri í fyrsta lagi, að 200 mílna efnahagslögsögu okkar í átt til Jan Mayen yrði á engan hátt breytt, og í öðru lagi, að Íslendingar hefðu úrslitaorð um heildarafla loðnu úr íslenska loðnustofninum — þeim loðnustofni sem heldur sig fyrst og fremst innan íslenskrar efnahagslögsögu. Þessari stefnu hefur verið haldið uppi bæði í málflutningi og í athöfnum allt frá því að þetta mál komst á dagskrá.

Í þeim samningsdrögum, sem hér liggja fyrir, má segja að þessi grundvallaratriði hafi náðst fram þótt nokkur fyrirvari sé hafður á um annað atriði, — nefnilega ákvörðun Íslands um heildaraflamagn, að það sé ekki bindandi ef slík ákvörðun teljist bersýnilega ósanngjörn. Ég tek undir þau sjónarmið, sem hæstv. utanrrh. bar fram í upphafsorðum varðandi það atriði, því slíkt atriði óttast ég ekki. Þetta er auðvitað ánægjulegt, til réttrar áttar og ber að virða réttilega þótt ýmislegt í formi og innihaldi samningsins sé mér ekki með sama hætti að skapi. Ég get t. d. lagt að ég tel að 15% sé of hátt hlutfall og reyndar að það hefði verið á margan hátt æskilegra að semja um tiltekna tonnatölu frekar en hundraðshluta til handa Norðmönnum. Það eru auðvitað líka vonbrigði að ekki skuli hafa náðst fram skýrara ákvæði um flökkustofna, svo sem kolmunna, og að því er síldveiðar varðar. Á sama hátt eru landgrunnsréttindi okkar samkv. þessum drögum takmarkaðri en maður hefði kosið, og það sama má að sjálfsögðu segja um ákvæðin um mengunarvarnir. Engu að síður er kjarni málsins sá, að samningur samkv. fyrirliggjandi drögum er mun betri kostur en enginn samningur.

Það er að vísu svo, að vandséð er hvort þessi samningsdrög eru að ráði betri en það sem kostur var í rauninni á á fyrra ári. Í sambandi við loðnuveiðar virðist svo sem það, sem var innan seilingar í fyrra, verði tæpast talið verra og að sumu leyti betra en það sem þessi samningsdrög gera ráð fyrir. En á hinn bóginn má segja um landgrunnsmálin og mengunarmálin, að þau voru þá ekki komin á blað, voru lítið rædd, en nú hafa náðst inn ákveðin ákvæði um þau efni sem eru nokkurs virði. Þegar litið er til baka sé ég þannig tæpast neinn sérlegan árangur af þeim hvelli sem gerður var út af þessu máli á s. l. ári af hálfu ýmissa aðila, og þá hafa mörg stóru orðin, sem féllu, orðið til lítils. Og ömurlegt er náttúrlega að hugsa til þess að þá voru jafnvel höfð uppi landráðabrigsl af sumum þm. í garð fyrrv. utanrrh., á sama tíma og það hefur sannast að hann mat allar aðstæður rétt og hélt á málunum af festu, sanngirni og skilningi. Mér sýnist það tæpast neitt stórkostlegt atriði þó að menn hafi getað sett fram ýtrustu kröfur sem hæstv. þáv. utanrrh. var reiðubúinn til að fylgja fram, en gera það að stórmáli á sama tíma og menn lýsa því nú yfir að það verði að hafa það að ekki hafi verið á þær hlustað og að grundvöllur, sem hér liggur fyrir, sé ágætur, — grundvöllur sem er í fullkomnu samræmi við þau sjónarmið sem hæstv. fyrrv. utanrrh. lagði fram og mat stöðuna eftir.

En hvort heldur hvellurinn hefur skilað árangri eða ekki og þrátt fyrir að við getum verið óánægð með ýmislegt í þessum samningsdrögum er augljóst að betra er að gera þennan samning en að láta það ógert. Það hefur nefnilega með þessum samningsdrögum verið gengið til móts við sjónarmið okkar í ýmsum greinum. Við stöndum betur í landgrunnsmálum og mengunarmálum með samninginn en án hans, en höfum jafnframt engum rétti afsalað í þeim efnum, eins og glögglega má sjá af samningsdrögunum. Í þessu sambandi get ég ekki stillt mig um að mótmæla eindregið þeim ummælum, sem hæstv. sjútvrh. viðhafði áðan, að við eigum engan landgrunnsrétt á þessu svæði. Ég fullyrði að hann túlki þar ekki sjónarmið íslensku þjóðarinnar né heldur nokkurs annars stjórnmálaflokks — og ég hélt reyndar ekki einu sinni eigin flokks. Þessum ummælum hans get ég ekki látið ómótmælt.

Í loðnuveiðimálum höfum við tryggt að Norðmenn geti ekki gengið í þennan fiskstofn og eytt honum, og við höfum í reynd fengið viðurkenningu Norðmanna á því að loðnan, sem veiðist hér um slóðir og allt til Jan Mayen, sé íslenskur fiskstofn, — fiskstofn sem Íslendingar eigi að hafa úrslitaorð um hvernig sé nýttur, og reyndar þá um leið að þessi loðnustofn sé ekki eiginlegur flökkustofn. Í þessum samningsákvæðum tel ég að felist viðurkenning norðmanna á því að sá loðnustofn, sem við höfum gert okkur hér svo tíðrætt um, sé ekki eiginlegur flökkustofn, heldur tilheyri fyrst og fremst Íslendingum, sé íslenskur fiskstofn.

Í þessu sambandi get ég reyndar ekki stillt mig um að fara nokkrum orðum um ummæli sem hæstv. sjútvrh. viðhafði í sjónvarpi nýlega, þar sem hann tók svo til orða, að ef loðnan væri íslensk væri síldin væntanlega norsk og kolmunninn breskur. Ég tel að þarna gæti mikils misskilnings. Loðnan er íslenskur stofn og hefur nú verið viðurkennd sem slíkur vegna þess að hún heldur sig nær eingöngu innan íslenskrar efnahagslögsögu þó hún fari stöku sinnum út fyrir á stöku stað. Um síldina gegnir allt öðru máli. Þó hún alist upp í norskum fjörðum er vitað um hana að hún flakkar úr einni efnahagslögsögunni í aðra, eða gerði a. m. k. hér fyrrum, og við væntum þess að hún muni gera það aftur. Hún er þannig sameign a. m. k. tveggja eða þriggja ríkja. Kolmunninn er enn frábrugðinn að því leytinu, að hann fer um efnahagslögsögu margra ríkja og reyndar um svæði þar sem engin efnahagslögsaga er. Um þessa þrjá fiskstofna gildir því sitt hvað. Þeim verður ekki jafnað saman og síst af öllu verður það fullyrt, eins og hæstv. sjútvrh. gaf í skyn og sagði í sjónvarpsviðtalinu, að þeir séu sinn af hverju þjóðerninu. Einn er nefnilega íslenskur. Aðrir hafa þá blandað þjóðerni sinn með hvorum hætti.

Einmitt þetta atriði, að Norðmenn skuli hafa viðurkennt loðnuna í reynd sem íslenskan fiskstofn sem Íslendingar ráði yfir, er auðvitað sérlega mikilvægt sem fordæmi gagnvart öðrum þjóðum og þjóðlöndum þegar fjallað verður um t. d. loðnuveiðarnar við aðrar þjóðir. Þetta fordæmi er okkur mjög mikilvægt í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar, sem boðuð hefur verið við Grænland, og ég minni á að á því svæði eigum við meiri hagsmuna að gæta en á Jan Mayen svæðinu eins og sakir standa. Og ég vil ítreka að nú þegar verði þrýst á um formlegar viðræður við Dani um þessi mál, eins og þingflokkur Alþfl. gerði sérstaka samþykkt um fyrir 10 dölum.

Í heild er ávinningur að gera samning samkv. þessum drögum. Mikilvægustu þættirnir eru þessir að mínum dómi: Í fyrsta lagi viðurkenning á 200 mílna efnahagslögsögu Íslands í átt til Jan Mayen. Í öðru lagi ákvæði um landgrunn og mengun, sem eru ávinningur, en jafnframt er engum rétti fórnað. Í þriðja lagi: Í samningsdrögunum felst í reynd viðurkenning Norðmanna á því að loðnan sem hér um ræðir, sé íslenskur fiskstofn, en ekki sameiginlegur loðnustofn. Þetta skiptir miklu máli í sambandi við samskipti við önnur ríki sem gera tilkall í þennan fiskstofn. Í fjórða lagi: Með samningum samkv. þessum drögum er dregið úr óvissu og komist hjá langvarandi togstreitu sem ekki yrði séð fyrir endann á. Í fimmta lagi: Samningur samkv. þessum drögum er mikilvægur sem fordæmi gagnvart þeim samningum sem fram undan eru við aðrar þjóðir, t. d. um loðnuveiðar og um aðrar fiskveiðar utan efnahagslögsögu okkar, og um veiðar úr öðrum stofnum, sem fara milli efnahagslögsögu okkar og annarra hafsvæða, hvort heldur það er inn í efnahagslögsögu annarra ríkja eða á opnu hafi. Viðurkenning Norðmanna í þessum samningsdrögum á 200 mílum okkar í átt að Jan Mayen getur líka verið gagnleg vegna t. d. yfirlýsingar Dana um útfærslu við Grænland, að ég ekki spyrji að tilburðum þeirra til að viðurkenna ekki grunnlínupunkta okkar, þ. e. Kolbeinsey, og þar með viðurkenna ekki mörk efnahagslögsögu okkar. Þetta atriði, þ. e. viðurkenning á 200 mílum okkar, getur haft þýðingu fyrir okkur í samskiptum okkar við Dani og til að haldi uppi okkar málstað.

Eftir því sem ég veit best erum við í raun og veru með þessum samningsdrögum að veita visst fordæmi um það, hvernig útfærsla getur verið á svonefndum sanngirnissjónarmiðum. Mér er ekki kunnugt um að nokkrir samningar hafi fyrr verið gerðir þar sem þau sjónarmið eru í rauninni lögð til grundvallar að einhverju eða öllu leyti.

Að lokum þetta: Í landhelgisstríðum okkar fyrrum snerist málið um að reka úr túninu án þess að nokkurt annað ríki gæti með nokkru móti haldið því fram að við værum að seilast inn fyrir túngarðinn hjá þeim. Það kom aldrei til álita í þessum tilvikum, þegar við vorum að færa út landhelgina, að útfærsla okkar næði inn í efnahagslögsögu annars ríkis. En nú eru tímarnir nýir að því leytinu, að við erum komin inn í tímabil þar sem við verðum að tryggja rétt okkar og hagsmuni ýmist á opnu hafi eða á svæðum sem aðrar þjóðir telja innan sinnar lögsögu eða gera á annan hátt tilkall til. Landhelgisstríð okkar voru ströng stríð. Þau unnust með þrautseigju. Nú eru í rauninni fram undan samningastríð sem krefjast ekki síðri þrautseigju. En þau krefjast líka hugkvæmni og árvekni. Ég vona og treysti að við stöndum okkur ekki síður í slíku samningskarpi en í landhelgisstríðunum forðum. Í þeim efnum er mikið í húfi fyrir okkur og að þessum verkefnum hljótum við að snúa okkur af fullri alvöru.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég þakka samninganefndarmönnum fyrir störf þeirra, embættismönnum og þeim fulltrúum Alþýðusambandsins sem lögðu lóð á vogarskálarnar í sambandi við þessi samningsdrög. Og ég vil láta í ljós þá von, að fyrirliggjandi samkomulag megi reynast okkur til heilla. Hvað sem ágöllum líður eru yfirgnæfandi rök fyrir því að samþykkja fyrirliggjandi drög að samningi.