16.05.1980
Neðri deild: 78. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2773 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

97. mál, almannatryggingar

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. heilbr.- og trn. um frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar, sem fjallar um fæðingarorlof, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa nál. það sem fram kemur á þskj. 520:

„Frv. um breyt. á lögum um almannatryggingar, sem fjallar um fæðingarorlof, kom til n. 28. mars og var þá þegar sent til umsagnar eftirtalinna aðila: ASÍ, BSRB, Tryggingastofnunar ríkisins, Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna. En frá Jafnréttisráði og Kvenréttindafélagi Íslands höfðu þá borist umsagnir.

Mjög margar aths. hafa komið fram við frv. og tillögur um breytingar.

Sú veigamesta er mikil gagnrýni á greiðslutilhögun, sem nokkrir umsagnaraðila telja að muni skerða atvinnumöguleika foreldra, ef framkvæmd verður á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir, þar sem verulegur hluti greiðslna í fæðingarorlofi er greiddur af atvinnurekendum samkv. frv.

ASÍ hefur sett fram mjög umfangsmiklar brtt., sem byggjast á því að foreldri skuli eftir 10 mánuði í starfi halda fullum launum í fæðingarorlofi og skuli þau reiknuð út frá meðaltalstekjum síðustu sex mánaða að teknu tilliti til kaupbreytinga á tímabilinu. Auk þess sem Tryggingastofnuninni ber samkv. tillögum ASÍ að endurgreiða þennan launakostnað, þá endurgreiði hún atvinnurekendum 6% lífeyrissjóðsiðgjalda og 81/3% af beinum launakostnaði vegna orlofs.

Erfitt er að sjá, hvað útgjöld lífeyristrygginga mundu aukast mikið ef farið yrði að tillögum ASÍ, þar sem ekki er um staðlaðar greiðslur að ræða, heldur fæðingarorlof látið ráðast af meðaltalstekjum síðustu sex mánuði hjá hverjum bótaþega. Ljóst er einnig, að ef farið yrði inn á þessa braut mundi það kalla á verulega aukningu starfsfólks hjá Tryggingastofnunni, en sá kostnaðarþáttur liggur ekki heldur fyrir enn.

Í tillögum ASÍ koma ekki fram neinar tillögur um kostnaðarskiptingu að öðru leyti en því er að framan greinir, en útgjöld lífeyristrygginganna eru nú fjármögnuð á þann hátt, að ríkissjóður greiðir 86% og atvinnurekendur 14%. — Nefndin hefur ekki fengið neinar tillögur um kostnaðarskiptingu frá ríkisstj. í því efni, ef fallist yrði á tillögur ASÍ, og því er óljóst hve stóran hluta þessara greiðslna er ætlað að Tryggingastofnunin greiði. Einnig hefur n. borist ósk félmrh. um að n. haldi að sér höndum meðan verið sé að kanna útreikninga og ræða þessi mál við aðila vinnumarkaðarins.

N. telur að margar skynsamlegar ábendingar, sem horfi til bóta, hafi komið fram hjá umsagnaraðilum og gagnrýnin á greiðslutilhögun hafi við viss rök að styðjast. N. telur þó varhugavert að fara inn á þá braut, að greiðslur í fæðingarorlofi verði að verulegum hluta greiddar af Tryggingastofnun og framkvæmdin hvíli að mestu eða öllu leyti á henni, án þess að sett verði ákveðið hámark eða að einhverju leyti staðlaðar greiðslur í fæðingarorlofi.

Benda má einnig á, að í tillögum ASÍ hefur komið fram sú ósk, að inn í frv. um fæðingarorlof verði tekið leyfi foreldra frá störfum í allt að 15 daga vegna veikinda barna yngri en 10 ára og annarra þeirra tilvika sem fram koma í umsögn ASÍ.

Í ljósi alls þessa og einkum að útreikningar um kostnað vegna tillagna ASÍ liggja ekki fyrir — og kostnaðarskipting vegna fæðingarorlofs er ekki ráðin, auk þess sem nauðsyn ber til að kanna ítarlega framkvæmdahlið tillagnanna sem að Tryggingastofnun ríkisins snýr, þá telur n., með tilliti til þess, hve stuttur tími sé til þingslita, að rétt sé að endurskoðunarnefnd almannatryggingalaga, sem samdi frv., verði fengið málið aftur og henni falið að samræma þær tillögur og umsagnir sem fram hafa komið í þessu máli.

Leggur n. áherslu á, að endurskoðunarnefndinni verði falið að hraða afgreiðslu þessa máls eins og kostur er og fullt samráð verði haft við aðila vinnumarkaðarins um lausn málsins, — einnig að lögin taki gildi eigi síðar en 1. jan. 1981, eins og ráðgert er í frv.

Í trausti þessa leggur n. til að málinu verði vísað til ríkisstj.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta nál., nema tilefni gefist til, og tel að nál. skýri vel afstöðu hv. heilbr.- og trn. til þessa máls.