16.05.1980
Neðri deild: 78. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2775 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. sem ég flyt ásamt hv, þm. Árna Gunnarssyni á þskj. 524, en brtt. þessi er við frv. til l. um breyt. á lögum um aðstoð við þroskahefta, 194. mál þingsins.

Sú lagabreyting, sem að er stefnt með frv. á þskj. 482, get ég fallist á að eigi rétt á sér vegna þess að annars stæðu sjálfseignarstofnanir og vistheimili þroskaheftra uppi þetta árið án nokkurs fjármagns. En hvers vegna standa þessi heimili uppi án fjármagns nema til komi þessi lagabreyting? Það er vegna þess að við afgreiðslu fjárlaga stóðu stjórnarsinnar að því að fella niður Styrktarsjóð vangefinna, sem veitt hefur fé til þessara heimila, en brtt., sem ég, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir og Karvel Pálmason fluttum í þá veru að þessir sjóðir fengju áfram fjármagn á fjárlögum, var felld af ríkisstj. og stjórnarsinnum við afgreiðslu fjárlaga. Nú kemur fram frv. sem bætir verkefnum Styrktarsjóðs vangefinna á Framkvæmdasjóð öryrkja án þess að gert sé ráð fyrir auknu fjármagni til sjóðsins til þess að hann geti staðið undir auknum verkefnum. Þessu mótmæli ég harðlega og því er fram komin þessi brtt. til að tryggja að á næsta ári renni örugglega viðbótarfjármagn til sjóðsins. Að öðrum kosti er borin von að hann geti bætt á sig þessum verkefnum, miðað við það fjármagn sem honum er nú ætlað.

Brtt. á þskj. 524 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á eftir 1. gr. frv. komi ný grein er verði 2. gr. og orðist svo:

Við a-lið 25. gr. laganna bætist:

Til viðbótar framlagi samkv. 1. málslið skal ríkissjóður leggja sjóðnum til a. m. k. 225 millj. kr., í fyrsta sinn á árinu 1981. Skal sú fjárhæð hækka í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar miðað við árið 1980 að grunni.“

Fyrir þessari brtt. er mælt nú til þess að félmn. gefist tækifæri til að skoða brtt. samhliða frv.

Ég rökstuddi ítarlega við fjárlagaafgreiðslu þá nauðsyn sem á því er að Styrktarsjóður vangefinna starfi áfram eða Framkvæmdasjóðurinn fái aukið fjármagn ef hann á að yfirtaka verkefni Styrktarsjóðsins og tel ég því ekki þurfa að endurtaka það nú. Talað er um í grg. að þau verkefni, sem Styrktarsjóður hafði, séu meðal forgangsverkefna sem veita þarf fjármagn til. Í þessu sambandi vil ég benda á að nú þegar hafa borist beiðnir um úthlutun úr Framkvæmdasjóði að upphæð 2.3 milljarðar, en sjóðurinn hefur úr að spila 1060 millj. Allt eru þetta forgangsverkefni vegna þess hve lengi málefni vangefinna hafa verið í fjársvelti. Auk þessa hefur Framkvæmdasjóður öryrkja verið skertur um tæpar 400 millj. frá því Alþ. samþykkti lög um hann s. l. vor og sú tilhneiging ansi ofarlega í hugum fjárveitingavaldsins og fjárlaga- og hagsýslustofnunar að ýta öllum verkefnum, sem að öryrkjum og þroskaheftum snúa, yfir á sjóðinn á sama tíma og fjármagn hans er skert.

Ég skora á hv. þm. að fylgja þessari brtt., sem tryggir að Framkvæmdasjóður öryrkja geti staðið undir þeim verkefnum sem honum eru ætluð með því frv. á þskj. 482 sem hér er til umr.