17.05.1980
Sameinað þing: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2782 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

231. mál, utanríkismál 1980

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég tek undir þakkir til hæstv. utanrrh. fyrir þá ítarlegu skýrslu sem hann hefur lagt fyrir Alþingi, þrátt fyrir skamman aðdraganda er hann gat að henni haft vegna þess hve stutt er síðan hann tók við embætti. Ég tel það vel farið að halda þeirri hefð, sem skapaðist fyrir einum til tveimur áratugum, að flytja slíkar skýrslur. En ég tel að hlutur Alþingis hafi hingað til — ég skal ekki segja hvað nú verður — setið eftir að því leyti, að umr. um þessar skýrslur hafa orðið miklu minni en tíðkast í nálægum löndum, sem við berum okkur oft saman við.

Hvað efni þessarar skýrslu snertir er ég í stórum dráttum sammála hæstv. utanrrh., en verð þó að gera undantekningu á sjálfum inngangi skýrslunnar. Þar gerir hæstv. ráðh. þá skyldu sína að tíunda hver hin formlega stefna ríkisstj. í utanríkismálum sé. Verð ég að segja að þótt ekki sé yfirlýsingin löng er hún sú furðulegasta af öllum slíkum yfirlýsingum um stefnu í utanríkismálum sem íslenskar ríkisstj. hafa haft, og er þá langt til jafnað. Það vekur undrun manna að í fyrsta skipti í 30 ár skuli ekki vera minnst á öryggis- og varnarmál. Það vekur undrun manna að flokkum stjórnarinnar er öllum veitt neitunarvald um eina tiltekna byggingu og sitthvað fleira. Svo kemur atriði, sem er afbragðsgott mál, en á e. t. v. ekki heima í kafla um utanríkismál, að gera skuli átak til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.

Ekki þarf að lesa lengra en í næstu línu á eftir þessari yfirlýsingu til að finna annan tón. Þar tekur hæstv. ráðh. einn til máls, af því að þetta er hans skýrsla, en ekki ríkisstjórnarinnar, og hann lætur sig hafa það, hversu svo sem stefnuyfirlýsingin er, að segja, með leyfi hæstv. forseta: „Í þessum ákvæðum felast engin meiri háttar nýmæli og verður því fylgt í meginatriðum sömu utanríkisstefnu og farið hefur verið eftir á undanförnum árum.“

Það er mikil bót að þessum tveimur línum sem hæstv. ráðh. setur strax á eftir stefnuyfirlýsingunni. Var raunar gott til þess að vita að svo reyndur og traustur maður skyldi fá þessa furðulegu yfirlýsingu til framkvæmda og að hann skuli gera það svo afdráttarlaust sem þessi orð sýna sem og gerðir hans í embætti. Við það vil ég lýsa trausti mínu um leið og ég lýsi undrun á stefnuyfirlýsingunni. Hún er sýnilega marklaust plagg, til þess eins gert að gefa Alþb.-mönnum eitthvert tilefni til að hæla sér af því að þeir hafi náð árangri í utanríkismálum. Þeir hafa reynt að gorta af því í útvarpsumr., þrátt fyrir að í hvert skipti sem þeim hefur gefist tækifæri til hafa þeir þegið ráðherrastóla þó þeir yrðu að svíkja öll sín orð og alla stefnu í meginatriðum utanríkismála.

Hæstv. utanrrh. fjallar í II. kafla um alþjóðamál og kemur víða við. Mun ég ekki eyða tíma þingsins í að ræða þá kafla. Þeir koma þar hver af öðrum, Afganistan fyrst. Íslendingar brugðust hart við þeim tíðindum sem þar gerðust. En þrátt fyrir það er ég sammála því sem hæstv. ráðh. sagði, að ekki dugi að gefa slökunarstefnuna upp á bátinn eða láta ótíðindin austur þar verða til að eyðileggja hana. Þarna er kafli um afvopnunarmál, sem því miður gæti raunar alveg eins heitið um vopnakapphlaup, svo lítill sem árangur er á alþjóðavettvangi á því sviði. Þá er fjallað um Austurlönd nær og Austur-Asíu og önnur atriði sem hæst hefur borið í utanríkismálum undanfarin tvö misseri.

III. kafli skýrslunnar fjallar um alþjóðastofnanir og svæðasamtök. Þar er byrjað á kafla um Sameinuðu þjóðirnar, og sé ég ekki að þessu sinni ástæðu til að ræða það frekar, enda hefur starf Íslands þar verið með hefðbundnum hætti.

Næsti kafli fjallar um Norðurlandasamvinnu, en um það mál langar mig til þess að segja örfá orð. Í skýrslunni segir:

„Hin nánu tengsl Norðurlandanna innbyrðis eiga eflaust sinn þátt í því, að þeim hefur tekist að standa vörð um frelsi sitt og hugsjónir.“

Þessu erum við vafalaust öll sammála. En næsta setning er á þessa leið:

„Allt eru þetta sjálfstæð og fullvalda ríki.“

Þetta er rétt um þau ríki sem sitja í Norðurlandaráði með fullum rétti. En ég held að við Íslendingar megum ekki gleyma því, að á svæði Norðurlandanna og raunar meðal þeirra eru þjóðir sem enn hafa takmarkað eða lítið sem ekkert frelsi. Þar á ég við Grænlendinga, sem rétt hafa náð því marki að fá heimastjórn. Þar á ég við Færeyinga, sem ekki eru fullkomlega sjálfstæð þjóð, þó að þeir hafi allmikla stjórn á eigin málum. Þar á ég líka við Álendinga og Sama.

Ef litið er á Norðurlöndin landfræðilega er afar nærtækt að skipta þeim í tvennt. Annars vegar eru gömlu konungsríkin og Finnland sem öll eru áföst við meginland Evrópu og mætti kalla Norðurlönd hm eystri. Hins vegar eru Færeyjar, Ísland og Grænland, þrjú lönd sem eru fyrrverandi nýlendur hinna og búa við mismunandi mikið frelsi. Þessi lönd mætti gjarnan kalla Norðurlönd hin vestri. Þau ná yfir gífurlegt landssvæði, en eru ekki byggilegri en svo, að íbúatalan í þeim öllum er aðeins um 300 þús. Þrátt fyrir það hafa þau mikla þýðingu, ekki aðeins fyrir hin Norðurlöndin, heldur fyrir nágranna sína í austri og vestri, þó lengra sé leitað en til Norðurlandanna. Þýðing Norðurlanda vestri verður seint fullmetin, hvorki á efnahagslegum né öryggisvettvangi.

Þessar þrjár þjóðir, Færeyingar, Íslendingar og Grænlendingar, hafa það sameiginlegt, að þær byggja afkomu sína að langmestu leyti á auðæfum hafsins. Okkur er þetta að sjálfsögðu mjög hugstætt einmitt nú, þegar við eigum í viðskiptum við Norðmenn annars vegar um svæðið fyrir norðaustan okkur og við Dani hins vegar, og sennilega fleiri áður en langt um líður, um svæðin fyrir norðan og norðvestan okkur. Þar að auki eigum við ólokið málum við Dani eða Færeyinga við Suðausturland, þar sem umdeilt svæði er vegna Hvalbaks, tæplega 4 þús. ferkílómetrar. Eins og sakir standa eigum við ólokið málum við Bretaveldi, sem hefur tekið sér 200 mílna landhelgi og notað Rockall sem grunnlínupunkt, sem við getum ekki með neinu móti viðurkennt. Sé miðað við Rockall sem grunnlínupunkt ganga landhelgissvæði Breta og Íslendinga hvort yfir annað. Þetta eru óleyst vandamál.

Ég tel að Norðurlöndin vestri, þessi þrjú lönd sem ég hef nefnt, þurfi að taka upp samband sín á milli miklu betra og meira en verið hefur. Við höfum haft uppi nokkra viðleitni varðandi samband við Grænland af hendi utanrrn. og verður því vonandi haldið áfram. Samband við Færeyjar hefur verið mikið um langt skeið, en þó er varla hægt að segja að á allra síðustu árum hafi það blómgast eða aukist sérstaklega. Nú er það svo stjórnarfarslega, að ef við vildum setjast á ráðstefnu með íbúum þessara landa ættum við að fara til Kaupmannahafnar og ganga þar í utanrrn. Sú leið er lagalega ekki fullnægjandi fyrir okkur, þó hún standi opin um það sem þar á við. Ég held því að Alþ. sé sá vettvangur sem auðveldast verði að nota til fyrstu tengsla á milli þessara þjóða þriggja. Alþ. hefur þegar boðið þm. frá Grænlandi hingað til lands í heimsókn og ég hygg að það standi einnig boð til færeyskra þm. Það væri vel af sér vikið ef forráðamenn þingsins gætu hagað því svo, að af tilviljun væru þm. þessara tveggja ríkja staddir hér samtímis. Við gætum þá byrjað að tala um hvernig við gætum unnið að því að tryggja afkomu og frelsi þeirra þjóða sem búa á Norðurlöndum vestri. Við verðum að gera okkur grein fyrir að það er heldur óskemmtileg tilhugsun að við höfum í 25 ára baráttu rekið úr túninu, fært út landhelgina og komið stórveldum eins og Bretum og Þjóðverjum út úr henni, en þeir ætla að ná sér niðri á okkur með því að koma að baki okkar, því að þeir hafa innlimað Grænland í Efnahagsbandalagið og þegar Danir færa út fær Efnahagsbandalagið yfirráð yfir geysilegu hafsvæði sem vefur sig um norðanvert og vestanvert svæðið rétt utan við landhelgi okkar, hafsvæðið sem við, Grænlendingar og að einhverju leyti Færeyingar ættum að hafa til að geta lifað sambærilegu lífi við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Þetta, sem fram undan virðist vera, er eins og endurvakning heimsveldisstefnunnar gömlu þegar danska landhelgisgæslan, nú að nokkru leyti kostuð af Efnahagsbandalaginu í Brüssel, tekur upp varðstöðu eftir línunni. Ég er hræddur um að margur íslenskur sjómaðurinn mundi finna fyrir þeirri breytingu.

Þetta eru viðhorf varðandi norrænt samstarf sem ég vil koma á framfæri og biðja menn að íhuga. Ég tel að Norðurlönd hin vestri séu svæði sem á saman og þau verði að skapa tengsl sín í milli og gera sig gildandi í Norðurlandaráði. Ef hin eldri Norðurlöndin þekkja sinn vitjunardag munu þau gera það sem þau geta til að greiða fyrir þessum þremur þjóðum í lífsbaráttu þeirra.

Landfræðilega lít ég svo á, að Jan Mayen heyri þessu svæði til. En ég nefni það ekki af því Norðmenn eiga þar ekki erindi. Þeir eru útþensluþjóð Norður-Atlantshafsins. Þeir ætluðu að sölsa undir sig Austur-Grænland og voru háð um það mikil málaferli í Haag, sem lauk árið 1933 með sigri Dana. Þeir reyndu að ná undir sig Svalbarða, tókst það að nokkru leyti en ekki öllu, því að tugir þjóða eru aðilar að samningi og eiga þar rétt á móti þeim. Eldfjallið Jan Mayen fyrir norðaustan okkur er það eina sem þeim hefur þó tekist að leggja algerlega undir sig.

Að öðru leyti get ég tekið undir það sem segir í skýrslunni um Norðurlandasamstarfið og að þátttaka í því sé okkur Íslendingum tvímælalaus ávinningur að mörgu leyti.

Evrópuráðið eru næstu samtök sem nefnd eru og get ég lítið um það sagt. Mér skilst að ýmsar sérdeildir þess vinni gagnlegt starf, sem sé þess virði að kosta nokkru til og taka þátt í. En ég fékk tækifæri til þess einu sinni að fara þangað á ráðherrafund og er það með ómerkilegri samkomum sem ég hef setið. Ég hygg að Evrópuþingið muni víkja fyrir þingi Efnahagsbandalagsins, en það þing mun, þegar fram líða stundir, hafa peninga og vald á bak við sig. Evrópuráðið virðist vera að þróast í þá átt að verða tengiliður á milli þeirra þjóða í Vestur-Evrópu og Suður-Evrópu, sem ekki eru í Efnahagsbandalaginu, og bandalagsþjóðanna.

Í IV. kafla fjallar hæstv. utanrrh. um Atlantshafsbandalagið og öryggismál Íslands. Eins og ég áður sagði fagna ég því, að þetta er honum ekkert feimnismál, þó að það hafi ekki verið nefnt í hinni hátíðlegu stjórnaryfirlýsingu, þeim verslunarsamningi sem gerður var á milli stjórnaraðila.

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. ráðh. tekur af skarið hvað stefnuna í varnarmálunum snertir. Það, sem hann segir um framlag okkar Íslendinga til varnarsamstarfs nágrannaríkja okkar og um eðli þess samstarfs, er hverju orði sannara.

Undirkafli er hér sem heitir varnarmáladeild. Það er að vísu stjórnunarlegt framkvæmdaratriði fyrir okkur. Þó verð ég að geta þess, að það er með ólíkindum að við skulum hafa getað stýrt varnarmálunum með 3 eða 4 starfsmönnum öll þessi ár. Kynni mín af þessum málum eru þau, að málefni Keflavíkurflugvallar eru ótrúlega umfangsmikil, og fyrstu mánuðina sem ég starfaði í utanrrn. hafði ég það stundum á orði, að það mætti ætla eftir setunni þar að veröldin skiptist í tvo hluta: 90% Keflavíkurflugvöll og 10% allt hitt. En það merkilega er, að viðskiptin við varnarliðið eru ekki verulega fyrirferðarmikil. Þetta er herlið og það er undir aga, þar eru tilteknir stjórnendur og það er tiltölulega auðvelt að gera sér grein fyrir því, hvaða viðhorf þeir hafa til ýmissa vandamála og hvernig viðbrögð þeirra verða.

En það umfangsmikla í kringum Keflavíkurflugvöll er allt íslenska dótið. Langmestur hluti af þeim aragrúa fólks, sem ég spái að hafi nú sótt um viðtöl hjá hæstv. ráðh. þessar fyrstu vikur eða mánuði, sem hann hefur setið í þessum stól, er að sækjast eftir peningum og peningagróða. Það er sorglegt og skammarlegt að þurfa að segja þetta, en þetta er rétt. Ég býst við að skýrsla yfir þá, sem hafa viðskipti við varnarliðið, mundi taka einar 3–4 þéttritaðar síður í því broti sem þessi skýrsla er.

En nóg um það að sinni. Ýmislegt hefur gerst sem er gagnlegt. Samstarf um byggingu sorpeyðingarstöðvar er lofsvert. Bygging nýrrar flugstöðvar er ákaflega viðkvæmt mál. Ég ætla ekki að verja tíma í umr. um það hér, en vísa til þess, að s.1. haust lagði ég fyrir þingið, sem þá sat, ítarlega skýrslu um það mál. Ég hygg að hún sé enn fáanleg, annars er hún í þingtíðindum, og þar er saga þessa máls rakin. Þann stutta tíma, sem ég hafði afskipti af þessu máli, var unnið að því að endurhanna stöðina þriðjungi minni en hún hafði verið áætluð. Síðan hafa gerst þau tíðindi í flugmálum að það er næsta eðlilegt að hæstv. utanrrh. taki þá stefnu að láta enn skoða þetta mál og athuga hvers konar stöð muni henta okkur best.

Þá er hér getið um annað mál sem er einnig umfangsmikið. Það snertir olíugeyma og allt sem þeim viðvíkur, það landrými, sem þeir taka og þá mengun, sem hefur verið frá þeim allt síðan flugvöllurinn var fyrst gerður á Miðnesheiði. Það mál var á s. l. ári tekið upp við varnarliðið á þeim grundvelli að varnarliðið yrði að kosta það, að tankarnir, sem allir kannast við og eru í útjaðri Njarðvíkur og Keflavíkur, verði lagðir niður. Meðan flugvöllurinn er starfræktur verði olíukerfi vallarins algjörlega endurbyggt á þann hátt sem viðunandi er samkv. tæknikröfum nútímans og alveg sérstaklega hvað umhverfi og mengun snertir.

Eitt af þeim nýmælum, sem hafa komið til sögunnar á flugvellinum, er skipun íslenskrar heilbrigðis- og mengunarnefndar og eru í henni, ef ég man rétt, bæði maður, sem þá var starfandi í Heilbrigðiseftirlitinu, og heilbrigðisfulltrúi byggðanna suður frá, og veit ég ekki betur en þessi nefnd hafi starfað af árvekni og dugnaði.

Margt fleira mætti segja um mál suður þarna, en ég læt þetta duga að sinni. Ég mun fara að dæmi hæstv. ráðh. og hv. formanns Sjálfstfl., sem talaði hér síðast, og sleppa hafréttarmálum alveg, enda eru þau til sérstakrar umræðu.

Ég vek athygli á IV. kafla, en þar er í annað skipti sérstakur kafli um flugmál. Margvísleg vinna í sambandi við alþjóðlegt flug er orðin veigamikill þáttur í starfi utanrrn. og þýðingarmikill fyrir íslenska hagsmuni og er rétt að það komi fram.

Kafli er um þróunaraðstoð. Það er einn af sorgarköflunum, e. t. v. þó ekki svo mjög í skýrslu sem utanrrh. gefur, vegna þess að það er fyrst og fremst Alþ. sem ber sök á því að Íslendingar hafa ekki lagt eins mikið til þróunaraðstoðar og fátækra þjóða og okkur ber siðferðileg skylda til miðað við þann auð, sem við búum við, og þau lífskjör.

Kaflann um utanríkisviðskipti mun ég einnig láta kyrran liggja. Venja er í þessum skýrslum, að viðskrn. leggur þennan kafla eða efni í hann til, af því að við höfum þá sérkennilegu skiptingu að utanrrn. staðfestir samninga um viðskipti við aðrar þjóðir, en öll framkvæmd þeirra og raunar gerð samninganna er á vegum viðskrn. Þetta hefur blessast ótrúlega vel, en þessi skipting getur valdið vandræðum í framtíðinni og fyrr eða síðar hygg ég að koma muni að því að á henni verði gerðar breytingar.

Síðasti kaflinn er að vanda um utanríkisþjónustuna almennt. Þar kemur fram, að þessi þjónusta, sem er sjálfstæðu ríki gífurlega mikilvæg, er rekin á þann hátt að hún er þjóðarbúinu ekki kostnaðarsöm, tekur aðeins hálfan hundraðshluta af ríkisútgjöldum. Hefur sú prósenta farið minnkandi með auknum ríkisumsvifum af því að utanrrn. hefur ekki lært á þá þrýstihópatækni, sem hér tíðkast mjög, að halda því fram að einhver ákveðin útgjöld eigi alltaf að vera tiltekin prósenta af heildartölu fjárlaga, hvort sem umsvif ríkisins eru meiri eða minni.

Ég hygg að hjá því verði ekki komist, áður en langur tími líður, að Alþ. taki ákvörðun um að verja meira fé til utanríkisþjónustunnar og bæta hana. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að það sé aðkallandi að fjölga sendiráðum. Það hefur verið rætt um einstaka möguleika hvað það snertir, en ég tel það ekki mestu skipta, heldur hitt, að þau sendiráð, sem mest hafa verkefni, eru allt of mannfá. Yfirleitt er sendiherra, með honum einn fulltrúi og einn eða tveir ritarar.

Ég skal nefna eitt dæmi. Sendiherra Íslands í Washington er einnig sendiherra hjá öllum ríkjum í Vesturálfu sem við höfum stjórnmálasamband við, og það er meiri hluti ríkja sem þar eru. Það er nokkurt starf að stunda það svæði allt, enda eru á því markaðsmöguleikar, menningartengsl við Kanada og margt fleira. Þar að auki hefur þessi sendiherra verið aðalfulltrúi á Hafréttarráðstefnu sem tekur 2–3 mánuði á ári. Að hann eigi einn með einum fulltrúa og ritara að geta sinnt öllu þessu sér hver heilvita maður að er honum algjörlega ofviða. Ég tel að við ættum að stefna að því að styrkja utanríkisþjónustuna á þann hátt að það verði örlítið meiri starfskraftar og að sendiráðin verði það vel mönnuð að þau geti annast verkefni sín á viðunandi hátt árið um kring.

Ég vil ljúka máli mínu á því að taka undir lokaorð skýrslunnar í tilefni af því, að utanríkisþjónustan er nýlega fertug eða rétt um það. Hún kom til eftir 10. apríl 1940, þegar Íslendingar tóku meðferð utanríkismála í eigin hendur af því að samband slitnaði við Danmörku. Ég er sammála því, að utanríkisþjónustan hefur unnið og vinnur með afbrigðum gott starf. Það er með ólíkindum að svo fátt fólk skuli geta annast svo mikil verkefni jafnvel og raun ber vitni.