17.05.1980
Sameinað þing: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2787 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

231. mál, utanríkismál 1980

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar skýrsla utanrrh. kom til umræðu í fyrra vakti ég máls á því, að hér væri í raun blandað saman erindum tveggja ráðuneyta, viðskrn. og utanrrn. Ég lýsti þeirri skoðun, að nauðsyn bæri til að Alþingi tæki almenn utanríkismál, en ekki síður viðskipta- og markaðsmál okkar erlendis til miklu ítarlegri umræðu en það hefur gert á undanförnum árum. Ég varpaði fram þeirri hugmynd, sem þáv. hæstv. utanrrh., sem nú var rétt að ljúka máli sínu, Benedikt Gröndal, tók að mig minnir vel í og einnig þáv. viðskrh., að fluttar væru á Alþ. tvær skýrslur: Önnur væri skýrsla um utanríkismál í þeim skilningi sem starfsskipting utanrrn. og annarra rn. felur í sér. Hin væri ítarleg skýrsla og yfirlit um markaðsmál og alþjóðleg viðskipti okkar Íslendinga ásamt lýsingu á störfum þeirra alþjóðlegu fjármála- og viðskiptastofnana og bandalaga sem við erum aðilar að. Tækifæri gæfist þá til þess að ræða þau mál hér ítarlega og réttur ráðh. væri fyrir svörum. Það kom greinilega fram hér áðan, þegar hv. þm. Geir Hallgrímsson fór að gera aths. um olíuviðskiptin, að það átti í rauninni erindi meir til viðskrh. og fyrirrennara hans en utanrrh.

Ég ætla ekki að rökstyðja þessa ábendingu nánar. Ég gerði það nokkuð ítarlega hér á Alþ. fyrir ári eða svo þegar skýrsla utanrrh: kom til umfjöllunar. En ég vil ítreka hér aftur þessa hugmynd: Það verði um tvær skýrslur að ræða, fluttar af viðskrh. og utanrrh., og það verði gefinn rækilegur tími á Alþ. til að ræða hvort tveggja.

Ég held að hvað markaðsmálin snertir standi Íslendingar frammi fyrir margvíslegum vanda og mikil nauðsyn sé á því að gera markaði okkar á meginlandi Evrópu öflugri og sterkari og þess vegna þurfi að skapa tækifæri í dagskrá þingsins til að það sé rætt. Ég vil til viðbótar taka eindregið undir það, sem hv. þm. Benedikt Gröndal var að segja hér áðan, að það þarf að flytja þessar skýrslur til þingsins það tímanlega að umræðan um þær blandist ekki ár eftir ár inn í þær miklu lokaannir sem hér fara fram. Skýrslurnar þyrftu að koma fram í síðasta lagi í febrúarlok eða marsbyrjun, ef vel ætti að vera, og þingið að gefa sér þannig góðan tíma, áður en lokalotan hefst, til að ræða þessi mál, bæði hin hefðbundnu utanríkismál og markaðs- og viðskiptamálin. Ég beini þessum hugmyndum einnig til núv. utanrrh. og núv. viðskrh. Ég fékk boð um það í ræðustólinn fyrir nokkrum mínútum að fráfarandi viðskrh. og núv. félmrh. hefði einmitt lagt drög að því í sinni ráðherratíð að slík skýrsla yrði undirbúin af hálfu viðskrn.

Í þeirri skýrslu, sem hér liggur fyrir, er vikið að æðimörgu, fjölmörgum þáttum alþjóðamála sem vissulega væri tilefni til að fjalla ítarlega um og gera aths. við, en til slíks er varla tími nú. En ég vil þó, áður en ég kem að meginmáli mínu varðandi þessa skýrslu, vekja athygli á tvennu. Mér finnst að í því mati, sem kemur fram í skýrslunni hvað snertir slökunarstefnuna og örlög hennar á síðustu mánuðum, gæti allt of einhliða ásakana eða söguskýringa, þar sem öll sök er lögð á hendur Sovétríkjanna fyrir það sem gerst hefur. (HBl: Er það að ástæðulausu?) Alls ekki að ástæðulausu. Það er ekki mín ætlan. En ég vil hins vegar vekja ríkulega athygli á því, að í Vestur-Evrópu hefur farið fram á undanförnum vikum og mánuðum mjög gagnrýnin umræða á framgöngu Bandaríkjastjórnar gagnvart slökunarstefnunni. Ég vil aðeins minna hv. þingheim á að það eru ekki liðnir nema nokkrir dagar síðan sá einstæði atburður gerðist, að utanrrh. Bandaríkjanna sá sig neyddan til að segja af sér vegna ágreinings við forseta Bandaríkjanna einmitt um aðgerðir sem gætu haft veruleg áhrif á örlög slökunarstefnunnar. Þessi sami utanrrh., Cyrus Vance, hafði óskað eftir því að fá að eiga fundi með utanrrh. Sovétríkjanna, en verið neitað um það af hálfu forseta Bandaríkjanna. Hann hafði lagst gegn hernaðaraðgerðum til lausnar Íransmálsins og fjölmörgum öðrum stefnuatriðum sem hinn herskái ráðgjafi forsetans í öryggismálum, Brezinsky, hafði lagt til og greinilega orðið ofan á í Hvíta húsinu.

Við, sem teljum okkur til vesturheims, getum ekki litið fram hjá því, að það fer fram mjög gagnrýnin umræða í Evrópu, á Norðurlöndum, í Bretlandi og á meginlandi Evrópu á þann þátt sem stjórnvöld Bandaríkjanna hafa átt í því að skerða framþróunarmöguleika slökunarstefnunnar á undanförnum misserum. Þau hafa gert þetta bæði með mjög breytilegum aðgerðum í utanríkismálum, sveiflukenndri afstöðu þar sem hún hefur færst frá skyndilegri hörku til skyndilegrar eftirgjafar, þar sem fer fram löng umræða um beitingu efnahagslegra refsiaðgerða, en fáeinum dögum síðar er beitt hernaðarlegum gagnaðgerðum, og fjölmörgu öðru. Ég sakna þess, að í gagnrýnu mati á þróun heimsmála skuli utanrrh. Íslands ekki víkja að þessari umræðu sem forráðamenn annarra vestrænna ríkja í Evrópu hafa verið mjög uppteknir af á síðustu vikum og mánuðum. Ég sé ekki að það þjóni almennum utanríkishagsmunum Íslendinga að endurtaka þær einföldu söguskýringar sem túlkendur utanríkisstefnu Bandaríkjanna á síðustu misserum hafa haft varðandi örlög slökunarstefnunnar.

Vissulega er það rétt, að innrásin í Afganistan og atburðirnir í Íran hafa haft alvarleg áhrif á þessa þróun. Það höfum við margir gagnrýnt. En veröldin er að þessu leyti ekki bara svört á annan veg. Hún er það einnig á hinn veginn.

Þetta var fyrra dæmið sem ég vildi nefna um þá einhæfu sýn sem mér finnst vera á gang heimsmála í þeim köflum skýrslunnar þar sem um þá þætti er fjallað. Seinna dæmið, sem ég vildi nefna, er þar sem fjallað er um framkvæmd samninga Ísraels og Egyptalands og stöðu Palestínumanna í þeim deilum sem háðar hafa verið á þessum svæðum. Hér er einnig að finna allt of einhæfa túlkun sem gengur að mínum dómi út frá skýringum sem ekki taka mið af aukinni viðurkenningu sem réttindi Palestínumanna hafa hlotið í Evrópu á síðustu misserum. Vegna þess að hv. þm. Benedikt Gröndal vék aðeins að Evrópuráðinu áðan og ég hafði tækifæri til þess að kynnast þeirri stofnun, þ. e. þingmannafundi þess fyrir nokkrum vikum, vil ég aðeins vekja athygli á að mínum dómi mjög merkri samþykkt sem þar var gerð að loknu þriggja ára starfi þingmannanefndar Evrópuráðsins og rannsóknum á átökunum í Mið-Austurlöndum. Þar kemur fram allt önnur sýn á þessi deilumál en fram kemur í þessari skýrslu, veruleg gagnrýni á hvernig aðgerðir Ísraels hafa torveldað lausn þessara mála, miklu afdráttarlausari viðurkenning á réttindum Palestínumanna en er að finna í þessari skýrslu. Þessi ályktun þingmannafundar Evrópuráðsins var samþykkt með öllum atkvæðum nema þingmanna afturhaldssömustu íhaldsflokka í Evrópu sem þarna áttu fulltrúa. Fulltrúar allra annarra flokka, sem þarna sátu, greiddu þessari ályktun atkvæði. Mér finnst ekki rétt að í skýrslu utanrrh. Íslands varðandi þessi miklu og örlagaríku deilumál sé tekið í strengi sem eru e. t. v. skyldari hægrisinnuðustu sjónarmiðunum í Evrópu en þeirri meginskoðun sem þar er nú að ryðja sér braut. Ég bendi þess vegna á þessa samþykkt sem nánari skýringar á því hvaða tökum þessi efniviður hefur verið tekinn af fulltrúum fjölmargra stjórnmálaflokka í Evrópu á allra síðustu vikum.

Áður en ég kem að þeim kafla skýrslunnar, sem fjallar um Atlantshafsbandalagið og öryggismál Íslands, sem ég ætla að gera aðalathugasemdir við, vil ég eindregið taka undir þau orð sem hv. þm. Benedikt Gröndal mælti áðan um nauðsyn samskipta Grænlands, Færeyja og Íslands. Ég tel að sú söguskoðun, sú stefnumótun, sem kom fram í orðum hans varðandi skiptingu Norðurlanda í eystri og vestri, og sá boðskapur, sem hann flutti þar um samtengingu hagsmuna þessara þriggja litlu eyríkja sem hér búa, sé hárrétt. Ég lýsi heils hugar stuðningi við þau sjónarmið sem þar komu fram. Það væri vissulega fagnaðarefni ef Alþingi Íslendinga gæti haft frumkvæði að auknum samskiptum þessara þjóða, sem eru þannig í sveit settar — tvær þeirra — að utanrrn. Danmerkur fer þar með formlega hlutdeild. Ég vil eindregið hvetja hæstv. núv. utanrrh. til að halda áfram því starfi sem fyrirrennari hans hóf varðandi eflingu aukinna samskipta þessara ríkja og þjóða.

Það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, að með eignarhaldi sínu á Jan Mayen er Noregur að gerast boðflenna, yfirráðaríki, útþensluríki, eins og hann orðaði það, á þessu hafsvæði. Það verður alltaf óeðlilegt að yfirráðaréttur Norðmanna yfir stóru hafsvæði kringum Jan Mayen geri þeim kleift að vera með puttana í samskiptum Norðurlandanna vestri, Grænlendinga, Færeyinga og Íslendinga, á þessu svæði. — Jan Mayen málið er að öðru leyti ekki til umræðu hér og skal ekki að því vikið, en ég tók mjög vel eftir þessum orðum hjá Benedikt Gröndal.

Hér hefur mjög verið gerður að umtalsefni sá kafli þessarar skýrslu sem ber heitið „Atlantshafsbandalagið og öryggismál Íslands,“ einkum og sér í lagi sú niðurstaða eða skoðun sem fram er sett í nokkrum mgr. í inngangi þessa kafla, þar sem fjallað er um herstöðina í Keflavík og eðli hennar og þeirrar varnarkeðju sem hún er talin vera hluti af. Þar segir m. a.:

„Atlantshafsbandalagið eru samtök þjóða með svipaða menningu og lífsskoðanir. Þær hafa komið sér upp varnarkeðju til að tryggja sig fyrir utanaðkomandi árás og í því skyni leggja þær allar eitthvað af mörkum. Framlag okkar Íslendinga hefur aðallega verið og er aðstaðan á Keflavíkurflugvelli. Óslitin varnarkeðja er öruggasta leiðin til að tryggja að aldrei þurfi að grípa til vopna.“

Þar segir enn fremur:

„Aðalhlutverk varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli er kafbátaleit og kafbátaeftirlit auk þess sem hún fylgist með ferðum hernaðarflugvéla. Mætti því e. t. v. allt eins vel nefna hana eftirlitsstöð eins og varnarstöð.“

Hér er komið að miklum kjarna máls — mjög alvarlegum kjarna máls. Ég er algjörlega ósammála þessari greiningu, þeirri niðurstöðu sem þarna er sett fram. Ég er ósammála henni án tillits til þess að ég er andstæðingur herstöðva hér á landinu, vegna þess að ég tel að þessi eðlisgreining á herstöðinni sé í efnisatriðum röng, í mjög veigamiklum efnisatriðum röng. Ég tel að það sé mjög alvarleg blekking ef þjóðþing Íslendinga og íslensk stjórnvöld hafa ekki áttað sig á þeirri eðlisbreytingu sem tæknibreytingar í vopnabúnaði og herafla hafa gert á herstöðinni í Keflavík, — eðlisbreytingu sem að mínum dómi, og ég tek það aftur fram að það mat er algjörlega óháð því að ég er andstæðingur herstöðvarinnar, fela það í sér að frá hertæknilegu sjónarmiði sé þessi herstöð orðin grundvallarþáttur í því árásarkerfi sem Bandaríkin hafa verið að þróa á Norður-Atlantshafi sem grundvallarþátt í því ógnarjafnvægi stórveldanna sem hv. alþm. Geir Hallgrímsson gerði að umræðuefni áðan.

Eðli þessa ógnarjafnvægis og tenging herstöðvarinnar við það er með þeim hætti, að hvað svo sem líður veisluglöðum yfirlýsingum Kosygins við hv. þm. Geir Hallgrímsson, sem er sá eini okkar sem er vinargestur þeirra Kremlverja, hvað svo sem líður yfirlýsingum Olof Palme um það að ekki séu kjarnorkuvopn á Skandinavíu, sem allir vita að í munni þeirra Svía tekur til annars svæðis en Norðurlandanna í okkar merkingu, þá eru öll innri rök eðlis þess vopnabúnaðar, sem þróast hefur í tengslum við Keflavíkurstöðina, og þess ógnarjafnvægis, sem stórveldin hafa byggt upp, hvort með sínum hætti, á þann veg að það eru yfirgnæfandi tæknilegar líkur til þess að herstöðin á Keflavík sé að verulegu leyti tengd kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna, jafnvel svo að þar séu einhvern tíma um sinn eða jafnvel að staðaldri vopn sem væri hægt að nota til kjarnorkuárása. (HBl: Talarðu nú þvert um hug þinn?) Nei. (HBl: Þú gerir það víst.) Nei, því miður, hv. þm. Halldór Blöndal. (HBl: Það er ekki rétt Það verður gaman að ræða það á eftir hérna.) Já, við skulum gera það. — Ég vil taka það skýrt fram, að ég er mér þess fyllilega meðvitandi, að það, sem ég hef verið að segja, eru mjög alvarleg orð. Ég tek það skýrt fram vegna þessarar ásökunar hv. þm., að ég tala ekki þvert um hug mér. Ég vek einmitt athygli á þessum þáttum vegna þess að ég hef grun um að e. t. v. þorri þm., jafnt þeir sem eru stuðningsmenn og andstæðingar Atlantshafsbandalagsins, hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvers eðlis þær tæknibreytingar eru sem hafa orðið á vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna og þeirri herstöð sem hér hefur verið á undanförnum 1015 árum. Orð eins og „eftirlitsstöð,“ orð eins og „varnarkeðja“ dylja þá miklu ógn vopnabúnaðarins sem felst í hlutverki þessarar stöðvar. Við skulum fara um það nokkrum orðum til að skýra nákvæmar hvað ég á við.

Frá því upp úr 1960 hefur meginþátturinn í vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna tengst því ógnarjafnvægi sem hv. þm. Geir Hallgrímsson gerði að umtalsefni alveg réttilega fyrr í dag. En hvað felst í þessu ógnarjafnvægi? Jú, í því felst að stórveldin hafi vopnabúnað sem getur tortímt mannvirkjum, tækjabúnaði og mannlífi hvert hjá öðru með sem stórvirkustum hætti á sem skemmstum tíma. Til þess að þetta geti gerst þurfa aðilar að búa yfir mjög háþróuðum upplýsingakerfum og mjög háþróuðum vopnabúnaði. Á síðasta áratug snerist þróun þessa ógnarjafnvægis nær alfarið upp í þá mynd, að það beindist fyrst og fremst að því að skipuleggja gagnkvæma eyðingu á vopnabúnaði hvers annars, þannig að hvert ríkið fyrir sig, sem hæfi árásina fyrst, gæti við fyrstu atlögu grandað sem mestu af þeim gjöreyðingarvopnum og hergögnum sem flyttu slík gereyðingarvopn hjá hinu ríkinu. Með öðrum orðum: Það var tækniþróun þessa gereyðingarkerfis sem varð meginþáttur uppbyggingar þess sem með réttu hefur verið kallað á íslensku ógnárjafnvægi, vegna þess að eðli þess er svo himinhrópandi að ef það væri sett í gang mundi það tortíma meginþorra lífs á jörðinni.

Henry Kissinger varð frægur fyrir það á sínum tíma að greina hver væri munur á eðli atómstyrjaldar og atómvopna og annarra styrjalda og annarra vopna, hvers konar grundvallarmunur væri falinn í því mati og þeim dómum sem yrði að leggja á það þegar samskipti ríkja færu fyrst og fremst að byggjast á slíkum vopnabúnaði. Það var einmitt sá kenningargrundvöllur sem fyrst gerði Kissinger þekktan meðal fræðimanna á þessum sviðum. Við Íslendingar höfum hins vegar ekki kynnt okkur mikið þessi fræði. Og við höfum e. t. v. vanrækt um of að kynna okkur hvaða eðlisbreytingar hafa orðið á herstöðinni hér í samræmi við þá uppbyggingu ógnarjafnvægisins sem bæði Bandaríkin og Sovétríkin hafa kappkostað hér í norðurhöfum.

Hvað Norður-Atlantshafið snertir er þetta ógnarjafnvægi fyrst og fremst byggt á þremur þáttum. Það er í fyrsta lagi byggt á mjög öflugu upplýsingakerfi, sem er ætlað að flytja boð um ferðir kjarnorkukafbáta um höfin hér í kring. Það er í öðru lagi byggt á flugvélum, sem eiga að geta þjónað þessu hlustunarkerfi og flutt sprengjur með kjarnaoddum ef til hættuástands kemur. Og það er í þriðja lagi byggt upp á kjarnorkukafbátum, sem er ætlað að vera árásartæki ef til átaka kemur milli þessara ríkja. Ógnarjafnvægið á Norður-Atlantshafi er byggt upp af þessum þremur þáttum: hlustunarkerfi, flugvélum og kjarnorkukafbátum. Og hvert er hlutverk stöðvarinnar í Keflavík? Jú, hlutverk stöðvarinnar í Keflavík er að vera lykilþáttur í þessu ógnarjafnvægi á Norður-Atlantshafi. Og með hvaða hætti? Jú, með eftirfarandi hætti:

Út frá Snæfellsnesi og Hornafirði og Keflavík liggja kaplar út í sjó, sem eru tengdir við flókið duflakerfi. Þau dufl eru búin þúsundum hljóðnema sem flytja hljóðmerki um ferðir kafbáta um höfin. Þessir kaplar koma hér í land og héðan eru svo send boð í hina stóru Norfolktölvu herafla vesturveldanna, sem er aðalmiðstýringartæki Bandaríkjanna í skipulagningu ógnarjafnvægisins. Án þess kapla- og hlustunarkerfis, sem hér kemur á land, væri ógerlegt fyrir Bandaríkin að reka grundvallarþátt sinn í upplýsingaundirstöðum ógnarjafnvægishernaðarins hér á þessu svæði.

Þessu til viðbótar flytja svo flugvélarnar, sem hér eru staðsettar, hljóðnemabaujur út á hafið með reglulegu millibili, þar sem þeim er varpað niður.

Annar þátturinn, flugvélaþátturinn, er einkum og sér í lagi byggður upp af tveimur megintegundum: Orion-flugvélunum, sem hér hafa verið um notkun tíma, og svo hinum nýju AWACS-flugvélum, sem hér eru staðsettar, en á engum öðrum stað á Norður-Atlantshafi. AWACS-flugvélarnar eru fljúgandi stýritæki, sem þar að auki eru búnar þeim kostum að þær geta truflað allt hlustunarkerfi Sovétríkjanna þegar hugsanlegur árásarflugfloti stefnir að Sovétríkjunum. Ég tel að það hafi fáar breytingar skapað jafnmikla árásarhættu fyrir Ísland á síðari árum og staðsetning AWACS-flugvélanna hér. Það er alveg ljóst, að það er enginn þáttur sem hugsanlega kann að ógna eins mikið því sem Sovétmenn kalla sitt öryggi eða sem Sovétmenn, ef til árásar kæmi, hefðu hvað mestan áhuga á að eyðileggja. (HBl: Þú berð þau nú fyrir brjósti.) Ég ber þau ekkert fyrir brjósti, en ég ber líf íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti, ég ber sjálfstæði íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti, og ég tel nauðsynlegt fyrir þjóðþing Íslendinga að gera sér grein fyrir því, hvort hér eru staðsett tæki sem skapa íslenskri þjóð gjöreyðingarhættu ef til átaka kemur. (HBl: Það er ekki að heyra að þú berir þjóðina fyrir brjósti.) Það yrðu ill örlög fyrir Engeyjarættina ef hún ætti að tortímast í kjarnorkuátökum eingöngu vegna AWACS-flugvélanna hér.

Þetta eru ekki gamanmál, hv. þm. Það má vel vera að við séum á ólíkri skoðun. Af minni hálfu eru þetta ekki gamanmál. Ég tel nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga, kannske ekki nú en — (Gripið fram í.) Þá fáum við hinn ábyrga málflutning byggðan á hinni miklu þekkingu hv. þm. væntanlega síðar í þessari umræðu.

Orion-flugvélarnar eru þess eðlis að þær geta hæglega og með lítilli fyrirhöfn borið sprengjur með kjarnaoddum: Það er ein af þeim spurningum sem hefur aldrei verið svarað, þrátt fyrir það sem hv. þm. Geir Hallgrímsson sagði fyrr í þessari umr., hvort Bandaríkjamenn eru hér tímabundið eða að staðaldri með þær sprengjur, eins og t. d. B–57 sprengjuna, sem Orionflugvélin er byggð til að flytja og henni er ætlað að flytja þar sem hún er annars staðar staðsett, ef það hlustunarkerfi, sem slíkar stöðvar eins og herstöðin hér eru tengdar við, gefur til kynna að um árásarhættu sé að ræða.

Við skulum ekki gleyma því, að stjórnvöld Bandaríkjanna hafa aldrei viljað játa því eða neita hvort á Íslandi séu staðsettar kjarnorkusprengjur, hvað svo sem íslensk stjórnvöld hafa sagt í þeim efnum. Þeir, sem til þekkja, vita að slík yfirlýsing stjórnvalda Bandaríkjanna, að hvorki játa né neita, er gerð til þess að hlífa stjórnvöldum þar sem slík vopn eru staðsett. (ÁG: Þetta er í lögum Bandaríkjahers, Ólafur. — Gripið fram í: Kosygin segir að hér séu ekki kjarnorkuvopn.) Það er ekki í lögum Bandaríkjahers, vegna þess að Bandaríkin hafa gefið út margvíslegar yfirlýsingar og margvísleg kort yfir svæði þar sem kjarnorkuvopn eru ekki geymd.

Í þriðja lagi er ógnarjafnvægið hér á Norður-Atlantshafi byggt upp af kjarnorkukafbátum sem bæði af hálfu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna eru árásarkafbátar búnir kjarnorkuvopnum. Það er eitt af því sem skort hefur nánari umræðu um hér á Íslandi, hver sé tæknibúnaður og tæknilegt eðli þeirra kjarnorkukafbáta sem hér eru aðallega í höfunum í kringum okkur. Þeir eru mjög mismunandi, búnir mismunandi eiginleikum og gegna mismunandi hlutverki í undanfara árásar eða til varnar ef til árásar kemur.

Um þetta mætti hafa mörg fleiri orð. Í þessari umræðu hér, — en samið hefur verið um það að hún yrði frekar stutt svo þingstörf gætu haldið áfram hér á síðustu dögum, — væri vissulega tilefni til að fara miklu ítarlegar í þessa þætti. Það má vel vera að einstakir þm., eins og sá sem hér hefur verið að grípa fram í fyrir mér, Halldór Blöndal, telji sig hafa yfir slíkri þekkingu að ráða í þessum efnum að hann geti án nokkurs vafa neitað fullyrðingu minni um að herstöðin í Keflavík sé grundvallarþáttur í því kjarnorkuvopnaógnarjafnvægi sem stórveldin hafa verið að þróa á síðustu 20 árum á Norður-Atlantshafi. Það má vel vera að hann geti neitað því án nokkurs efa í hjarta. En ég segi það hins vegar, og ég tek aftur fram, að það er algjörlega án tillits til þess að ég er andstæðingur herstöðvarinnar í Keflavík, heldur eingöngu með því að líta á gögn málsins, með því að líta á eðli þess ógnarjafnvægis sem þróast hefur á Norður-Atlantshafi, með því að líta á hlustunarkerfið, með því að líta á flugvélabúnaðinn og með því að líta á kaplakerfið, með því að líta á tengslin við Norfolk-tölvuna og með því að líta á eðli kjarnorkuvopnakafbátanna, að ég get ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu að það séu yfirgnæfandi líkur til þess, að herstöðin í Keflavík sé lykilþáttur í kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna sem þróast hefur á síðustu 20 árum sem einn meginþáttur ógnarjafnvægisins í Norður-Atlantshafi. (HBl: Dreymir þig Afganistan?)

Örlög afgönsku þjóðarinnar eru ömurleg, og við skulum ekki reyna að hugga okkur við það, að það sé einhver afsökun fyrir vanrækslu okkar á þjóðþingi Íslendinga þótt aðrar þjóðir þurfi að búa við innrásarheri í sínu landi. (Gripið fram í: Það er miklu sjálfsagðara.) Jú, við getum haldið áfram að telja upp þær þjóðir, sem glatað hafa frelsi sínu, og telja upp þá atburði, hv. þm. Halldór Blöndal, sem gerst hafa í veraldarsögunni á síðustu áratugum. (HBl: Og læra ekkert af því?) Jú, en í þeirri sögu er líka nefndur einn staður sem heitir Hírósíma, tákn um það, vitnisburður um það, hvað gerist þegar kjarnorkuvopnum er beitt. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er hvergi í heiminum stöð sem er jafnmikilvæg í tæknilegu tilliti fyrir vígbúnað stórveldis, í jafnmikilli nálægð við íbúamiðstöð og stöðin í Keflavík er. Með því að staðsetja herstöðina þar sem hún er erum við að stofna lífsöryggi meir en helmings íslensku þjóðarinnar í hættu. (Gripið fram í.) Hv. þm. er greinilega í „galgenhúmör“ Engeyjarættarinnar í dag, en ég tel þessi mál það alvarleg að ég ætla ekki að eiga við hann frekari orðaskipti hér úr ræðustólnum og tefja tíma þingsins í þeim efnum. (VG: Ekki skensa Engeyjarættina.) Nei, það er rétt, ég var búinn að gleyma því að hún var viðkvæmt mál fyrir fleiri hér í salnum. Það er alveg rétt, og má kannske skjóta því inn sem gamanmáli, að hv. þm. Vilmundur Gylfason mun vera orðinn prókúruhafi Engeyjarættarinnar, aðaltalsmaður hennar hér á þingi, og ég bið hann afsökunar að hafa ekki áttað mig á þeirri breytingu sem orðið hefur á valdahlutföllum innan Engeyjarættarinnar á undanförnum árum.

En svo vikið sé aftur að alvöru málsins tel ég það vera eitt af því sem Íslendingar þurfi að gera upp við sig, þjóðþing Íslendinga þurfi að gera upp við sig, hvort niðurstaða hæstv. utanrrh. í þessari skýrslu, að öryggi landsins hafi vaxið við þær breytingar sem orðið hafa á stöðinni á undanförnum árum, sé ekki röng, hvort þvert á móti sá tæknibúnaður, þær tæknibreytingar sem þar hafa orðið, sú tenging stöðvarinnar inn í ógnarjafnvægi stórveldanna, hafi ekki einmitt gert það að verkum að árásarhættan, tortímingarhættan, sem blasir við íslenskri þjóð, sé miklu meiri.

Ég vil að lokum segja það, hæstv. forseti: Það hafa verið háðar miklar deilur um áratugi um herstöðina hér. Fyrri ræðumenn hafa verið að hnýta í Alþb. Ég ætla ekki að nota þennan tíma til að svara því. En það er þó ýmislegt sem Alþb. hefur orðið ágengt í sinni baráttu, þótt hv. þm. Benedikt Gröndal teldi það vera lítið. Okkur tókst t. d. á s. l. ári í samvinnu við aðra góða menn að koma í veg fyrir að þáv. utanrrh. hleypti hermönnum út um allt þjóðlíf á nýjan leik. En ég ætla ekki að fara í þau orðaskipti hér, heldur aðeins hvetja til umræðna og skoðunar hjá stjórnvöldum innan þings og utan á næstu mánuðum og misserum á eðli þeirrar herstöðvar sem á of einfaldan og að mínum dómi alrangan hátt er afgreitt í orðum þeirrar skýrslu sem aðallega hafa verið gerð að umræðuefni bæði utan þings og innan.

Það hefur stundum verið sagt af talsmönnum herliðsins hér, að það væri landfræðileg lega Íslands sem skapaði árásarhættu. Ég tel þvert á móti að það sé eitt af megineinkennum vígbúnaðarkapphlaupsins á síðustu 20 árum, að það sé ekki landfræðileg lega, sem fyrst og fremst skapi slíka árásarhættu hér í Norður-Atlantshafi, heldur staðsetning þess tækjabúnaðar sem skiptir meginmáli í að úrskurða sigur eða ósigur ef til átaka kemur til stórveldanna. Það er að mínum dómi tækjabúnaður stöðvarinnar sjálfrar og tengsl hennar við annan tækjabúnað í ógnarjafnvægishluta Bandaríkjanna sem gerir það að verkum að herstöðin hér er öruggt skotmark, eitt mikilvægasta skotmarkið ef til átaka kemur í þessum heimshluta. (Gripið fram í: Skotmark hvað?) Þróun tækjabúnaðarins felur það í sér að landið býr við árásarhættu. Það er ekki landfræðilega legan, sem hefur verið meginstoðin í kenningum stuðningsmanna herliðsins hér, sem skapar hættuna, heldur eðli tækjabúnaðarins. (HBl: Hver ætlar að skjóta á okkur?) Það geta ýmsir skotið á okkur. Okkur getur stafað hætta úr ýmsum áttum. Ef hv. þm. liti yfir söguna ætti hann að minnast þess, að það eru nú ekki liðin nema 40 ár síðan hingað kom herlið til að vernda okkur gegn Þjóðverjum.

Í öðru lagi hefur það verið meginröksemd stuðningsmanna herstöðvarinnar hér, að hér væri um varðstöð að ræða. Ég tel þvert á móti að þær tæknibreytingar, sem orðið hafa á vopnabúnaðinum, geri það að verkum að í besta falli er ekki lengur hægt að greina á milli hvað eru varnartæki og hvað eru árásartæki í þessum efnum. Ýmsir þekktir alþjóðlegir sérfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu, að það sé í raun og veru ekki hægt að nota hugtök eins og varnarstöð eða árásarstöð þegar um háþróaðan tæknibúnað í ógnarjafnvæginu er að ræða. Þess vegna má alveg eins færa að því sterk rök, að stöðin hér sé lykilþáttur í árásarkerfi því sem beint er að Sovétríkjunum eða öðrum ríkjum í þessum heimshluta.

Og í þriðja og síðasta lagi bendir að mínum dómi greining á þessum breytingum eindregið til þess að a. m. k. sé herstöðin á Íslandi orðin lykilþjónustuaðili við kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna hvað upplýsingaöflun og eftirlit snertir og í versta falli geymslustaður, varanlegur eða tímabundinn, fyrir þær sprengjur sem flugvélar geta flutt og búnar eru kjarnaoddum.

Það er rétt, sem hv. þm. og fyrrv. hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson sagði hér fyrr í dag: Íslensk stjórnvöld hafa aldrei veitt Bandaríkjunum leyfi til að vera hér með slík tæki. Það hefur verið sameiginleg stefna allra íslenskra flokka að hér væru ekki kjarnorkuvopn. En dæmi sögunnar eru nægilega mörg til að sýna okkur að stórveldin, jafnvel Bandaríkin, hirða ekki um að segja smáríki frá öllu því sem það aðhefst. Víetnam, Kampútsea og fleiri lönd frá tíma þess ágæta manns Henry Kissingers, sem ég gat um hér áðan, eru einmitt ágætt dæmi um það, hvernig stórveldi fer fram sínum hagsmunum hjá smáu ríki án þess að vera endilega að spyrja um eða segja frá því. Það er skylda Íslendinga allra, bæði þings og stjórnvalda, að ganga úr skugga um það með öruggum hætti að við getum sagt hér öll efalaust að Ísland sé á engan hátt tengt því kjarnorkuvopna-ógnarjafnvægi sem tortímt getur öllu lífi í veröldinni ef til átaka kemur milli stórveldanna.