17.05.1980
Sameinað þing: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

169. mál, símamál

Með tilvísun til skrifa varðandi fyrirspurn um símamál á þskj. 371, tölul. I, skal eftirfarandi upplýst:

Samkvæmt bréfi samgönguráðuneytisins, dags. 1979–02–16, hefur stofnunin pantað efni til svonefndrar Karlsontalningar á innanbæjarskrefum, en verklegar framkvæmdir að þessu leyti eru ekki enn þá hafnar.

Svör við einstökum spurningum:

1. a) Innkaupsverð er 40 millj. kr. Aðflutningsgjöld eru 55 millj. kr.

b) Gert er ráð fyrir að framkvæmdum hér að lútandi ljúki í byrjun næsta árs.

c) Sá hinn sami og fram kemur í þingsályktun 28. mars 1974, sem samþykkt var af þingmönnum úr öllum flokkum.

d) Réttlátast er að sama gjaldtaka verði tekin upp alls staðar á landinu samtímis.

e) Það hlýtur að verða stjórnmálaleg ákvörðun hversu margir áfangar verða hafðir á leiðinni til fullrar jöfnunar símagjalda.

Hæstvirtur samgönguráðherra mun að sjálfsögðu velja réttláta lengd innanbæjarskrefa og skrefagjald.

f) Meðallengd innanbæjarsímtala í Reykjavík er samkvæmt mælingum 2.6 mín. og mælingar á undanförnum árum hafa gefið svipaða niðurstöðu.

g) Tekjur af innanbæjarsímtölum aukast, en tekjur af langlínusímtölum í sjálfvirka símakerfinu verða lækkaðar að sama skapi.

h) Gjaldtökunni má stýra hliðstætt næturtaxtanum.

2. Í sambandi við fyrirspurnina undirlið 2 skal upplýst að tiltölulega nýlega eru komin á markað erlendis tæki sem leysa vandann sem hér um ræðir. Hver stjórnsýslustofnun þarf þá að fá settan upp búnað eða sérstakt tæki með 2 númerum á hverri sjálfvirkri símstöð landsins, en þær eru 87 talsins. En hugsanlega mætti komast af með að setja þennan búnað eingöngu á hnútstöðvarnar sem eru 20. Þá losnuðu menn við dýrustu langlínutaxtana (8, 10 og 12 sek.) og verulegur sparnaður næðist í tækjabúnaði og númerum í sjálfvirka símakerfinu.

Jón A. Skúlason.