17.05.1980
Efri deild: 93. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2797 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

67. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér er að vísu á döfinni mál sem ég er andvígur. Ég er alinn upp í sjávarþorpi og kynntist þegar í æsku þessu dýrlega afbrigði íslensku sauðkindarinnar, garðrollunni, sem var kölluð stökkrolla á Austfjörðum, þar sem ég ólst upp, eða klifurrolla, því að sum afbrigði hennar hafa lært að klifra upp girðingarstaura. Það mun vera um þessi sérstöku afbrigði sauðkindarinnar líkt og um forustuféð að þeim afbrigðum er ekki til að dreifa í öðrum löndum. Ég er því mótfallinn að stuggað sé við þessu fé eða gerðar ráðstafanir til að útrýma því. Ég mun þó ekki gera það að úrslitaatriði nú á síðustu þingdögum. En hin tvö fyrri málin eru þess háttar, sem hér eru á dagskrá, að ég fylgi þeim eindregið. Ég er þeirrar skoðunar, að smjörlíki, þó vont sé, sé þess háttar að við komumst ekki hjá því að framleiða það og megi gera þær breytingar sem um er rætt. Ég tel einnig að við eigum að stuðla að fækkun refa og minka. Ég vík því til hæstv. forseta að við afgreiddum öll þessi mál í breyttri röð við 3. umr. ef það mætti koma því þannig til leiðar að refirnir yrðu þá látnir annast útrýmingu garðrollunnar og við gætum eitrað að svo búnu fyrir þá með smjörlíki.