17.05.1980
Neðri deild: 79. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2801 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem ég flyt ásamt Sighvati Björgvinssyni við frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð og er á þskj. 567. Þetta eru raunar tvær brtt. Í fyrsta lagi er brtt. við 5. gr., a-lið 2. mgr., að hún orðist svo:

„Viðbótarframlag ríkissjóð með hliðsjón af vinnsluvirði iðnaðar undanfarin ár, samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar, eins og ákveðið kann að vera af Alþingi hverju sinni.“

Þetta skýrir sig sjálft.

Í öðru lagi er ekki alveg ljóst af textanum með hvaða hætti vaxtaákvarðanir eigi að vera. Þó má gera ráð fyrir að ætlað sé að vaxtaákvarðanir verði í samræmi við lög nr. 13 frá 1979. En til þess að taka af öll tvímæli um þetta leggjum við til að við 7. gr., þar sem fjallað er um vexti og vaxtaákvarðanir hins væntanlega sjóðs, bætist: „enda verði fyrir árslok 1980 komið á fullri verðtryggingu útlána.“

Hér er um raunvaxtaaðferðina að ræða og eins og hún hefur verið samþ. sem lög frá Alþingi, í lögum nr. 13 frá árinu 1979.

Ég held, herra forseti, að það þurfi að leita afbrigða til að fá þessa till. rædda.