17.05.1980
Neðri deild: 79. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að taka þátt í almennum eldhúsdegi um iðnaðarmál, til þess höfum við ekki tíma nú alveg í þinglok. En ég vil taka fram, að það mun vera rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þær upplýsingar, sem þær stofnanir, sem eru okkur alþm. til ráðuneytis um ástandið í atvinnuvegunum, hafa, eru auðvitað eins til eins og hálfs árs gamlar. Svo er einnig um þær upplýsingar sem þessar stofnanir hafa um málefni iðnaðarins.

Ég held að það fari hins vegar ekki á milli mála hjá okkur, sem reynum að fylgjast með í hinu daglega lífi án þess að meta allt eftir tölum á pappír, að á s. l. ári hafa verið að gerast heldur uggvænlegir atburðir í sambandi við atvinnumálin og þá ekki hvað síst iðnaðinn, því að ég held að flestir þm. geti borið vitni um að upp á síðkastið og þá einkum og sér í lagi síðustu mánuðina hefur mjög verið að færast í vöxt að yngri menn, iðnlærðir, hafa verið að flytjast frá Íslandi til annarra landa. Það er nú orðið svo, að heita má að í svo til hverri einustu stórbyggingu í Reykjavík, sem hefur 500 íbúðir eða fleiri, sé einn maður sem er að fara, annað hvort einn eða með fjölskyldu sína, til nálægra landa í atvinnuleit. Flest af þessu unga fólki er iðnlært. Þetta sýnir auðvitað og sannar að þarna eru á ferðinni atvinnuerfiðleikar eða erfiðleikar í þessari atvinnugrein sem gjarnan byrja fyrst hér á Reykjavíkursvæðinu. Það gefur líka auga leið að ef menn, sem stjórna landinu, taka þá ákvörðun að nýta ekki aðra af þeim tveimur auðlindum, sem helst geta staðið undir lífsafkomu þjóðarinnar, nema að takmörkuðu leyti, verða samfélagsborgararnir að sjálfsögðu að fórna talsverðu af kjörum sínum.

Ég man eftir því, án þess að ég ætli að hefja neina umr. um það, að ég var áhorfandi og áheyrandi uppi á þingpöllum þegar umr. fóru fram á sínum tíma um vísi að stóriðju á Íslandi. Þá var því gjarnan haldið fram af þeim, sem voru andvígir því að reynt yrði að fara út á þá braut, að með stofnun álvers við Straum væri verið að leggja grundvöllinn að því að Ísland yrði varanlegt láglaunasvæði, hér væri verið að búa til láglaunahópa sem mundu sæta kjörum langt neðan við það sem gerðist í öðrum atvinnuvegum. Nú er ekki lengur um þetta rætt, því ég held að það sé almennt viðurkennt að þeir, sem starfa við þessa verksmiðju, njóti talsvert betri kjara en aðrir sem eru í sambærilegum störfum víðast hvar annars staðar í landinu. Ég held að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson o. fl., sem hafa fylgst með kjaramálum í tengslum við álverið, geti staðfest að þetta er rétt.

Við skulum ekki fara frekar út í þessa sálma. Stóriðja hefur bæði sína kosti og galla, — þar verða menn að fara varlega, — en hitt er auðvitað alveg fráleitt, eins og núv. ríkisstj. hefur gert, að lýsa því yfir að við það árferði, sem íslenska þjóðin býr nú, þegar Íslendingar þurfa á öllu sínu að halda til að geta haldið til jafns við aðrar þjóðir, sé stefna hennar að nýta ekki nema að mjög takmörkuðu leyti aðra af mikilvægustu auðlindum landsins- aðra af þeim auðlindum sem einar geta tryggt almenningi á Íslandi sambærileg kjör við aðra.

Ég ætla fyrst og fremst að fara örfáum orðum um till. þá, sem við Vilmundur Gylfason flytjum á þskj. 567, til viðbótar við það sem hv, fyrri flm. þeirrar till., Vilmundur Gylfason, sagði áðan, vegna þess að hæstv. iðnrh. hefur talið ástæðu til að fara nokkrum orðum um þessa tillögu.

Í fyrsta lagi vil ég minna á, að frá því við Alþfl.-menn fórum fyrst að berjast fyrir jákvæðum raunvöxtum og benda á að slík vaxtastefna væri mikið atriði í baráttunni við verðbólgu hefur þeirri skoðun stöðugt vaxið fylgi, þó svo hún sé síður en svo óumdeild. Í þeirri afstöðu okkar, að lán eigi að veita þannig að menn endurgreiði þau til baka í jafnvermætum krónum, felst að sjálfsögðu ekki að við Alþfl.-menn séum andvígir því að einstaklingum, atvinnufyrirtækjum eða atvinnuvegum í landinu verði veittir styrkir af almannafé. Það, sem hins vegar felst í þessari skoðun okkar, er það einfalda atriði að menn skilji á milli styrkja og framlaga annars vegar og lána hins vegar, lán séu lán, þau séu tekin til að endurgreiða, styrkir og framlög séu hins vegar það sem á Íslandi hefur oft verið kallað „lán“ á þessum verðbólgutímum.

Það frv., sem hér er til umr., frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð, gerir ráð fyrir að sjóður þessi geti veitt styrki og framlög til iðnaðar, iðnfyrirtækja og atvinnuvegarins væntanlega í heild, til sérstakra verkefna. Það er gert ráð fyrir að fjármagni sjóðsins sé hægt að veita til atvinnufyrirtækja og einstaklinga án þess að viðkomandi aðilar þurfi að endurgreiða þetta fé í jafnmiklum verðmætum og nemur þeim verðmætum sem þeir fengu afhent. Þetta kemur fram í 8. gr., en þar segir, með leyfi forseta, að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita styrki eða framlög sem nemi allt að'Is af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins o. s. frv. M. ö. o.: það liggur alveg ljóst fyrir að þessi sjóður, sem stofnsettur er, eins og hæstv. iðnrh. segir, til að veita atvinnulífinu — í þessu tilviki iðnaðinum — nokkra vítamínsprautu samkv. orðanna hljóðan í 8. gr. frv., getur notað hluta af fé sínu til beinna styrkjagreiðslna. M. ö. o. þarf ekki að koma endurgjald fyrir fjármagnsútvegunina í jafnmiklum mæli og nemur þeim fjármunum sem til viðkomandi fyrirtækis var varið.

Þegar hins vegar er rætt um í 7. gr. hver lánskjör eigi að vera er verið að ræða um það sem við köllum lán, en hvorki styrki né framlög. Alþ. hefur markað ákveðna stefnu um að þegar rætt er um lán úr fjárfestingarlánasjóðum og öðrum slíkum sjóðum og stofnunum skuli stefnt að jákvæðum raunvöxtum í áföngum. Þetta var ákveðið í svokölluðum Ólafslögum sem lögleidd voru hér á Alþ. fyrir um það bil einu ári. Þetta mál, sem hér er á ferðinni, á hins vegar að afgreiða eftir samþykkt þeirra laga. Þess vegna teljum við flm. þessarar till. nauðsynlegt að Alþ. kveði ótvírætt á um að það eigi að fara með lánsfjármál þessa sjóðs með sama hætti og lánsfjármál allra annarra sjóða atvinnuveganna. Mér finnst ekkert réttlæti í því, að þegar búið er að ganga út frá því í lagatexta að viðkomandi sjóður geti veitt óafturkræf framlög og styrki eins og þörf er á að hann geti veitt sé jafnframt verið að gefa í skyn að þau lán, sem hann kunni að veita, eigi að vera með hagstæðari kjörum en lán lánasjóða annarra atvinnuvega. Mér finnst ekki samræmi í því. Því finnst okkur eðlilegt að setja inn í lagatextann um lánakjör og vexti sambærilegt ákvæði og þegar er búið að samþykkja í svokölluðum Ólafslögum um alla aðra sjóði allra annarra atvinnuvega, þannig að það liggi ljóst fyrir að það sé ekki tilgangur Alþingis, að sé um lánveitingar úr Iðnrekstrarsjóði að ræða séu þær lánveitingar með einhverjum öðrum kjörum og hagstæðari en t. d. lánveitingar eru úr lánasjóðum fiskiðnaðar, fiskveiða eða landbúnaðar, heldur sé þarna um að ræða sambærileg lánskjör og sjóðir annarra atvinnugreina bjóða. En ég vek enn athygli á því, að sjóðnum er mögulegt og auðið samkv. lagatextanum að veita við hliðina á lánunum styrki og óafturkræf framlög. Því höfum við ekki hugsað okkur að breyta. Við viljum aðeins að frá því verði gengið kvitt og klárt í þessum lögum eins og öðrum að lán séu lán og styrkir styrkir. Okkur finnst óeðlilegt að aðrar reglur eigi að gilda um útlán — þá er ég að tala um lán, raunveruleg lán, ekki styrki og framlög — og lánskjör Iðnrekstrarsjóðs en gilda um lánskjör annarra lánasjóða.

Sé skilningur á því á Alþ. að ávöxtunarkjör hafi eitthvað með verðbólgumál að gera, er enn ríkari skilningur á því, að það er orðið mjög varhugavert hversu ýmis framlög úr ríkissjóði eru bundin sjálfvirkt með öðrum lögum. Það er skilningur fyrir þessu sjónarmiði, að ég hygg í öllum flokkum þingsins. Þess vegna var samþykkt í Ólafslögum svokölluðum á s. l. vori svo hljóðandi ákvæði, í 8. gr. þeirra laga, með leyfi forseta:

„Fyrir árslok 1979 skulu ákvæði í lögum, sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða og einstakra verkefna með föstum reglubundnum hætti, tekin til endurskoðunar, og það kannað, að hve miklu leyti fjárframlög til þessara þarfa verði framvegis ákveðin með fjárlögum ár hvert, og í áætlun með fjárlagafrv. næstu þrjú árin eftir lok hvers fjárhagsárs, sbr. 7. gr. Við endurskoðun þessa skal höfð sérstök hliðsjón af stöðu og verkefnum einstakra sjóða, m. a. með tilliti til félagslegra markmiða.“

Þessi endurskoðun á hinum sjálfvirku framlögum úr ríkissjóði er þegar hafin fyrir nokkru undir forustu fyrrv. hæstv. fjmrh., Halldórs E. Sigurðssonar. Nefndin sem með þessa endurskoðun fer, er mjög langt komin í starfsemi sinni og allir nm., án tillits til þess í hvaða flokki þeir eru, eru sammála um að mjög brýna nauðsyn beri til að endurskoða þessa sjálfvirkni framlaga og afnema þau að mjög verulegu leyti, ekki vegna þess að menn hafi endilega í hyggju að lækka þau framlög úr ríkissjóði, sem varið hefur verið til tiltækra þarfa samkv. sjálfvirkum ákvæðum annarra laga, heldur vegna þess að menn viðurkenna að til að geta náð stjórn á ríkisfjármálunum, til að geta beitt þeim sem tæki í verðbólguástandi verði fjárveitingavaldið, Alþ. og ríkisstj., að geta vegið og metið aðstæður í hverju tilviki hvað varðar fjárveitingar til einstakra þarfa atvinnuvega eða stofnana með tilliti til aðstæðna á hverjum tíma, en ekki með tilliti til einhverra laga sem sett voru kannske fyrir 10, 15 eða 20 árum og bundu þessi framlög við ákveðnar prósentutölur sem eru gersamlega úreltar og í engu samhengi við allt annað sem verið er að gera. Vegna þessa skilnings, sem kom fram í þessari lagasetningu, og þeirrar endurskoðunar, sem fram fer nú og er á lokastigi, skýtur meira en lítið skökku við ef Alþ. ætlar nú allt í einu að fara að afgreiða lög eins og hér um ræðir um Iðnrekstrarsjóð, þar sem í 5. gr. er ákveðið að meðal þess, sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar, sé framlag úr ríkissjóði sem miðist að lágmarki við 0.6% af vinnsluvirði iðnaðar árið á undan. Þetta er nákvæmlega sú formúla sem allir þingflokkar eru að reyna að afnema, eru að reyna að ná samkomulagi um hvernig eigi að snúa ofan af í áföngum, án þess þó að það hafi mjög illvænlegar afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi atvinnuvegi. Og það er meira en lítið undarlegt ef Alþ. ætlar í miðjum klíðum allt í einu að fara að ákveða að einn af mörgum sjóðum, Iðnrekstrarsjóður, fái bundið framlag úr ríkissjóði sem ekki á einu sinni að miðast við umsvif ríkisins hverju sinni, sem ekki á einu sinni að miðast við hvað til ráðstöfunar er af skattfé almennings, heldur við gersamlega óskylt mál, þ. e. vinnsluvirði iðnaðarins eins og það er metið af Þjóðhagsstofnun árið áður.

M. ö. o.: Þarna er Alþ. með öllu að afsala sér öllum möguleikum til að meta aðstæður iðnaðarins eftir árferði hverju sinni. Það má vel vera að þetta árið sé nauðsynlegt vegna ástæðna í iðnaðinum að hafa viðbótarframlagið úr ríkissjóði meira en nemur 0.6% af vinnsluvirði iðnaðarins árið áður. Það getur líka vel verið að ástandið í iðnaðinum sé þannig eða breytist þannig, að ekki sé ástæða til að verja viðbótarframlagi úr ríkissjóði sem nemi allri þessari viðmiðun. Og hvaða vit er í því, að ef menn eru hér með aðild allra þingflokka og talsverðum erfiðleikum að reyna að vinda ofan af því sjálfvirka kerfi, sem búið hefur verið til á undanvörnum árum og áratugum, þá skuli þeir gera sér leik að því í miðjum klíðum og gersamlega að þarflausu að vera að bæta enn einum nýjum bagganum þarna ofan á? Einmitt þess vegna leggjum við hv. þm. Vilmundur Gylfason til að 2, mgr. 7. gr. sé umorðuð.

Við teljum að það sé sjálfsagt, þegar tekin er ákvörðun um viðbótarframlag ríkissjóðs til Iðnrekstrarsjóðs eða til sjóða hverra annarra atvinnugreina sem er og til hvaða annars máls sem er, að hafa hliðsjón af aðstæðum í viðkomandi atvinnugrein. Við teljum að það sé sjálfsagt að hafa hliðsjón af vinnsluvirði iðnaðarframleiðslunnar árið áður. En við teljum ekki að það eigi endilega að binda hendur alþm. þannig að þeim sé skylt, hvernig svo sem allt veltist og skipast, að verja nákvæmlega ákveðinni prósentutölu af hinu metna vinnsluvirði til þessu sjóðs á hverju einasta ári sem reglurnar ná til. M. ö. o. Það er verið að afhenda Þjóðhagsstofnun ákvörðunarvaldið. Fjárveitingarnar úr ríkissjóði fara eftir uppgjöri Þjóðhagsstofnunar á þessu vinnsluvirði, og þó svo Þjóðhagsstofnun sé til margra hluta nytsamleg og sé í miklu uppáhaldi, sérstaklega hjá ákveðnum þm., held ég að þm. vildu ekki almennt afhenda stofnunum í þjóðfélaginu allt það vald sem þeim er fengið í hendur og varðar útgjöld úr ríkissjóði og aðrar slíkar fjármálaákvarðanir.

Ég vil í lokin taka það skýrt fram, að með því að leggja til að þessi fasta prósenta sé felld niður úr lagasetningunni erum við alls ekki að segja að prósentan sé of há, að Iðnrekstrarsjóður þurfi ekki svona hátt framlag. Það má vel vera að Iðnrekstrarsjóður þurfi á næsta ári hærra framlag. En Alþ. verður að fá frelsi til að geta metið það miðað við aðstæður hverju sinni, en ekki láta binda sig langt fram í tímann við ákvörðun sem á að taka núna. Ég vil ekki binda hendur þeirra manna, sem eiga eftir að sitja á Alþ. árið 1985 t. d. eða 1984, við þær ákvarðanir sem verið er að taka með svona vitleysu. Þó að yfirlýsing sé gefin um að hugmyndin sé að þegar þetta kemur í fyrsta sinn til framkvæmda 1981 verði ríkisframlag fellt niður til Iðnlánasjóðs, þá er það ekki ríkisstj. sem ræður því, það er Alþ. sem ákveður það, og enginn er kominn til með að segja að árið 1982 verði aðstæður þannig í þessum atvinnuvegi að Alþ. telji rétt að fella þetta framlag niður. Þess vegna á slík yfirlýsing ekkert skylt við þá ákvörðun sem við erum að taka hér nú.

Það verður að líta á málið eins og það liggur fyrir. Málið liggur þannig fyrir, að verið er að fara þess á leit við alþm. að þeir bindi hendur, ekki bara sjálfra sín, heldur þeirra alþm., sem kunna að sitja hér á Alþ. allt til loka þess tíma sem við er miðað, um framlag til þessa sjóðs, miðað við einhverja hundraðshlutatölu sem reikna skal út af Þjóðhagsstofnun og hafa viðmiðun af atburðarás og öðru slíku sem alþm. og Alþ. og ríkisstj. geta ekkert við ráðið. Og það er fráleitt, á sama tíma og flokkar þingsins hafa tekið höndum saman um það undir forustu Halldórs E. Sigurðssonar fyrrv. fjmrh. að reyna að ná samkomulagi sín á milli um skynsamlegar aðgerðir til að snúa ofan af þeirri sjálfvirkni sem allir þingflokkar hafa meira og minna gert sig seka um að binda fjárl. í, þá er meira en lítið vafasamt að ákveða, eins og hér er lagt til, að binda framlag til þessa sjóðs eins og um er rætt í 5. gr. þessa frv., svo ég tali nú ekki um hvað það þýðir þegar Alþ. er nýlega búið að afgreiða eða stendur til að Alþ. afgreiði að lækka og afnema að nokkrum hluta allar þessar bindingar, eins og ákvæði eru um í frv. sem hæstv. fjmrh. hefur nýlega lagt fyrir, fylgifrv. með lánsfjáráætlun, og ætlun er að taka fyrir á eftir. Á sama tíma og hæstv. ríkisstj. með skilningi allra þingflokka leggur fyrir þingið að afnema í áföngum með þessum hætti umræddar bindingar nær ekki nokkurri átt að vera að samþykkja nýja bindingu af þessu tagi.

Hér er ekki um að ræða mál sem skiptir neinum sköpum fyrir Iðnrekstrarsjóð eða iðnaðinn í landinu, því að ég ætla að það verði jafnmikill og ekkert minni skilningur á málefnum iðnaðarins og þessa sjóðs á næstu árum og núna. En þetta er mál sem skiptir sköpum um þau vinnubrögð, sem við tileinkum okkur á Alþ., og eru í algerri andstöðu við þá niðurstöðu um breytingu á slíkum vinnubrögðum sem allir flokkar þingsins hafa komið sér saman um. Hér er ekki um að ræða ágreiningsmál á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, hér er ekki um að ræða ágreiningsmál milli ríkisstj. og þm., hér er um það eitt að ræða að menn reyni að vera samkvæmir sjálfum sér.

Ég legg mjög þunga áherslu á að hæstv. ráðh. og þm. allir skoði þetta mál hleypidómalaust og taki síðan ákvörðun í samræmi við þær ákvarðanir sem Alþ. hefur þegar tekið eða er að taka eða er verið að undirbúa að það taki í umræddri nefnd undir forustu Halldórs E. Sigurðssonar í nákvæmlega hliðstæðum málum og hér um ræðir.