17.05.1980
Neðri deild: 79. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2826 í B-deild Alþingistíðinda. (2794)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mun, vegna þess hvernig aðstæður eru á hv. Alþ., í örstuttu máli gera grein fyrir því frv., sem hér liggur fyrir, til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Frv. hefur verið prentað eftir þær breytingar sem hafa átt sér stað á því á síðustu dögum.

Ég vil varðandi þetta frv. leggja áherslu á eftirfarandi sex meginatriði:

Í fyrsta lagi er í frv. gert ráð fyrir stórfelldu átaki í byggingu verkamannabústaða, þannig að unnt verði að hefja byggingu á 400 íbúðum árið 1981, 500 íbúðum árið 1982 og 600 árið 1983, en á undanförnum 10 árum hefur að jafnaði hafist bygging á um 90–100 íbúðum af þessu tagi á ári. Fjármögnun þessa er tryggð með ákvæðum frv. um að upphæð sem samsvarar 1% launaskatts renni til Byggingarsjóðs verkamanna, en það jafngildir um 5000 millj. kr. á verðlagi ársins 1980.

Í öðru lagi er í frv. gert ráð fyrir sérstöku átaki til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði og má ætla að miðað við verðlagsforsendur og þær hugmyndir, sem uppi hafa verið í húsnæðismálastjórn um þau efni, gætu þær greinar frv. tekið til sín um 200–300 millj. kr. á ári eins og þær líta út nú.

Í þriðja lagi er í frv., eins og það lítur út núna, dregið mjög verulega úr því framkvæmdastjóra- og forstjórakerfi sem gert var ráð fyrir í upphaflegu frv. sem lagt var fram af hæstv. ríkisstj. Alþfl. og birtist sem 17. mál þingsins.

Í fjórða lagi er í frv. gert ráð fyrir sérstöku átaki á vegum sveitarfélaganna og aðild þeirra að byggingu verkamannabústaða og leiguíbúða léttari en verið hefur.

Í fimmta lagi er lánstími lengdur og vextir lækkaðir frá því sem var í öndverðu í frv. Alþfl.

Í sjötta lagi er aðild verkalýðshreyfingarinnar að húsnæðislánakerfinu styrkt mjög verulega með beinni aðild hennar, þ. e. Alþýðusambands Íslands, að húsnæðismálastjórn og með helmingsaðild að stjórnum verkamannabústaðanna í landinu.

Þetta tel ég að séu meginatriðin varðandi frv. það sem hér liggur fyrir.

Á þskj. 508 fluttu stjórnarsinnar í félmn. Ed. allmargar brtt. við frv. þetta. Ég tel að í rauninni sé hér um að ræða einar 15 meginefnisbreytingar, að öðru leyti séu þessar brtt. mest til lagfæringar og samræmingar við aðrar brtt., þannig að þó að fjöldi brtt. hafi verið allmikill mega menn ekki láta þann fjölda vaxa sér í augum.

Ég legg á það á herslu að lokum, herra forseti, að þetta frv. fái afgreiðslu á yfirstandandi Alþingi. Hér er um það að ræða að komið verði í búning og til ákvörðunar í hv. Nd. málefni — frv. — sem hefur verið árum saman í undirbúningi hjá mörgum ríkisstj. Hér er í raun og veru verið að halda áfram verki sem gefin voru fyrirheit um fyrir allmörgum árum og má rekja þau fyrirheit allt til ársins 1974.

Ég tel því að allir flokkar hafi átt nokkra aðild að því máli sem hér er til meðferðar.

Ég legg til herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.