19.05.1980
Sameinað þing: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2833 í B-deild Alþingistíðinda. (2802)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það hafði ekki verið ætlun mín að eyða þingtíma í frekari umr. um þetta mál, svo lengi og ítarlega sem um það hefur þegar verið fjallað. En sú framsöguræða, sem flutt var af hálfu meiri hl. utanrmn., gerir mér ókleift annað en að standa upp og flytja harðorð mótmæli. Það er fyrir neðan allar hellur og langt fyrir utan venjur og kurteisisskyldur á Alþingi. Þegar menn eru frsm. fyrir fleiri en einn flokk tala þeir um það sem flokkarnir hafa sameiginlegt í málinu, en flytja ekki illkynjaðan áróður frá eigin flokki.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði hér sem frsm. fyrir hönd síns flokks, Framsfl. og Alþfl. í utanrmn. En hann gat ekki staðist það í miðri ræðu sinni að kúvenda og byrja að tala eins og áróðursmaður Sjálfstfl. og flytja þann boðskap sem hann raunar hafði sjálfur komið að í fyrri umr. Boðskapurinn er í stuttu máli á þá lund, að Sjálfstfl. hafi haft alla forustu í þessu máli. Það er eins og venjulega, aðalatriðið er að þeir geti stolið ærunni af öllum öðrum, enginn hafi komið nálægt málinu nema þeir. Af þessu tilefni verð ég að rekja hér örfá atriði í sambandi við gang málsins.

Stjórn Ólafs Jóhannessonar kom til valda í sept. 1978, rétt eftir að loðnuveiðunum við Jan Mayen lauk það sumar. Augljóst var þá þegar að þetta mál mundi eiga nokkurt framhald og rétt væri að taka vel eftir því og athuga hvert það framhald gæti orðið. Ég hafði ekki verið nema örfáar vikur í starfi utanrrh. þegar „diplómatisk“ sambönd voru fyrst sett í gang, sem er eðlileg byrjun, og þegar byrjað var að skrifa greinargerðir um þetta mál í Fiskifélaginu, sjútvrn. og víðar þar sem sér kunnáttu er að fá. Fyrir utan það, sem sendiherrann í Osló kannaði með viðræðum, bæði við utanrrh. og sjútvrh. Noregs, gafst tækifæri til þess nokkru seinna um haustið að ég hitti Frydenlund á fundi erlendis og ræddi við hann. Það fyrsta, sem ég sóttist eftir, var að tryggja að Norðmenn færðu ekki út án þess að hafa rætt Jan Mayen málið ítarlega við okkur Íslendinga fyrst. Það vill svo til, að nokkrum vikum áður en þessar umræddu og ágætu tillögur Sjálfstfl. voru afgreiddar hér á Alþingi hafði ég fengið loforð utanrrh. Noregs fyrir því, að Noregur mundi ekki færa út án þess að hafa rætt við okkur fyrst. Það vill einnig svo til, að ég á þetta loforð skriflegt ef Sjálfstfl. er tregur til að trúa því.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði,— ég man ekki hvort það var í ræðunni áðan eða fyrir helgina, — að það hefði ekki verið fyrr en á miðju sumri 1979 sem einhver áhugi vaknaði á málinu. Ég vil benda honum á að málið var rætt í ríkisstj. og samþ. þar að endurreisa landhelgisnefnd, sem ekki hafði starfað um nokkurt skeið eftir að við færðum út í 200 mílur. Þetta gerðist, að ég hygg, í janúarmánuði 1979, rétt um áramótin. (Gripið fram í: Það var seinna.) Með þessu skrefi sýndi ríkisstj. ekki aðeins að hún liti þetta mál alvarlegum augum, heldur teldi hún rétt að setja nefnd sem gæti orðið til þess að pólitískt samband skapaðist við stjórnarandstöðuna og raunar milli allra flokka um þetta mál. Hefur landhelgisnefnd starfað síðan.

Síðan var unnið áfram að málinu á hverjum þeim vettvangi þar sem tækifæri gafst og alveg sérstaklega af ýmsum starfsmönnum og stjórnmálamönnum hér heima. Fyrsti fundurinn, sem hægt er að kalla fund um þetta mál, var síðan haldinn í Kaupmannahöfn í aprílmánuði 1979, þá þegar um vorið. Þar voru utanrrh. Íslands og Noregs og þar komu líka formenn sendinefnda Íslands og Noregs á Hafréttarráðstefnunni, en fundur þeirrar ráðstefnu stóð einmitt yfir í Genf þá daga. Í júní var síðan haldinn fundur Norðmanna og Íslendinga hér í Reykjavík sem allir muna, þegar ekki náðist árangur og Norðmenn flugu heim án þess að hafa meðferðis það sem þeir höfðu ætlað sér að fá frá okkur.

Málið komst síðan í hámæli þá um sumarið og komu fram ýmsar till. frá ýmsum aðilum, bæði í landhelgisnefnd og í ríkisstj. Norðmenn höfðu fengist til þess, að því er við höldum fram, að fallast á 90 þús. tonna markið á loðnuveiðum þeirra, en þar sem heildarsamkomulag náðist ekki héldu þeir því fram, að þessi tala væri ekki bindandi. Við sendum mjög hörð mótmæli, þegar þeir fóru yfir það mark, nálguðust 100 þús. tonn. Það fór svo, að þeir veiddu um 125 þús. tonn áður en norsk yfirvöld stöðvuðu veiðarnar. Það er enginn kominn til með að segja að þeir hefðu ekki getað veitt 200 eða 300 þús. tonn, ef ekkert samband hefði verið við þá haft, ef engar samningaviðræður hefðu farið fram og ef sá aðdragandi, sem ég hef getið, hefði ekki átt sér stað.

Ég tel því eins og hv. síðasti ræðumaður, — og telst sjálfsagt til tíðinda þegar við erum sammála, — að ummæli hv. 1. þm. Reykv. í sambandi við málið og árás hans á hina flokkana og alveg sérstaklega þá sem stóðu að þeirri ríkisstj., sem mynduð var í sept. 1978, sé ódrengileg og algerlega tilefnislaus. Þótt ég vilji á engan hátt gera lítið úr hlut Sjálfstfl. í landhelgismálum fyrr og síðar og líklega var hann meiri fyrr en síðar, þá vil ég mótmæla þessum tilraunum til þess að útbreiða það, að hinir flokkarnir og stjórn Ólafs Jóhannessonar hafi á nokkurn hátt sýnt þessu máli fálæti eða seinlæti, hvað þá þeirri ásökun, að við höfum dregið úr þeim árangri sem nú hefur náðst. Ég mótmæli þessu algerlega og lýsi undrun minni yfir því, að slíkur málflutningur heyrist frá þeim manni sem flutti hann hér. Hann á sennilega rætur sínar einhvers staðar annars staðar.