19.05.1980
Sameinað þing: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2835 í B-deild Alþingistíðinda. (2804)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. eða kannske grg. að gefnu tilefni og nokkurri nauðsyn.

Ég vil segja í fyrsta lagi, að ég sætti mig illa við þá málsmeðferð að Alþ. sé aðeins gefinn kostur á að segja já eða nei við svo gott sem gerðum hlut. Það er vond aðferð. Eðlilegra og raunar sjálfsagt hefði verið að fresta samningaviðræðunum, leggja útkomuna fyrir þing og ganga síðan frá samkomulagi.

Í öðru lagi vil ég segja það, að ég sætti mig ekki við meðferð málsins í okkar flokki. Ég mun hins vegar ekki gera grein fyrir því á þessum stað nema eftir því verði leitað af ábyrgum aðilum í flokknum. Ég mun ekki ræða málið efnislega. Ég vil þó segja, að þrátt fyrir galla í samkomulaginu eru þar mjög sterk atriði fyrir okkur Íslendinga og ég tel háskalegt, ef margir málsmetandi menn leggja sig í framkróka að túlka samningsgreinarnar okkur í óhag á opinberum vettvangi.

Að lokum vil ég taka það fram, að þessar aths. mínar og væntanleg afstaða í málinu eru alls ekki vantraust á störf fulltrúa Alþb. í samningaviðræðunum við Norðmenn.