19.05.1980
Sameinað þing: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2837 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

200. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Í nafni þingflokks sjálfstæðismanna vil ég gera eftirfarandi grein fyrir atkv. Eins og kunnugt er hafa sjálfstæðismenn haft forustu um að tryggja réttindi Íslands á Jan Mayen svæðinu. Telur flokkurinn samkomulagið, sem gert var við Norðmenn í Osló, áfanga á leiðinni til þess jafnræðis Íslendinga og Norðmanna á svæðinu sem Jón Þorláksson, þáv. forsrh., áskildi Íslendingum 27. júlí 1927. Sjálfstfl. harmar viðbrögð stjórnvalda við tillögum hans, sem lýst hafa sér í fálæti og seinlæti sem leiddu af sér afdrifaríkan drátt í málinu. Þetta forustuleysi stjórnvalda jafnframt sundurþykkju í stjórnarherbúðunum hefur veikt stöðu Íslendinga í samningunum við Norðmenn. Í þeirri stöðu, sem mál þetta er nú komið, er það samt álit Sjálfstfl. að það stefni hagsmunum Íslendinga í tvísýnu ef samkomulaginu yrði hafnað. Því styðja sjálfstæðismenn samkomulagið og lýsa jafnframt yfir, að þeir munu á grundvelli þess halda fast á rétti Íslands og berjast áfram fyrir sanngjarnri og réttlátri lausn mála á Jan Mayen svæðinu. Ég segi já.