19.05.1980
Efri deild: 95. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

84. mál, Kvikmyndasafn Íslands

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. menntmn. hefur rætt mál þetta allmikið á nokkrum fundum og m. a. fengið til skrafs og ráðagerða bæði kvikmyndahúsaeigendur og eins kvikmyndagerðarmenn, sem fræddu okkur mjög um þessi málefni og þá sérstaklega um vandræði Kvikmyndasjóðs, sem er fjárvana. En sem betur fer hefur íslenskri kvikmyndagerð nú að undanförnu vaxið mjög fiskur um hrygg og menn hafa mikinn áhuga á að gera enn þá betur en hingað til hefur verið gert.

Nm. voru allir ásáttir um að brýna nauðsyn bæri til að styrkja Kvikmyndasjóð og það mætti ekki lengi dragast að honum yrði útvegað verulegt aukið fjármagn. Hins vegar náðist ekki samkomulag um að íþyngja Kvikmyndahúsum eða öllu heldur að auka gjöld sem þau innheimtu, en þau eru nú, að því er okkur er tjáð, allt upp í 42%. Mun það vera einsdæmi í vestrænum löndum að slík gjöld séu lögð á kvikmyndasýningar. Jafnframt komu fram upplýsingar um að öll gjöld á Norðurlöndum, sem á kvikmyndasýningar eru lögð, rynnu til kvikmyndagerðar í þeim löndum. En hér eru þetta gjöld sem fara til annarra þarfa þjóðfélagsins eða sveitarfélaga, og þá sérstaklega svonefnt sætagjald hér í Reykjavík sem mun nema rú allt upp í 50 millj. yfir árið. En þetta 50 kr. gjald sem ráð er fyrir gert í frv., yrði þar að auki ekki mikil stoð við Kvikmyndasjóð þegar verðbólgan æðir áfram eins og nú er. Að vísu hefði mátt hugsa sér að hækka þá upphæð í krónutölu, en um það var því síður samstaða að hækka hana heldur en hitt, að fara að leggja þetta gjald til viðbótar öllum þeim gjöldum sem fyrir eru.

Við ræddum mjög þá hugmynd að hluti af söluskatti rynni í Kvikmyndasjóð, t. d. 1/4 hluti, en söluskattur af öllum kvikmyndum á síðasta ári var talsvert á fjórða hundrað millj. Það hefði mátt gera ráð fyrir að þetta gjald gæti verið 100 millj. eða meira á yfirstandandi ári, ef það hefði verið fjórðungur af öllum söluskatti af kvikmyndasýningum. Ekki þótti þó unnt að mæla með því að svo komnu máli þar sem fjárlög eru nú nýafgreidd og ósýnt um fjárhag ríkissjóðs. Þó óx þessari hugmynd nokkuð fiskur um hrygg þegar ákveðið var að fella niður söluskatt annars vegar af leikhúsmiðum og eins af tónleikahaldi. Þá hefði kannske mátt segja að til samræmis hefði átt að flytja til Kvikmyndasjóðs frá ríkissjóði.

En bæði var tímaþröng og eins þetta, eins og ég sagði, að fjármál eru óviss í því ástandi sem nú ríkir. En við lögðum á það meginkapp í n. að ná fullri samstöðu, því að allir stefndu að einu og sama markinu: að reyna að tryggja hag Kvikmyndasjóðs til frambúðar með samstöðu hér í þingi.

Niðurstaðan varð þess vegna sú, að við snerum okkur til hæstv. fjmrh., ræddum málið við hann og raunar margsinnis. Hann lýsti því yfir, að hugmyndin væri að allur söluskattur af innlendum kvikmyndum á þessu ári rynni til Kvikmyndasjóðs. Það verða talsverðar upphæðir, einmitt vegna þess að nú eru til sýninga og væntanlegar íslenskar myndir sem mikil aðsókn hefur verið og verður væntanlega að. Þess vegna er þetta umtalsverð upphæð sem nú í ár rennur til sjóðsins. Þetta er þó skilyrt því, þetta álit okkar, að þegar á haustþingi verði málið tekið upp til að finna á því frambúðarlausn.

Með hliðsjón af framansögðu og í trausti þess, að þetta verði gert, varð n. sammála um að leggja til að málinu verði vísað til ríkisstj.