19.05.1980
Efri deild: 95. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2844 í B-deild Alþingistíðinda. (2824)

154. mál, Bjargráðasjóður

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Þegar málefni Bjargráðasjóðs voru til umr. hér í þessari d. gat ég um það, að á nefndarfundi fjh.- og viðskn. hefði verið óskað eftir því, að fram kæmi yfirlýsing frá stjórnvöldum þar sem nánar væri kveðið á um hvernig leysa ætti þann vanda sem Bjargráðasjóður á nú við að etja, annaðhvort með því, að gerð yrði nánari grein fyrir tekjuöflun til sjóðsins, eða með lagabreytingum eða með einhverjum yfirlýsingum, sem hv. nm. gætu sætt sig við og vissu þá eitthvað frekar um það, hvernig unnt yrði að leysa þann vanda sem Bjargráðasjóður stendur nú frammi fyrir.

Við umr. í Nd. lagði hæstv. fjmrh. fram brtt. við 154. mál, sem er frv. til l. um breyt. á l. nr. 52/1972, um Bjargráðasjóð, sbr.1. nr. 110/1976 og l. nr. 41/1977. Þar var gerð breyting varðandi tekjuöflun sjóðsins sem gerir ráð fyrir að framlag sveitarfélaganna sé hækkað úr 150 kr. í 300 kr. á hvern íbúa sveitarfélags, að framlag af söluvörum landbúnaðarins sé hækkað úr 0.35% í 0.6%, síðan að framlag ríkissjóðs sé samkv. ákvörðun í fjárlögum ár hvert og að lokum að ráðstöfunarfé sé vextir af fé sjóðsins.

E-liður í þessari brtt., sem fjallar um framlag ríkissjóðs samkv. ákvörðun í fjárlögum ár hvert, þótti ýmsum ekki fullnægjandi, því þarna væri verið að leggja kvaðir á sveitarfélögin svo og bændur eða landbúnaðinn, en nokkuð haldið opnu um það, hvert framlag ríkissjóðs ætti að vera, en viðmiðunin ekki eins og áður, að hún skyldi vera til jafns við hina tvo þættina. Því hef ég leyft mér ásamt þeim hv. þm. Agli Jónssyni og Helga Seljan að leggja fram brtt. á þskj. 587 sem kveður öllu nánar á um þetta. Geta má þess, að um þetta er samstaða við ráðherrana sem um þessi mál fjalla, bæði fjmrh. og landbrh. Brtt. hljóðar svo:

„E-liður 1. gr. orðist svo:

Framlag ríkissjóðs samkv. ákvörðun í fjárlögum ár hvert, þó eigi lægra en sameiginlegar tekjur samkv. a-lið og sem svarar 0.35% af söluvörum landbúnaðarins samkv. b-lið.“

Hér er hert aðeins á ákvæðinu um framlag ríkissjóðs, að það sé þó eigi lægra en sem svarar framlagi sveitarfélaganna og framlagi af söluvörum landbúnaðarins eins og þær eru nú, fyrir gildistöku þessara nýju laga.