08.01.1980
Sameinað þing: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

37. mál, bifreiðakostnaður öryrkja

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Við athugun á því máli, sem hér er spurt um, hafa komið í ljós ýmis þau atriði sem krefjast nánari og víðtækari skoðunar en í fyrstu virtist. Ljóst er að heitið öryrki segir ekki allt um hag og efnahagslega stöðu sjúklings, enda njóta. öryrkjar í dag mjög mismunandi aðstoðar samfélagsins. Hér skulu nokkur dæmi nefnd:

1. Hjá Tryggingastofnun ríkisins eru öryrkjar flokkaðir í þrjá aðaltlokka eftir líkamlegu ástandi þeirra, 75%, 65% og 50% öryrkjar, og fá fjárhagslegar bætur í samræmi við þessa flokkun.

2. Tryggingastofnunin hefur enn fremur skv. gildandi heimildarákvæðum í lögum reynt að styrkja hreyfihamlaða öryrkja fjárhagslega til bílakaupa, og eru nú t.d. 236 slík lán í gangi, mismunandi há eftir mati tryggingaráðs og reglum sem ráðið hefur sett sér um þessi efni.

3. Nokkur hópur öryrkja hefur fengið tolla- og eftirgjöf á bifreiðum á grundvelli læknisvottorða, og hefur slík eftirgjöf gjalda verið á vegum fjmrn. eftir mati sérstakrar nefndar sem úthlutar þessum eftirgjöfum tolla og gjalda.

Sjálfsagt njóta nokkrir umræddra öryrkja fyrirgreiðslu á fleiri en einum stað í framangreindri upptalningu, t.d. tollaeftirgjafar samfara bifreiðakaupaláni. Þá munu vera dæmi um að öryrkjar í föstum störfum njóti einnig styrkja til rekstrar bifreiða. Þegar bornar eru saman bætur þær sem öryrkjar eiga rétt á hjá Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. örorkulífeyrir með tekjutryggingu, og ellilífeyrir ellilífeyrisþega, kemst maður ekki hjá því að spyrja sig hvort hækkað bensínverð komi ekki við fleiri bótaþega en öryrkja og hvort ekki þurfi t.d. að athuga stöðu sumra ellilífeyrisþega.

Af þessu má ljóst vera að opinber aðstoð til bifreiðarekstrar öryrkja vegna hækkunar á verði bensíns er ekki auðveld ef jafnréttis á að gæta í slíkri aðstoð. Hér liggur því fyrir mjög viðkvæmt, en brýnt mál til úrlausnar, og hvergi nærri auðvelt. Í gildandi lögum er aðeins til ein heimild, sem hugsanleg er til úrlausnar, þ.e. 3. mgr. 19. gr. almannatryggingalaga. Heimild þessi hefur aðeins verið notuð í neyðartilfellum, eins og til lyfjakaupa og hliðstæðra hluta með afar takmörkuðu fé.

Hver sem niðurstaðan verður í þessum efnum er ljóst að aðstoð við öryrkja og/eða aðra bótaþega mun kosta umtalsverðar fjárhæðir, sem gera verður ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Því er nauðsynlegt að fá fram sem nákvæmasta áætlun þeirrar fjárhæðar. Marktæk áætlun verður hins vegar vart gerð nema vitað sé með nokkru öryggi hve fjölmennur sá hópur fólks er, sem aðstoðar á að njóta, og hve háa upphæð á að veita í umrædda aðstoð hverjum bótaþega.

Svo sem kunnugt er starfar nú milliþn. að endurskoðun laga um almannatryggingar. Hlé varð á störfum nefndarinnar eftir stjórnarskiptin síðustu. Nefndin er skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka auk þriggja embættismanna. Með bréfi heilbr.- og trmrn., dags. 3. þ.m., hefur nefndinni verið falið að taka til meðferðar framangreint mál. Lögð er áhersla á að nefndin ljúki störfum hið fyrsta. Hugsanlegt er að nefndin taki þetta atriði fyrir sérstaklega og láti það hafa forgang og hefur reyndar verið um það beðið.