08.01.1980
Sameinað þing: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

37. mál, bifreiðakostnaður öryrkja

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Langt er nú orðið um liðið síðan hæstv. félmrh. tók að fjalla um þetta mál; ef það hefur verið árla í tíð fyrrv. ríkisstj., og hefði verið hægt um vik að komast að því fyrr, hversu margir þeir gjörfatlaðir eru sem brýnust er nauðsyn að aðstoða til þess að kaupa bensín á bílinn sinn. Upplýsingar um það liggja fyrir nokkrum veginn. Þetta munu vera í kringum 250 manns. Vitaskuld hefur bensínhækkun komið niður á fleiri mönnum en öryrkjum. Það liggur í augum uppi. Það þarf ekki að tilgreina sérstaklega gamalt fólk. Það kemur niður á öllum þeim sem þurfa að nota farartæki. Hitt er ljóst mál, að við erum með ákveðinn, tilgreindan hóp manna, sem þannig er ástatt fyrir að þeir komast ekki húsa milli fótgangandi af eigin rammleik. Þeir verða að nota bíl til þess að komast á milli húsa, til þess að komast í vinnu sína, til þess að komast hvað sem er með einhverjum hætti. Það er fólkið, sem hér er um að ræða, sem bensínhækkunin brennur hvað heitast á. Og það væri hægt strax á morgun að fá upplýsingar um hversu margir þeir gjörfötluðu menn eru sem hér er um að ræða. Það lítur bara út fyrir að um þetta mál hafi ekkert verið fjallað.

Það er alveg rétt, að þessu máli hefur verið vísað til endurskoðunarnefndarinnar um tryggingalöggjöfina. Hún fær þetta mál til meðferðar. Hlé varð á störfum hennar þegar fyrrv. ríkisstj. fór frá, af skiljanlegum ástæðum. En ég vil fullyrða það, að vandi þessa fólks, þessa gjörfatlaða fólks, er slíkur að það er alveg ástæðulaust að láta það bíða eftir nýrri lagasetningu, með hvaða hætti á að aðstoða þetta fólk. Það er hægt að gera það með miklu skjótari hætti, og kemur sér enginn hæstv. ráðh. né hæstv. ríkisstj. í heild undan því að viðurkenna annaðhvort hreinan og kláran trassaskap ellegar það sem enn þá verra er í þessu sambandi: hjartakal, — ásökun um hjartakal í sambandi við þetta mál, að hafa dregið það svo lengi.