19.05.1980
Neðri deild: 80. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

Afgreiðsla þingmála

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem fram kom hjá hv. 7. landsk. þm. um það, að sá æðibunugangur, sem verið hefur í þingstörfum og þingafgreiðslu nú undanfarna daga, er auðvitað með öllu óþolandi. Það er einnig ljóst, að annað af tvennu gerist, að þingið mun starfa lengur þrátt fyrir alla kvöld- og næturfundi og helgarfundi, sem hafa verið haldnir, eða stór frv., eins og frv. um húsnæðismál, munu daga uppi. Það er auðvitað svo, að sú gamla aðferð er orðin úrelt með öllu að nota þessa framsóknarviðmiðun, að miða þingstörf við annars vegar sauðburð og hins vegar seinni göngur, eins og hér er gert. Vitaskuld er það svo, að þm. verða að vera tilbúnir til þess að vinna lengur og starfa lengur, ef þörf krefur.

Í vetur hefur Alþfl. iðulega verið kennt um að þingstörf hafi verið með óeðlilegum hætti vegna þess að að sönnu bar hann ábyrgð á þingrofi sem var um miðjan vetur, vegna þess að honum fannst hann ekki lengur geta borið ábyrgð á þeirri stjórnarstefnu sem þá var. Engu að síður verða þeir, sem á slíku bera ábyrgð, auðvitað að vera tilbúnir til þess að vinna lengur en að sauðburði ef á þarf að halda. Og vitaskuld á það að vera svo, að þingið á að sitja svo lengi áfram sem þurfa þykir og án þessara helgar- og kvöldfunda, á meðan við erum að afgr. þau mál sem nauðsynleg kunna að teljast.

Það hefur oft verið sagt hér af andstæðingum Alþfl., að það sé Alþfl. að kenna að þingstörf séu með öðrum hætti í vetur en kannske á reglulegri þingum en nú hefur verið. Við eigum auðvitað að vera tilbúnir til þess að sitja svo lengi hér og vinna og starfa svo lengi sem nauðsyn krefur, til þess að þau mál, sem fyrir þinginu liggja, hvort sem um er að ræða stjfrv. eða frv. almennra þm. í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Ég tel það vera hárrétt og mjög vel skiljanlegt að hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, hefji þessa gagnrýni hér. Það er auðvitað óþolandi með öllu að vera að reyna að rubba þinginu af með þeim hætti sem hér er verið að gera, að ekki sé talað um ef til stendur að fara að setja síðan brbl. nú fyrir mánaðamót.

Herra forseti. Þessi gagnrýni hv. þm. Halldórs Blöndals á hinn fyllsta rétt á sér.