08.01.1980
Sameinað þing: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

37. mál, bifreiðakostnaður öryrkja

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem hann gaf áðan. Ég geri mér alveg ljóst, að það hefur á ýmsan hátt verið erfitt að taka á þessu máli. Þetta er flókið mál, en viðkvæmt og krefst þess að þær reglur, sem ákveðnar kunna að vera, séu vel undirbúnar og gerðar í góðu samráði við þá aðila sem hér eiga helst hagsmuna að gæta.

Ég fagna því, ef svo er, að endurskoðunarnefnd almannatryggingalaganna hefur verið beðin um að láta þetta mál hafa forgang. En ég vil leyfa mér að fullyrða það, miðað við þær undirtektir sem þetta mál fékk hér í lauslegri umræðu á Alþ. á s.l. vetri, að málið á verulegan stuðning hér á hv. Alþingi. Ég fullyrði að yfirgnæfandi meiri hluti alþm. er reiðubúinn að styðja aðgerðir í þessum efnum. Og það hefur oft komið fram, bæði í þessari umræðu í fyrra og eins á öðrum vettvangi.

Ég vil aðeins í þessu sambandi láta þess getið, að eins og hv. alþm. vita eru veitt um 400 leyfi fyrir öryrkjabifreiðum á ári núna, voru 350 og þar áður 300. Það er miðað við eftirgjöf á tollum og leyfisgjaldi af hverri bifreið upp á 1 millj. kr. Þetta þýðir að ríkissjóður gefur eftir um 450 millj. kr. á ári vegna þessara ákvæða í lögunum að meðtalinni þeirri eftirgjöf sem veitt er sérstaklega út á 25 bifreiðar, sem mun vera um 2 millj. kr. á ári á hverja bifreið. Þetta eru samtals um 450 millj. Ég tel líklegt að í gangi hér á götum landsins séu eitthvað liðlega 2000 öryrkjabifreiðar. Og mér sýnist að miðað við skatttekjur ríkissjóðs af bensíni á þessar bifreiðar megi gera ráð fyrir að hver bíll skili um 200 þús. kr. í bensínskatta á ári. Það þýðir m.ö.o. að á hverju einu ári sem líður, og nú nýlega er eitt liðið í aldanna skaut, keyra þessir bílar inn skatta fyrir okkur, samfélagið, upp á 400–450 millj. kr., þannig að eftirgjöfin í tollum og leyfisgjöldum skilar sér nokkurn veginn nákvæmlega í innkeyrslu á bensínsköttum af þessum öryrkjabifreiðum. Þetta eru nokkuð fróðlegar tölur, og þær ættu að vera okkur hvatning til að taka myndarlega á þessu máli. Jafnvel þó að það sé flókið og viðkvæmt, þá er okkur skylt að taka á því og það strax. Það er ástæðulaust að draga það mjög lengi að mínu mati.