19.05.1980
Neðri deild: 80. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2872)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs til þess að vekja á því athygli að ég sé ekki betur en að hér stefni í algjört óefni ef fram heldur sem horfir. Ég vil óska þess við hæstv. forseta, og ég tel að við þm. almennt eigum til þess kröfu að fá um það vitneskju, hvert eigi að vera hér framhald fundar, t. d. í kvöld eða nótt eða næstu daga. Ég held að það sé lágmarkskrafa af hálfu okkar þm., að við vitum hvað hér eigi að gerast. Ég sé ekki betur en að hér sé í uppsiglingu málþóf af hálfu sjálfstæðisþm., — og ég er ekkert að ávíta þá fyrir það, síður en svo, í ljósi þess að menn vilja fá vitneskju um hvað á hér að gerast. (Gripið fram í: Heyr fyrir því.) Ég heyri á hv. þm. að ég hef skilið þetta rétt sem hér er að gerast. Það er því lágmarkskrafa af hálfu okkar þm. að við fáum um það vitneskju frá hæstv. ríkisstj. og stjórnendum þingsins, hvernig hér á að halda á málum. Og mér er næst að fara ekki úr þessum ræðustól fyrr en ég fæ svar við slíku. (Gripið fram í: Það er enginn ráðh. til þess að svara.) Hæstv. forseti hlýtur að vita eitthvað um hvað er í bígerð að láta hér fram fara t. d. í nótt. (Forseti: Ég skal gefa þær upplýsingar að aðalforsetar þingsins sitja nú á ráðstefnu um þinghaldið og þess er að vænta að innan tíðar komi fréttir frá þeim um málið.) Er þá ekki æskilegast, forseti, að fundi sé frestað þar til einhverjar upplýsingar, hverjar sem þær verða, koma fram? (Forseti: Það eru menn hér á mælendaskrá, og við skulum halda fundi áfram þangað til annað kemur í ljós. Hv. þm. hefur orðið.)

Ég vænti þess, að að fundi loknum hjá hæstv. forsetum og þá hæstv. ráðh. sjálfsagt líka verði þeirri hulu svipt frá sem yfir þessu virðist liggja nú. Ég hygg að það sé svo um fleiri hv. þm. heldur en mig, að menn telja þetta óverjandi, slíkt ráðslag í þinghaldinu og stjórn þingsins eins og hér virðist hafa verið. Það er ekkert enn sem komið er sem bendir til þess að neinn botn fáist í málið.

Ég skal ekki að sinni a. m. k. halda stólnum öllu lengur. En ef ekki fer að koma á þetta lausn og við fáum að vita hvað hér á að gerast, þá er full ástæða til þess að taka málið upp aftur innan ekki langs tíma, um þingsköp, og herða á forsetum og ráðh. um að við fáum úr því skorið, hvort menn ætla hér að vera með þennan leikaraskap áfram eða hvort hér á að ræða mál af alvöru. Nóg er af stórum málum til þess að ræða, og það er ástæðulaust af stjórnendum þingsins að halda þannig á málum að hér sé meira og minna um leikaraskap að ræða fremur en alvarlegar umræður um stórmál. (Forseti: Ég vil taka fram út af ummælum hv. 6. landsk. þm. að hér er verið að ræða um sérstakt mál, frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð, og það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess, að óskað sé eftir að takmarka ræðutíma.)