19.05.1980
Neðri deild: 80. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2867 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

184. mál, Iðnrekstrarsjóður

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Iðnrekstrarsjóð, en eins og glöggt hefur komið fram af máli manna er þetta í fyrsta sinn sem það hv. Alþingi, er nú situr, fær tækifæri til þess að ræða iðnaðarmál, og því hafa umræður hér í kvöld nokkuð snúist almennt um iðnaðarmál. Mér finnst það engin furða þar sem svo er í pottinn búið, og það er ekki vonum fyrr að málefni íslensks iðnaðar komi til umr. á þessu hv. Alþingi. Ég sakna þess, að almennar umr. um þessi mál skuli ekki hafa farið fram hér fyrr. Ég sakna þess reyndar um ýmis önnur mál, að almennar umræður skuli ekki hafa farið fram. Ég tel að það hefði verið full ástæða til þess að ræða ítarlega hér á hv. Alþingi ýmis mál sem ljóst er að ekki munn koma til umr. á þessu þingi ef haldið verður við það sem hefur verið sagt, að ljúka eigi þingi jafnvel á morgun eða í þessari viku. Þá á ég t. d. við skýrslu um utanríkismál, sem hæstv. utanrrh. hefur gefið og hefur lítillega komið hér til umr., en ekki fengist rædd að öðru leyti en því, að fjórar ræður voru hér fluttar, ein frá hverjum flokki, en umr. síðan hætt þegar allnokkrir þm. voru á mælendaskrá.

Þetta er því verra að sætta sig við fyrir þm. þegar þingið hefur verið hér verklaust dögum saman og engin stjórn á því raunverulega af hálfu hæstv. ríkisstj., hvaða mál væru tekin hér til umr. og afgreiðslu. Ég held að það sé mjög til góðs að tekin séu til umr. mál sem varða heildarstefnu í ákveðnum málaflokkum, eins og t. d. í iðnaðarmálum, og því raunverulega ekki óeðlilegt og ég vil ekki flokka það undir málþóf þótt t. d. hv. 10. þm. Reykv. hafi flutt hér ítarlega ræðu um iðnaðarmál áðan, þar sem þessi mál hafa ekki fyrr komist til umr. hér á þessu þingi.

Ég held að allir séu sammala um það, að iðnaður sé sú atvinnugrein á Íslandi sem við hljótum að binda okkar vonir hvað mest við. Við horfum fram á það, a. m. k. í bili, að sjávarútvegur geti ekki tekið við þeirri aukningu sem verða þarf á atvinnutækifærum hér á landi, nema þá í takmörkuðum mæli. Ég hygg að menn séu sammála um að það sama gildi um landbúnað, og því hljóta augu manna að beinast í ríkum mæli að iðnaði sem framtíðaratvinnugrein á Íslandi og þá ekki aðeins iðnaði í þeim hefðbundna skilningi, sem við þekkjum hann, heldur iðnaði í stórum stíl, orkufrekum iðnaði, en jafnframt ýmsum smáiðnaði.

Það hafa verið gefnar upp margar tölur, m. a. í þeirri bók sem hér hefur verið vitnað til um iðnaðarstefnu og gefin var út af iðnrn. í maí 1979, um það, hversu mörg ný atvinnutækifæri þyrftu að skapast á næstu árum. Það kemur t. d. fram á bls. 77, þar sem rætt er um lánamál iðnaðarins, en einn angi af þeim málum er hér til umræðu með frv. til l. um Iðnrekstrarsjóð. Í þessari grg. kemur fram að sú aukna fjárfesting í iðnaði, sem nauðsynleg verði til að skapa um 3000–4000 ný atvinnutækifæri auk reglubundinnar endurnýjunar í iðnaði á næstu 4–5 árum, krefjist verulega aukins fjármagns til iðnaðarfjárfestingar frá því sem verið hefur. Hér er því sem sagt slegið föstu, að nauðsynlegt sé að skapa ný atvinnutækifæri í iðnaði fyrir um 3000–4000 manns á næstu 4–5 árum. Og það er enginn vafi á því, að til þess að slíkt geti átt sér stað þarf að gera mikið átak.

Við ræðum oft um stóriðju, og það er miður að mínu mati að markviss stóriðjustefna skuli ekki hafa verið mótuð hér á landi undanfarin ár. Þegar álverksmiðjunni sleppir og járnblendiverksmiðjunni hefur ekki verið mörkuð ákveðin stefna í stóriðjumálum, sem ég held að sé mjög nauðsynlegt, og því tek ég undir þá fsp. sem fram kom hjá hv. 10. þm. Reykv. áðan til hæstv. iðnrh. um það, hver sé ætlun ríkisstj. í stóriðjumálum nú á næstunni. Sannleikurinn er sá, að við höfum fyrir því margfalda reynslu í þeim fyrirtækjum, sem þegar hafa verið sett upp í stóriðju, að það þarf mjög langan undirbúning til þess að setja á stofn stóriðjufyrirtæki. Það er ekki aðeins að það þurfi að koma sér niður á að hvaða greinum eigi að beina kröftum sínum, heldur þarf einnig að koma sér niður á hugsanlega samvinnu við erlenda aðila, og við vitum að slíkar samningaviðræður taka langan tíma og þurfa mikinn undirbúning. Fjármagnsútvegun er og vandasöm í þessu efni og þarf mikinn tíma. En ekki síst tekur það langan tíma að afla þeirrar orku sem þarf til þess að geta rekið slík fyrirtæki. Við vitum að undirbúningur nýrra virkjana tekur langan tíma, og ég hygg að til þess að geta unnið markvisst að næstu áföngum í stórum virkjunum hér á landi þurfi mjög fljótlega að reyna að gera sér grein fyrir því, hver stóriðjustefnan eigi að vera, hver eigi að vera næstu fyrirtæki í stóriðju hér á landi og þá hvaða orkuver eigi að byggja til þess að afla orku fyrir slík fyrirtæki.

Ég geri stóriðjuna hérna sérstaklega að umtalsefni því ég held að við verðum að gera okkur það ljóst, Íslendingar, að stóriðjan er eitt af þeim atriðum sem við verðum mjög að hafa í huga ef við ætlum að efla atvinnulíf hér á landi og viðhalda og betrumbæta lífskjör almennings á Íslandi. En ég hygg einnig að við þurfum að ætla fleiri greinum iðnaðar rúm í okkar framkvæmdaáætlunum.

Ég las það ekki alls fyrir löngu í grein í erlendu tímariti, að núna, bæði í Bandaríkjunum og víða í Evrópu, eins og t. d. á Norðurlöndum, fer það eins og alda um að menn eru að gera sér í æ ríkari mæli grein fyrir því, að ýmiss konar smáfyrirtæki geta haft mjög mikla þýðingu fyrir aukningu atvinnutækifæra og fyrir aukna þjóðarframleiðslu. Þó að stóriðjan sé góðra gjalda verð og á hana beri að leggja áherslu, eins og ég hef rakið, hafa athuganir leitt til þess, að ýmiss konar smárekstur, þar sem tiltölulega fáir menn starfa í hverju fyrirtæki að framleiðslu eða alls konar þjónustu, skilar ekki síður miklum verðmætum í þjóðarbúið. Þess vegna, eins og ég sagði áðan, hafa augu manna í æ ríkari mæli beinst að því að efla ýmiss konar smáfyrirtæki, gefa þeim kost á auknu fjármagni og reyna að greiða götu þeirra til þess að þau geti náð að festa rætur. Í því sambandi vil ég benda á að það hefur löngum verið áhugamál iðnaðarmanna eða þeirra, sem standa fyrir samtökum iðnaðarins, að reyna að stuðla að viðgangi smáfyrirtækja með rekstri svokallaðra iðngarða. Menn vita að það, sem stendur mörgum fyrirtækjum fyrir þrifum, er sú mikla fjárfesting sem þau þurfa að leggja í húsnæði. Og þó að það hafi reynst mörgum fyrirtækjum vel hér á landi að leggja fjármagn í húsnæði, vegna þess hversu verðbólgan hjálpar upp á sakirnar og sagt er að steinsteypan sé einhver arðbærasta fjárfesting hér á landi, þá er það nú svo um marga aðila, sem hafa góðar hugmyndir um nýjar framleiðslugreinar, hafa hugmyndaflug til þess að hefja nýja framleiðslu, og við eigum marga hugvitsmenn, Íslendingar, að ýmsir þeirra vilja frekar geta lagt það fjármagn, sem þeir hafa yfir að ráða og geta komið höndum yfir, í vélar og tæki, en vilja hins vegar forðast að leggja fjármagn sitt fyrst og fremst í steinsteypu. Hins vegar hafa margir neyðst til þess að gera það vegna þess að því miður hafa sjóðir þeir, sem lána til þessarar atvinnustarfsemi, í allt of ríkum mæli fyrst og fremst krafist þess að geta tekið veð í húsum eða steinsteypu. Sjóðirnir hafa ekki nema í litlum mæli viljað taka veð í vélum og tækjum, sem þó eru jafnlífsnauðsynleg fyrir viðkomandi fyrirtæki og húsnæðið, þó að vélar og tæki séu ekki eins gjaldgengt veð fyrir þær lánastofnanir sem lán hafa á boðstólum.

Einmitt þess vegna hafa menn, sem vilja smærri iðnfyrirtækjum vel, í vaxandi mæli beint sjónum sínum að svokölluðum iðngörðum, þ. e. að einhverjir aðilar, jafnvel opinberir aðilar, ríki eða sveitarfélög, taki saman höndum um að byggja húsnæði sem hægt sé að leigja iðnfyrirtækjum fyrir starfsemi þeirra. Þegar borgarstjórn Reykjavíkur, svo ég nefni dæmi, samþykkti stefnu í atvinnumálum í upphafi árs 1974, þá var það einn af mikilvægum þáttum í þeirri stefnu að borgarstjórn hugðist beita sér fyrir því, að byggðir yrðu iðngarðar í Reykjavík, og reyndar hefur allar götur síðan verið ákveðin lóð ætluð fyrir slíka starfsemi, þ. e. iðnaðarlóð uppi í Breiðholti. En einhverra hluta vegna hefur ekki orðið úr þessum framkvæmdum og þeir iðngarðar hafa ekki enn þá verið byggðir.

Ég minni enn fremur á það, að hv. 6. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, flutti í fyrra á Alþingi till. um iðngarða sem var mjög góðra gjalda verð. Í þeirri bók, sem iðnrn. gaf út á s. l. ári, er enn fremur rætt um iðngarða, og þar segir svo, með leyfi forseta:

Samstarfsnefnd um iðnþróun leggur til, að gert verði átak til að koma á fót iðngörðum. Leggur nefndin til, að lögum Iðnlánasjóðs verði breytt þannig, að hann geti lánað til iðngarða í eigu opinberra aðila og/eða annarra áhugaaðila og jafnframt fái sjóðurinn aukið fjármagn er geri honum kleift að lána til slíkra framkvæmda, m. a. í samvinnu við Byggðasjóð. Leggur nefndin til að sett verði sérstök lög um iðngarða er skýri tilgang þeirra og tryggi, að starfsemi iðngarða leiði til jákvæðra umbóta í iðnaði.“ Af þessari ályktun nefndarinnar er ljóst að þessi samstarfsnefnd um iðnþróun hefur gert sér mjög glögga grein fyrir þýðingu iðngarða fyrir uppbyggingu iðnaðarins í landinu, enda segir í grg. svo með leyfi forseta:

„Á síðari árum hafa þróast hugmyndir um iðngarða, sem reistir væru af opinberum aðilum, einkum sveitarfélögum og/eða öðrum áhugaaðilum. Iðngarðar stæðu til boða framleiðslufyrirtækjum í nýjum greinum framleiðsluiðnaðar, sem verði til viðbótar við þá starfsemi, sem fyrir er í landinu, en jafnframt geta önnur fyrirtæki í framleiðsluiðnaði átt kost á húsnæði í iðngörðum, ef tryggt er, að starfsemi þeirra skapar ekki neikvæða samkeppni við sams konar fyrirtæki annars staðar á landinu og að viðkomandi fyrirtæki hafi ótvíræða þýðingu fyrir atvinnulíf í viðkomandi sveitarfélagi.

Þá kemur til greina að veita iðnfyrirtækjum, til húsa í iðngörðum, sérstök leiguhlunnindi um tiltekinn tíma, ef um er að ræða áhættusama framleiðslu. Einnig verða iðnfyrirtæki til húsa í iðngörðum að geta átt kost á ábyrgðarþjónustu eigenda iðngarðanna, þannig að þau geti sett veð fyrir lánum, eins og yfirleitt er krafist í peningastofnunum. Eðlilegt er að gera ráð fyrir möguleikum á leigukaupum eða beinum kaupum iðnfyrirtækjanna á því húsnæði, sem þau nota til starfsemi sinnar. Iðngarðar bjóða upp á margvíslega möguleika til samstarfs meðal þeirra fyrirtækja, sem þar fengju inni. Einnig hefur sveitarfélagið möguleika til að gera húsnæði þessara aðila betur úr garði en almennt gerist, þannig að unnt sé að tala um fullbúið iðnaðarhúsnæði, en ekki hálfklárað.

Hagræði iðnfyrirtækja í iðngörðum getur m. a. komið fram í eftirfarandi formum:

1) Minnkaðri fjárfestingarbyrði og fjármagnsþörf. Fyrirtæki geta einbeitt fjármunum af framleiðslubúnaði og tækjum. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir ný fyrirtæki.

2) Sú atorka, sem fer í húsbyggingar hjá nýstofnuðum fyrirtækjum, sparast, og jafnframt getur fyrirtækið strax notið hagræðis af heppilegu húsnæði.

3) Lægri rekstrarkostnaður, sem leiðir af hagkvæmum byggingum og lægri húsnæðiskostnaði.

4) Möguleikum á samstarfi um ýmsa rekstrarþætti: hráefniskaup — útvegun og aðflutninga efnis, framleiðslustarf, sölusamstarf — afgreiðslur afurðaflutninga, bókhalds- og skrifstofuþjónusta og erindrekstur, matar- og kaffiaðstaða og annar aðbúnaður starfsliðs, bætt umhverfi innanhúss og utan, viðhaldsþjónusta, rekstrarráðgjöf.

5) Hægt er að koma við skipulögðum aðgerðum til að efla reksturinn með fræðslu og námskeiðahaldi fyrir stjórnendur og starfslið og bæta félagslega aðstöðu þeirra sem starfa á slíkum stöðum.

Gildi iðngarða er ekki hvað síst fyrir hinar dreifðari byggðir landsins, þar sem erfiðast er að fá þá samverkan í framleiðslu og þjónustu sem auðveldlega kemst á í þéttbýlinu. Er því ljóst, að hér getur verið um mikilvægt byggðastefnumál að ræða.

Í framhaldi af umræðum á þingi Sambands ísl. sveitarfélaga haustið 1977 um viðfangsefnið „Sveitastjórnir og iðnþróun“ hafa ýmsir aðilar sýnt málinu verulegan áhuga. M. a. hefur byggðadeild Framkvæmdastofnunar tekið málið upp í tillögum sínum um iðnþróun í Rangárvallasýslu og ýmsar sveitarstjórnin hafa leitað eftir stuðningi hins opinbera í málinu.

Á ráðstefnu sveitarfélaganna var upplýst, að Iðnlánasjóður hefði í reynd enga möguleika á að lána sveitarfélögum til slíkra bygginga, þar sem sjóðurinn veiti samkv. lögum forgang þeim fyrirtækjum, sem greiða eða koma til með að greiða iðnlánasjóðsgjald. í hinum stöðuga lánsfjárskorti útilokar þetta lán til sveitarfélaga.

Ljóst er, að víða um land þarf félagslegt átak, e. t. v. með frumkvæði sveitarfélaga, til að koma á fót iðnaði, sem vænlegur þykir. Sýnist því rétt að opna fyrir stuðning aðalfjárfestingasjóðs iðnaðarins við iðnþróun á þessum grundvelli, en þó með því fororði, að þar sé ekki stuðlað að neikvæðri samkeppni eða óraunhæfri iðnaðaruppbyggingu, t. d. með mismunun gagnvart fyrirtækjum, sem eiga í samkeppni, eða með því að fjölga fyrirtækjum á þröngum markaði, eða skotið sé skjólshúsi yfir starfsemi, sem ekki hefur gildi fyrir þróun iðnaðar. Hefur samstarfsnefndin að beiðni iðnrn. þegar gert drög að frv. um breyt. á lögunum um Iðnlánasjóð og í ráði er að semja frv. um iðngarða.“

Hér lýkur tilvitnun í þessa skýrslu um iðngarða, sem glögglega ber það með sér, að þeir, sem hana sömdu, telja að iðngarðar séu eitt af því mikilvægara sem hægt sé að koma á fót í þágu íslensks iðnaðar. Fer það mjög saman við það sem ég gat um áðan, þá stefnu sem æ meir ryður sér til rúms í okkar nágrannalöndum ýmsum, að leggja beri aukna áherslu á ýmiss konar smáfyrirtæki og ýmiss konar smærri rekstur jafnhliða stóriðjurekstrinum.

Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh. að því, hvað líði framkvæmd þessara tillagna sem hér um ræðir, þ. e. hvað líði undirbúningi þess að samið sé frv. um iðngarða og hvenær megi vænta þess að hæstv. ráðh. leggi það fyrir hv. Alþingi.

Áðan ræddi hv. 10. þm. Reykv. nokkuð um Landssmiðjuna og þá ákvörðun sem nýlega var tekin. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. á það, að til umr. er 184. mál, um Iðnrekstrarsjóð.) Já, Iðnrekstrarsjóður hefur þann tilgang samkv. 1. gr. að örva nýsköpun í átt til aukinnar og bættrar framleiðslu í iðnaði, að auka framleiðni í samkeppnisiðnaði, og það, sem ég hugðist nú vekja máls á, hæstv. forseti, er sú ákvörðun hafnarstjórnar Reykjavíkur að úthluta Landssmiðjunni stórri lóð hér í Reykjavík. En það mál tengist mjög skipasmíðum og skipaviðgerðum hér á landi, sem er einhver mikilvægasta iðngrein sem við horfum fram á að geta aukið og eflt hér og hlýtur auðvitað að verða eitt af mikilvægum verkefnum Iðnrekstrarsjóðs að stuðla að. Ég vildi fyrst og fremst ítreka þá fsp. sem fram kom hjá hv. 10. þm. Reykv. til hæstv. iðnrh. sérstaklega um Landssmiðjuna.

Þannig stendur á, eins og menn víta, að hét í Reykjavík hefur um alllangan tíma verið áhugi á því að koma á fót skipaverkstöð, sem hefði með höndum bæði viðgerðir og jafnvel nýsmíði skipa einnig. Hér í Reykjavík starfa ýmis fyrirtæki á þessu sviði. En þau hafa ekki verið þannig í stakk búin fjárhagslega að þau treysti sér til þess að hefja stórfellda uppbyggingu. En þó er rétt að það komi fram, að það eru þó viss merki þess nú, að t. d. Slippfélagið í Reykjavík hafi áhuga á uppbyggingu, en treysti sér þó ekki til þess að fara á nýjan stað, en vilji gjarnan gera það á sínum gamla stað og hefur lagt fram ákveðnar skipulagshugmyndir fyrir hafnarstjórn þar að lútandi. En það vekur að sjálfsögðu verulega athygli og þess vegna vildi ég spyrja hæstv. iðnrh. að því, hver séu áform Landssmiðjunnar þarna á þessum stað. Okkur var tjáð, sem í hafnarstjórn sitjum, að Landssmiðjan hefði stuðning iðnrn. við umsókn sína. Þetta er mjög dýr lóð, gatnagerðargjald eitt mun kosta tugi millj. kr., og eins og ég sagði áðan er ljóst að þau einkafyrirtæki, sem í þessari grein hafa starfað, hafa ekki treyst sér, a. m. k. ekki enn þá, til þess að fara inn á þetta nýja svæði. Þess vegna væri mjög æskilegt að fá það hér fram, hver sé fyrirætlunin varðandi þessa atvinnugrein hjá Landssmiðjunni.

Það vekur nokkra athygli varðandi frv., sem hér liggur fyrir um Iðnrekstrarsjóð, að það miðar að því að víkka hlutverk Iðnrekstrarsjóðs og efla hann verulega, eins og segir í grg., í þeim tilgangi að stuðla að margvíslegu nýsköpunar- og umbótastarfi í þágu iðnaðar. Er þetta gert í samræmi við þá stefnumótun um eflingu iðnaðar sem unnið hefur verið að á vegum iðnrn.

Iðnrekstrarsjóður hefur að vísu starfað um nokkurt skeið. En það vekur óneitanlega athygli þeirra, sem hugleiða iðnaðarmál hér á landi, ekki síst fjárfestingar- og lánamál iðnaðarins, hvað kröftunum virðist dreift á marga sjóði sem virðast hafa sama markmið hver og einn. Við höfum t. d. Iðnlánasjóð. Samkv. lögum er það tilgangur hans að styðja iðnað Íslendinga með hagkvæmum stofnlánum. Iðnlánasjóðurinn er sjálfstæð stofnun. Hann hefur sérstaka stjórn, en Iðnaðarbanki Íslands hefur með að gera afgreiðslu þessa sjóðs. Iðnlánasjóður hefur allnokkurt fjármagn yfir að ráða, en samkv. skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem gerð var grein fyrir í Sþ. í dag, hafa lánveitingar Iðnlánasjóðs undanfarin ár numið sem hér segir:

Lánveitingar: 1977 1325 millj., 1978 1840 og 1979 3250.

Af þessu má sjá, að Iðnlánasjóður hefur verulegt fjármagn til umráða. Sumum þykir þó vafalaust að það mætti vera meira, og ég dreg það ekki í efa. En hér er um að ræða sjálfstæða stofnun sem vinnur að lánamálum iðnaðarins.

Næst rekur maður augun í það, að hér er starfandi svokallaður Iðnþróunarsjóður. Ef maður fer að hugleiða hver tilgangur hans er og hver helstu verkefni hans séu, þá kemur í ljós að hér er um að ræða sjóð sem stofnaður er með sérstakri samvinnu, byggður á samningi milli Norðurlandanna, þ. e. Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Þessi sjóður má segja að hafi ákveðið og sjálfstætt hlutverk. Hann er, má segja, eins konar umboðsaðili hér á Íslandi fyrir þessa sameiginlegu norrænu iðnþróunarstarfsemi. Hann hefur sérstaka stjórn og hann lánar allmikið, eins og við sjáum á því að árið 1975 voru bein útlán hans 650 millj., 1976 575 millj., 1977 668 millj., 1978 930 millj. og 1979 1571 millj. Hér er um aðra sjálfstæða stofnun að ræða sem vinnur að lánamálum iðnaðarins.

Í þriðja lagi er hér starfandi Veðdeild Iðnaðarbanka Íslands. Nú er Iðnaðarbankinn, eins og við vitum, sjálfstæður banki, hlutafélag, sem fyrst og fremst þeir, er að iðnaði vinna, standa að, og er það ekkert óeðlilegt. Veðdeild bankans virðist hafa úr mun minna fjármagni að spila heldur eru þeir sjóðir sem ég hef nú hér rakið. Samkv. skýrslunni um Framkvæmdastofnun hefur veðdeild Iðnaðarbankans haft til útlána árið 1975 72 millj., 1976 43 millj., 1977 82 millj., 1978 136 millj. og 1979 209 millj. kr.

Í fjórða lagi höfum við svo alveg sjálfstæðan sjóð sem við nú erum að fjalla um í þessu frv., þ. e. Iðnrekstrarsjóð. Hlutverk hans er að styðja við umbótastarf í iðnaði í þeim tilgangi að auka útflutning iðnaðarvarnings, að auka samkeppnishæfni íslensks iðnaðar á innlendum og erlendum markaði, og örva nýsköpun í átt til aukinnar og bættrar framleiðslu í iðnaði, að auka framleiðni í samkeppnisiðnaði.

Hér er um einn sjálfstæðan sjóð að ræða, sjálfstæða stofnun nr. 4 af þeim sem ég hef greint frá. Hér er um að ræða stofnun sem hefur sjálfstæða stjórn og virðist hafa æðimikið sjálfstæði, eins og reyndar þær stofnanir aðrar þrjár sem ég hef hér greint frá. Hér koma fleiri sjóðir, sem með beinum eða óbeinum hætti stuðla að uppbyggingu iðnaðar, eins og Byggðasjóður og Framkvæmdasjóður.

Ég vil af þessu tilefni, vegna þess að ég sakna þess í þeirri skýrslu sem ég vitnaði í áðan um lánasjóði iðnaðarins, spyrja hæstv. iðnrh. að því, hvort á vegum hans rn. hafi ekki komið til álita að reyna að einfalda þessi lánamál iðnaðarins, reyna að sameina þetta meir í eina stofnun, en ekki hafa jafnmargar sjálfstæðar stofnanir sem hver um sig virðist sinna meira og minna sama hlutverki. Það hlyti að vera hagræði að því að reyna að einfalda þessi atriði, þ. e. sjóðakerfi iðnaðarins.

Herra forseti. Ég læt nú senn máli mínu lokið. Eins og ég sagði í upphafi minnar ræðu er þetta í fyrsta sinn sem okkur hér, a. m. k. í Nd., gefst tækifæri til þess að ræða almennt um iðnaðarmál, og það er ekki vonum fyrr. Frv., sem hér liggur fyrir, er út af fyrir sig ekki deilu- eða ágreiningsefni. Það hefur komið hér fram ein brtt., frá hv. 10. þm. Reykv., á þskj. 539. Ég styð þá till. En að öðru leyti er ekki ágreiningur um þetta mál. Ég vil geta þess sérstaklega, vegna þess að eins og fram kemur í nál. iðnn. á þskj. 533 var ég vegna annarra starfa nú á þessum síðustu annadögum þingsins fjarverandi frá þeim fundi, að ég styð nál. og er sammála því sem þar kemur fram, með fyrirvara þó eins og ég hef hér frá greint.