08.01.1980
Sameinað þing: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

37. mál, bifreiðakostnaður öryrkja

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Takmörkun ræðutíma um fsp. leyfir ekki að farið sé út í almennar umr. um það sérstaka og í rauninni mjög mikla vandamál sem hér er um að ræða. Ég vil því aðeins láta nægja að taka undir það og leggja á það áherslu, að þessu sérstaka vandamáli séu gerð skjót og viðhlítandi skil. Ég álít að annað sé ekki sæmandi. Ég er alveg viss um það, eins og hv. síðasti ræðumaður, að hér á Alþ. er traustur meiri hluti fyrir því að leiðrétta stöðu þeirra manna, sem hér um ræðir, að þessu leyti. Ég held að Alþ. megi ekki sóma síns vegna láta langan tíma líða án þess að þessu máli sé sinnt. Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að um þessi mál var fjallað í fyrrv, ríkisstj., og þau mættu þar, er mér óhætt að segja, mjög eindregnum velvilja.

Ég hef að sjálfsögðu ekkert við þá málsmeðferð að athuga, sem hæstv. félmrh. hefur gert grein fyrir, að þessu sé vísað til þeirrar almennu nefndar sem fjallar um endurskoðun á tryggingalöggjöfinni, en þó með því eindregna skilyrði, að henni sé þá falið að láta þetta sérstaka mál hafa forgang, þannig að það þurfi ekki að tefjast vegna hinnar almennu athugunar á ýmsum atriðum í sambandi við tryggingalöggjöfina.

Ég er sannfærður um það, að ef talin er hæpin lagaheimild í þessu efni, þá er ekkert auðveldara en að koma fram slíkri lagabreytingu á Alþ. og fá nægilega lagastoð á skömmum tíma. Ég vænti þess, að hæstv. félmrh. beiti sér fyrir því.