19.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstj. Gunnars Thoroddsens hefur nú starfað rúma þrjá mánuði. Þetta er ekki langt valdaskeið og varla tímabært að kveða upp mikla dóma um stjórnarferilinn, hvort heldur sem menn eru hliðhollir stjórninni eða kunna að vera henni andsnúnir. Skynsamlegra mun að fara sér hægt í lofi og lasti á þessari stundu, en reyna heldur að leggja niður fyrir sér hvert ástand stjórnmála var þegar ríkisstj. tók við völdum og hverjar líkur voru þá fyrir hendi til lausnar á helstu vandamálum atvinnu- og efnahagslífsins sem þá og löngum fyrr hafa sett meginsvip á stjórnmálin.

Það er alveg ljóst, að ríkisstj. tók við mjög slæmu ástandi í efnahagsmálum. Höfuðástæðan til þess, að núv. ríkisstj. stóð frammi fyrir hrikalegum efnahagsvanda, var þrálát óreiða íslenskra stjórnmála á tímabilinu október til febrúar í vetur. Núv. ríkisstj. starfar í skugga þessa upplausnartímabils sem vissulega verður kennt við Alþfl. Þá fáu mánuði, sem ríkisstj. hefur setið, hefur hún notað til þess að greiða úr óreiðu þessa upplausnartímabils, og má segja að það hafi gengið vel eftir atvikum, eins og fram kom í ræðu forsrh. áðan. Samstarfið í ríkisstj. er gott þrátt fyrir orð Benedikts Gröndals áðan. Ég finn ekki annað en fullur vilji sé hjá þeim, sem að ríkisstj. standa, að láta á reyna um það, að stjórnarsamstarfið haldist út kjörtímabilið. Að mínum dómi er slíkt reyndar mjög mikilvægt atriði. Fyrst og fremst er það mikilvægt vegna þess, að stjórnarsáttmálinn er miðaður við heilt kjörtímabil, en ekki þrjá mánuði, eins og virtist vera skilningur Jóhönnu Sigurðardóttur áðan. Ríkisstj. .þarf starfsfrið í a. m. k. þrjú ár til þess að geta sýnt árangur á hinum ýmsu sviðum þjóðmálanna, ekki eingöngu í efnahagsmálum, heldur í óðrum þjóðmálum sem ekki er minna um vert að sinna af kostgæfni. Þannig tel ég mikilvægt að horft sé fram á veginn og gert ráð fyrir löngu stjórnarsamstarfi.

En þrátt fyrir mikilvægi þessarar ábendingar minnar verður ekki hjá því komist að minna á þá alvöru og erfiðleika sem við blasa hið næsta okkur. Þrátt fyrir fullan vilja og mikilvægar aðgerðir til þess að greiða úr óreiðu stjórnarsamvinnu Geirs Hallgrímssonar og Sighvats Björgvinssonar er mikill vandi fram undan í efnahags- og atvinnumálum og í kjaramálum. Ríkisstj. og þeir, sem að henni standa innan Alþingis, og almenningur, sem gerir sér vonir í sambandi við þetta stjórnarsamstarf, verða að gera sér grein fyrir að í sjónmáli er alda kaupgjalds- og verðlagshækkana sem finna verður sameiginleg ráð til að brotni áður en hún skellur á undirstöðum þjóðlífsins með ofurþunga sínum.

Ríkisstj. hefur sett sér ákveðin mörk í verðlagshækkunum á þessu ári og hinum næstu. Hún hefur þá stefnu að draga úr verðhækkunum í áföngum á næstu tveimur árum með það markmið í huga, að verðbólgan verði þá komin niður í það sem gerist í helstu viðskiptalöndum okkar. M. ö. o.: ríkisstj. stefnir að því að sjá verulegan árangur í þessu efni árið 1982. Til þess að það megi takast verður þó strax að hefjast handa um að feta sig niður á við í verðlags- og kaupgjaldsstiganum, enda er verðbólgan í eðli sínu alltaf víxlverkun verðlags og kaupgjalds. Til þess að hægja á verðbólgunni er því ekki til önnur leið en að leita jafnvægis milli þessara þátta.

Nú blasa við á næsta leiti, þ. e. 1. júní, miklar vísitöluhækkanir, og því er ekki að leyna, að ef þessar hækkanir koma fram, e. t. v. 11–12% samkv. verðbótavísitölu, þá mun örðugt fyrir ríkisstj. að standa við fyrirheit sín um niðurfærslu almenns verðlags sem lið í því að koma verðbólgu smám saman niður á viðráðanlegt stig. Þess vegna verður að finna leið til þess að milda áhrif vísitöluhækkananna 1. júní. Segja má, að þetta sé brýnasta viðfangsefnið eins og sakir standa.

Um þessi mál verður að sjálfsögðu að eiga við launþegasamtökin. En hitt er ekki síður nauðsynlegt, að eiga um þessi mál við stéttasamtök bænda og sjómanna á fiskiskipaflotanum, sem eiga hag sinn undir ákvörðunum um verð á búvöru og fiskafla eftir þeim reglum sem gilda um þau efni. En fiskverð og búvöruverð eru að sjálfsögðu liðir í því sjálfvirka verðbólgukerfi sem ríkir hér á landi, og það er útilokað að koma fram niðurfærslu verðlags eftir áfangaleiðinni nema þessir þættir séu einnig hafðir í huga. Fiskverðs- og búvöruverðsákvarðanir geta vissulega verið verðbólguhvetjandi og eru það óhjákvæmilega í því verðbólguástandi sem hér hefur ríkt í 40 ár. Því er það, að samstarf um þessi mál í heild verður að takast milli ríkisvaldsins og allra hagsmunaafla í landinu, hvort sem það eru almennir launþegar, bændur eða sjómenn, svo að helstu hagsmunaaðilarnir séu nefndir.

Því er gjarnan haldið fram, að tilslökun launþega, bænda og sjómanna frá forskriftum kerfisins þýði kjararýrnun fyrir hlutaðeigandi stéttir sem þær hafi ekki efni á að veita. Og satt mun það, að útreikningar af einföldustu gerð og einhliða viðmiðun styður slíka skoðun. En í þessu efni er á margt að líta. Miðað við þá óhjákvæmilegu víxlverkun verðlags og kaupgjalds sem verðbólgan er verður ekki hjá því komist að víkja af vegi vanans og rétttrúarstefnunnar í kaupgjalds- og verðlagsmálum. Séð í því ljósi gera launþeginn, bóndinn og sjómaðurinn miklu meira en að hafa efni á að hliðra til í kerfinu. Sannleikurinn er sá, að þeir hafa ekki efni á að gera það ekki. Það verða allir landsmenn að leggja sitt af mörkum til þess að verðbólgan minnki. Áframhaldandi verðbólguvöxtur getur leitt til stöðvunar margra atvinnugreina og lamað atvinnulífið allt, og það er rangt að menn séu að fórna einhverju þótt þeir taki þátt í því að sínum hluta að tryggja skynsamlega verðlagsþróun. Ég veit að allur þorri fólks er mér sammála um þetta og almenningur vill að gengið sé til samninga um kaup og kjör á þeim grundvelli að niðurfærsla verðbólgunnar geti tekist. Fólk veit að með því tryggir það atvinnuöryggi sitt og þar með eigin hag best. Því miður hafa samningamálin dregist úr hófi. Enn er ósamið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusamband Íslands. Ég tel æskilegast, ekki síst eins og nú er komið, að samflot verði haft í þessum samningamálum svo sem kostur er, og viðræður við bændastéttina eru einnig nauðsynlegar í sambandi við þessi mál almennt.

Herra forseti. Sem eðlilegt er verður mönnum skrafdrjúgt um efnahagsmál og horfur í verðlags- og kaupgjaldsmálum. Ég hef að heita má eytt þessum tíma mínum til þessa til þess að fjalla um þau efni, en þó aðeins stiklað á stóru og sleppt mörgu, enda ekki gerlegt að ræða þessi mál í smáatriðum eða frá öllum hliðum. En þó strítt sé talað um erfiðleika atvinnulífsins og verðbólguvandans, þá má það ekki byrgja mönnum sýn til annarra landsmála né heldur loka augum manna svo að þeir sjái ekkert nema svart fram undan. Væri illa farið ef opinskáar umr. um brýnustu vandamál efnahagslífsins yrðu til þess að gera menn blinda á það sem bjart er og vel horfir. Sem betur fer er víða unnið að framfaramálum á ýmsum sviðum. Uppbygging er geysimikil í landinu og að sumra áliti meiri í heild en hollt er fyrir jafnvægi í efnahagsmálum og raunverulega getu okkar til fram­kvæmda. Atvinnuleysi er ekki á Íslandi nú fremur en mörg undanfarin ár, en atvinnuleysi er böl margra vel­megunarþjóða.

Landbúnaðurinn hefur um skeið gengið í gegnum erfiðleikatímabil sem á sér ýmsar orsakir. Markaðs- og framleiðslumálin eru að sjálfsögðu hinn stóri vandi land­búnaðarins og tilraun til úrlausnar á því sviði stendur nú yfir í landbúnaðinum. Það er verið að framkvæma þann samdrátt í búvöruframleiðslu sem framleiðsluráðslögin gera ráð fyrir og með þeirri aðferð sem valin var, svonefndu kvótakerfi. Það hefur ekki reynst auðvelt í framkvæmd og í því efni verða menn að læra af reynslunni eins og öðru. En vonandi horfir þó í rétta átt í þessu efni.

Árferði var bændum víða um land afar óhagstætt á fyrra ári og olli miklu uppskeru- og afurðatjóni sem að nokkru hefur verið bætt með beinum aðgerðum, þó margt sé enn óbætt. Og að nokkru rættist betur úr en á horfðist vegna hagstæðs tíðarfars s. l. vetur. Það hefur einnig árað vel á þessu vori, og líkur benda til þess, að sumarið geti orðið gott hvað gróður snertir og fóðuröflun.

Þess má geta, að lögin um forfalla- og afleysinga­þjónustu í sveitum, sem sett voru í ráðherratíð Steingríms Hermannssonar, koma að hluta til fram­kvæmda 1. júlí n. k., en að fullu eiga þessi lög að taka gildi eða koma til framkvæmda á þremur árum.

Það hefur komið í minn hlut í ríkisstj. að fara með menntamálin. Þetta er umfangsmikill málaflokkur sem skiptist í grófum dráttum í skólamál og almenn menning­armál. Skólamálin eru fyrirferðarmikil í þjóðlífinu og snerta í raun og veru hvern einasta mann í landinu. Þau hljóta því að vekja almennan áhuga, enda vona ég að þau geri það ýmsum málum fremur. Mörgum ægir að vísu útþensla skólanna, öðrum finnst ekki nóg að gert. Hið sanna er, að skólakerfið er í örum vexti.

Í stuttu máli má segja að aðalstefnumarkið sé að koma á samfelldu skólakerfi og samræmingu á öllum skólastig­um og vinna að jöfnun á námsaðstöðu. Verið er að framkvæma grunnskólalögin sem sett voru 1974. Þau skyldu koma til fullra framkvæmda á 10 árum. Lögin kváðu svo á, að 9 ára skólaskylda skyldi komin á haustið 1980. Að höfðu samráði við ýmsa aðila ákvað ég að leggja fyrir Alþingi frv. um að fresta framkvæmd 9 ára skólaskyldunnar um allt land um eitt ár. Alþingi hefur nú nýlega lögfest frestunina og á 9 ára skólaskyldan að koma til framkvæmda haustið 1981 í landinu öllu samkv. því.

Á undanförnum árum hefur verið unnið mikið starf til undirbúnings því að samræma framhaldsskólastigið. Frumvörp hafa verið samin og flutt á Alþingi hvert á fætur öðru en ekki náð samþykki. Ég hef í hyggju að leggja frv. um þetta efni fyrir næsta Alþingi. En áður en það verður gert þarf að ryðja úr vegi ýmsum hindrunum fyrir framgangi málsins. Er þar ekki síst um að ræða fjármálaþátt þessa máls, þ. e. kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem verður að leysa, svo að ekki þurfi um að deila í hvaða hlutföllum ríki og sveitarfélög eigi að standa undir kostnaði af rekstri framhaldsskól­anna. Segja má, að í öllum landsfjórðungum sé nú unnið að samræmingu framhaldsskólastigsins fyrir frumkvæði skólamanna og sveitarstjórnarmanna með atbeina og hvatningu menntmrn. Leyfi ég mér að þakka þeim fjölmörgu mönnum um allt land sem að þessu hafa unnið, enda er verk þeirra afar mikilsvert.

Hin almennu menningarmál eru afar fjölþættur mála­flokkur sem tekur sífellt meira rúm í starfi menntmrh. og starfsmanna rn., enda um að ræða mál sem snerta grund­vallarþætti íslenskrar þjóðmenningar og viðleitni nú­tímamanna til að vernda og ávaxta fornan menningararf þjóðarinnar. Undir þennan málaflokk heyra m. a. listir, bókmenntir og safnamál, þ. e. allt skapandi menningar­starf í landinu. Þó að ég hafi ekki haft þessi mál með höndum nema í mjög stuttan tíma til þessa, þá get ég sagt það með sanni að mér hefur verið mikil ánægja að vinna með og kynnast í starfi því fólki sem vinnur að skapandi menningarmálum. Efast ég um að aðrir þegnar þessa lands vinni af meiri áhuga og fórnfýsi að sínum verkum en þetta fólk. Það er mikill misskilningur, að listamenn liggi uppi á náð ríkisins um afkomu sína. Þeir sjá fyrir sér sjálfir eins og aðrir vinnandi menn í þessu landi. Stuðn­ingur við listir og menningarmál er að sáralitlu leyti í formi styrkja til einstaklinga. Af þeim verður enginn feitur. Ef svo skyldi vera að meðal fólks finnist tortryggni gagnvart vinnuframlagi listamanna og fordómar í þeirra garð, þá þarf að eyða slíkri tortryggni og fordómum.

Herra forseti. Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi, að varla er tímabært að kveða upp einhverja úrslitadóma um núv. ríkisstj., hvort heldur er til lofs eða lasts. Ríkisstj. hefur reynt að gera sitt besta í erfiðri stöðu og mun að sjálfsögðu halda því áfram. Í sjónmáli er hækk­unaralda kaupgjalds og verðlags. Verði henni ekki eytt í tíma er mörgu hætt í sambandi við ásetning ríkisstj. í verðbólgumálum. Þótt að mörgu sé að hyggja, þá er brýnasta verkefni ríkisstj. nú að snúast til varnar gegn ótímabærum vísitöluhækkunum 1. júní og afleiðingum þeirra á verðlagsþróunina. Um það efni þarf að nást samkomulag við hagsmunaöflin í landinu.

Herra forseti. Ég hef lokið máli, mínu. Ég þakka áheyrnina.