19.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2908 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Sverrir Hermannsson lýsti hér áðan með miklu orðskrúði annars vegar þenslu og verðbólgu, en hneykslaðist hins vegar á niðurskurði á erlendum lántökum, m. a. hjá Byggðasjóði. Þetta er eflaust sú hreinskilni sem hv. þm. talaði svo mikið um. Þrengingar Byggðasjóðs eru þó ekki meiri en svo, að Sverrir Her­mannsson telur sjóðnum fært að ráðstafa 700 millj. kr. í bundið slitlag á vegi. Verkefnið er mjög gott að vísu, en það orkar sannarlega tvímælis hvort það er mikilvægasta byggðamálið, enda segja skæðar tungur að við þessa tillögugerð hafi fremur verið haft í huga að bjarga upp­áhaldsfyrirtæki þeirra sjálfstæðismanna, Olíumöl hf.

Sverri Hermannssyni rann jafnframt blóðið til skyld­unnar og varði setustjórn Alþfl. Staðreyndin er þó sú, að sá vetur, sem nú er liðinn, hefur verið óvenjuerilsamur og mjög erfiður íslensku efnahagslífi. Í stað þess að snúa sér af krafti og heilindum að því að þoka verðbólgunni niður kaus Alþfl. s. l. haust að hlaupa frá vandanum, rjúfa stjórnarsamstarfið, ganga til samstarfs við Sjálfstfl. og efna til vetrarkosninga. Skyldi það vera vopnið sem þm. Árni Gunnarsson var að tala um hér áðan?

Við framsóknarmenn vorum þessu mótfallnir. Við vöktum athygli á því að slíkt ábyrgðarleysi hlyti að leiða til skemmra eða lengra stjórnleysis sem hafa mundi hin verstu áhrif á efnahagsþróun. Sú hefur einnig orðið raunin, eins og ég kem að síðar. Engu að síður gengum við framsóknarmenn af einurð til kosninganna. Við sett­um fram okkar stefnu í efnahagsmálum, sem byggir á því að ná verðbólgunni niður jafnt og þétt í samvinnu við launþega og atvinnurekendur, án atvinnuleysis og án byggðaröskunar, en með aðhaldi á öllum sviðum. Þjóðin mat stefnu okkar og störf þannig að við urðum sigurveg­arar kosninganna.

Það er og var skoðun okkar framsóknarmanna, að jafnaðar- og umbótaflokkarnir séu líklegastir til þess að ná þeirri samstöðu með launþegum sem nauðsynleg er til að ná verðbólgunni niður. Við gerðum því allt sem í okkar valdi stóð til þess að endurnýja samstarf þessara flokka. Það mistókst. Alþfl. kaus enn ábyrgðarleysið. Frjálslyndari menn í Sjálfstfl. hlupu hins vegar undir hagga, sem varð til þess að sú ríkisstj. var mynduð sem nú situr. Þessi ríkisstj. byggir á nánu samstarfi við launþega og aðra aðila vinnumarkaðarins. Hún leggur áherslu á félagslegar umbætur, atvinnuöryggi og jafnvægi í byggð landsins. Hún er tvímælalaust jafnaðar- og umhóta­stjórn.

Starfstími þessa þings, sem nú er að ljúka, hefur verið stuttur, í raun og veru aðeins þrír mánuðir. Á þessum skamma tíma hafa þó verið eða munu ýmis mikilvæg mál verða afgreidd. Fjárlög, lánsfjáráætlun og skattalög eru að sjálfsögðu meðal stærstu mála þingsins. Um þessi mál ætla ég ekki að fjölyrða, en vek athygli á því, að tekist hefur að halda skattheimtu til ríkisins undir 29% þjóð­artekna og erlendri lántöku um 85 milljarða. Hvort tveggja teljum við framsóknarmenn að vísu í hámarki, en teljum þó viðunandi miðað við gífurlega framkvæmda­þörf, ekki síst á sviði orkumála, og mikla fjárþörf ríkis­sjóðs, m. a. vegna félagslegra umbóta.

Með afgreiðslu á þessu þingi er lokið endurskoðun þeirra skattalaga sem allir stjórnmálaflokkar eiga drjúg­an þátt í. Í því sambandi hefur stjórnarandstaðan þyrlað upp miklu moldryki, sem fellur þó ekki síst á hana sjálfa. Það er ekki heiðarlegur málflutningur að halda því stöð­ugt fram, að skattar hafi hækkað, en þegja yfir hinu, að tollar hafa lækkað, m. a. vegna samninga okkar við Frí­verslunarbandalag Evrópu.

Vegna þess stjórnleysis, sem hér ríkti þá 4 mánuði sem stjórn Alþfl. sat undir verndarvæng Sjálfstfl., var ekki unnt að vinna samhliða að undirbúningi fjárl. og láns­fjáráætlunar eins og gera verður. Slík vinnubrögð verða hins vegar viðhöfð við undirbúning þessara mála fyrir næsta ár.

Á þessu þingi hafa verið til meðferðar ýmis mjög mikilvæg mál félagslegs eðlis. Ég nefni lög um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, sem tvímælalaust eru með­al merkari félagslegra umbóta sem í hefur verið ráðist. Þegar um svo viðamiklar umbætur er að ræða er hins vegar ekki óeðlilegt að lagfæra þurfi að fenginni reynslu. Frv. um Húsnæðisstofnun boðar jafnframt gífurlega kjarabót fyrir launþega. Við skulum vona að íhaldsöfl­unum takist ekki að stöðva framgang þess máls á þessu þingi. Ef svo fer verður málið að sjálfsögðu endurflutt þegar í haust.

Ný lög um lögskráningu sjómanna hafa verið samþykkt. Þau tryggja stórum betur en verið hefur hlut sjómanna að þessu leyti. Breytingar á sjómannalögum eru til meðferðar og geri ég fastlega ráð fyrir að það frv. verði samþykkt. Með þeim lögum verða m. a. stórauknar bætur og tryggingar sjómanna í veikinda- og slysatilfell­um. Það er von mín, að menn geti þá orðið sammála um að sæmilega sé staðið við þau loforð sem sjómönnum voru gefin af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar um félags­legar umbætur.

Ég vil jafnframt lýsa þeirri von minni, að launþegar almennt meti þær miklu félagslegu umbætur sem tryggð­ar hafa verið og fram undan eru. Það er einlæg von mín, að það komi fram í góðu samstarfi ríkisstj. og launþega um lausn á þeim gífurlega efnahagsvanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Benedikt Gröndal sagði áðan: Við lögðum fram öll góðu málin. — Rétt er það, að setustjórn Alþfl. lagði fram ýmis þau mál sem undirbúin voru m. a. í stjórn Ólafs Jóhannessonar. Staðreyndin er þó sú, að flest voru þau þannig lögð fram að það hefur kostað þingið gífurlega vinnu að færa þau í það lag sem við­unandi er. Ágætt dæmi um þetta er frv. til l. um breytingu á sjómannalögum sem var lagt fram, eins og í ljós kom, í fullkominni andstöðu við vilja sjómanna.

Þessu stutta yfirliti yfir störf Alþingis verður ekki lokið án þess að minnast á Jan Mayen samningana. Vissulega hefðum við öll viljað hafa ýmislegt nokkuð á annan veg en þar er. Þó leyfi ég mér að fullyrða að samningurinn sé á heildina litið góður og í ýmsum atriðum mjög hagstæður fyrir okkur Íslendinga. Ég nefni sem dæmi heimild til þess að ákveða einir heildarveiði á loðnu. Þessi viður­kenning er að mínu mati ákaflega mikilvæg. Af þessari ástæðu var einnig m. a. mikilvægt að fá í samninginn að hann skuli lagður fram til jafns við drögin að hafréttar­sáttmálanum í viðræðum við Efnahagsbandalagið sem reyndar eru þegar að hefjast. Full viðurkenning á 200 sjómílna fiskveiðilögsögu er að sjálfsögðu mikill sigur. Og fleira mætti nefna, sem ég sé þó ekki ástæðu til með tilliti til hinnar ítarlegu umr. sem undanfarna daga hefur farið fram um samning þennan. Þó vil ég geta þess, þar sem mér þykir það ekki hafa komið nægilega fram, að það atriði samningsins, sem mér þykir varhugaverðast, varðar rétt okkar til að koma í veg fyrir boranir eftir olíu á Jan Mayen svæðinu ef okkur þykir ekki nægilega tryggilega frá öllu gengið. Að vísu eru hagsmunir okkar í þessu sambandi ítarlega viðurkenndir, sem er að sjálf­sögðu ólíkt betra en enginn samningur. Hins vegar er það staðreynd, að áhættan er mikil. Slys við olíuvinnslu gætu haft ófyrirsjáanleg áhrif. Í þessu sambandi þurfum við Íslendingar því að halda vöku okkar. Við verðum að beita okkur fyrir því á alþjóðlegum vettvangi, að settar verði hinar ströngustu reglur um olíuboranir neðansjáv­ar og skyldur eins ríkis gagnvart öðru ef tjóni er valdið.

Mér sýnist ástæða til að geta þess, að samstarfið í hinni íslensku samninganefnd var með ágætum. Þar lögðu allir, stjórnarsinnar, stjórnarandstæðingar og embætt­ismenn, margt gott til mála sem stuðlaði að þeim hagstæða samningi sem við fengum. Það olli mér því sannarlega vonbrigðum og kom mér á óvart, með tilliti til þess sem á undan var gengið, að fulltrúi Alþb. og flokkur hans snerist gegn samningnum. Sannaðist þá enn, að oft er erfitt að breyta út af vananum. Engum er þó meira að þakka, hve vel tókst til, en utanrrh. Ólafi Jóhannessyni. Hans mikla reynsla og góða forusta var ómetanleg.

Fram undan eru nú að ýmsu leyti erfiðari samningar við Efnahagsbandalag Evrópu. Þar eigum við mikilla hagsmuna að gæta. Viðræður hefjast nú í þessari viku við Dani. Það er mjög mikils virði að geta lagt fram samn­inginn við Norðmenn þegar í upphafi þeirra viðræðna. Ég vil leyfa mér að vona að okkur auðnist að standa vel saman um þá samninga.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls hefur þessi vetur orðið íslensku efnahagslífi erfiður. Setustjórn Alþfl. horfðist ekki í augu við vandann, honum var frestað. Jóhanna Sigurðardóttir var ekki sammála þessu hér áðan né Sverrir Hermannsson. Dæmin eru því æðimörg. Sem dæmi má nefna að þegar fiskverð var ákveðið í janúar var látið að því liggja, að fiskvinnsla gæti undir því staðið án verulegs gengissigs. Þegar dæmið var gert upp í febrúar kom hins vegar annað í ljós. Þá var afli frystihúsanna á ársgrundvelli áætlaður um 11 milljarðar. Þessum vanda varð ekki mætt nema m. a. með 8% gengissigi. Svipað má segja um ýmsar hækkanir til opinberra fyrirtækja sem höfðu verið geymdar með vaxandi skuldasöfnun og vandræðum. Þessa hluti varð að sjálfsögðu að leiðrétta. Því er vandinn meiri um næstu mánaðamót en ráð var fyrir gert.

Við framsóknarmenn viljum mæta þessum vanda með því að fella niður eða fresta a. m. k. 2–3 vísitölustigum. Þetta má gera með auknum niðurgreiðslum í samræmi við stjórnarsáttmálann og með því að dreifa hækkun húsaleiguvísitölu yfir fleiri ársfjórðunga, sem ætti að vera unnt, ekki síst ef miklar félagslegar umbætur eru einhvers metnar. Að sjálfsögðu verður þó ekkert slíkt gert gegn vilja launþega, bænda og sjómanna. Án slíkra aðgerða er hins vegar ljóst, að ekki mun takast að telja verðbólguna eins hratt niður og að hefur verið stefnt. Í þessu sambandi er þó nauðsynlegt að hafa í huga að kjarasamningar allir eru lausir. Það veldur meiri vanda um þessi mánaðamót. Þótt því verði ekki neitað, að kröfur Alþýðusambands Íslands um grunnkaupshækk­anir eru hógværar, er hitt þó staðreynd, að þjóðarbúið ber engar grunnkaupshækkanir eins og nú er ástatt. Að því hefur verið unnið ötullega að skapa grundvöll til samninga, bæði við Alþýðusamband Íslands og Banda­lag starfsmanna ríkis og bæja, sem rúmast innan getu þjóðarbúsins. Við þessi stóru samtök ber að semja samhliða. Það er von mín, að það megi takast þannig að viðunandi sé fyrir alla aðila. — Vissulega eru ýmis hættumerki fram undan í baráttunni við verðbólguna.

Ég get að vísu fallist á að varla er mikils árangurs að vænta á þremur mánuðum eftir fjögurra mánaða stjórn­leysi. Hins vegar er jafnljóst nú eins og fyrr, árangur mun ekki nást nema með samræmdum aðgerðum á öllum sviðum. Því hef ég lagt til í ríkisstj. að þegar verði skipuð nefnd með tveimur mönnum frá hverjum aðila í ríkisstj. til þess að gera till. um samræmingu opinberra aðgerða á sviði fjármála, lánsfjáráætlunar, peningamála og hverju því öðru sviði sem áhrif hefur á verðbólguna, til að ná því höfuðmarkmiði að verðbólgan hér á landi verði árið 1982 orðin ekki meiri en í helstu viðskiptalöndum okkar. Á þetta hefur ríkisstj. fallist og mun það starf þegar hefjast.

Til lengri tíma litið er lausn okkar efnahagsvanda hins vegar fólgin í aukinni framleiðslu og framleiðni á öllum sviðum atvinnuveganna. Landbúnaðarmálin eru þar í nokkrum sérflokki. Þar er vandinn mikill vegna sölu­erfiðleika, og ég vil leggja á það ríka áherslu, að mjög er mikilvægt, ekki síst fyrri bændur þessa lands, að land­búnaðarframleiðslan verði aðlöguð því ástandi sem ríkir. Ég er vongóður um það, enda er ríkisstj. ákveðin í að hlaupa undir bagga og veita bændum þann aðlög­unartíma, sem nauðsynlegur er, og aðstoð til þess að hetja nýjar búgreinar.

Engin ein atvinnugrein önnur hefur nálægt því eins mikil áhrif á afkomu okkar Íslendinga eins og fiskveiðar og fiskvinnsla. Því hefur áratugum saman árið verið talið gott ef afli var góður. Það má því heita kaldhæðni að nú skuli þurfa að beita hinum ótrúlegustu boðum og bönn­um til þess að draga úr sjávarafla. Hjá þessu hefur þó ekki orðið komist í ár. Með nýju skipum og nýrri tækni er sóknarþunginn orðinn svo mikill að fiskstofnarnir fá ekki undir risið. Þegar núv. ríkisstj. tók við hafði samstaða náðst við fulltrúa sjómanna, útvegsmanna og fiskvinnsl­una um takmarkanir á þorskveiðum á þessu ári. Eftir þeim hugmyndum hefur verið unnið, enda erfitt að söðla um í miðju fljótinu.

Skúli Alexandersson harmaði þetta áðan, og undir það get ég að vísu tekið. En málið er miklu flóknara og viðkvæmara en hann virðist gera sér grein fyrir. Fiski­fræðingar höfðu lagt til að þorskaflinn yrði takmarkaður við 300 þús. lestir í ár. Fyrrnefndar hugmyndir, sem samstaða hafði náðst um við hagsmunaaðila, eru hins vegar byggðar á 350 þús. lesta þorskafla. Þegar eftir 4 mánuði er þorskaflinn orðinn 227 þús. lestir. Ég hygg að mönnum sé nú orðið ljóst að þessi leið, sem nefna mætti skrapveiðileið gagnvart togurum, og takmarkalaus veiðibátanna á vetrarvertíðinni er ófær til stjórnunar á veiði­magni. Ég mun því leggja á það ríka áherslu að endur­skoða þessar reglur fyrir árið 1981 og framtíðina. Skoðun mín er sú, að leita beri að leiðum til að tengja betur veiðar og vinnslu en gert hefur verið. Ríkisvaldinu ber að ákveða heildarramma veiðanna, en veita síðan hagsmunaaðilum viðtækt frelsi til þess að ráða veiðum innan þess ramma. Ég hygg að mönnum sé það öllum ljóst, að aldrei næst stjórn á fiskveiðum okkar Íslendinga nema nokkur stjórn sé á stækkun veiðiflotans. Því hef ég lagt til í ríkisstj. að fiskiskip verði tekin af frílista. Ég er jafnframt að skipa starfshóp til þess að athuga eðlilega stærð og endurnýjunarþörf báta- og togaraflotans og benda á leiðir til stjórnunar.

Góðir hlustendur. Tíma mínum er senn lokið. Þessar fáu mínútur hef ég orðið að stikla á stóru. Mér hefur ekki unnist tími til að ræða svo mikilvæga þætti sem undir mín rn. falla, eins og t. d. samgöngumálin. Þar eru gífurleg verkefni fram undan. Í vegamálum t. d. tel ég að okkur Íslendingum heri að leggja höfuðáherslu á annars vegar að bæta þá vegi, sem snjóþyngstir eru, og að leggja bundið slitlag á aðalvegakerfi landsins. Ég geri mér vonir um að geta lagt fram í haust vegáætlun sem að þessu stefnir. En hvað sem líður þessum fjölmörgu verkefnum á sviði orkumála, samgöngumála, iðnaðarmála, sjávar­útvegsmála, landbúnaðarmála o. s. frv., þá er það verð­bólgan sem er meginviðfangsefni þessarar ríkisstj. og tvímælalaust mikilvægast fyrir íslenskt þjóðlíf að við verði ráðið. Sannarlega hafa ákvarðanir á flestum svið­um áhrif á gang verðbólgunnar. Ríkisstj. hefur sett sér það meginmarkmið, að verðbólgan hér á landi verði árið 1982 orðin svipuð og er í helstu viðskiptalöndum okkar. Það meginmarkmið verður að ráða því, hvað við getum leyft okkur á hinum ýmsu sviðum. Ríkisstj. verður dæmd og hana ber að dæma eftir því, hvernig það tekst. — Góða nótt.