20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2924 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. fjh-. og viðskn. fyrir meðferð þessa máls og fagna því, að það hefur orðið um það eining í n., þó að þarna sé um að ræða stuðning við málið með fyrirvara út af ein­stökum atriðum sem ég kem örlítið að hér á eftir:

Það er rétt hjá hæstv. forseta, hv. þm. Sverri Her­mannssyni, að ég var flm. að frv. til l. um niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa sem hv. þm. Þorv. Garðar Krist­jánsson var 1. flm. að hér í vetur. Það er að mörgu leyti gott frv. að mínu mati. En það er einn galli á því frv., eins og ég gat um þegar ég var að tala í umr. um málið í Ed. Gallinn var sá, að það var ekki gert ráð fyrir neinni fjáröflun í frv. sjálfu, þó vitað væri að á fjárlögum frá því í fyrra væri ekki um að ræða nema eitthvað um 2000 mill j. kr. í þessu skyni. Frv. sem við fluttum gerði ráð fyrir miklu, miklu meiri útgjöldum en sem því nam. Frv. var því að sumu leyti stefnuyfirlýsing, vegna þess að það vantaði í raun og veru það sem við átti að éta í því sambandi, þ. e. nauðsynlega fjármögnun, svo að hægt væri að fjármagna frv.

Þetta frv. sem hér er til umr., um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, felur í sér nokkra stefnubreytingu frá því sem áður hefur verið, annað fyrirkomulag á olíu­styrkjum og nokkrar viðbætur varðandi orkusparnað og um nýtingu innlendra orkugjafa, Öll þessi ákvæði eru til mikilla bóta frá því sem áður hefur verið. Þetta er nýtt kerfi, og þó að gerðar hafi verið áætlanir um hvað það muni kosta, ef svo mætti að orði komast, í framkvæmdinni vita menn það ekki með vissu. Ég heyrði það á hæstv. forseta, hv. þm. Sverri Hermannssyni, að hann dró í efa að það fjármagn, sem er til reiðu á fjárlögum, samtals 4500 millj. kr., mundi nægja til að greiða þá styrki sem gert er ráð fyrir samkv. frv. Ég skal ekki um það segja, það kann vel að vera, en þær áætlanir, sem fyrir liggja voru gerðar í Þjóðhagsstofnun og iðnrn. og ég vona að þær muni í öllum aðalatriðum standast. En um það verður ekki sagt með neinni vissu.

Eins og kom fram hjá frsm. fjh.- og viðskn., hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, þá er það rétt, að olíustyrkurinn mætti gjarnan vera hærri ef tekið er einvörðungu tillit til þess að menn búi við sæmilegt réttlæti í þessum málum. En á hitt ber að líta, að stefna frv. er í raun og veru einnig, til viðbótar jöfnuninni, fólgin í því að hvetja menn til að nýta innlenda orkugjafa til upphitunar. Þess vegna er það að menn vilja ekki fara of langt út í að greiða niður kostnaðinn. Þá er hætta á því að menn vilji ekki nota innlenda orkugjafa og það seinki framkvæmdum í sambandi við hagnýtingu þeirra.

Það eru þrjár brtt. sem liggja fyrir og hefur verið gerð grein fyrir, frá hv. þm. Eggert Haukdal, hv. þm. Sverri Hermannssyni og Matthíasi Á. Mathiesen og hv. þm. Sigurgeir Bóassyni. Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá frsm. fjh.- og viðskn. um að þessi atriði verði könnuð nánar, og er reiðubúinn til að taka þátt í því að þau verði öll könnuð fyrir haustið þannig að það liggi fyrir nánari upplýsingar um þau, ekki síst varðandi kostnaðinn. Þessar till. fela í sér kostnaðarauka, nema till. hv. þm. Sigurgeirs Bóassonar sem fjallar um fyrirkomulag á greiðslu styrksins. Ég er nærri viss um, að ef auka á útgjöld, eins og gert er ráð fyrir ef heimildir verða notaðar samkv. þessum till., og gjaldskyldu samkv. till. hv. þm. Sverris Hermannssonar og Matthíasar Á. Mathiesen, þá er hætt við að það gangi út yfir olíustyrkinn að öðru leyti, og menn hafi ekki nægilegt fjármagn á þessu ári til að standa við ákvæði frv. um greiðslu olíustyrks. Þessar till. eru í sjálfu sér þannig, að það er ákaflega erfitt að vera á móti þeim sem slíkum. En auðvitað verður að líta á þær í samhengi við málið allt og sérstaklega með tilliti til þess, hvaða fjármuni menn hafa á milli handa á þessu ári.

Ég vil sem sé endurtaka það, að ég er reiðubúinn til að taka þátt í því að láta kanna þessi mál betur fyrir haustið. Það er þá færi á því að taka þau upp á þingi næsta vetur með tilliti til þeirrar niðurstöðu sem fæst úr könnuninni.