20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (2898)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil, þótt það komi ekki þessu máli við, mælast til þess við hæstv. forseta að hann beini tilmælum til þdm. um að ganga þannig um hurðir á salarkynnum okkar að skella þeim ekki þannig að áheyrendum á þingpöllum bregði svo í brún að maður stórsjái á andlitum þeirra. Virðast hurðaskellir vera í öfugu hlutfalli við líkamsstærð hv. þm., því að hv. þm. Guðrún Helgadóttir skellir þannig hurðum að ljósakrónur hristast, en hins vegar gengur flokksbróðir hennar, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, manna stilltast um dyr í húsinu.

Mér þykir dálítið skrýtið að heyra það hjá hæstv. viðskrh., að honum þykir einn mesti gallinn á því frv., sem hann var meðflm. að með Þorv. Garðari Kristjánssyni, að í því hafi ekki verið tekið fram hvernig ætti að standa undir þeim kostnaði sem í frv. fólst. Nú fæ ég ekki séð að það sé ýkja mikill munur á þessu ríkisstjórnarfrv., sem við erum að ræða hér, og hinu frv. Það er ósköp kurteislega og hógværlega komist út úr þessu vandamáli í frv. ríkisstj., sem við ræðum, í 2. gr. frv., sem hljóðar svo, með leyfi forseta: „Kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði“. Ég sé ekki að hugverk ríkisstj. nái mikið fram yfir það sem unnið var af Þorv. Garðari Kristjánssyni og öðrum hans meðflm.

En um það mál ætlaði ég ekki að ræða hér, við höfum átt okkar deilur um hvernig fjár skyldi aflað til að standa undir þessari nauðsynlegu löggjöf. Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Sverris Hermannssonar, 4. þm. Austurl., að það voru allir flokkar sammála um að þetta vandamál þyrfti að leysa. Okkur greindi að vísu á um hvernig ætti að afla fjármuna til að standa undir þessum mikla kostnaði, en það var alveg sama hvaðan þm. komu og úr hvaða kjördæmum þeir komu, hvort það var hér úr þéttbýli höfuðborgarsvæðisins eða annars staðar frá, þeir voru sammála um að vandamálið yrði að leysa. Því ber að fagáa að þetta mál skuli vera komið það langt að við sjáum loks fyrir enda á afgreiðslu þess.

Erindi mitt í ræðustól er að ræða þær brtt. sem koma fram á þskj. 563. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa ánægju minni yfir því, að þessar till. skuli fluttar, og tel að það sé nauðsynlegt að samþykkja sumar þeirra vegna þess að í þeim er um réttlætismál að ræða.

Í 1. tölul. 1. till. þeirra félaga, hv. þm. Sverris Hermannssonar og Matthíasar Á. Mathiesens, er t. d. talað um að olíustyrkir skuli enn fremur greiðast til þeirra aðila sem hita upp atvinnuhúsnæði sitt. Ég fæ ekki séð annað en nauðsynlegt sé fyrir hv. alþm. að samþykkja þessa brtt., hafandi í huga þá löggjöf sem við erum nýbúnir að samþykkja hér á hv. Alþ. um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. Ég held að við getum vel látið þetta atriði falla undir þau lög, að það sé nauðsynlegt, sérstaklega á hinum minni vinnustöðum sem kannske eiga hvað erfiðast í því fjárhagslega að hita upp húsakynni sín.

Meginerindi mitt er að tala um tölulið nr. 2, sem fjallar um að olíustyrkur skuli jafnframt greiðast til skóla og annarra menningarstofnana, sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana og dvalarheimila fyrir aldraða og unga. Það er kannske það síðasta sem ég vil vekja sérstaka athygli á á meðal ykkar, hv. þm. Það er nefnilega þannig, að það hefur verið unnið mikið starf víðs vegar um land á undanförnum árum til að skapa aðstöðu utan þéttbýlissvæðanna fyrir bæði unga og aldraða til að njóta sumarvistar í sveitum landsins. Það hefur jafnvel verið komið upp dýru húsnæði til þess að hægt væri að gera þetta, — húsnæði sem ekki er skólahús og fellur því ekki undir ákvæði lagafrv. eins og það liggur fyrir. Ég hef átt nokkurn þátt í því að vinna að slíkum málum, og ég veit það af eigin raun, að svo er komið að þessi starfsemi er að stöðvast vegna olíukostnaðarins sem fylgir upphitun þessara húsa. Ég tel þess vegna, að það sé sanngjarnt og rétt að samþykkja þessa brtt., og bendi sérstaklega á þetta atriði í því sambandi. Það eru margir aðilar sem hafa lagt bæði vinnu og fjármuni fram til þess að af þessu geti orðið. Ég bendi bæði á sveitarstjórnir, á Rauðakross Íslands og önnur menningar- og mannúðarsamtök sem að slíkum málum hafa unnið, en hafa raunar sum þegar gefist upp á starfseminni vegna þessa aukna kostnaðar sem hefur komið upp á síðustu árum vegna hækkunar olíuverðsins. En þeir, sem þó enn reyna að standa í þessu starfi, munu kannske halda því áfram ef þessi brtt. verður samþ., og því treysti ég því að hv. þm. samþykki hana.

Ég vil svo að lokum lýsa stuðningi mínum við síðustu brtt. á þskj. 563, sem er þess efnis, að það verði iðnrh. sem setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Ég tek undir þau orð hv. frsm. með þessum till., að það virðist alger óþarfi að láta framkvæmd laganna vera í höndum þriggja rn. og tveggja ráðh. Fyrri hluti, eða I. og II. kafli laganna, virðist eiga að vera undir stjórn hæstv. viðskrh. Þetta er í sjálfu sér ekki annað en skrifstofuvinna sem má vinna í hvaða rn. sem er. En mér sýnist að III. kafli laganna og sá IV. líka séu kannske þeir kaflar, sem koma til með að hafa hvað mest að segja í framtíðinni í sambandi við orkusparnað. Og mér hefur sýnst það, og það má hver eiga það sem hann á, að núv. hæstv. iðnrh. hafi lagt sérstaka áherslu á það sem frá greinir í III. kafla lagafrv. Ég tel eðlilegt, eins og reyndar frv. gerir ráð fyrir, að hann hafi með það mál að gera áfram. Ég tel þá jafnframt eðlilegt að hann hafi með að gera aðra þætti þessarar löggjafar þegar hún hefur verið samþ. hér á hv. þingi.