20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2927 í B-deild Alþingistíðinda. (2899)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Eins og fram hefur komið hefur fjh.- og viðskn. haft frv. til athugunar allnokkurn tíma og fengið til viðræðna ýmsa aðila og þá væntanlega í þeim tilgangi að geta myndað sér skynsamlega skoðun um afstöðu til frv. Hér er í veigamiklum atriðum um breytingu að ræða frá þeim lögum sem hingað til hafa gilt um jöfnun húshitunarkostnaðar og er frv. þetta nýmæli í ýmsum tilvikum, svo að segja má að hér séu ekki farnar troðnar slóðir. Mér þykir ekki ósennilegt og raunar líklegt að hv. alþm. komist að þeirri niðurstöðu þegar fram líða stundir, að nauðsynlegt reynist að lagfæra eitt og annað í frv., ein eða önnur ákvæði þess, en jafnframt er það samt von mín að menn sjái sér fært að samþykkja frv. í meginatriðum nú fyrir þinglokin þar sem nauðsynlegt er að sett séu ný lög um þetta efni, að flestra dómi hygg ég, þannig að greiðsla olíustyrks geti hafist á eðlilegan hátt samkv. frv.

Ég ætla að gera örfáar greinar frv. að umræðuefni, svo ljóst megi verða hver afstaða mín er, og er hugsanlegt að það verði að einhverju hlustað á það, sem ég segi hérna, og tekið tillit til þess þegar reglugerðir verða settar samkv. frv., ef að lögum verður.

4, gr. fjallar um hvernig fjöldi styrkja skuli reiknast og þykir mér það hafa færst til betri vegar frá því sem verið hefur. Hygg ég að svo muni fleirum þykja.

6. gr. kveður á um að þeir einir njóti olíustyrks sem ekki eiga kost á öðrum hitagjöfum á styrktímabilinu. Eins segir að viðkomandi orkuveita skuli skera úr um hvort húseign eigi kost á öðrum orkugjafa en olíu. Á ýmsan hátt þykir mér hér óljóst til orða tekið, enda e. t. v. ekki eðlilegt að í lögunum séu hin einstöku atriði skilgreind, heldur mun vera ætlast til þess að reglugerðir skilgreini lögin nánar. En hér virðist þörf á ítarlegri reglugerð sem svari því m. a. hvers hlutverk það sé að tilkynna þegar húseign á kost á öðrum orkugjafa til upphitunar en olíu. Er það orkuveitan, sem á að tilkynna það, eða er það sveitatfélagið, sem á að tilkynna það, eða einhver annar, þegar einhver orkuveita er tilbúin að selja hitaorku til ákveðinnar húseignar? Hér finnst mér að kæmi til greina að ákveða í reglugerð einhvern aðlögunartíma, þannig að skyndileg tilkynning um að nú geti eitthvert hús fengið aðra orku, eitthvert hús sem hefur verið kynt upp með olíu, komi ekki eigandanum í opna skjöldu og geri hann óhæfari fjárhagslega til að leggja í þann kostnað sem breyting á hitunaraðferð hefur í för með sér ef olíustyrkur ætti að falla niður um leið og tilkynning berst. Mér dettur í hug að aðlögunartími gæti verið einn, tveir eða þrír mánuðir kannske, þannig að létt sé undir með húseigendum við það að breyta úr olíukyndingu í aðra upphitunaraðferð, enda er þá ríkið endanlega laust við olíustyrk til þessara húseigna. Þetta fyndist mér vert að athuga þegar reglugerð verður samin.

Í 8. gr. er kveðið á um að sveitarfélag annist greiðslu olíustyrkja. Það lá hér fyrir brtt. frá hv. þm. Sigurgeir Bóassyni um nánari ákvæði þessu viðkomandi, sem hann hefur nú dregið til baka. En við vitum að nokkur brögð munu hafa verið að því, að sveitarstjórnir hafa dregið úr hófi að greiða út olíustyrki. Munu þeir, sem að sveitarstjórnarmálum hafa unnið, skilja þá tilhneigingu sveitarfélaga. Það eru oft rýrir sjóðir þar og hefur þótt gott að grípa til þessa fjár. En ég vísa til þess, sem Sigurgeir Bóasson sagði um þetta efni áðan, og ég hygg að það sé eðlilegur vinnumáti að einhver ákvæði komi um það í reglugerð að ekki verði um óhæfilegan greiðsludrátt að ræða hjá sveitarfélögunum.

En það er 15. gr. frv. sem er í eðli sínu mjög mikilvæg þó að hún sé að sama skapi mjög óljós. Þar segir, að til að tryggja að innlendir orkugjafar séu samkeppnishæfir við olíukyndingu sé heimilt að veita varmaveitum framlag til að jafna þann mun sem orkuverð þeirra er metið hærra en sem nemur hitunarkostnaði með olíu að frádregnum olíustyrk.

Þetta er býsna merkilegt plagg, þetta frv. hérna. Lítum á bls. 13. Á fskj. III er fróðlegt að líta á töfluna um áætlaðan hitunarkostnað hjá hinum ýmsu hitaveitum og fjarvarmaveitum, áætlun um upphitunarkostnað með rafmagni og með olíu o. s. frv. Hér er kyndingu með olíu að frádregnum olíustyrk sett viðmiðunarhlutfallið 100. Við lestur töflunnar kemur í ljós að tvær hitaveitur á landinu eru með hærri hlutfallstölu en olíukynding. Það er 115 og 102. Tvær eru með hlutfallstöluna yfir 80, þ. e. 88 og 81. Taflan segir okkur að nánast sé jafndýrt að hita upp með rafmagni frá RARIK og Orkubúi Vestfjarða og að hita upp með olíu. Hún sýnir okkur einnig að tvær hitaveitur selja orku sína hærra verði en upphitun með olíu kostar að frádregnum olíustyrk, þ. e. hitaveiturnar á Suðureyri við Súgandafjörð og á Blönduósi. Aðrar tvær eru þá lítið eitt fyrir neðan olíukyndinguna. Mér er kunnugt um að önnur þessara hitaveitna, þ. e. hitaveitan á Siglufirði, hefur þegar sótt um 34% hækkun á gjaldskrá og ef hún fengi þá hækkun, sem talið er algerlega nauðsynlegt ef á að gefa fyrirtækinu einhverja fjárhagslega möguleika, væri hún orðin töluvert dýrari en upphitun með olíu að frádregnum olíustyrk.

15. gr. virðist sem sagt eiga að tryggja að í þeim einstöku tilfellum sem varmaveitur, sem nota innlendan orkugjafa, verði óhagstæðari en olíukynding verði þær aðstoðaðar á einhvern hátt til að standast verðsamkeppni við olíukyndingu. Hljóta allir að vera sammála um að sú stefna sér rétt og að óeðlilegt sé að innflutta orkan sé með niðurgreiðslu gerð ódýrari en sú innlenda. Allar aðgerðir í þessu efni þurfa að miða í þá átt að það fyrirkomulag, sem á verður komið með þessum lögum, verði hvetjandi svo að fólk sé viljugt til að leggja út kostnað við breytingar yfir í innlenda orkunotkun, vegna þess að innlenda orkan sé hagkvæmari fjárhagslega en sú innflutta.

Ég vitnaði áðan í fskj. á bls. 13, þar sem áætlaður hitunarkostnaður húsa í hinum ýmsu stöðum er borinn saman. Ég hef í sjálfu sér ekki ástæðu til að vefengja þær tölur sem þar eru, en mig grunar þó að við samningu fskj. hafi ekki verið gætt svo sem skyldi fulls samræmis við reikningsskil hinna ýmsu hitaveitna, þannig að þær tölur, sem miðað er við, séu fyllilega sambærilegar. Það munar t. d. miklu þegar afskrift er ákveðin, hver endingartími hinna ýmsu mannvirkja og tækja er áætlaður eða hversu hratt hinar ýmsu hitaveitur ætla að greiða niður skuldir. Þessir þættir geta haft afgerandi áhrif á ákvörðun gjaldskrár. Mér virðist því að við mat stjórnvalda á því, hvaða innlendir orkugjafar séu samkeppnishæfir við olíu á hverjum stað, þurfi að samræma reikningsskil hinna ýmsu varmaveitna áður en ákvörðun er tekin um aðgerðir samkv. 15. gr. frv.

Þá vil ég leyfa mér til viðbótar að benda á tölur úr ívitnuðu fskj. IV. á bls. 13. Þar er áætlaður hitunarkostnaður 400 rúmmetra íbúðar 537 þús. kr. á ári, þegar frá hefur verið dreginn olíustyrkur, og þá er miðað við að fjórir íbúar búi í þeirri íbúð, en samsvarandi tölur fyrir rafhitun frá RARIK eru 531 þús. kr. og munar það aðeins 6 þús. kr. á ári hvað rafhitunin er ódýrari. Með rafhitun frá Orkubúi Vestfjarða eru sambærilegar tölur 529 þús. á ári eða 8 þús. kr. ódýrari raforka. En þar sem jafnan er kostnaðarsamt að breyta hitunarkerfum húsa, þ. e. eldri húsa, úr olíukyndingu í kyndingu með rafmagni verður að segja að þessi munur, 6–8 þús. kr. á ári, sé ekki hvetjandi til stórátaks við breytingar á kyndingarkerfum. Flettum yfir á bls. 17, á töflu nr. 2.3, en hún sýnir áætlaðan kostnað við hitun 450 rúmmetra einbýlishúss. Þar kemur fram að með olíukyndingu kostaði upphitun hússins 575 þús. kr. á ári, en með rafmagni frá Rafmagnsveitum ríkisins 587 þús. kr. Sem sagt er rafmagnið þarna komið 12 þús. kr. upp fyrir olíukyndingu að frádregnum olíustyrk.

Að mínu mati má það aldrei verða stefna okkar að greiða niður innfluttan orkugjafa þannig að hann verði ódýrari og þannig eftirsóknarverðari en þeir innlendu orkugjafar sem hluti þjóðarinnar er jafnvel lögþvingaður til að nota, sbr. 6. gr. frv. Það hlýtur alla tíð að verða stefna okkar að haga málunum þannig, að innlenda orkan verði ódýrari og því eftirsóknarverðari en sú innflutta. Við höfum hvorki þjóðhagslegan né siðferðilegan rétt til að gera eitt eða annað sem leiðir til þróunar í aðra átt. Vænti ég þess, að við getum verið sammála um það. Og skírskota ég raunar til nál. í því sambandi.

Eins og ég hef sagt er eitt og annað í þessu frv. sem þarf að huga vel að og er nokkuð óljóst. Ég benti á 6. gr., þar sem skilgreint er hverjir eigi kost á olíustyrk og hverjir ekki, og hugsanlegan aðlögunartíma vegna breytinga á upphitunaraðferðum. Ég benti á 8. gr. og hugsanleg ákvæði um tafarlausar greiðslur olíustyrksins. Þá hef ég gert 15. gr. örlítið að umræðuefni og þau meginmarkmið sem þarf að hafa í huga um verð innlendra og innfluttra orkugjafa. Skoðun mín er sú, að eðlilegt sé að á þeim hitaveitum eða varmaveitum, sem erfiðast eiga uppdráttar, verði hjálpað yfir erfiðasta hjallann. Ég hef bent á nokkrar tölur um hitunarkostnað með rafmagni frá RARIK og Orkubúi Vestfjarða í samanburði við upphitunarkostnað með olíu að frádregnum olíustyrk og bent á að þar er ekki um hvetjandi upphæðir að ræða innlendri orku í vil, jafnvel það gagnstæða. En með tilvísun til þess, að það fer nú brátt að líða að þinglokum — hversu langt er í það veit ég ekki — vil ég geta þess, að ég er sammála því að þetta mál þurfi að komast í höfn fyrir þinglok, og ég hef fært að því nokkrar líkur að menn verði að athuga þetta frv. betur þegar niðurstöður um virkni laganna verða ljósari í árslok 1981. Mér þykir líklegt að mönnum sýnist að nauðsynlegt sé að gera þar breytingar, og það er tækifæri til þess þó að einhverja missmíð megi finna á núna.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa öllu fleiri orð um þetta frv., þó e. t. v. væri ástæða til að geta að umræðuefni aðrar greinar þess. En í trausti þess, að vandað verði sem best til setningar reglugerðar með frv., ef að lögum verður, bæði af hálfu viðskrn. og iðnrn., mun ég styðja afgreiðslu þessa frv. á jákvæðan hátt.