08.01.1980
Sameinað þing: 7. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

37. mál, bifreiðakostnaður öryrkja

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið. Ég fagna því ákaflega, að þm., að því er virðist allra stjórnmálaflokka, sýnast ætla að standa við þau loforð, sem þeir gáfu skömmu fyrir kosningar, að sinna nú alvarlega málefnum öryrkja. Varðandi þessa einu fsp. held ég að tiltölulega auðvelt sé að kippa bensíngreiðslum í lag án allrar lagasetningar. Hvað varðar styrk vegna þeirrar miklu hækkunar, sem orðið hefur á bensíni, er möguleiki á því með reglugerð að beita heimildarákvæði, sem er, eins og ráðherra benti á, í 19. gr. almannatryggingalaga. En ég get ekki látið hjá líða að geta þess í sambandi við þetta, svo að hv. þm. viti raunverulega um hvað hér er verið að tala, að þær tekjur, sem öryrkjar hafa nú — menn sem eru með öllu óvinnufærir, þ.e. geta einungis unnið fjórðung þess sem þeir ættu að geta, hefðu þeir haldið heilsu, — og þeir eiga að lifa af í dag, eru 147 þús. kr. á mánuði, þ.e. lífeyrir og tekjutrygging. Búi maðurinn einn getur greiðslan farið upp í 170 þús. kr. Það segir sig sjálft, að þegar húsaleiga fyrir litla tveggja herbergja íbúð að upphæð 60 þús kr, er greidd, þá er ekki mikið eftir til þess að reka bifreið. Ástandið er nú þannig, að fjölmargir öryrkjar eru uppgefnir á að reyna, að reka bifreið. Ég vil jafnframt benda á, að vistmenn Sjálfsbjargarhússins, þar sem menn áttu upphaflega að geta lifað nokkurn veginn eins og aðrir borgarar í sínum þar til gerðu íbúðum, hafa hins vegar 17 þús. kr. á mánuði til þess að lifa af og af því eiga þeir einnig að reka bifreið.

Ég held að við komumst ekki hjá því að fara fram á að hraðað verði störfum endurskoðunarnefndar um almannatryggingar. Ég hygg að þar sé afskaplega margt sem er orðið mjög þurfandi fyrir endurskoðun. En ég mundi með mikilli gleði vilja óska eftir því, að þm. allra flokka tækju sig nú saman og reyndu að leysa þessi mál varðandi bensínkostnaðinn, og raunar vinna að því í endurskoðunarnefndinni að hraða verulega þeim endurbótum sem gera þarf á löggjöfinni. Ég vil jafnframt vekja á því athygli, og ég held að það eigi við öll mál hins háa Alþingis, að það er mjög æskilegt að ræða þessi mál við tryggingaráð og ekki síður starfsmenn Tryggingastofnunar. Ég held að það sé býsna oft, sem framkvæma má hluti á einfaldari og ódýrari hátt, ef starfsmenn viðkomandi framkvæmdaaðila eru hafðir með í ráðum, þegar lög eru sett.