20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2934 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég held að svar hæstv. forsrh. hafi leitt það í ljós fyrir öllum þeim sem á hlýddu, að það var full ástæða til að bera fram þá fsp., sem ég bar upp til hans, og full ástæða til þess að óttast að ummæli hæstv. ráðh. Framsóknarfl. í útvarpsumræðum í gær um breytingar á verðbótagreiðslum launa séu meira en til umræðu hjá hæstv. ríkisstj. Hæstv. forsrh. hefði eins getað setið kyrr í sæti sinu og neitað að svara fsp. minni og að flytja það svar sem hann flutti úr þessum ræðustól. Það svar var hvorki fugl né fiskur. Það svar var umbúðir utan um ekki neitt. Hæstv. forsrh. hefur oft flutt slík svör áður. Þá hefur honum þó lánast að hafa umbúðirnar heldur laglegri en í þetta sinn. Ég held að engum dyljist að þær fáorðu umbúðir, sem hann hafði utan um ekkert hér áðan, eru fyrirboði þess, að það er meira en til umræðu í hæstv. ríkisstj. að gera þær breytingar á verðbótagreiðslum launa, sem ég ræddi um áðan, og að ríkisstj. hæstv., a. m. k. öfl í henni, hefur áhuga á að framkvæma það með þeim hætti að framkalla í samkomulagi við þingflokkana, eins og til stóð, þinglausnir nokkrum dögum fyrir 1. júní, en gefa síðan út brbl. um tilteknar aðgerðir.

Það er auðvitað alveg ljóst, að lög af slíku tagi eru ekki samin á einni nóttu. Ef tilgangurinn er sá af hálfu einhverra ráðh. í hæstv. ríkisstj. eða þeirra allra að gera umræddar breytingar á lögum til lækkunar á verðbótagreiðslum á laun, þá er mér nær að halda að starf að gerð slíks lagafrv. væri þegar hafið. Það er því ekkert sem stendur í vegi þess að hæstv. ríkisstj. geti gefið þinginu svör við því, hvort hún hyggst hafa þau vinnubrögð að lækka eða fresta verðbótagreiðslum á laun með brbl. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að hæstv. ríkisstj. geti gefið slík svör, nema vilji hennar sjálfrar eða viljaleysi.

Herra forseti. Við þm. Alþfl. höfum sýnt ríkisstj. mikla sanngirni í störfum okkar hér á Alþ. Við höfum verið reiðubúnir til þess hvenær sem er, jafnvel seint á kvöld- og næturfundum, að afgreiða með ríkisstj. mál sem hún var búin að biðja um afgreiðslu á, en hafði ekki þingmeirihluta til að koma fram vegna þess að þm. hennar voru ekki á fundum. Við vorum reiðubúnir til þess og höfum verið það undanfarnar vikur að ganga að hvaða samkomulagi sem ríkisstj. hafði hug á um eðlilegar þinglausnir, og við höfum tekið vel öllum málaleitunum, bæði hæstv. ríkisstj. og einstakra ráðh., um afgreiðslu mála fyrir þann tíma og ekkert gert hvorki til að torvelda störf þingsins, torvelda störf þingnefnda, torvelda störf einstakra ráðh. né heldur til að tefja fyrir málum hér á þinginu, eins og gerst hefur þó með annarra þátttöku upp á síðkastið. Ef við hins vegar getum ekki fengið öðruvísi svör frá hæstv. forsrh. en þau sem við fengum áðan, þegar við berum fram við hæstv. ráðh. mjög einfaldar og eðlilegar spurningar, hljótum við þm. Alþfl. að sjálfsögðu að taka til endurskoðunar afstöðu okkar til afgreiðslu mála frá hæstv. ríkisstj., vegna þess að hæstv. ríkisstj. getur ekki ætlast til þess að stjórnarandstöðuflokkur sýni henni sanngirni ef hæstv. ríkisstj. fæst ekki einu sinni til þess að sýna Alþingi Íslendinga kurteisi.