20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2936 í B-deild Alþingistíðinda. (2906)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. hefur kvatt sér hér hljóðs og hann tók svo til orða, að ástæðan til þess að hann kveddi sér hljóðs utan dagskrár væri það sem hann nefndi yfirlýsingar af hálfu tveggja ráðh. Framsfl., og ég mun vera annar þessara ráðh. Reyndar vitnaði hann til ræðu minnar og las upp úr henni og vissulega fór hann rétt með, enda um að ræða rétt afrit eða rétta hljóðritun sem hér er tekin af ræðum þm.

Ég held þó að nauðsynlegt sé fyrir hv. þingheim að gera sér grein fyrir því, að þessi ræða mín var engan veginn af hálfu hv. þm. lesin í samhengi eða gerð fullnægjandi grein fyrir því, hvað í henni fólst. Það, sem ég vil gera með því að standa hér upp, eftir að hafa satt að segja alveg óvænt orðið vitni að því að hv. þm. gerði sér tilefni þessarar ræðu minnar að umræðuefni hér, er að andmæla túlkun hans á vissum atriðum í sambandi við það sem hann sagði hér í dag.

Ég vil taka það fram, að það, sem ég sagði um hættur þær sem steðjuðu að 1. júní, voru mjög almennar hugleiðingar um það sem fram undan væri í verðlagsmálunum. Ég hygg að það sé svo, að varla sé til sá þm. sem ekki er fús til að taka undir þau orð, sem ég hafði uppi, og þær hugleiðingar, sem ég hafði í frammi í ræðu minni í gær. Eins og ég segi, var eingöngu um að ræða almennar hugleiðingar um það, sem fram undan er augljóslega, og þær hættur, sem því fylgja í verðlagsmálunum. Ég vil líka geta þess, að mér virtist satt að segja að kæmi ákaflega lítið til skila í túlkun hv. 3. þm. Vestf. á ræðu minni um það, að í henni fólst ábending um nauðsyn á samstöðu milli hagsmunasamtaka og ríkisvaldsins um aðgerðir í þessum efnum. Og þrátt fyrir þau orð og það sem hann var að gefa hv. þingheimi í skyn, að það væru umræður innan ríkisstj. um svo og svo harkalegar aðgerðir, beinar aðgerðir í þessum alvarlegu málum, þá er það a. m. k. alveg ljóst, að í ræðu minni var hvergi minnst á einhliða aðgerðir ríkisstj. í þessum efnum. Það var hvergi gert, enda var þar um almennar ábendingar að ræða, almennar hugleiðingar. Þaðan af síður var minnst á brbl. af minni hálfu, enda minnist ég þess ekki að um það hafi verið rætt innan ríkisstj. að setja ætti brbl. vegna þessara aðgerða. Það hefur ekki komið til tals. (Gripið fram í: Vegna hvaða aðgerða?) Þess vegna er ekki um það að ræða að ég hafi getað tekið mér slík orð í munn, enda gerði ég það ekki og er þetta sem sagt allt saman mistúlkun hv. 3. þm. Vestf. á orðum mínum og hugleiðingum í þessu sambandi.

Það, sem upp úr stendur í sambandi við hugleiðingar mínar, er þetta: Ég benti á að viss hætta er nú í verðlagsmálunum og það er mín skoðun og mín sannfæring að ekki sé til hagsbóta fyrir launþega ef verðbólgan veltur hér áfram, bullandi verðbólga eins og verið hefur hér undanfarin ár, og að því leyti til er það mín skoðun að nauðsynlegt sé að hagsmunaaðilar í landinu, ríkisvaldið og önnur ráðandi öfl komi sér saman um leiðir til að brjóta þessa öldu niður. Það er sannfæring mín, að ef það tekst verði það ekki þegar upp er staðið kölluð kjararýrnun fyrir launþegana í landinu, heldur þvert á móti —þá mun það verða kjarabót. Og ég tók líka skýrt fram í ræðu minni, að það væri einfalt að sýna fram á kjaraskerðingu með einföldustu útreikningum. Slíkt væri auðvitað hægt. En ef við tökum málið í stærra samhengi kemur áreiðanlega annað út.

Það kann að vera að menn hafi ekki lengur orðið málfrelsi til að segja álit sitt og allt sé svo viðkvæmt að menn eigi helst að þegja. En það mun ég ekki gera. Ég mun segja mína skoðun í þessum efnum, án þess að ég sé að boða nokkrar sérstakar aðgerðir eða beinar aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins í þessu máli, því að ég vil leggja áherslu á það, sem kom greinilega fram í ræðu minni, að ég tel að ríkisvaldið og hagsmunasamtökin eigi að hafa samráð í þessum efnum. Reyndar mátti segja, að kjarninn í ræðu minni væri áskorun til launþegasamtakanna um að taka þátt í slíkum samræðum og slíku samstarfi um að eyða þeim óheppilegu og ótímabæru afleiðingum sem hljóta að verða af mjög miklum verðlagshækkunum og kaupgjaldshækkunum á næstunni.

Við vitum vel hvað er fram undan 1. júní. Það er augljóst mál, að verðbótavísitalan mun hækka. Það er ljóst, að búvöruverðshækkun verður mikil og síðan kemur fiskverðshækkun. Því held ég að það standi sem sagt hefur verið, að nauðsynlegt er að beina þeirri áskorun af hálfu okkar, sem að ríkisstj. standa, og Alþ. til hagsmunaaflanna, hvort sem það eru almennir launþegar, hvort sem það eru sjómenn eða bændur, að eiga gott samstarf við ríkisstj. um þessi mál. Það er á þeim grundvelli sem við vinnum og við viljum vinna, og ég sé ekki að það sé vítavert að beina slíkri áskorun til hagsmunaaðilanna í landinu. Ég tel því að hv. 3. þm. Vestf., í hvaða skyni sem það var gert, hafi ekki túlkað orð mín rétt, og því vil ég andmæla hér að gefnu tilefni, en að öðru leyti skal ég ekki lengja þessar umr.