20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2938 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það et mjög fróðlegt sem fram hefur komið nú í svörum ráðh. Þinghaldið er m. ö. o. farið að snúast um það, hvort ríkisstj. takist að senda þingið heim nógu snemma til þess að svigrúm verði til að krukka í kjarasamninga með brbl. fyrir 1. júní. Það er ekki hægt að skýra svör ráðh. með öðrum hætti. Ef ekkert slíkt stæði til, ef hæstv. ríkisstj. væri staðráðin í að standa við þau ummæli í málefnasamningnum sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta, væri einfaldast að vitna í þau:

Ríkisstj. mun hins vegar ekki setja lög um almenn laun nema allir aðilar að ríkisstj. séu um það sammála, enda sé haft samráð við samtök launafólks.“

Það væri nú afskaplega einfalt mál fyrir hæstv. forsrh. og aðra ráðh., sem hér hafa talað, að minna á þessi ummæli málefnasamningsins og lýsa því yfir stutt og laggott að við þetta yrði staðið, vísitalan yrði ekki skert 1. júní með brbl., sem er raunar í samræmi við þá skoðun og þann skilning sem hæstv. aðstoðarráðherra hæstv. fjmrh. hefur í sambandi við vísitölumálið, eins og hann hefur hvað eftir annað gert grein fyrir í greinum sínum í Þjóðviljanum. (Gripið fram í.) Þröstur Ólafsson. Já, ég á við það sem Þröstur Ólafsson hagfræðingur, sem er aðstoðarráðherra fjmrh. — til þess að upplýsa hæstv. félmrh. um þetta mál, — hefur m. a. sagt í Þjóðviljanum á haustdögum 1978, með leyfi hæstv. forseta. Niðurstaðan er þessi:

„Það er ekki vísitölukerfið sem ber ábyrgð á verðlagsþróun undanfarinna ára, heldur önnur utanaðkomandi áhrif sem koma af stað þenslu í hagkerfinu.“ — Meira um það síðar.

Og á öðrum stað í sömu grein þykist hann sýna fram á að það sé ekki samhengi milli verðbólgu og vísitölubindingar launa, eins og hann segir hér á öðrum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Af hverju hefur verið komið á kerfi þar sem kveðið er á um að greiða verðlagsuppbætur á laun til samræmis við breytingar á vísitölu framfærslukostnaðar í einhverri mynd? Ástæðan er að sjálfsögðu sú, að með vísitölubindingu á að reyna að viðhalda kaupmætti launa þótt verðlag breytist. Kerfið er því varnartæki verkalýðsfélaganna gegn verðhækkunum. Sem varnartæki er það afleiðing áðurgenginna verðhækkana.“

Svo mörg voru þau orð. Og úr því að hæstv. félmrh. fór að spyrja mig um skoðanir aðstoðarfjmrh. á þessum málum vil ég einnig minna á að þegar hæstv. félmrh. gafst upp við að mynda ríkisstj. í janúarmánuði, gerði hann skýra grein fyrir því í Þjóðviljanum að höfuðástæðan fyrir því hefði verið sú, að hvorki Alþfl. né Framsfl. hefðu getað hugsað sér að ganga til stjórnarsamstarfs án þess að ráðist yrði gegn verðbólgunni með því að minnka kaupmáttinn í landinu. Og félmrh. sagði að þá væri brostin forsendan fyrir því að hann færi í ríkisstj. Nú spyr ég: Er hæstv. félmrh. reiðubúinn til að lýsa því yfir við þessar umr. hér á Alþ. að hann muni ekki standa að útgáfu brbl til skerðingar á kaupgjaldsvísitölunni? Er hann reiðubúinn til að lýsa því yfir, að ef aðrir ráðh. mundu gera það mundi hann sjálfkrafa segja af sér sem ráðh.? Er hann reiðubúinn til að leggja ráðherradóm sinn að veði fyrir öll þau orð sem hann hefur sagt um að undir engum kringumstæðum komi til greina að löggjafarvaldið, og þá allra síst með brbl. með þessum hætti, skerði almenn laun í landinu og gangi með þeim hætti á gerða kjarasamninga?

Ég vil jafnframt minna á að þegar tekjuskattslögin, þau skattpíningarlög, voru samþ. hér á Alþ. fyrir nokkrum vikum var ekki hægt að koma þeim fram nema með þeim eina hætti að formaður Verkamannasambands Íslands brygði sér vestur undir Jökul. Það getur verið fallegt þar í góðu veðri. Nú þori ég að fullyrða á þessari stundu að löggjöf, sem fæli í sér skerðingu á kaupgjaldsvísitölunni, styðjist ekki við meiri hl. á Alþingi. Ég þori að fullyrða að hér í Nd. mundu slík lög ekki ná samþykki. Ég er sannfærður um að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, 7. þm. Reykv., mundi greiða atkv. gegn því að skerðing á kaupgjaldsvísitölunni ætti sér stað eins og hæstv. ríkisstj. vill ekki neita afdráttarlaust að hún hafi í huga að setja á fyrir 1. júní. Þess vegna er það, að ríkisstj. er enginn annar kostur mögulegur en að senda þingið heim ef þessi löggjöf á fram að ganga og það í skjóli þess að samningar taki gildi fyrir áramótin eða það snemma að óþarft verði að afgr. brbl. á næsta þingi, þannig að þau séu þess vegna fallin úr gildi af því að nýir kjarasamningar séu komnir í landinu. Alveg á sama hátt hafa brbl. síðustu vinstri stjórnar um gerðardóminn á sjómenn ekki fengist rædd í Alþ., og maður hefur ekki fengið að spyrja hæstv. Alþb.-menn um hvaða ástæður ráði. Þessi brbl. hafa ekki fengist hér rædd, engar upplýsingar fengist né umr. orðið um hvort sú lagasetning var eðlileg eða nauðsynleg á þeim tíma. Og það er einmitt þetta sama sem nú er haft í hyggju. Ríkisstj. ætlar að senda þingið heim til þess, að hún geti í skjóli bráðabirgðalagavaldsins sett ný þrælalög á launþega, og hugsar sér svo að koma fram samningum nægilega snemma til þess að ekki þurfi að samþykkja eða staðfesta þessi brbl. á næsta Alþ. Væri nú fróðlegt að heyra hvað formaður Verkamannasambands Íslands hefur um þessar ráðagerðir að segja.

Ég vil svo, úr því að hæstv. fjmrh. er kominn í salinn, spyrja hann um hvort hann hafi þegar gefið fyrirmæli um það til launadeildar fjmrn. að bíða með útreikning launa fyrir 1. júní. Og hafi hann ekki gert það á þessari stundu vil ég spyrja hann um hvort til greina komi að gera slíkt, hvort af hans hálfu sé hafinn undirbúningur undir það, að laun opinberra starfsmanna verði ekki eins og samningar segja til um.

Nú hefur BSRB efnt til fundarhalda um allt land. Manni berast hvaðanæva fregnir af því, að óróleikinn í opinberum starfsmönnum sé miklu meiri en sýnist á yfirborðinu. Og maður fréttir um forustumenn BSRB, sem harðast og dyggast börðust fyrir því á febrúar- og marsdögum 1978 að efla til pólitískra æsinga í sambandi við samningana í gildi, og þann hagfræðing, sem þá bjó til öll plöggin sem sýndu hversu mikið kaupránið yrði hjá ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, að að mati þessara sömu manna muni kaupránið nú frá gildandi samningum, kaupránið hjá opinberum starfsmönnum, nema yfir 20%. En nú eru ekki sett upp veggspjöld um það. Hins vegar er fundið að því af launafólkinu, sem bíður eftir því að ríkisstj. virði það svars, hversu doðalegir og dauðir fundirnir eru þangað til framsöguræðunum lýkur, vegna þess að engin stefna er nú gefin í launamálum opinberra starfsmanna. Það er nauðsynlegt að spyrja einnig af þessu tilefni: Hvenær býst hæstv. fjmrh. við því, að hann sé reiðubúinn til að senda opinberum starfsmönnum gagntilboð í sambandi við þau mál — eða er þess kannske ekki að vænta?

Um þetta hefur verið spurt hér áður. Það hafa að sjálfsögðu ekki fengist svör. En við tökum eftir því, að eins og landinu hefur verið stjórnað, eins og skattaáþjánin hefur vaxið, eins og fólkið finnur að það var erfiðara að láta launin ná saman frá byrjun til enda mánaðarins þá er kominn mikill óróleiki hjá því fólki sem á að lifa á 250–300 þús. kr. á mánuði. — Ég tók eftir því, að hæstv. félmrh. var að býsnast yfir því í útvarpsumr. að það væri eitthvað rangt að þeir, sem hefðu hærri launin, skyldu fá meira út úr verðbótavísitölunni. Þegar þessi maður var ráðh. áður, þegar hann setti lögin 1978, stillti hann þeim lögum þannig til að hann fékk bæði láglaunabætur sem ráðh. og sem þm. Hann fékk tvöfaldar láglaunabætur þar í það skiptið. Þetta var ekki tekið sem ein laun. Og ég vil enn fremur minna á það, að hinn 1. sept. s. l. hækkuðu verðlagsbætur um eitthvað í kringum 120 þús. kr. hjá þessum ráðh., en 20 þús. kr. hins vegar hjá almennu launafólki. Þannig var það þá.

Niðurstaðan er þessi: Baráttan hér á Alþ. stendur núna um hvort formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, hefur tækifæri til að verja launafólkið, umbjóðendur sína, fyrir því áhlaupi á kaupmátt þeirra sem til stendur með því að þvílíkar efnahagsráðstafanir yrðu bornar fram hér á Alþ. eða hvort hæstv. forsrh. sendir þingið áður heim, þannig að ekki geti til þess komið að formaður Verkamannasambands Íslands geti hjálpað okkur 18 sjálfstæðismönnum og Alþfl.-mönnum að hrinda þessu áhlaupi á launafólk í landinu.