20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2940 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu að umr. um svo mikilsvert málefni sem hér er nú á dagskrá séu teknar upp. Það hefur komið hér fram að þessar umr. eru teknar upp að gefnu tilefni hæstv. ráðh. sjálfra, því að þeir koma nú hér hver á fætur öðrum í þeim tilgangi að éta ofan í sig það sem þeir sögðu í gær í almennum útvarpsumræðum. Út af fyrir sig er þessum hæstv. ráðh. kannske vorkennandi. Þeir hafa líklega ekki ætlað sér að segja þetta, en hugarfarið hefur verið þannig að þeir hafa misst það út úr sér, en koma hér nú hver á fætur öðrum til að reyna að draga í land og lýsa því yfir að þrátt fyrir allt hafi þeir málfrelsi enn hér á Alþingi.

Hæstv. menntmrh. var að tala um að sér þætti hart ef hann hefði ekki málfrelsi til að segja það sem honum byggi í brjósti.

Það er augljóst af þeim ummælum hæstv. ráðh., að á dagskrá eru einhverjar slíkar ráðstafanir sem þeir létu í veðri vaka í útvarpsumr. í gærkvöld að þyrfti að gera. En það er jafnljóst, að hvorki hæstv. forsrh. né aðrir hæstv. ráðh. vilja lýsa því hér yfir, að ríkisstj. muni ekki gripa til þess að gefa út brbl. um þetta tiltekna atriði 1. júní nokkrum dögum eftir að Alþ. hefur verið sent heim. Augljóst er að um þetta fást ekki svör.

Ég hef ekki heyrt nokkurn hv. þm. hér ásaka hæstv. ráðh. Framsfl., menntmrh. og samgrh., fyrir að hafa sagt þetta, heldur hafa þm. viljað fá nánari skýringu á því, hvað væri í raun og veru gert ráð fyrir að gera. En það vill nú svo til, þó að ekki sé hægt að fá óyggjandi svör hæstv. ráðh. um þetta málefni, að afstaða sumra hv. þm. innan stjórnarliðsins getur skipt sköpum um hvort af útgáfu slíkra brbl. verður eða ekki. Eins og hv. þm. er kunnugt eru innan stjórnarliðsins tveir hv. þm. sem enn a. m. k. eru nátengdir launþegahreyfingunni í landinu. Þar á ég við hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson og Guðrúnu Helgadóttur. Ég er sannfærður um að hæstv. ríkisstj., hversu áfjáð sem hún yrði í að gefa út brbl. sem breyttu verðbótaþætti vísitölubótanna, mundi ekki gera það nema því aðeins að þessir hv. þm. styddu slíkt. Þeir geta því ráðið því, hvort af útgáfu slíkra brbl. verður eða ekki. Og þó að það yrði, svo sem hv. þm. Halldór Blöndal var að tala um áðan, að brbl. yrðu gefin út í trausti þess að samningar hefðu tekist áður en þing kemur saman, þannig að ekki kæmi til þess að slík bráðabirgðalöggjöf yrði til afgreiðslu hér á Alþ., þá væri það stjórnarskrárbrot ef hæstv. ríkisstj. gæfi út slík brbl. vitandi að þau nytu ekki meirihlutafylgis á Alþ. Það væri brot á stjórnarskránni. Ég vil því, vegna þess að ég sé ekki fram á að það fáist nein ákveðin svör frá hæstv. ráðh., spyrja þessa tvo hv. þm., og ég vænti þess að hæstv. forseti geri ráðstafanir til þess að hv. þm. Guðrún Helgadóttir nái þessari spurningu, hvort þeir vilja lýsa því yfir hér að þeir muni ekki standa að því að styðja brbl. sem hæstv. ríkisstj. mundi gefa út vegna þess sem á að gerast 1. júní. Ef við fáum óyggjandi svör beggja hv. þm. um að þeir muni ekki standa að því, þá er nokkuð tryggt að slík bráðabirgðalöggjöf fær ekki staðist.

Ég óska því eindregið eftir því að báðir þessir hv. þm. treysti sér til að koma hér upp og lýsa yfir afstöðu sinni til þessa máls. Ég á enga kröfu til þess að þeir lýsi yfir að þeir styðji ekki slíka bráðabirgðalöggjöf, en mér finnst siðferðileg krafa til þess að þeir segi hver afstaða þeirra er til málsins. Ef hún verður á þá leið að þeir styðji ekki brbl. þá verður ekki um það að ræða að brbl. verði sett.

Ég vil ítreka spurningu sem ég var hér með áðan til hv. tveggja þm. Alþb., sem enn a. m. k., eins og ég orðaði það, eiga ítök í launþegahreyfingum í landinu. (GHelg: Mikil?) Það fer eftir því hvað hver álítur. En spurningin er þessi: Hvað sem því líður, að hæstv. ríkisstj. hyggist gefa út brbl. um breytingar á vísitölugreiðslum á laun nú 1. júní, er það öruggt að slík brbl. hafa ekki meirihlutafylgi á Alþ. ef þessir tveir hv. þm. styðja það ekki. Spurningin er því þessi: Er hægt að fá yfirlýsingu þessara hv. þm. um að þeir styðji ekki slíka bráðabirgðalöggjöf? Ég óska ítrekað eftir því, að hv. þm. tjái sig um þetta mál. Það er augljóst að við fáum ekki svör frá hæstv. ráðh., en ég tel nægilega tryggingu að fá afstöðu þessara hv. tveggja þm., hvernig þeir líta á þetta mál. Ég tel tryggt að ef þeir eru andvígir því og styðja ekki slíka löggjöf, þá verði hún ekki sett, nema þá stjórnarskráin verði brotin.