20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2942 í B-deild Alþingistíðinda. (2910)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Hér ganga lifandis ósköp á. Mér varð það á að halla aftur augunum þegar ég hlustaði á hv. 3. þm. Vestf. Hann ræddi um vísitöluskerðingar. Það rifjuðust upp fyrir mér janúardagar þegar rætt var um stjórnarmyndun. Þá var þetta að vísu magnaðra en hinar vafasömu yfirlýsingar hæstv. ráðh. sem hann vitnaði í. Þá stóð upp úr forráðamönnum Alþfl. að gersamlega óhjákvæmilegt væri að skerða vísitölu og það verulega. Nú fyllast sömu menn heilagri vandlætingu yfir því, að hæstv. ráðh. Framsfl. hafa misst út úr sér slæm orð, sem eru nokkuð í ætt við þeirra eigin málflutning og skoðanir. Ekki er nú hugurinn heill þegar rætt er um þessi mál.

Ég missti af þessum ágætu útvarpsumræðum og skal ekkert um þær segja, nema það sem ég hef heyrt hér. Mér skilst að þessir ráðh. hafi sagt að engin slík lög, engar slíkar ráðstafanir mundu þeir gera nema með samþykki og í samráði við launþega, bændur og sjómenn. Þó að hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, álíti vald mitt mikið, og ég þakka honum aðdáunina, get ég ekki talað fyrir hönd Alþýðusambands, sjómannasamtaka eða bændasamtaka, fjarri því. Í fyrsta lagi er það yfirlýst, að í ríkisstj. hafi engar tillögur komið fram um slíkar ráðstafanir og þeirra persónulega skoðun er að ef til einhverra vísitöluaðgerða komi sé það bundið því að haft sé samráð við launþegasamtök. Vitanlega get ég engar yfirlýsingar gefið fyrir þau. Mér skilst að hæstv. ráðh. hafi engar yfirlýsingar gefið um að slík brbl. yrðu sett, heldur hafi þeir viljað ræða við launþegasamtök eða talið heppilegt að ná samkomulagi við þau um það. Á það verður að reyna. Hitt verð ég hins vegar að segja, að gagnvart því fólki, sem er með undir 300 þús. kr. á mánuði og mætir hjá viðsemjendum sínum kröfum um launaskerðingar, þá held ég að allar svona yfirlýsingar séu ákaflega óheppilegar. Það er skoðun hæstv. ráðh., að samkomulag beri að reyna, og slíkt tel ég heppilegt, en að því tilskildu að viðkomandi samtök séu því samþykk. Ég sé þess vegna enga ástæðu til að ég fari að gera mig hér að þeirri fölsku ímynd sem hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, telur mig vera fyrir hönd allra launþega.

Hvort allar viðræður við stjórnvöld gætu falið í sér vísitölubreytingar, gætu falið í sér kauphækkanir, sérstakar kauphækkanir til hinna lægst launuðu o. s.,frv., hlýtur að koma í ljós á sínum tíma, en skerðing á almennum lægri launum kemur að mínu mati ekki til mála. Hitt má vera, að menn búi yfir hvers kyns tillögum sem gætu verið í hag því fólki sem lægst er launað. Þá er að ræða það. Því aðeins að þær séu þessu fólki í hag er ég persónulega reiðubúinn til að ræða við ríkisstj., að öðrum kosti ekki.

Hitt vil ég að endingu leggja áherslu á, að virðing 1. þm. Reykv. og virðing 3. þm. Vestf. fyrir vísitölu og kjarasamningum kemur ekki frá hjartanu. [Fundarhlé.]