20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2944 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans við fsp. minni hvað snertir fyrirætlanir ríkisstj. um breytingar á verðbótaþætti vaxta eða fjármagnskjörum innlána og útlána. Þau svör voru að vísu ekki fullnægjandi, en ólíkt voru þau þó skýrari en svör hæstv. forsrh. við hinni spurningunni um fyrirætlanir ríkisstj. varðandi verðbætur á laun.

Hæstv. viðskrh. taldi að Seðlabankinn hefði nú tillögur í undirbúningi sem ríkisstj. ætti eftir að sjá. Ég verð að lýsa undrun minni á því, að nú, 20. maí, skuli Seðlabankinn ekki þegar hafa sent ríkisstj. tillögur sínar um þær breytingar sem bankastjórn Seðlabankans vill gera í þessum efnum miðað við næstu mánaðamót. Þær breytingar hafa verið í raun og veru allt of seint á ferðinni, sem eru að þessu leyti gerðar ársfjórðungslega eða ráð var fyrir gert að gerðar yrðu ársfjórðungslega samkv. lögum nr. 13/1979, bæði til tjóns fyrir lánastofnanir og þá sem skipti eiga við lánastofnanirnar.

Hæstv. viðskrh. sagði að það hefðu ekki verið brotin lög með aðgerðarleysi og þeirri ákvörðun ríkisstj. að hafa verðbótaþátt vaxta óbreyttan 1. mars s. l. vegna þess að í lögunum væri ekki gert ráð fyrir því, hvenær þessi aðlögun vaxta og verðtryggingar að verðbólgustigi ætti að fara fram á árunum 1979 og 1980. En ég minni hæstv. ráðh. á, sem hann reyndar las upp úr lögunum, að þetta á að eiga sér stað í áföngum. Venjulega skilur maður slíkt orðalag þannig, að slík aðlögun verði í nokkuð jöfnum áföngum eða a. m. k. í samræmi við minnkandi eða vaxandi verðbólgustig. Nú liggur það fyrir samkv. fréttatilkynningu Seðlabankans, að 1. mars hefði verðbótaþáttur vaxta átt að hækka um 3–5%, og síðan eru allar spár um verðlag í landinu á þá lund að verðbólgan fari vaxandi það sem eftir er ársins. Ef halda á lögin og ná því takmarki laganna að verðtryggingu sé komið á í árslok eða verðbótaþáttur vaxta sé í samræmi við verðbólgustig er því ljóst, að sé ekki um brot á lögunum að ræða er a. m. k. mjög gengið á svig við þau og ákvæði þeirra.

Ég minni líka á að bersýnilega hefur hæstv. ríkisstj. gefið bankastjórn Seðlabankans þá skýringu samkv. orðalagi í fréttatilkynningu Seðlabankans, að ríkisstj. hygðist bera fram breytingu á lögum nr. 13/1979 á þá lund, að aðlögunartími vaxta og verðbólgu ætti að framlengjast fram yfir næstu áramót, því að í fréttatilkynningu Seðlabankans segir bankastjórn Seðlabankans um ríkisstj. eftirfarandi: „Jafnframt hefur hún“ — þ. e. ríkisstj. — „lýst yfir því, að hún ráðgeri að taka til endurskoðunar ákvæði laga um stjórn efnahagsmála o. fl. að því er varðar lengd aðlögunartíma uns fullri verðtryggingu verði náð.“

Athugasemd mín laut m. a. að því, að þm. hafa ekki séð neitt frv. þessa efnis hingað til, og það gaf mér tilefni til þeirrar fsp. hvort ætlunin væri að framlengja þennan aðlögunartíma. Svo virðist ekki vera af svörum hæstv. viðskrh. að dæma, en af því leiðir einnig að taka verður stærri stökk það sem eftir er ársins ef efna á og fara eftir ákvæði laga nr. 13/1979.

Þá vil ég næst gera nokkuð að umtalsefni ræðu hæstv. félmrh. Hann taldi sig engu þurfa að bæta við svar hæstv. forsrh. varðandi fsp. mína í eldhúsdagsumræðunum í gær og fsp. hv. 3. þm. Vestf., Sighvats Björgvinssonar, í dag varðandi fyrirætlun ríkisstj. um útgáfu brbl. um breytingu á verðbótum launa. Ég hef áður lýst óánægju minni yfir svari forsrh. og skal ekki bæta neinu þar við, en fagna því þó að hæstv. félmrh. sagði að þm. gætu sagt sér það sjálfir eða dregið sjálfir þá ályktun að stæði þing t. d. til og með 28. maí væru hvorki tæknilegir né pólitískir möguleikar á því að slík brbl. yrðu gefin út. Ég tek þessa yfirlýsingu hæstv. félmrh. og skil hana þannig, að hann útiloki útgáfu brbl. Með tilvísun til stjórnarsáttmálans um að lög verði ekki gefin út um breytingar á fyrirkomulagi launagreiðslna nema allir aðstandendur ríkisstj. samþykki tek ég þetta svar hæstv. félmrh. þannig, að hann taki á sig þá ábyrgð að segja að slík brbl. komi ekki til greina.

Það er misskilningur hjá hæstv. félmrh. að umr. nú utan dagskrár eða undanfarna daga hér í þinginu séu deilur um þinghaldið. Að vísu höfum við sjálfstæðismenn haldið því fram, að væri þingi lokið í þessari viku, t. d. í dag, eins og fyrst var ráð fyrir gert, væri ekkert efni til þess að afgreiða t. d. svo viðamikinn lagabálk sem lög um Húsnæðisstofnunina svo viðunandi væri. Ed. hefur gert meira en 100 breytingar á því lagafrv. sem lagt var upphaflega fyrir þingið. Hér er í rauninni um nýtt frv. að ræða. Og án þess að ég vilji fara út í efnisumræður um þetta frv. er það ábyrgðarleysi af alþm. í Nd. Alþingis að fara ekki nákvæmlega yfir þetta frv. og gera sér grein fyrir því efnislega. Við sjálfstæðismenn höfum ekki synjað einum eða neinum um að sitja eins lengi á þingi og óskað er eftir og fjalla um þau mál sem þinginu ber að fjalla um, og það er algerlega á valdi ríkisstj. að því leyti að kveða á um hvenær þingi skuli hætt. En ég geri þann fyrirvara eða þá kröfu að þm. hafi tíma og tök á að kynna sér mál og gera sér grein fyrir málum og greiða atkvæði og bera fram brtt. við mál með þinglegum hætti. Það er t. d. mjög dregið í efa að í frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins sé þess skilyrðis gætt, sem hæstv. félmrh. gerði að umtalsefni, að auka fjárhagsgetu Byggingarsjóðs. Á það hefur verið þvert á móti bent í umr. á Alþ., að það er verið að draga úr framlögum til Byggingarsjóðs, og eitt af höfuðgagnrýnisefnum okkar sjálfstæðismanna á þetta frv. er að það sé ekki með einum eða neinum hætti séð fyrir fjármögnun þeirra framkvæmda sem gefið er í skyn með frv. að ætlunin sé að unnt verði að ráðast í, það sé m. ö. o. sýndarmennskan í algleymingi öðrum þræði.

Þá nefndi hæstv. félmrh. að það væri vanvirða við Alþ., það þóf — hvort hann notaði orðið málþóf skal ég ekki segja, en það þóf sem haft væri í frammi í umræðum hér á Alþ. Ég held því fram, að við sjálfstæðismenn höfum ekki notað meiri ræðutíma en eðlilegt er og síst meiri ræðutíma en tala okkar er í samanburði við stjórnarþm. og ráðh. t. d. Í gær voru hér umræður um iðnaðarmál. Þær voru málefnalegar og fjölluðu um efnisatriði og sjálfur hæstv. iðnrh. tók til andsvara og svaraði á málefnalegan hátt og tók sérstaklega fram að ræður þm. Sjálfstfl. í gærkvöld hefðu verið málefnalegar og átt rétt á sér, enda tók hann eðlilegan og nauðsynlegan tíma til að svara þeim ræðum.

Ég vil svo í tilefni af ræðum hæstv. menntmrh. og hæstv. sjútvrh. nefna að þeir sögðu, hygg ég, báðir, a. m. k. hæstv. menntmrh., að það hefði ekki komið til tals í ríkisstj. að gefa út brbl. Og þegar haft er í huga að hæstv. ráðh. segja að auðvitað geti ríkisstj. ekki gefið loforð um það í framtíðinni að gefa ekki út brbl., þá get ég vel fallist á það. Hins vegar liggur það alveg ljóst fyrir, að skilyrði til þess að brbl. verði gefin út er að brýna nauðsyn beri til. Ég held því fram, og ég tel að hæstv. ráðh. séu mér sammála, að það ætti að vera alveg ljóst nú hvort brýna nauðsyn beri til að gefa út slík lög eða ekki. Það liggur fyrir að framfærsluvísitalan muni hækka um 13.2% og verðbótavísitala muni hækka um 11.7%. Á þeim grundvelli ætti ríkisstj. að geta gert sér grein fyrir hvort brýna nauðsyn beri til að setja lög. Fyrirvari minn og krafa fyrir hönd sjálfstæðismanna er að þessi löggjöf verði sett hér á þinginu ef það er skoðun ríkisstj. að nauðsynlegt sé að setja slíka löggjöf. Ríkisstj. ætti að vera það ljóst þessa dagana og því ætti að vera unnt að fara þingræðislega leið og fjalla um málið á þingi fyrir mánaðamót ef það er vilji ríkisstj. að fara þessa leið yfirleitt.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson talaði hér loðmullulega, svo ekki sé meira sagt. Einhvern tíma fyrr hefur hann verið viðkvæmari fyrir verðbótavísitölu á laun en hann sýndist vera nú í sinni ræðu. Ég hef aldrei haldið því fram að stjórnvöld gætu ekki þurft að setja löggjöf varðandi vísitöluverðbætur á laun. Ég veitti forstöðu ríkisstj. sem 1978 greip til þess ráðs með febrúarlögunum. Þá var hatrammri andstöðu beitt gegn þeirri lagasetningu af hálfu hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, Alþb. og Alþfl., og þá upphófst herópið: „Samningana í gildi.“ Síðan 1. sept. 1978 hafa þeir flokkar, sem upphófu herópið: „Samningana í gildi“, átt aðild að stjórn landsins ásamt framsóknarmönnum sem hafa gerst hjálparkokkar þeirra. Þess vegna er ákaflega athyglisvert að líta á fréttabréf Kjararannsóknarnefndar frá því í aprílmánuði s. l., þar sem gerð er grein fyrir þróun kaupmáttar kauptaxta mánaðarlega síðustu þrjú árin. Ég tek eftir því, að kaupmáttur kauptaxta verkamanna í maímánuði 1978, sem er síðasti mánuður þriggja mánaða vísitölutímabilsins eftir að febrúarlögin voru sett, er 103.7. Í nóv. s. l. , sem er síðasti mánuður verðbótatímabils síðasta árs, eftir að flokkarnir, sem börðust fyrir samningunum í gildi, höfðu stjórnað málefnum þjóðarinnar, var kaupmáttur kauptaxta verkamanna 103.6, sem sagt lægri. Ef við tökum svo maílögin, sem ríkisstj. sú setti sem ég veitti forstöðu og mildaði nokkuð áhrif febrúarlaganna í sáttaskyni við launþegasamtökin í landinu, þá er samanburðurinn sá, að í ágústmánuði 1978 er kaupmáttur kauptaxta verkamanna 111.6, en í síðasta mánuði verbótatímabils s.1. árs er hann 103.6. Þannig er kaupmáttur kauptaxta verkamanna mun lægri en var samkv. maílögunum 1978, sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson barðist sem mest á móti. Þetta er árangurinn af starfi þeirra flokka sem heimtuðu samningana í gildi.'Kaupmáttur kauptaxta verkamanna er lægri en samkv. þeim lögum sem þeir börðust gegn. Og í þessari skýrslu kaupgjaldsnefndar segir að á síðasta fjórðungi liðins árs hafi kaupmáttur greidds tímakaups verið 1.9–2.6% lakari en að meðaltali á árinu og jafnframt 3.4–6.7% lægri en á fjórða ársfjórðungi ársins 1978, en þá var kaupmáttur hæstur á því ári, eins og fram kemur á kaupmáttaryfirlitinu.

Þegar þessi ummæli eru skoðuð svo og það, að kaupmáttur kauptaxta hefur farið lækkandi á yfirstandandi ári, — ég hef ekki tölur um það frá Kjararannsóknarnefnd, en við getum sagt okkur það sjálf að framfærsluvísitala hækkaði 1. mars um 9.1%, en verðbætur á laun voru þá eitthvað um 6.7%, þ. e. þá var um 2.4% kjararýrnun að ræða og nú er væntanleg um 1.5% kjararýrnun, — þá er þarna um 4–5% kjararýrnun að ræða á yfirstandandi ári til viðbótar við þá skerðingu kaupmáttar sem átt hefur sér stað fram til síðustu áramóta undir stjórn Alþb., Framsfl. og Alþfl. Þetta er árangurinn af skemmdarverkum sem uppi voru höfð á árinu 1978 og er síst til hagsbóta fyrir launþegana í landinu.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en ítreka og endurtek: Sú krafa er eðlileg og sjálfsögð af hálfu alþm., að brbl. um svo mikilvæg efni sem verðbætur á laun eða verðbótaþátt vaxta verði ekki sett aðeins örfáum dögum eftir að þingi er slitið. Slík mál á að leggja fyrir þing þegar svo stendur á að þing situr hvort eð er að störfum og hefur raunar nægum verkefnum að sinna vegna þess að fjöldamörg mál eru óútrædd og þyrftu sannarlega að hljóta eðlilega meðferð á þingi.