21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2950 í B-deild Alþingistíðinda. (2921)

6. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til umfjöllunar þetta mál og klofnaði n. í afstöðu sinni til málsins. Á þskj. 606 er nál. frá 2. minni hl. n. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Hér er um að ræða enn eina skattahækkun fyrrv. vinstri stjórnar sem núv. ríkisstj. hefur ákveðið að gilda skuli allt yfirstandandi ár. Á s. l. ári giltu þessi lög aðeins lítinn hluta ársins. Af þeim ástæðum þyngjast skattar verulega í ár vegna þessara laga. 2. minni hl. nefndarinnar er andstæður skattahækkunarflóði ríkisstj. og leggur til að frv. verði fellt.“

Ég þarf í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum um þetta mál, þó að ærin ástæða væri til að taka til ítarlegrar umr. skattahækkunaræði núv. og fyrrv. ríkisstj. (Gripið fram í: Gera það, — nógur tími.) Það er nægur tími og mér sýnist ákveðið að þingi verði haldið áfram fram undir Jónsmessu, þannig að þm. gefst nógur tími til þess að ræða mál ítarlega.

Þetta mál er þannig til komið, að það var fyrst ákveðið með brbl. í fyrrahaust að hækka vörugjald og söluskatt samtímis. Áætlað var að þessir skattar á almenning næmu í fyrra, ef ég man rétt, 2.7 milljörðum kr. samtals, vörugjaldshækkunin og söluskattshækkunin. En í ár er áætlað að komi inn fyrir þessa skatta 18 milljarðar kr. og er þá miðað við verðbólgu sem er ca. 30% frá ársbyrjun til ársloka. Nú er það ljóst samkv. nýjustu upplýsingum, að verðbólga verður miklu meiri en þetta og þá vinda þessir skattar, sem eru veltuskattar, miklu meira upp á sig og þessi hækkun verður miklu meiri en gert er ráð fyrir í fjárlögum vegna þess að verðbólgan verður meiri en par er ráð fyrir gert.

Ég ætla ekki að fjölyrða nánar um þetta mál að sinni en ítreka það, að við í 2. minni hl. n. leggjum til að þetta frv. verði fellt.