21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2960 í B-deild Alþingistíðinda. (2926)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Loksins fáum við til l. umr. frv. sem fjallar um mál sem menn hafa verið að keppast um á öllu þessu þingi að halda fram að væri eitt hinna brýnustu mála og þyrfti sérstaklega að hraða. Nú fáum við að sjá það daginn eftir að átti að slíta þingi.

Það dugar ekki að sakast um orðinn hlut, heldur skulum við snúa okkur að því, sem hér hefur verið lagt fyrir okkur, og sjá hvernig það lítur út. Þá á ég við að það þarf að skoða það betur en hæstv. viðskrh. greindi frá. Það þarf að líta á þetta mál frá allvíðari sjóndeildarhring. Ég held að það færi vel á því, að ég og hæstv. ráðh. myndum eftir ágætu frv. sem við tveir ásamt tveim öðrum heiðursmönnum hér í d. fluttum um þau efni sem þetta frv. fjallar um, þ. e. frv. um niðurgreiðslu olíu til upphitunar húsa, sem er 77. mál þessarar deildar.

Ég verð að segja það, að mér finnst að þetta frv., sem nú er lagt fram, sé að ýmsu leyti verulega gallað og sýnu lakara en það frv. sem ég áður at um. Ég er ekki að segja hæstv. viðskrh. þetta til lasts. Ég bið menn að hafa í huga að hann var meðflm. að hinu góða frv.

Það, sem var í hinu fyrra frv. eitt grundvallaratriði, var að það var sett fram viðmiðunarregla um hvernig skyldi ákveða upphæð olíustyrksins eða niðurgreiðslunnar á hverjum tíma. Þetta var talið ákaflega þýðingarmikið í fyrsta lagi til þess að í löggjöfinni væri séð fyrir því, að niðurgreiðslan væri eins mikil og nauðsynlegt væri á hverjum tíma til þess að ná markmiði laganna um jöfnun hitunarkostnaðarins. Í öðru lagi var slík regla mjög þarfleg með tilliti til þess að koma í veg fyrir að hér væri haldið uppi einhverri styrkjastarfsemi umfram það sem þörf væri á hverjum tíma. Í þriðja lagi var þessi viðmiðunarregla þess eðlis, að hún tengdi gjaldskrár hitaveitna verði olíu og niðurgreiðslu á olíu þannig að hreyfingar á gjaldskrám hitaveitna áttu að hafa bein áhrif á upphæð niðurgreiðslunnar á olíu. Þetta gat haft sérstaka þýðingu til að stuðla að betri skipan en nú er og kemur fram í því, að hitaveiturnar fá ekki að hækka sínar gjaldskrár eins og þær telja að þær þurfi. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur gengið svo langt í þessu efni, að nú er farið að tala um að á hitaveitusvæðunum verði að fara að koma til olíukyndingar í einhverjum mæli vegna þess að hitaveiturnar hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til frekari framkvæmda sem nauðsynlegar eru til þess að mæta fólksfjölguninni. Það er ákaflega alvarlegt mál, að þetta er látið gerast. Þetta er látið þróast svona vegna vísitölunnar, vegna þess að ef gjaldskrárnar verða hækkaðar hafi það í för með sér aukin gjöld fyrir ríkið, og því sé um að gera að falsa vísitöluna með óeðlilegum aðgerðum eins og þessum. Reglan í frv. okkar hæstv. viðskrh. og félaga gat stuðlað að því, að stjórnvöld kæmust frekar að réttri niðurstöðu í þessu efni vegna þess að hækkun á gjaldskrám hitaveitnanna leiddi sjálfkrafa til lækkunar á þeim ríkisútgjöldum sem lutu að olíuniðurgreiðslunni.

Nú skal ég ekki ræða frekar um þetta. Ég aðeins minni á að þessu djásni, ef ég mætti segja svo, í frv. okkar hæstv. viðskrh. er kastað á glæ. Það er ekki tekið upp í þetta frv. sem við hér ræðum. Þess vegna verður ekki hægt í veigamiklum atriðum að bera þessi frv. saman þar sem í þeim er reynt að ná lausn á vandamálunum á svo mismunandi hátt.

Í 4. gr. þess frv., sem hér er á dagskrá, eru reglur um hvernig olíustyrkinn eigi að greiða. Það eru að mínu viti bestu ákvæði þessa frv. Ég sé ekki og hef ekki á takteinum betri eða skynsamlegri ráð í þessum efnum heldur en frv. leggur til. Mér er sérstök ánægja að segja þetta og láta þessa getið og fara viðurkenningarorðum um það, að þeir, sem hafa búið til þetta frv., hafa farið að ráðum mínum og hæstv. viðskrh. og okkar annarra flm. fyrra frv., okkar frv., því að við lögðum til í grg. með því frv. að þessi leið yrði farin. Skal ég því ekki fjölyrða frekar um þetta. En ég legg áherslu á að það er ákaflega þýðingarmikið að hafa sem skynsamlegastar reglur um hvernig olíustyrkirnir eru ákveðnir. Það er í mínum huga enginn vafi á því, að hér er um framför að ræða frá því sem er í gildandi lögum.

Þá kem ég að því sem mér þykir ábótavant við þetta frv. Ég veit að hæstv. viðskrh. verður mér ekki reiður þó að ég hafi til hliðsjónar hið fyrra frv. sem við stóðum að.

Það er þá fyrst að geta þess, að í því frv. lögðum við til að olía til upphitunar atvinnuhúsnæðis yrði greidd niður. Við töldum að þetta væri ákaflega þýðingarmikið fyrir olíuhitunarsvæðin, þegar upphitunarkostnaðurinn er orðinn svo mikill sem raun ber vitni. Þá er það augljóst, að hér er um verulegan hluta í rekstrarkostnaðinum að ræða. Þegar við höfum í huga að ýmsar reglur og lagafyrirmæli segja fyrir um það, hvað hin ýmsu fyrirtæki megi taka fyrir sína framleiðslu, og að það gilda sömu reglur um allt land, þá er mjög þýðingarmikið að vissir stórir kostnaðarliðir, eins og t. d. upphitunin, geti verið sambærilegir hvar sem er á landinu. Þetta er einn þáttur í því að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Ég þarf ekki frekar að orðlengja það. En í frv., sem við nú ræðum, er þessu algjörlega sleppt, kastað á glæ, þessu sem stóð í hinu fyrra frv.

En fleira má til taka sem eins er ástatt um. Í hinn fyrra frv. var gert ráð fyrir að olíustyrkur yrði greiddur skólum og öðrum menningarstofnunum, sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum og dvalarheimilum fyrir aldraða og unga. Þessu er sleppt. Nú er gert ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir, að það verði greiddur tiltekinn styrkur vegna skólahúsnæðis. Þetta er bundið við skólahúsnæði, ekki aðrar stofnanir. Þetta er náttúrlega mikill galli og afturför frá hinu fyrra frv. En það er ekki nóg með að fækkað sé þeim aðilum sem geti fengið styrk, heldur er hér einungis um heimildarákvæði að ræða. Það verð ég að segja, að mér þykir hæstv. ríkisstj. ganga nokkuð langt þegar hún setur í heimildarákvæði sumt af því sem nú er í lögunum og er skylda að framkvæma, því að í núgildandi lögum er svo fyrir mælt, að það skuli styrkja skóla, þ. e. styrkja heimavistarskóla á grunnskólastigi. Það er nú enginn möguleiki að víkja sér undan þessari skyldu.

Ég leyfi mér nú að spyrja: Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. skuli leyfa sér að setja ákvæði sem þetta í heimildarformi í staðinn fyrir að hafa það eins og það er núna í lögunum að það er skylda?

En það er ekki nóg með þetta ákvæði. Í gildandi lögum er tekið fram að þeir, sem ekki eiga kost á raforku frá samveitu og verða að leysa raforkuþörf sína með rekstri dísilstöðva, eigi rétt á olíustyrk, — eigi rétt. Þetta er fólkið í sveitum landsins sem hefur ekki fengið rafmagn frá samveitum. En núv. ríkisstj. leggur til að þessi réttur sé tekinn af þessu fólki og þetta sé gert að heimildarákvæði. Ég spyr: Hvaða sjónarmið eru það sem valda því að þetta er gert? Hverjar eru ástæðurnar fyrir því að hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki að taka á sig þá skyldu að sinna þessu fólki eins og henni ber samkv. gildandi lögum?

Ég vík að fleiri atriðum. Í gildandi lögum er ákveðið að skylt sé að styrkja rafveitur að því marki sem þær nota olíu sem orkugjafa til framleiðslu rafmagns til hitunar húsa á sölusvæði sínu þannig að upphitun með rafmagni verði ekki að jafnaði óhagkvæmari en olíukynding. Hæstv. ríkisstj. vill ekki taka á sig skyldu til þess að styrkja þessa aðila eins og henni ber samkv. lögunum. Hún leggur til með hliðstæðu orðalagi að henni verði veitt heimild til þess að styrkja þessar rafveitur að því marki sem þær nota olíu. Hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj. vill fella niður skyldu í þessu efni og vill taka upp heimildarákvæði? Við þurfum að fá svör við því.

Þetta er raunveruleikinn þegar við berum þetta frv. saman við gildandi lög. En við hæstv. viðskrh. og félagar okkar ætluðum með frv. okkar að gera betur en gert er í gildandi lögum. Við ætluðum að stíga spor áfram, en ekki aftur á bak. Það var okkar hugsun. Þess vegna gerðum við ráð fyrir að líta ekki einungis til rafveitna sem notuðu erlenda orkugjafa til framleiðslu rafmagns til húshitunar, heldur líka til hitaveitna sem notuðu erlenda orkugjafa, olíu, til upphitunar húsa. Þess vegna þótti okkur í hinu fyrra frv. alveg sjálfsagt og lögðum mikla áherslu á það, að verð olíu, sem hitaveitur notuðu sem orkugjafa og rafveitur notuðu til framleiðslu rafmagns til hitunar húsa, skyldi greitt niður. Og þetta var ekkert heimildarákvæði. Nei, við töldum að þetta ætti að vera skylda og væri óhjákvæmilegt að gera þetta.

Í heimildagreininni, 7. gr. frv., sem við nú ræðum, er hitaveitunum meira að segja algjörlega sleppt. Þetta er ákaflega mikill galli á þessu frv. Ég vil ekki trúa því, að menn, sem ég veit að eru að leitast við að koma með tillögur til lausnar á vanda upphitunarmálanna, vanda þess fólks sem hitar upp íbúðir sínar með olíu, taki þetta ekki til endurskoðunar. Ég vil ekki trúa öðru fyrr en ég reyni. Ekki síst verðum við að hafa í huga hve það er þjóðhagslega þýðingarmikið að koma upp hitaveitum, þó að það séu ekki innlendir orkugjafar eða jarðvarmi. Hinar svokölluðu fjarvarmaveitur eru miklum mun hagkvæmari þjóðhagslega vegna betri nýtingar á olíunni og notkunar á ódýrari olíu heldur en hægt er að koma við þegar olía er notuð sem orkugjafi í hverju íbúðarhúsi um sig.

Það er einmitt um þessar mundir og á síðustu misserum sem það hefur gerst, að sum byggðarlög eru einmitt að vinna að lausn sinna mála með því að koma upp hitaveitum sem nota m. a. olíuna sem orkugjafa. Gleggsta dæmið um það er hitaveitan, sem búið er að taka að nokkru leyti í notkun á Ísafirði, og hitaveiturnar, sem Orkubú Vestfjarða vildi hefja framkvæmdir við í Bolungarvík og á Patreksfirði, en stjórnvöld hafa staðið gegn með afstöðu sinni við afgreiðslu lánsfjáráætlunar. Ég nefni það sem hæstv. viðskrh. ætti að vera kunnugt um, þær framkvæmdir sem verið er að undirbúa og hefja á Austfjörðum, svo sem í Hornafirði. Ég þarf ekki að rekja það frekar. Hvernig sem við lítum á þetta mál, þá er það stórmál og það má ekki líta fram hjá því þegar þetta frv., sem við nú ræðum, verður afgreitt.

Í þessu frv. er sérstakur kafli um orkusparnað, III. kafli frv. Það er nýjung að hafa ákvæði um slíkt í lögum sem varða niðurgreiðslu olíu og lækkun hitunarkostnaðar með olíustyrkjum. Ég skal ekki vera að gera mikið úr formsatriðum, og kannske er ekkert við það að athuga að þetta sé í sama frv. En ég segi „kannske“ vegna þess að það er merkileg árátta, sem mér hefur fundist grípa menn stundum, og allt of oft, þegar verið er að ræða um þessi mál, að þeir leitast þá við að klípa utan úr þeirri fjárhæð sem nauðsynlegt er að verja til niðurgreiðslu á olíu og sú fjárhæð hefur alltaf verið of lítil. Mönnum hættir stundum við að tala um þessi mál eins og orkusparnaður geti komið í staðinn fyrir myndarlegt átak í niðurgreiðslu olíunnar. En það er ekki — það er langtímaviðfangsefni. Hæstv. ríkisstj. hefur verið að tala um að verja hálfum milljarði á ári til þessara þarfa. Það er góðra gjalda vert svo langt sem það nær. En kunnáttumaður á þessu sviði hefur reiknað út að það mundi taka hundrað ár að leysa aðkallandi verkefni í þessu efni ef það væri gert með þeim hraða sem hæstv. ríkisstj. virðist hugsa sér í þessu máli.

Ég kem þá að 14. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að Orkustofnun skuli í samráði við Rafmagnsveitur ríkisins gera húshitunaráætlun fyrir tímabilið 1981-1983 um nýtingu innlendra orkugjafa til húshitunar í stað olíu. Skal þar gera till. um árlegar framkvæmdir í orkumálum sem nauðsynlegar teljast til þess að sem flestir landsmenn búi við innlenda orkugjafa eða njóti orku frá olíukyntri fjarvarmaveitu í árslok 1983. Um þessa grein og efni hennar er raunar ekkert nema gott að segja, enda er hún vel ættuð og kynjuð. Hún er tekin upp úr þáltill. á þskj. 157 um framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar sem ég ásamt níu öðrum samflokksmönnum mínum hef borið fram á þessu þingi. En þrátt fyrir ágæti sitt hefur þessi þáltill. ekki hlotið meiri áhuga hjá stjórnarliðinu en svo, að hún hefur ekki enn þá fengið afgreiðslu. Ég vil aðeins segja — og ég held að við þurfum að taka það til athugunar hér í þessari ágætu deild — að það hefði verið hreinlegra að taka þáltill. alveg í heilu lagi, því þar er ítarlega greint frá því, hvað þetta er. Ég get ekki trúað öðru en að hæstv. ríkisstj. — og ég tala nú ekki um hæstv. viðskrh. — hafi ekkert við slíkt að athuga. Það er aðein5 til þess að bæta þetta frv. og gera það ítarlegra. Og af því að við virðumst vera sammála um þessi efni, þá skal ég ekki vera að fjölyrða um þau hér. En ég held að það væri samt til bóta að leggja frekari áherslu á þetta atriði og gera það á þann veg sem gert er í þessari þáltill., þar sem eru tilgreind sex eða níu tölusett atriði sem þarf að leggja sérstaka áherslu á.

Ég kem þá að 15. gr. frv., og nú fer að hilla undir lokin. (Gripið fram í.) Ég veit að hv. þm. Stefán Jónsson mælir ekki þetta í alvöru, því að hann hefur sýnt það í samvinnu okkar í orkumálunum á þessu þingi að hann telur ekki eftir sjálfum sér að staldra við nokkrar mínútur. Hann veit líka að ég tel ekki eftir mér að gera slíkt hið sama. Verður raunar ekki sagt að þessi ræða gerist lengri en efni standa til. Er það frekar að hún sé skorin við nögl en hitt, ef tekið er tillit til þess, hve þýðingarmikil þessi mál eru.

Aðeins nokkur orð um 15. gr. frv. Hæstv. viðskrh. sagði að í þessari grein kæmi fram sú stefna sem þetta frv. legði sérstaka áherslu á. Orðin féllu þannig, eins og þetta væri eiginlega meginstefna frv. Þessi grein fjallar um það, að ekki verði gerðar ráðstafanir sem hindri að innlendir orkugjafar séu notaðir til hins ýtrasta. Um þetta erum við allir sammála. En það hlægir mig, að það skuli hafa verið gert svo mikið úr þessu atriði varðandi þær fyrirætlanir sem nú eru uppi samkv. þessu frv. um að greiða niður eða styrkja þá sem hita hús sín með olíu. Það hlægir mig vegna þess að það framlag, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er ekki stórbrotnara en svo, að ég held að það þurfi ekki að vera nein hætta á því að þessar aðgerðir, þó að frv. sé samþykkt, hafi í för með sér að innlendir orkugjafar verði ekki notaðir.

Í þessu sambandi er gaman fyrir okkur, sem stóðum að hinu fyrra frv., bæði fyrir mig og hæstv. viðskrh. og aðra sem að því góða máli stóðu, að minnast þess, að við gerðum ráð fyrir því samkvæmt okkar útreikningum, sem voru mjög vandaðir í grg. frv., að olía væri greidd niður um 60%. En þá bið ég menn að hafa í huga viðmiðunarregluna sem ég minntist á hér í upphafi. Þetta gat orðið miklu minna ef gjaldskrár hitaveitu hækkuðu. En okkar útreikningar lögðu til grundvallar 60% niðurgreiðslu. (StJ: Miðað við verð eins og það var í vor?) Miðað við verð eins og var í ár, já. Þá kom í ljós að það voru aðeins þrjár hitaveitur á landinu sem voru með hærri gjaldskrá en nam kostnaðarverði við olíuupphitun eftir svo mikla niðurgreiðslu. Þetta var hitaveitan á Suðureyri, hitaveitan á Blönduósi og hitaveitan á Siglufirði. Hitaveitan á Siglufirði var með svo háa gjaldskrá vegna þess að hún þarf að hafa kyndistöð sem notar olíu. En við sáum við því í till. í okkar fyrra frv., því að ef það hefði verið samþ. hefði Hitaveita Siglufjarðar fengið niðurgreidda olíu í þessu skyni og var þá hólpin.

Það var annað mál varðandi hinar tvær hitaveiturnar. Þar höfðum við hugsað okkur að þyrftu að koma sérstakar ráðstafanir til. En ég skal ekki fara að skýra það hér. Ég kem aðeins inn á þetta mál til þess að undirstrika þá skoðun mína, að við þurfum engar áhyggjur að hafa af því, þó að þetta frv. verði samþ., að það marki svo stór spor fram á við í jöfnun hitunarkostnaðar í landinu að það komi til þess að menn fari að hugsa sig um að nota jarðvarmann til upphitunar.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni. Mér fannst rétt að vekja athygli á þessum atriðum, sem ég hef gert að umtalsefni, og það geti haft þýðingu að það sé gert við 1. umr., áður en frv. þetta fer til nefndar. Mér þóttu það einkennileg vinnubrögð sem höfð hafa verið við þetta mál, að því var víst vísað í Nd. til fjh.- og viðskn. En ég tel að það sé augljóst, að svona máli eigi að vísa til iðnn., og svo hefur verið gert áður. Alveg sérstaklega eru ýmis ákvæði þarna sem geta ekki annað en heyrt undir iðnn. og iðnaðarmálin. Að þessu leyti tel ég að það sé fortakslausara að þetta frv. eigi að fara í iðnn. heldur en önnur frv. um niðurgreiðslu olíu, sem vísað hefur verið til iðnn., vegna þess að þar voru ekki ákvæði um orkusparnað og nýtingu innlendra orkugjafa og annað slíkt.

Í þessu sambandi leyfi ég mér að minna á það, að í hinu ágæta frv. okkar hæstv. viðskrh. og félaga var gert ráð fyrir að þessi mál heyrðu undir iðnrh., eins og okkur þótti eðlilegt. Nú er ekki gert ráð fyrir því, en eitthvert samkrull er þó haft í huga. Menn hafa haft slæma samvisku út af þessu og það ber 16. gr. vitni um. En þetta er eitt af þeim atriðum sem vert væri að við litum frekar á.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu að sinni til að hafa fleiri orð um þetta og hef lokið máli mínu.