21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2971 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram í þessum umr., að það er sannarlega kominn tími til þess að þetta mál verði afgreitt hér frá Alþingi. Ég held að fá mál hafi verið áhugaverðari og það hafi jafnan á þessu þingi ríkt sú skoðun, að það bæri sannarlega að koma á bættri skipan og meiri jöfnuði í húshitunarmálum. Ég verð hins vegar að segja það, að þetta frv. veldur mér á ýmsan hátt — og reyndar margan hátt — vonbrigðum. Ég lagði fram í upphafi Alþingis ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal till. til þál. um það, að hér yrði innan Alþingis komið á samstarfi um leiðir til þess að jafna húshitun, bæði er varðaði tekjur og reglur til þeirra hluta. Í þeirri tillögugerð var gert ráð fyrir því, að þessu starfi yrði lokið fyrir afgreiðslu fjárlaga þannig að þá væri hægt að ganga þar frá þessu máli.

Eins og menn vita voru þingstörf hægfara, og á það að sjálfsögðu sinn þátt í því, að af þessari tillögugerð varð ekki. Skoðun mín er að því leyti alveg óbreytt frá því fyrr í vetur, að það langmikilvægasta í þessu sambandi er fjármagnið. Það þarf að vísu að athuga vel hvernig því er skipt, en samt sem áður er þetta langmikilvægasti þátturinn. Og ég vil nú mega beina þeim tilmælum mjög ákveðið til þeirrar n., sem kemur til með að fjalla um þetta mál, sem væntanlega verður fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., að hún taki þetta mál til mjög rækilegrar athugunar, m. a. vegna þess að mér sýnist að hv. Nd. hafi ákaflega lítið fært þetta mál til betri vegar, sem þó hefði verið mikil þörf á.

Grundvöllur að þessu frv. er það fjármagn sem á að fara í beinan húshitunarstyrk. Sú tala er ekki langt frá 4 milljörðum kr., og það má kannske ætla að miðað við verðlagsforsendur, sem gefnar eru í frv., megi ganga út frá þeirri tölu sem slíkri.

Nú vill svo til, að í skýrslu Orkustofnunar, sem var gefin út í s. l. ágústmánuði, — og eins og menn vita hafa verðlagsforsendur ekki breyst svo mjög síðan, og það eru yngstu heimildir sem fyrir hendi eru um þessi mál, — er gert ráð fyrir að olíunotkun landsmanna á þessu ári nemi tæplega 57 millj. lítra. Og þá er talað um allt húsnæði, bæði íbúðarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði og svo húsnæði sem tilheyrir ýmissi menningar- og heilsugæslustarfsemi. Ef gert væri ráð fyrir að greiða olíukostnaðinn niður um 60%, en þá værum við komin á sambærilegan flöt og gildir varðandi nýrri hitaveiturnar, Hitaveitu Akureyrar og Hitaveitu Suðurnesja, þá mundi kostnaðurinn við þessa niðurgreiðslu samkv. því nema um 5 milljörðum kr. Þarna væri búið að ná mjög ákjósanlegum árangri.

Nú virðist mér að samkv. frv. sé gert ráð fyrir því, að niðurgreiðslan nemi um 40%, þ. e. að í staðinn fyrir 60%, eins og ég legg til grundvallar í þessum tölum, sé um 40% niðurgreiðsla. Þessar tölur eru þó ekki alveg sambærilegar vegna þess að í frv. er gert ráð fyrir nokkrum mismun á olíustyrkjum. En samt sem áður kemur út sú tala í frv., að kostnaðurinn verði um 4 milljarðar. Og þá er alls ekki tekið inn í þetta dæmi neitt húsnæði annað en skólahúsnæði. Þar er sleppt allri heilsugæslu og öllu iðnaðarhúsnæði.

Hér ber æðimikið á milli, og það er ætlan mín, að í þeim forsendum, sem gefnar eru í frv., séu ýmsar skekkjur. M. a. er þar talað um olíustyrki, 47 þús. talsins. Þessi tala er miðuð við upphaf árs 1979, og það er hald manna, að á því ári hafi olíustyrkþegum fækkað um 5–6 þús. manns og þar af leiðandi sé þessi tala komin niður í 42 þús. Þetta gerir það að sjálfsögðu að verkum að verðlagsforsendur eru að því er varðar tölu styrkhafa óþarflega háar í frv. Þá má líka á það minna, að olíustyrkir varðandi heimavistarskóla eru einnig inni í þessari tölu, en í frv. koma þeir út sem sjálfstæð stærð. Af þessu leiðir að þarna er trúlega um að ræða forsendur sem a. m. k. er mjög mikil ástæða til þess að endurskoða og endurskoða gaumgæfilega og þá með tilliti til þess — ef gengið er út frá ákveðnu fjármagni í þetta — annað tveggja að bæta stöðu þeirra, sem kynda hús sín með olíu, eða með því að gera heimildirnar víðtækari en þær eru.

Ég vænti þess alveg sérstaklega, að sú hv. n., sem tekur þetta mál til athugunar, sannfæri sig um það, að grundvöllurinn í þessari skiptingu verði leiðréttur og að komist verði til botns í því, hvað rétt sé í þessum efnum.

Annar ákaflega mikilvægur þáttur þessara mála er það, hvað þessi aðstoð yrði gerð víðtæk. Það er hald manna og m. a. staðfest samkv. skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins, að íbúðarhúsnæði sé einhvers staðar rétt innan við 70% af heildarhúsrými sem upp þarf að hita, en að annað húsrými sé í kringum 30%. Ef þær forsendur, sem ég hef verið hér að leitast við að benda á að væru ekki réttar í frv., reynast ekki réttar, þá er fjárhagsgrundvöllur fyrir því — að óbreyttri styrkhæð — að gera þessar heimildir miklu víðtækari en þær eru í frv. Þess vegna er alveg sérlega mikilvægt, og á það vil ég leggja áherslu, að einmitt þessir þættir verði reiknaðir niður í kjölinn. Og það er einfalt mál og þarf ekki að taka langan tíma fyrir hv. n., vegna þess m. a. að í þessum málum er af mörgum aðilum mikið búið að vinna og því liggja fyrir víðtækar heimildir og gögn um þessi mál.

Þá þykir mér vert að leggja á það áherslu, að skólaþátturinn verði tekinn til sérstakrar athugunar í þessum efnum. Einmitt í því tilviki ríkir eitt mesta óréttlæti í sambandi við félagslegan rétt og aðstöðu fólks á þessu landi. Ég get ekki látið hjá líða að minna á það og undirstrika alveg sérstaklega, að þessi mismunur og þessi óréttur hefur einmitt komið fram vegna breytinga á löggjöf sem afgreidd hefur verið frá hv. Alþ., m. a. í sambandi við verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Eins og menn muna og óþarft er að fara um mörgum orðum hér á hv. Alþ. var gerð mikilvæg breyting og samkomulag um verkaskiptingu ríkissjóðs og sveitarfélaganna og þá með tilliti til þess að gera þau verkefni öll einfaldari. Og því er ekki að leyna, að margt hefur færst til betri vegar og orðið skýrara af þessari ástæðu. En annað hefur líka úr lagi færst, eins og t. d. varðandi rekstur skóla og þá alveg sérstaklega heimavistarskóla. Og því miður fer það mikið saman, að heimavistarskólar, sem eins og við vitum eru fyrst og fremst í dreifbýlinu, einmitt þar sem ekki eru tök á heitu vatni til upphitunar, þeir einmitt gjalda þessarar fyrri reglu.

Ég vil þess vegna beina því alveg sérstaklega til n., að hún taki þátt skólanna til sérstakrar athugunar og þá jafnvel með það fyrir augum að aðgreina þá í tvennt. Eins og menn vita hefur löggjafinn metið þátt sinn í skólabyggingum þannig að honum bæri að byggja upp heimavistarhúsrými algjörlega. Því er það, að þau sveitarfélög, sem þurfa að byggja heimavistarskóla til þess að annast almenna barna- og unglingafræðslu, njóta þeirra kjara af hendi ríkisvaldsins að fá heimavistarhluta skólahúsnæðisins algjörlega greiddan. Það er viðurkenning ríkisvaldsins á þeim mismun og þeirri miklu þörf sem af honum leiðir til að koma þessum málum í eðlilegt horf. Hinu sama gegnir bæði varðandi viðhald á skólahúsnæði, sem að vísu er ekki hér til umræðu nú og verður ekki leiðrétt við meðferð þessa máls á Alþingi. En það er mikil bót að leiðrétta eina skekkju þó að ekki sé hægt að bæta úr að fullu. Þess vegna þykir mér alveg sérstök ástæða til þess að benda á þetta hér og þá í trausti þess, að hv. n. taki einmitt þennan sérstaka þátt til nánari athugunar.

Ég hef nú, herra forseti, vikið að nokkrum grundvallarþáttum í sambandi við þetta frv. Ég mun ræða hér í örfáum atriðum nokkrar greinar frv., sem ekki er þó kannske beinlínis ástæða til, því að ég verð að líta svo á að þetta sé í heild fremur gallað frv. og það þyrfti því að breyta því í mjög veigamiklum þáttum ef það ætti að ná verulega tilgangi sínum.

Ég vil þá fyrst víkja að ákvæðum 4. gr., þar sem sérstaklega er fjallað um fyrirkomulag greiðslu á olíustyrk og þar sem menn telja að komið sé sérstaklega til móts við þær þarfir, sem óneitanlega eru fyrir hendi, og þann mismun sem felst í mismunandi stærð húsrýmis. Ég verð að segja það alveg eins og er, að ég er engan veginn sáttur við þessa aðferð. Það hefði verið miklu einfaldari og betri leið, og þó alveg sérstaklega miklu sanngjarnari, að tekið hefði verið mið af tvennu, þ. e. bæði stærð húsnæðis og þeim fjölda íbúa sem í húsrýminu býr. Það er engan veginn svo einfalt að hægt sé að meta stærð húsrýmis út frá íbúatölunni, eins og hér er lagt til. Menn mega ekki gleyma því, sem hér er ákaflega mikilvægt, að víða á þeim stöðum þar sem einmitt þarf að kynda með olíu er fólki ókleift að skipta um íbúðir eftir því hverjar breytingar verða á fjölskyldustærð.

Af þessari ástæðu hefði verið miklu eðlilegri og betri lausn að hafa ákveðin stærðarmörk til viðmiðunar. Og ég vil benda á að það er miklu minni skriffinnska en menn almennt tala um og almennt álíta, því að í fórum sveitarfélagsstjórna eru einmitt skrár yfir stærð alls íbúðarhúsnæðis og þar af leiðandi hefði verið og er vandalaust að leggja slík stærðarmörk til grundvallar og hefði á engan hátt þurft að valda erfiðleikum.

Ég hlýt líka að leggja á það mikla áherslu, þegar kemur að 7. gr. frv. þar sem er fjallað um skólahúsnæði, sem ég hef áður fjallað um, þ. e. þörfina, einmitt þá sérstöku þörf sem sveitarfélögin hafa fyrir stuðning við upphitun á því húsnæði. Hér er það ekki látið fylgja með 4. gr., heldur sett inn í sérstaka grein þar sem einvörðungu er um heimildir að ræða. Ég vil beina þeim tilmælum mjög eindregið til hv. fjh.- og viðskn., að hún breyti þessari niðurröðun þannig, að skólahúsnæðið verði tekið inn í 4. gr. og þannig verði jafnskýrt og nákvæmlega kveðið á um skyldur hins opinbera gagnvart því eins og öðru því húsnæði sem hér er ætlast til að njóti þessarar aðstoðar.

Ég vil líka mjög eindregið beina því til n., að þótt hún sjái sér kannske ekki fært að láta þær heimildir, sem felast í þessu frv., ná til alls húsnæðis sem þarf að hita upp, — sem ég reyndar teldi langæskilegast og eðlilegast, — þá tel ég jafnmikilvægt að heilsugæslustöðvarnar njóti þessa stuðnings. Ég veit að það er óþarft að segja frá því hér á þessum stað, svo kunnugir sem hv. alþm. eru þeim málum, hve mikið misræmi er í rekstri heilsugæslustöðva. Á ég þá ekki fyrst og fremst við þær sem slíkar, heldur heilsugæsluna almennt, þar sem ríkið greiðir kostnað við rekstur á spítölum, m. a. upphitunarkostnað, sem gerir það að verkum að mikið misvægi er á milli þeirra sveitarfélaga, sem sjá heilsugæslu sinni farborða með heilsugæslustöðvum, og hinna, þar sem spítalar eru. Bæði varðandi skólana og heilsugæslustöðvarnar er þetta réttlætismál, og ég vænti þess, að hv. n. taki einmitt þessa þætti til sérstakrar athugunar.

Ég hef nú rætt þau atriði, sem mér finnast mikilvægust í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og þá þætti, sem ég tel eðlilegt og sanngjarnt að verði alveg sérstaklega skoðaðir við meðferð málsins í þessari hv. deild. Ég geri mér alveg ljóst að það verður ekki hægt að verða við þeim tilmælum, að þessu frv. verði bylt í eins veigamiklum atriðum og ég hefði helst kosið. Og m. a. verð ég að segja það, að ýmislegt í þessu frv. er nánast sagt sýndarmennska. Þar vil ég m. a. minna á III. kaflann, um orkusparnað, og þá sérstaklega 13. gr. Það kann að sjálfsögðu að hafa eitthvert gildi, en alls ekki er hægt að fara um það sterkari orðum. Þar er gert ráð fyrir heimild til handa Húsnæðismálastofnun til að veita lán til endurbóta á húsum vegna orkusparandi aðgerða. Hér er hins vegar ekki séð fyrir neinu fjármagni til þeirra þarfa, en auðvitað er það það sem skiptir meginmáli í þessu sambandi.

Þá verð ég líka að segja það, að mér er fremur illa við það sem verið er að slíta út úr þessum fjárveitingum til fræðslu- og upplýsingastarfsemi og vegna ráðgjafaþjónustu. Þetta eru almenn verkefni sem eru að sjálfsögðu bundin við þær stofnanir sem hafa þessi mál með höndum. Í þetta er samkv. frv. varið alls 60 millj. kr. Ef við berum saman þær fjárveitingar, sem eru áformaðar til upphitunar á skólahúsnæði, sem eru 140 millj., þá sjáum við hvað tiltölulega mikill þáttur þessi kostnaðarliður er. Ég ætla ekki að draga dul á það, að ég hefði álitið að þessu fjármagni væri stórum betur varið til einhvers konar stuðnings við þau félagslegu verkefni sem ég hef hér minnt á.

Það er í rauninni alveg af sama toga spunnið varðandi aukaolíustyrk. Mér finnst menn leggja allt of mikið upp úr þessum umbúðum. Ég minni á það líka í þessu sambandi, að hann verður tæpast greiddur með öðrum hætti en þeim, að til komi vottorð og úttektir sem væntanlega þurfa að fylgja til æðri staða svo að hægt sé að glöggva sig á því, hverjir hafi þarna átt hlut að máli. Og reynsla mín og skoðun er sú, að menn geri sér almennt ljósa þýðingu þess að hafa þessi tæki í lagi þó að það sé ekki sérstaklega verðlaunað. Ég er þannig frekar í andstöðu við þær ýmsu slaufur sem eru í þessu frv., og ég hefði talið miklu betri kost ef hér hefðu frekar verið farnar einfaldari leiðir í þessum efnum.

Þá finnst mér ástæða til þess að víkja hér nokkuð að viðmiðun þessa frv., fara nokkrum orðum um það, hvað hér er raunverulega lagt til grundvallar til viðmiðunar. Í þeim efnum verð ég sannarlega að lýsa nokkrum vonbrigðum mínum frá því sem áður hefur verið talað um hér á hinu háa Alþingi í þessum málum. Ég minni í þeim efnum m. a. á frv. þeirra hv. félaga, sem lögðu fram frv. um húshitunarkostnað fyrr á þessu þingi, og mína tillögugerð þar að lútandi líka. Þar var miðað við þann grundvöll að bera saman kostnað við upphitun á húsnæði eins og hún væri almennust í þessu landi. Nú eru menn einkum farnir að tala um samanburð við taxta Rafmagnsveitna ríkisins, og það er einmitt það sem ég get engan veginn fallist á að sé eðlilegt til viðmiðunar, einfaldlega vegna þess að við erum að tala hér um kjör fólksins í þessu landi. Við erum ekki að þvinga hér fram einhverjar ákveðnar stefnur eða sjónarmið varðandi orkuuppbyggingu í landinu, heldur erum við að tala hér um kjör fólksins og aðstöðu þess. Og það er athyglisvert, að ef litið er á samanburð á milli kjördæma, þá eru það aðeins 9% af íbúum á Austurlandi sem hafa eða eru að fá hitaveitur. Aðeins eitt kjördæmi er verr sett að þessu leyti og það er Vestfjarðakjördæmi með 6%. Menn mega ekki gleyma þessum tölum þegar verið er að finna leiðir til viðmiðunar í þessum efnum.

Nú sýnist mér að frv. byggi á ákveðnum taxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Og í rauninni virðist mér að sá taxti sé ákvarðandi um styrkupphæðina sem slíka. Nú liggur það raunar fyrir og hér er ég m. a. með í höndunum skýrslu sem gerð var fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins og unnin af þekktu verkfræðifyrirtæki hér í borg, þar sem m. a. segir frá því, að nánast sé útilokað að finna eðlilega viðmiðun í gegnum raforkutaxtana. Það er ákaflega fróðlegt að fara yfir þessa skýrslu. — Ég gæti nú orðið við tilmælum forseta um að gera hlé. (Forseti: Já, þannig að umr. væri frestað.) Það er í lagi mín vegna, forseti. –[Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var þar í ræðu minni sem ég fjallaði sérstaklega um nokkrar hugarfarsbreytingar frá því fyrr í vetur í sambandi við viðmiðun húshitunar. Ég var að benda á það, að nú væri lögð sérstök áhersla á það að miða húshitunarkostnað við raforkuverð, frekar en það sem almennast væri í þessu landi, hitaveitur í einhverri mynd, t. d. eins og Hitaveitu Suðurnesja og Akureyrar. En mér finnst alveg sérstök ástæða til þess að minnast á þetta vegna þess að raforkutaxtarnir eru óeðlilegir og við hljótum að verða að stefna að því að fá raforku til upphitunar með miklu hagkvæmara verði en nú er.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, taka fram í örfáum orðum það sem ég vil leggja sérstaka áherslu á við afgreiðslu þessa máls í nefnd. Ég trúi satt að segja ekki öðru en að hægt verði að verða við þeim ábendingum, því að þær eru langflestar með þeim hætti að ég get sannað að þar er um réttlætismál að ræða sem á sér fullkomlega stoð í veruleikanum.

Ég legg þá áherslu á það, að miðað verði við kostnað við upphitun eins og almennast gerist í þessu landi, en ekki við óeðlilega raforkutaxta. (StJ: Miðað við hvað?) Ég legg áherslu á að eins og frv. gerir ráð fyrir, þá er ekki um verulegar breytingar að ræða til hagsbóta fyrir þá sem kynda hús sín með olíu. Mér er nær að halda að olíustyrkurinn nú í dag nemi liðlega þriðjungi af kostnaði við húshitun. Og það kemur fram í frv., að ef það verður að lögum verður þátttaka ríkissjóðs í þeim kostnaði í kringum 40%. Það er öll breytingin til hagsbóta fyrir þá sem kynda híbýli sín með olíu.

Ég legg áherslu á það, að grundvöllur til mats á kostnaði við framkvæmd þessara mála verði endurreiknaður m. a. á grundvelli þeirra ábendinga sem ég hef hér komið með. Ég er sannfærður um það, að endurmat og endurreikningur á þeim kostnaði eiga eftir að leiða það í ljós, að sá tilkostnaður, sem gert er ráð fyrir upp á tæpa 4 milljarða við húshitun, lækkar. Ég geri því ekki skóna að menn vilji fara út í það að auka þátttöku hins opinbera eða hækka olíustyrkinn. Ég legg því enn frekari áherslu á það sem ég benti á fyrr í sambandi við skóla. Í því sambandi undirstrika ég alveg sérstaklega, að þær heimildir, sem eru í 7. gr. og fjalla um olíustyrk til rekstrar á skólahúsnæði, verði færðar yfir í 4. gr. og að tekið verði fullt tillit til þess kostnaðar sem af því leiðir að reka heimavistarskóla. Með sama hætti gæti ég fellt mig við að aðrar stofnanir, sem ekki eru tilgreindar í þessu frv., en ákaflega mikil þörf er að ganga til móts við, — að heimildir til að taka þátt í rekstri þeirra með því að létta á kostnaðinum við húshitun væru settar inn í 7. gr. Miðað við efni málsins og þann áhuga, sem hefur komið hér fram á hv. Alþingi frá miklum fjölda þm., er hér sannarlega ekki fram á mikið farið. Og það er nokkuð harður dómur um störf alþingismanna og Alþingis ef ekki er hægt að taka tillit til ábendinga sem þessara, jafnvel þótt hv. Nd. hafi sést yfir að koma þar betri skipan á þessi mál.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu. Ég ítreka enn einu sinni tilmæli mín til fjh- og viðskn. um að skoða þessi mál betur. Og ég ítreka það sem ég hef áður sagt, að það þarf ekki að tefja þingstörf því að það eru til heimildir á handbærum stöðum til að það verk geti gengið eðlilega fyrir sig.