21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2999 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, sérstaklega í tilefni af fsp. sem fram komu í máli seinasta ræðumanns. Ég vil reyna að svara þessum spurningum strax eftir bestu getu, þótt ég hefði kannske getað svarað enn betur á síðara stigi, eftir að hafa rætt við embættismenn fjmrn.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson spurði í fyrsta lagi að því, hvort einhverjir þeir lífeyrissjóðir væru til sem ekki féllu undir þessi skyldukaup. Ég víl strax taka það fram, að mér er ekki kunnugt um að það séu lífeyrissjóðir starfandi í landinu sem falli ekki undir þessa almennu reglu. En þetta er ég fús til að láta rannsaka betur. Ég hef aldrei heyrt þess getið, að einhverjir væru undanþegnir, og ég tel víst að þeir falli allir inn í það kerfi skyldukaupa á skuldabréfum fjárfestingarsjóða sem hér er gert ráð fyrir að verði áfram.

Í ræðu hv. þm. kom einnig fram fsp. þess efnis, hvort verið gæti að lífeyrissjóðir banka væru undanþegnir, hvort þeir slyppu algerlega. Ég verð að svara þessu á sama veg. Mér er ekki kunnugt um að lífeyrissjóðir banka séu undanþegnir. Ég vil hins vegar upplýsa það, að á s. l. ári, árinu 1979, gerði fjmrn. ráð fyrir að lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbankans keypti skuldabréf að upphæð 64 millj. kr., og ég hef upplýsingar um að lífeyrissjóðurinn keypti nákvæmlega fyrir þessa upphæð eins og fyrir var lagt. Lífeyrissjóður starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans átti að kaupa samkv. áætlun fjmrn. skuldabréf að upphæð 228 millj. kr. og lífeyrissjóðurinn keypti fyrir 250 millj., þ. e. hann keypti fyrir 22 millj. kr. hærri upphæð en ráð var fyrir gert. Lífeyrissjóður starfsmanna Útvegsbankans átti að kaupa fyrir 48 millj., en keypti fyrir lægri upphæð eða aðeins fyrir 24 millj. Samanlagt gerði þetta hins vegar mjög svipaða upphæð og ráð var fyrir gert, þannig að ég held að það sé nokkuð á hreinu að lífeyrissjóðir starfsmanna bankanna geti ekki verið þarna undanþegnir eða á öðrum báti en aðrir lífeyrissjóðir.

Hv. þm. kvartaði sáran yfir því, að nú væri kominn í ráðherrastólinn í fjmrn. nýr fjmrh. sem færi aldeilis sérlega illa með Atvinnuleysistryggingasjóð og sæti á greiðslum til sjóðsins. Ég þykist vita að ég gæti gefið gleggri upplýsingar um þetta mál ef ég ætti þess kost að ræða málið nákvæmlega við embættismenn fjmrn., en ég hef þó upplýsingar í höndunum sem sýna að það hefur ekki orðið mikil breyting á í þessum efnum á seinustu mánuðum, þótt hv. þm. vilji reyna að halda öðru fram, af hvaða hvötum sem það er gert. Ég get upplýst að skuld ríkissjóðs við Atvinnuleysistryggingasjóð var um s. l. áramót 1 milljarður 47 millj., sem var mjög svipuð upphæð — reyndar heldur lægri upphæð — en verið hafði einu ári áður, en þá var skuldin 1 milljarður 150 millj. En hinn 30. apríl s. l., þ. e. fyrir fáum dögum, skuldaði ríkissjóður Atvinnuleysistryggingasjóði 1 milljarð 74 millj. Sjá menn af þessum tölum að skuldin hefur nokkurn veginn staðið í stað. Hún hefur aukist frá áramótum um 27 millj., sem sennilega er meira tilviljun en ásetningur. (PS: En innheimtuféð frá atvinnuvegunum?) Ég hef ekki upplýsingar um það hér. (Gripið fram í: Á ekki að horfa á allt landið?) Ég hef ekki upplýsingar um það atriði, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hef gefið hér, virðist skuld ríkissjóðs við Atvinnuleysistryggingasjóð ekki hafa vaxið. Það sýnist mér að sé aðalatriði málsins. — Það er auðvitað hægt að fá gleggri upplýsingar um þetta síðar og ég mun reyna að afla þeirra.

Ég vil bæta því við, að hv. þm. Karvel Pálmason flutti langa ræðu, seinast þegar þetta mál var til umr., og hélt því fram, að verið væri að taka upp nýja siði og sérstaklega væri Alþb. og núv. fjmrh. að beita sér fyrir nýrri aðför að lífeyrissjóðunum í landinu og væri það auðvitað stórhneykslanlegt. Út af fyrir sig er það alveg rétt, að á árinu 1977 höfðu bæði Alþb. og Alþfl. þá afstöðu, að réttara væri að ná samkomulagi við lífeyrissjóðina um framlag þeirra til lánsfjáráætlunar, og settu sig upp á móti þeirri reglu sem þá var í lög fest. En ég held að óhætt sé að gera langt mál stutt með því að segja það eins og er, að þessir flokkar tóku aðra afstöðu í þessu máli á s. l. ári. Þeir breyttu afstöðu sinni og féllust á að bundið yrði í lög að lífeyrissjóðir skyldu leggja fram 40% af ráðstöfunarfé sínu í þessu skyni. Það var enginn munur á afstöðu Alþfl. og Alþb. í þessum efnum á s. l. ári. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið neinn ágreiningur á milli flokkanna um að óhjákvæmilegt væri, til þess að auka innlendan sparnað og til að hafa betri stjórn á þessum málum, að breyta þarna um stefnu.

Vissulega var þarna um stefnubreytingu að ræða hjá þessum tveimur flokkum. Það má auðvitað halda langar ræður um hvort þessi stefnubreyting hafi átt rétt á sér eða ekki. Það má velt vöngum yfir því, hvort það hafi verið hneykslanlegt af Alþb. að breyta um stefnu í þessu. En víst er að Alþb. gerði nákvæmlega sama og Alþfl. að breyta um stefnu í þessum efnum að nánar athuguðu máli, og stóðum við Alþfl.-menn og Alþb.-menn saman um þá stefnumótun. Svo ber aftur á móti alveg nýrra við á þessu ári, þegar við teljum sjálfsagt að sama regla gildi á þessu ári og gilti á seinasta ári. (KP: Ekki sama.) Jú, nokkurn veginn alveg sama regla. (KP: Nei, nei.) Það er nokkurn veginn alveg sama reglan. Þar er enginn eðlismunur á. Munurinn er sá einn, að það er beinlínis tekið fram í lögum að þessi 40% skuldabréfakaup skuli sérstaklega beinast að kaupum á skuldabréfum frá ríkissjóði, frá Byggingarsjóði og frá Framkvæmdasjóði eða öðrum fjárfestingarsjóðum sem viðurkenningar njóta, en það var ekki tekið beinlínis fram í lögunum eins og þau voru afgreidd í fyrra. Hins vegar gengu allir flokkar og allir þm. út frá því, að þannig yrði lagagr. í framkvæmd. Ég held að enginn hafi efast um að hún yrði framkvæmd á þennan máta, og einmitt þess vegna gerði fjmrh. í fyrra áætlun sem byggðist á því að lagagr. væri túlkuð með þessum hætti. Síðan kom upp ágreiningur um hvort hugsanlegt væri að fella undir þessa lagagr. lán til einstaklinga, sem aðrir töldu vera rangtúlkun þessa máls. Og til að taka af öll tvímæli um þetta er lagagr. nú orðuð skýrar en áður var.— En það er nákvæmlega sama stefnan í þessum málum og var í fyrra. Það eina, sem hefur gerst í þessu máli, er hins vegar það, að Alþfl. hefur snúið við blaðinu aftur. Hann snerist í fyrra og hefur svo aftur snúist núna. Það er það eina sem hefur gerst, — annað ekki.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vil láta þess getið, að á þskj. 585 og á þskj. 602 flyt ég brtt. við lánsfjárlagafrv. Báðar þessar breytingar eru tæknilegs eðlis.

Í fyrsta lagi er þar um að ræða ófrágengin mál frá s. l. ári sem varða saltverksmiðju á Reykjanesi. Það láðist að taka inn í lánsfjárlög heimild af þessu tagi, en lántakan sjálf fólst í lánsfjáráætlun þessa árs.

Síðari breytingin er einungis til að taka af öll tvímæli um að ríkið geti tekið lán til að endurlána þeim aðilum sem standa að nýjum iðnaðarverkefnum, en upphæðin sjálf er í lánsfjáráætlun og þar er ekki um neina viðbót að ræða. Í báðum tilvikum er því raunverulega um að ræða leiðréttingu, en ekki efnislega viðbót.

Í þriðja lagi mæli ég fyrir brtt. á þskj. 602 sem ríkisstj. hefur ákveðið að flytja. Hún er líka meira um form en efni. Lántaka til Vatnsveitu Búðardals að upphæð 150 millj. kr. er áformuð í lánsfjáráætlun eins og hún liggur nú fyrir, en hins vegar er talið óhjákvæmilegt að veitt verði sjálfskuldaábyrgð af hálfu ríkissjóðs í sambandi við þessa lántöku. Vegna þess að þess var ekki getið í lánsfjárlagafrv. er brtt. flutt.

Herra forseti. Ég vil að öðru leyti ekki lengja þessar umr. Af mörgu er að taka, en mér þótti alveg sérstaklega nauðsynlegt að svara strax þessum fsp. sem hv. þm. Pétur Sigurðsson varpaði fram áðan.