21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3023 í B-deild Alþingistíðinda. (2953)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil nú segja það fyrst, að það er kannske von að hæstv. forsrh. skyldi loksins hafa tekið þann kost að kljúfa sig frá félögum sínum í Sjálfstfl. og bregðast því trausti sem landsfundarfulltrúar Sjálfstfl. víðs vegar að um landið hafa sýnt honum í áratugi, fyrst hann hefur komist að þeirri niðurstöðu eftir 50 ára dvöl í Sjálfstfl. að það sé í andstöðu við stefnuskrá Sjálfstfl. að efla menningarstarfsemi auka félagslega þjónustu og jafna lífskjör. Ég víl minna á það, að í grundvallarstefnuskrá Sjálfstfl. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stefna Sjálfstfl. hefur frá upphafi miðað að eflingu frelsis og mannhelgi. Þess vegna vill flokkurinn:

1. Varðveita og tryggja sjálfstæði og frelsi Íslands og standa vörð um tungu, bókmenntir og annan menningararf Íslendinga.

2. Treysta lýðræði og þingræði.

3. Vinna að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og athafnafrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

4. Beita nútímaþekkingu og tækni svo að auðlindir landsins verði hagnýttar í þágu þjóðarinnar.

5. Skapa öllum landsmönnum félagslegt öryggi.“

Svo mörg voru þau orð, og ég verð að segja það, að það hryggir mig eins og á stendur að varaformaður Sjálfstfl. skuli kasta með þvílíkum hætti glósum að fjölmörgum sjálfstæðismönnum sem í gegnum tíðina, sem í gegnum áratugi hafa sýnt honum traust og samþykkt þá grundvallarstefnuyfirlýsingu sem hér greinir. Þessi ummæli hæstv. forsrh. eru í senn móðgun við þá menn, sem nú sitja á þingi fyrir Sjálfstfl., og um leið móðgun við þá menn aðra, sem hafa borið fram stefnu Sjálfstfl. jafnt í sölum Alþingis sem annars staðar hér á landi.

Ég ætla svo ekki að gera ummæli hæstv. forsrh. frekar að umræðuefni, hvorki í þetta skiptið né annað, en segi eins og mér býr hugur í brjósti, að ég átti von á því, að hæstv. forsrh. mundi e. t. v. beina skeytum sinum að þeim mönnum sem hér sitja á Alþ. fyrir Sjálfstfl. og ekki vildu styðja hann í þessari ríkisstj., en ég hélt að hann mundi láta í friði hinn almenna sjálfstæðismann sem á undanförnum áratugum hefur verið valinn til trúnaðar og hefur m. a. kosið þennan mann til forustu með því að kjósa hann varaformann hvað eftir annað í Sjálfstfl.

Herra forseti. Ég óska eftir því, að hæstv. iðnrh. sé viðstaddur. (Forseti: Ég skal gera gagnskör að því. Vill starfsmaður svo vel gera að biðja iðnrh. að ganga í salinn, hans nærveru er óskað, og fleiri ráðh. gjarnan ef viðstaddir eru. — Hæstv. iðnrh. er í símanum og það verður fylgst með því og hann beðinn að ganga þegar til fundar er hann hefur losnað, hann er kannske í mjög brýnu símaviðtali.)

Já, það er aðdragandi þessa máls sem ég vil nú gera að sérstöku umræðuefni, að í þeirri lánsfjáráætlun, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að ekki verði boraðar nema tvær holur við Kröflu: annars vegar ein vinnsluhola og hins vegar önnur hola, tilraunahola í suðurhlíðum Kröflu, sem ekki er gert ráð fyrir að geti komið í gagnið á þessu ári. Ég vil minna á það, að í sambandi við þessi mál hefur iðnrn. hvað eftir annað, meðan það hefur verið undir stjórn núv. hæstv. iðnrh., gefið út álitsgerð um að það hefði komið sér ólíkt betur ef á s. l. ári hefði verið hægt að koma því við, að tvær vinnsluholur yrðu boraðar við Kröflu á s. l. sumri, og hefur verið sýnt fram á það, að ef þær hefðu skilað meðalafköstum hefðu þær þegar skilað mjög háum fjárhæðum í ríkissjóð, auk þess sem allur rekstrargrundvöllur þeirrar virkjunar, sem þar er, væri miklu traustari og ekki síst nú þegar í ljós er komið að önnur af þeim holum, sem úrslitum ræður um hvort virkjunin geti gengið, hefur breytt sér svo að nauðsynlegt er að hreinsa hana á 8–9 mánaða fresti eða svo, í staðinn fyrir að áður var talið að þar mundi verða um 14–18 mánaða frest að ræða. Þetta hefur m. a. valdið því, að rekstur Kröfluvirkjunar stöðvaðist nú fyrir nokkru og hefur ekki getað haldið áfram og er nú beðið eftir bor til þess að hreinsa þessa holu. Þetta mikla öryggisleysi varðandi rekstur Kröfluvirkjunar hlýtur að valda því, að menn velti því fyrir sér í fyrsta lagi, hvort hægt sé að gera rekstur virkjunarinnar öruggari, og í öðru lagi, hvort nokkrar leiðir séu til þess að auka afköst virkjunarinnar, a. m. k. svo að nemi helming þeirrar keyrslu sem gufurafallinn er gerður fyrir, sem mundi hafa mjög marga kosti frá vinnslusjónarmiði.

Nú hef ég hér í höndum í skýrslu iðnrh. vegna óska frá Alþ. á þskj. 398, grg. frá iðnrn. þar sem kemur í ljós, að æskileg gufuvinnsla í Kröfluvirkjun á þessu ári yrði þrjár vinnsluholur og fjórar holur á árinu 1981. Síðan segir í þessari skýrslu, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðar þessi áætlun við að fá endanlega úr því skorið, hvort vænta megi betri boranaárangurs í suðurhlíðum Kröflu en á þeim svæðum sem borað var á á árunum 1975 og 1976. Einungis hefur verið boruð ein hola í suðurhliðum Kröflu, hola 12, sem boruð var árið 1978 og gaf góðan árangur.“

Þetta er m. ö. o. niðurstaðan af þessum athugunum og rannsóknum. Í till. iðnrn. um gufuöflun 1978–1980, eins og frá þeim er skýrt á bls. 2 í skýrslunni, er fyrst gerð grein fyrir því, að boraðar hafi verið 12 holur við Kröfluvirkjun. Boranir hafi hafist árið 1974 með því að þá voru boraðar tvær rannsóknarholur. En árið 1975 voru boraðar þrjár holur og árið 1976 fimm holur. Ekkert var borað árið 1977, en árið 1978 var boruð ein hola. Síðan hefur ekkert verið borað á Kröflusvæðinu. Um till. iðnrn. segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna undirbúnings fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar ársins 1979 var gerð sérstök athugun á framhaldi gufuöflunarvegna Kröfluvirkjunar: Kom álit iðnrn. m. a. fram í minnisblaði til ríkisstj. frá 12. des. 1978 þar sem segir m. a.: „Telur rn. rétt að fá úr því skorið á næstu árum, hvort unnt sé að afla gufu að einhverju marki á fyrirhuguðu vinnslusvæði í suðurhlíðum Kröflu. Rannsóknir með borunum munu leiða í ljós hvort unnt verði að koma virkjuninni í gagnið með sæmilegu rekstraröryggi og framleiðslugetu, t. d. fyrir veturinn 1980–1981, en þá er talið að nokkur vöntun geti orðið á orku frá vatnsaflsstöðum í landskerfinu.

Rn. telur hins vegar ekki rétt, m. a. með áhættu af náttúruhamförum í huga, að verja stórum fjárhæðum árlega til gufuleitar fyrir virkjunina á næstunni og telur hóflegt að boraðar verði tvær holur á umræddu svæði á næsta ári og þær ekki tengdar fyrr en sumarið 1980, eftir því sem ástæða þykir til. Ákvarðanir um borun á árinu 1980 verða síðan teknar með hliðsjón af árangri af borun og öðrum rannsóknum ársins 1979.

Óhjákvæmilegt er að verja nokkru fé til rannsókna á virkjunarsvæðinu, óháð því hvort um borun verður að ræða eða ekki. Fylgjast þarf með þeim holum sem þegar hafa verið boraðar, gera athuganir til staðsetningar nýrra borhola og mælinga á meðan á borun stendur. Undir þetta fellur einnig svonefnd gosvakt, þ. e. rekstur jarðskjálftamæla og annars eftirlitskerfis vegna annarra náttúruhamfara á svæðinu.

Talið er að tæknibúnaður Jarðborana ríkisins sé ófullnægjandi til borana á háhitasvæðum og megi rekja skemmdir á nokkrum borholum við Kröflu til þessa. Er þar með ekki fullyrt að meiri virkjanleg gufa hefði fengist en ella. Hins vegar telur rn. nauðsynlegt að úr þessu verði bætt sem fyrst og nokkru fé veitt til Jarðborana ríkisins til tækjakaupa á næsta ári.“

Við undirbúning fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar 1979 lagði iðnrn. þannig til eftirfarandi:

1. Boraðar yrðu tvær holur í suðurhliðum Kröflu, en ekki var gert ráð fyrir því að þær yrðu tengdar á árinu. Borkostnaður tveggja hola var áætlaður 520 millj. kr.

2. Til rannsókna á Kröflusvæði yrði varið 120 millj. kr. 3. Að Jarðborunum ríkisins yrðu útvegaðar 180 millj. kr. til kaupa á borholudælu.

Tillögur þessar mættu frá upphafi harðri andstöðu af hálfu ráðh. og þingflokks Alþfl. og málamiðlunartillaga um borun einnar holu náði ekki heldur fram að ganga. Niðurstaða lánsfjáráætlunar fyrir árið 1979 birtist í eftirfarandi texta:

„Frekari framkvæmdum við Kröfluvirkjun verður slegið á frest og eingöngu fylgst með þróun svæðisins næstu tvö árin. Lánsfé vegna Kröfluvirkjunar verður í samræmi við þetta 270 millj. kr. árið 1979. Af þessari fjárhæð er heimilt að verja 150 millj. kr. til þess að standa undir útgjöldum vegna gæslu við virkjunina og 120 millj. kr. til rannsókna á Kröflusvæðinu. Fjárveiting til rannsókna er einkum við það miðuð, að afla frekari vitneskju um jarðhitasvæði í suðurhlíðum Kröflu.“

Ákveðið var jafnframt að afla fjár vegna kaupa Jarðborana á bortækjum.

Enn segir í þessari skýrslu: „Vegna síhækkandi olíuverðs á fyrri hluta ársins 1979 gerði iðnrn. sérstaka athugun á aðgerðum í orkukerfinu er orðið gætu til að spara olíu og flýta fyrir að innlendir orkugjafar kæmust í gagnið. Var grg., dags. 23. apríl 1979, skilað til ríkisstj. og á grundvelli hennar og síðari tillagna undirbjó ríkisstj. í júnímánuði setningu brbl. um heimild til viðbótarlántöku og ábyrgðarheimildir vegna framkvæmda á sviði orkumála. Í því sambandi lagði iðnrn. enn til að boraðar yrðu tvær holur við Kröflu. Voru leidd rök að því að verulegur efnahagslegur ávinningur gæti orðið að því að halda áfram borunum, þannig að virkjunin komist í full afköst, borið saman við þann kost að leggja árar í bát og hætta•borunum um fyrirsjáanlega framtíð.

Í álitsgerð rn. frá 23. apríl 1975 segir um þetta efni m. a.:

„Hluti af þessum ávinningi er fólginn í minni raforkuvinnslu með eldsneyti veturinn 1980–1981, hinn næsta áður en Hrauneyjafossvirkjun kemur í gagnið. Nemur þessi hluti nokkrum hundruðum millj. kr. Raunar getur hann numið mun hærri fjárhæð ef vatnsárferði verður óhagstætt þennan vetur, þótt ekki sé með því reiknað í athugun þeirri sem gerð var og byggist á meðaltalsreikningum (væntanlegu gildi). Umtalsverð aukning í afköstum Kröflu getur umbreytt þessu og frekari borun þar, sem er einasta leiðin til að auka afköst virkjunarinnar, yrði þannig beinlínis til að spara olíu hér á landi þann vetur, 1980–1981. Þangað til eru tvær borvertíðir, 1979 og 1980. Nota þarf báðar. Verði ekkert borað við Kröflu í ár og eingöngu treyst á boranir 1980 gefst mjög naumur tími til að prófa og mæla holur áður en þær eru tengdar virkjuninni, og þarf að starfa að lagningu gufuveitu frá þeim áður en vitað er um afköst, sem eru í rauninni óhæf vinnubrögð.

Því er lagt til að í ár verði boraðar tvær holur við Kröflu í því skyni að draga úr eða útrýma nær alveg notkun olíu til raforkuvinnslu hér á landi veturinn 1980–1981 og að útvegaðar verði 650 millj. kr. í því skyni. Gert er ráð fyrir að tenging bíði til 1980, en auk sjálfrar borunarinnar þarf að kosta nokkru fé í ár til vegagerðar að væntanlegum borstæðum í suðurhlíðum Kröflu.“

Tillögur þessar mættu eindreginni andstöðu þingflokks Alþfl. og varð niðurstaðan því sú, að ekkert fé var veitt til borana við Kröflu á árinu 1979.

Tillaga iðnrn. um að veita jafnhárri upphæð í staðinn í styrkingu innanbæjarkerfa til að greiða fyrir rafhitun strandaði einnig á andstöðu Alþfl.

Það, sem ég hef nú farið með, lýsir í stuttu máli aðdraganda þess, að ekki kom til þess að borað yrði við Kröflu á sumrinu 1979. Það er náttúrlega hörmulegt til þess að vita, að sú ríkisstj., sem þá sat, skyldi með opin augun hafa hagað sinni orkumálapólitík þannig að um fyrirsjáanlegt stórfellt tap hlaut að vera að ræða frá því sem ella mundi. Er talið að ef tvær borholur hefði verið boraðar og hefðu komið til gagns á því ári, væru tekjur Kröfluvirkjunar helmingi meiri í ár heldur en ella. (Gripið fram í: Munar það svo miklu?) Það munar því, að ef einungis er litið á reksturinn hefði virkjunin þannig skilað 130 millj. kr. upp í vexti og afborganir, sem eru býsna góður skildingur þegar um hreint tap er að ræða, auk þess sem þarna var um ávinning að ræða í framtíðinni og við mundum þá vita á þessari stundu betur en við vitum nú hvernig skynsamlegast og réttast væri að haga sér í sambandi við þessa virkjun. Það gefur náttúrlega auga leið, að sá kostur, sem valinn hefur verið í sambandi við Kröfluvirkjun, var sá versti sem nokkur völ var á. Það var byrjað á því að hrúga upp stofnkostnaðinum, leggja höfuðáherslu á að hraða hinum fasta kostnaði sem mest mátti, koma upp sjálfri virkjuninni, kaupa hverflana og þar fram eftir götunum, en síðan, þegar kom að því að bæta við tiltölulega mjög lágum viðbótarkostnaði til þess að tryggja rekstaröryggið og auka raforkuframleiðsluna, hefur verið haldið að sér höndum.

Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að hæstv. menntmrh., Ingvar Gíslason, hafði á þessu mjög ríkan skilning á s. l. ári og flutti ásamt Lárusi Jónssyni, 3. þm. Norðurl. e., till. um það hér í d. að borað yrði við Kröflu. En þetta strandaði á þeirri ríkisstj. sem þá sat. M. a. treysti hæstv. iðnrh. sér ekki til þess að greiða atkv. með þessari till. Og annar þm., hv. 2. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, treysti sér ekki heldur til að greiða till. atkv., þótt ég efist ekki um að hann segi það satt, sem hann hefur síðar sagt, að allur hugur hans hafi til þess staðið.

Svo augljóst sem það er að nauðsynlegt er að taka af skarið um það, hvernig standa skuli að Kröfluvirkjun, svo augljóst sem þetta ætti að vera öllum landslýð, og ég tala nú ekki um þá menn sem eru svo hátt uppi í loftinu að þeir geta séð landið allt, eins og hæstv. forsrh., þá skyldi maður náttúrlega ætla að þvílíkir menn legðu á það ofurkapp í sambandi við þessa lánsfjáráætlun að hafa borholurnar svo margar við Kröflu sem skynsamlegast sýnist að bestu manna yfirsýn, enda mundi það vera í samræmi við stefnu Sjálfstfl. að hafa jafnan þann hátt á sem viturlegur telst og sannsýnn að bestu manna yfirsýn. En nú er það ekki gert. Ég efast þó ekki um, að hæstv. iðnrh. hafi fullan vilja á því að fylgja fram sínum skoðunum og sínum áætlunum, og get út af fyrir sig verið þakklátur fyrir það, að hann skyldi hafa sent fjölmennum fundi á Skútustöðum á s. l. sumri orðræðu um það, að iðnrn. væri þeirrar skoðunar, að skynsamleg vinnubrögð við Kröfluvirkjun mundu henta best í framtíðinni. Ég sé það líka á því plaggi sem hér hefur verið lagt fram: „Kröfluvirkjun — skýrsla iðnrh. vegna óska frá Alþ. á þskj. 398“ — að hann er þeirrar skoðunar enn að hér skuli fara að með fullri skynsemi og raunsæi, eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1980 var af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins gerð tveggja ára áætlun um framkvæmdir og rekstur Kröfluvirkjunar. Í þessari áætlun er lagt til að boraðar verði a. m. k. þrjár vinnsluholur á árinu 1980 og fjórar holur árið 1981. Miðar þessi áætlun við að fá endanlega úr því skorið, hvort vænta megi betri boranaárangurs í suðurhlíðum Kröflu en á þeim svæðum sem borað var á árunum 1975 og 1976. Einungis hefur verið boruð ein hola í suðurhlíðum Kröflu, hola 12, sem boruð var árið 1978 og gaf góðan árangur.

Áætlun þessari fylgir rekstraráætlun sem sýnir að rekstrarhalli gæti orðið um 180 millj. kr. árið 1980 ef engar holur verði boraðar 1979, en hins vegar boraðar tvær holur 1980. Rekstrarafgangur yrði síðan árið 1981, 53 millj. kr., verði boraðar þrjár holur með árangri það ár.

Áætlanir þessar miðast við beinan rekstrarkostnað án greiðslu fjármagnskostnaðar og afskrifta. Áætlunin sýnir að hefðu verið boraðar tvær holur árið 1979 og þrjár holur 1980 hefði hugsanlega fengist rekstrarhagnaður þegar árið 1980.

Að tillögu núv. ríkisstj. eru niðurstöður samkv. lánsfjáráætlun 1980, að útvegað skuli lánsfé að upphæð 1750 millj. kr. til að bora tvær holur fyrir virkjunina, auk greiðslu rekstrar- og stofnkostnaðar. Miðað við nokkra frestun á greiðslum fram yfir næstu áramót verða 1575 millj. kr. til reiðu vegna Kröfluvirkjunar í ár.

Vegna þeirra fsp., sem leitast er við að svara hér á eftir, er rétt að minna á að frá árinu 1976 hefur aðeins verið boruð ein hola til gufuöflunar fyrir Kröfluvirkjun og gaf hún allgóða raun. Ástæðan fyrir þessu aðgerðarleysi er ekki síst andstaða Alþfl.-manna gegn fjárveitingum til að reyna að tryggja gufu fyrir virkjunina. Sömu aðilar hafa hins vegar verið ötulir við að spyrjast fyrir um gang mála við Kröflu og býsnast yfir bágum horfum og fjármagnskostnaði vegna framkvæmda sem ekki hafa orðið að notum nema að mjög takmörkuðu leyti. Með þessu er engan veginn sagt að ekki hefði sitthvað mátt betur fara við undirbúning og tilhögun framkvæmda við virkjunina, en eftir að stöðvarhús var risið mátti öllum ljóst vera að virkjunin kæmist því aðeins í gagnið að unnt reyndist að afla til hennar gufu.“

Í öðrum stað í þessari skýrslu frá iðnrn. er fjallað um fjárhagslegan ávinning af frekari fjárfestingu við Kröflu, þ. á m. við boranir, og fjárhagslega áætlun tengda þeim fjárfestingum. Í svari við þessari spurningu er m. a. komist svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Verulegar líkur eru á því, að ef farið hefði verið að tillögum iðnrn. um boranir á árinu 1979, eins og rakið hefur verið hér að framan, hefði ekki þurft að koma til orkuskorts á s. l. vetri. Með áframhaldandi borunum á þessu ári eru einnig líkur á að draga megi úr rafmagnsskömmtun til orkufreks iðnaðar á næsta vetri. Miðað við sæmilegan árangur af borunum væri að þeim tvímælalaus fjárhagslegur ávinningur.“

Enn er í þessari skýrslu um það fjallað, hvort skynsamlegt gæti verið að flytja annan hverfilinn við Kröflu á Reykjanessvæðið. Í svari við þeirri spurningu segir rn. m. a., að úr núverandi óvissu fáist ekki skorið nema með frekari borunum, og jafnframt er frá því skýrt, að miðað við óbreytta þekkingu á jarðhitasvæðum á Reykjanesi sé talin hætta á að jarðhitasvæðið á Svartsengi mundi ekki þola það álag sem því fylgdi að hefja raforkuframleiðslu þar.

Ég taldi nauðsynlegt, eins og á stóð, að gera þessu máli allgóð skil, hvernig ástandið er þarna. Það liggur alveg ljóst fyrir og menn vita um það, að eins og nú standa sakir byggir raforkuframleiðslan á Kröflu aðeins á tveim holum. Ef önnur hvor þeirra stíflast eða bilar eða eyðileggst, þá dettur öll framleiðsla niður þarna, svo ótryggt er það. Jafnframt liggur það fyrir, að beðið er með að lagfæra slit á hverfli þangað til frekari orkuöflun verður komin á svæðinu. Vélasamstæðan er og hefur verið keyrð af mun lægra afli í mun lengri tíma en yfirleitt er talið eðlilegt. Þetta hefur orðið til þess að auka tæringu og slithraða í vélabúnaðinum af straumtæknilegum ástæðum, segir í áliti um þessa virkjun.

Nú veit ég að hæstv. iðnrh. er jafnkunnugt um það og mér, að á það hefur verið lögð áhersla af aðstandendum Kröfluvirkjunar — og m. a. hefur Verkfræðiskrifstofa Sigurðar Thoroddsens s/f mælt með því — að á þessu ári yrðu boraðar þrjár holur, tvær vinnsluholur og ein tilraunahola í suðurhlíðum Kröflu. Ég reyndi að kanna það mál í samvinnu við aðra þm. Norðurl. e., átti með þeim fund í dag og spurði þá að því, hvort þeir treystu sér til þess að fá því framgengt, að um borun þriðju holunnar yrði að ræða á Kröflusvæðinu. Þeir töldu að hæstv. iðnrh. hefði ekki til þess svigrúm innan lánsfjáráætlunarinnar, og veldur það að vísu vonbrigðum, en við því er sem sagt ekkert að gera, þótt áhugi minn og ýmissa annarra standi til þess að standa nú einu sinni vel að verki við þessa virkjun. Hins vegar vil ég varpa þeirri fsp. til hæstv. iðnrh., hvort nokkur hætta gæti verið á því, að framkvæmdafé við Kröfluvirkjun verði svo skorið niður að ekki sé tryggt að þessar tvær holur verði boraðar eins og áætlað hefur verið.

Ég vil jafnframt spyrja hæstv. iðnrh. að því, hvort hann hafi uppi einhverjar áætlanir eða einhverja vitneskju um það á þessari stundu, hvort einhver bor fáist í Eyjafjörð til þess að halda áfram borunum fyrir Hitaveitu Akureyrar, þó svo borinn, sem þar er nú, verði fluttur austur á Kröflusvæðið. Í þriðja lagi væri mjög gott að fá um það upplýsingar, hvort fyrirhugaðar jarðhitarannsóknir á Raufarhöfn nái fram að ganga.

Það var út af þessum málum sem ég óskaði eftir því að fá hæstv. iðnrh. hér í salinn til að varpa fram fsp. um þessi atriði. Ég vil jafnframt segja það, að það veldur mér vissulega vonbrigðum að honum skyldi ekki hafa auðnast að ná því fram að nægilega yrði borað við Kröflu eins og hans hugur stóð til. Ég veit að hæstv. menntmrh., sem kominn er í stólinn með honum, hefur stutt hann í því máli, en það hefur sem sagt strandað á einhverjum öðrum í ríkisstj. sem ég veit ekki hverjir eru. En hitt fullyrði ég, að ef til kasta Alþingis kæmi í þessu máli og menn yrðu frjálsir eða því, hvernig þeir höguðu sínu atkv., þá mundi ekki á því standa að sú heimild, sem þarna um ræðir, yrði veitt.

Um þá fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem hér um ræðir, má annars margt segja til viðbótar því sem áður hefur komið fram, og kannske endurtaka sumt af því að gefnu tilefni. Ég vil t. d. út af þeim ummælum, sem af hálfu ríkisstj. hafa fallið í dag, aðeins vekja athygli á því, að það skýtur náttúrlega skökku við annars vegar að stórauka erlendar lántökur til orkuframkvæmda hér innanlands, en á hinn bóginn halda svo á verðlagsmálum að íslensk orkufyrirtæki, eins og t. a. m. Hitaveita Reykjavíkur, fái ekki að setja upp eðlilegt verð fyrir sína þjónustu. Við vitum það vel, að sú sterka uppbygging þessa fyrirtækis, sem hefur fært Reykvíkingum og nágrannabyggðarlögum ódýra orku um ár og áratugi, byggist fyrst og fremst á því, að fyrirtækið hefur verið nokkurn veginn sjálfrátt um það, lengi framan af a. m. k., hversu það háttaði sinni verðlagningu. Var upp úr því lagt að eigið fé fyrirtækisins fjármagnaði a. m. k. að verulegum hluta nýframkvæmdir þess. Nú hefur verið horfið frá þessari stefnu illu heilli. Ég heyrði það í einhverjum fjölmiðli haft eftir einum hæstv. ráðh., að hann taldi að það væri allt of dýrt fyrir þjóðarbúið að leyfa fyrirtæki eins og Hitaveitu Reykjavíkur að verðleggja sína þjónustu með eðlilegum hætti vegna þess að þetta fyrirtæki vægi svo þungt í vísitölunni. Nú er það náttúrlega alger misskilningur að hitunarkostnaður hjá launþegum falli aðeins til í Reykjavík. Auðvitað er þessi hitunarkostnaður miklu, miklu þungbærari og tilfinnanlegri úti um landið. Og með því að halda verðinu á þjónustu Hitaveitu Reykjavíkur svo mikið niðri er beinlínis verið að taka af launþegum um allt land réttmæta hækkun sem gert er ráð fyrir og er einn af hornsteinunum í því verðtryggingarkerfi sem verkalýðshreyfingin hefur samið um.

Ég vil sem sagt aðeins leggja áherslu á þetta, að um leið og nauðsynlegt er í sambandi við orkuvinnsluna að gefa heimildir til nauðsynlegrar lántöku erlendis til þess að standa undir þeim framkvæmdum sem á hverjum tíma sýnast hagkvæmar og nauðsynlegar, þá er ekki síður mikilsvert að verðlagningu á þessari orku verði stýrt þannig að fyrirtækin geti dafnað og þróast með eðlilegum hætti.