21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3039 í B-deild Alþingistíðinda. (2960)

140. mál, almannatryggingar

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. 1. flm. þess frv., sem hér um ræðir, var hv. þm. Kjartan Jóhannsson. Málið er þannig til komið, að það þótti nokkur vafi á því, hvort vextir af sparifé kæmu til með að skerða svokallaða tekjutryggingu. Sá kvittur kom upp í blöðum — og Tryggingastofnunin tók á nokkurn hátt undir það — að framtalsskylda af sparifé í nýsettum skattalögum yrði þess valdandi að tekjutryggingin mundi skerðast. Þetta var alrangt. Það varð engin breyting í þessum efnum við setningu nýrra skattalaga. Sá orðrómur, sem þarna kom upp og var að nokkru leyti staðfestur af eða a. m. k. ekki dreginn til baka af Tryggingastofnuninni, var þess eðlis að hann var til þess fallinn að vekja tortryggni hjá gömlu fólki.

Þetta frv. er að því leyti til óþarft, að ég tel að þessir vextir eigi ekki að skerða tekjutrygginguna. Hitt er svo annað mál, að það er út af fyrir sig rétt að taka þarna af allan vafa svo að hér sé ekki um misskilning að ræða og ekki komi upp slíkur draugur sem kom hér upp á s. l. vetri. Sú breyting var gerð á frv. í meðferð Ed., að allar vaxtatekjur eru undanskildar og hafa ekki áhrif á fjárhæð tekjutryggingar.

Ég tel út af fyrir sig rétt að gera þessa breytingu, að engar vaxtatekjur hafi áhrif á tekjutryggingu gamla fólksins, vegna þess að þessir vextir eru í flestum eða öllum tilfellum ekki tekjur, heldur aðeins gjald fyrir verðrýrnun þeirra peninga sem það hefur áunnið sér. Hitt er svo annað mál, og það vil ég taka skýrt fram fyrir hönd n., að það er fyllilega ástæða til að taka þessi mál til endurskoðunar á þann hátt að ekki sé aðeins miðað við tekjur manna af þessu tilefni, heldur einnig tekið ákveðið tillit til eigna þessa fólks, því að ástæðan fyrir þessari tekjutryggingu er að sjálfsögðu fyrst og fremst sú að hjálpa þar sem þörfin er mest, að hjálpa því fólki sem þarf fyrst og fremst á þessu að halda. Þess vegna er full ástæða til þess að taka þetta til endurskoðunar.

Það var m. a. upplýst hjá okkur í n., að Tryggingastofnunin tæki í þessu sambandi tillit til vaxtatekna af skuldabréfum, en ekki vaxtatekna af sparifé, þannig að ef gamall maður hefur selt sína íbúð og fengið skuldabréf með 15 eða 20% vöxtum, þá fer tekjutryggingin hans allt í einu að skerðast, en ef hann hefði átt þessa íbúð áfram hefði svo ekki verið. Ég tel að þessar reglur séu þess eðlis að þær þurfi endurskoðunar við, eins og margt annað sem í þessu kerfi er og í þessari stofnun fer fram og hlýtur að þurfa að taka til endurskoðunar á hverjum tíma. Og ég vil leggja áherslu á það fyrir hönd n., að svo verði gert. En með tilliti til þessara orða minna leggjum við einróma til að frv. verði samþ.