21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3040 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. Nd. hafði með að gera frv. til l. um breyt. á l. nr. 47 30.maí 1979, um aðstoð við þroskahefta. Nefndin hefur fjallað um frv., en tilgangur þess er að ákveða í lögum að heimili sjálfseignarstofnana og vistheimili fyrir vangefna svo og aðrir aðilar, er vinna að málefnum þroskaheftra, fái rétt til fjárveitinga úr Framkvæmdasjóði öryrkja og þroskaheftra. Með þessari breytingu á lögunum er sá skilningur staðfestur, að allir þessir aðilar falli undir Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra. Við afgreiðslu fjárlaga 1980 kom raunar fram þessi skilningur fjvn.

Félmn. Nd. leggur til að frv. verði samþykkt og leggur áherslu á að fjárlaga- og hagsýslustofnun taki tillit til þessarar aukningar á verkefni Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra við fjárlagagerð fyrir árið 1981. Jafnframt vill n. láta koma fram þá samhljóða skoðun, að við fjárlagagerð 1981 eigi að ná fram verðtryggingu á framlagi til sjóðsins í samræmi við 25. gr. lagana.

Nefndin boðaði á sinn fund formann Landssambands þroskaheftra og varaformann, og staðfestu þeir að það væri rétt stefna, að öll uppbyggingarstarfsemi á þessu sviði falli undir Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra, eins og að er stefnt með heildarlöggjöf um aðstoð við þroskahefta sem samþykkt var og staðfest 30. maí 1979, en lögðu á það áherslu, að tryggja þyrfti að fjármagn verði veitt samkv. tilgangi laganna.

Það mætti halda langa tölu um þetta málefni og hefur raunar verið gert áður, en eins og allir hv. alþm. vita er það ákaflega þýðingarmikið atriði, að nást skyldi fram hér á hv. Alþingi heildarlöggjöf um málefni þroskaheftra í landinu. Og þó að e. t. v. megi segja að ekki hafi verið staðið við það, sem raunar var gert ráð fyrir við lagasetninguna, að sameina þessi málefni öll undir eina stofnun þannig að það lægi skýrt fyrir við fjárlagagerð fyrir yfirstandandi ár að fjármagn yrði tryggt til þess að ná fram lágmarksmarkmiðum á þessu sviði, þá er hér til heildarlöggjöf sem hlýtur að auðvelda það, að því markmiði verði náð að afla þess fjármagns sem til þessa verkefnis þarf.

Ég vil, herra forseti, vænta þess fyrir hönd n., að þetta frv. verði að lögum, til þess að hægt sé á þessu ári að koma til móts við þær stofnanir sem hér er átt við.

Einn nm., Jóhanna Sigurðardóttir, hv. 10. landsk., skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara.