21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3042 í B-deild Alþingistíðinda. (2967)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ætli hæstv. fjmrh. sé farinn úr húsinu? Ég veit ekki nema það væri kannske möguleiki að annar hvor hinna hæstv. ráðherra gæti þá hlaupið undir bagga, en þannig stóð á fyrir einu ári, að sú ríkisstj. sem þá sat — (Forseti: Vill starfsmaður gera athugun á því, hvort fjmrh. er nærhendis, og biðja hann að gjöra svo vel að koma og hlýða á mál hv. skrifara deildarinnar?) Sú ríkisstj., sem þá sat, ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, hóf miklar sparnaðaraðgerðir í sambandi við ríkisreksturinn og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri helst vænlegt til árangurs að skera niður rekstrarfé að sumarlagi hjá þeim stofnunum sem hér um ræðir, stofnunum fyrir þroskaheft fólk. M. a. fengu foreldrar eða aðstandendur slíks fólks bréf um það, að þessum stofnunum yrði lokað í einn mánuð á s. l. sumri.

Hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, gerði þá fsp. til þeirrar ríkisstj., sem þá sat, um þessi mál, og þá var því heitið, að nægilegt fjármagn yrði útvegað til þess að full starfsemi gæti orðið á þessum stofnunum á s. l. sumri. Nú er mér kunnugt um að við þetta var ekki staðið, rekstrarfjármagnið var skorið við nögl þó það hafi ekki verið skorið niður svo mikið sem í upphafi var ráðgert, og hef ég af því sannar spurnir frá því hjúkrunarfólki sem á slíkum stofnunum vinnur.

Nú vil ég spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvort sami háttur verði á hafður nú í sumar, að byrja sparnaðinn á þessu fólki, eða hvort við því megi búast, að stofnanir fyrir þroskaheft fólk geti starfað með eðlilegum hætti nú í sumar.