21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3044 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það var út af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að þrátt fyrir undarleg ummæli hæstv. ráðh. af og til í fjölmiðlum hefur það nú komið í ljós, að hæstv. fjmrh. hefur enn ekki gert upp við sig né ríkisstj. hvernig staðið skuli að lánsfjáráætlun í einstökum atriðum, þannig að nokkrar brtt. hafa verið teknar aftur við 2. umr. til hinnar 3., sem sýnir að málið er enn óuppgert í þeirra huga, og sýnir að allt tal um það, að stjórnarandstaðan sé að tefja eitt og annað, er út í bláinn og sagt gegn betri vitund.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að ef fyrir stjórnarandstöðunni hefði vakað að tefja þinghald, eins og komið hafa fram athugasemdir um, þá hefði stjórnarandstöðunni nægt að ganga af þessum fundi þar sem ríkisstj. hafði ekki það þinglið hér inni í deildinni að hún gæti komið fram málum hjálparlaust.