22.05.1980
Neðri deild: 84. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3045 í B-deild Alþingistíðinda. (2977)

123. mál, sönnun fyrir dauða manna af slysum

Frsm. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti og skrifarar báðir. Allshn. þessarar hv. deildar hefur haft til athugunar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 23 19. júní 1922, um sönnun fyrir dauða manna, sem ætla má að farist hafi af slysförum.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að þeir frestir, sem tilteknir eru í lögunum frá 1922, séu styttir mjög verulega, þ. e. sex mánaða frestur sé styttur niður í einn mánuð. Enn fremur gerir frv. ráð fyrir því, að inn í lögin verði sett ákvæði um það, að ef maður hverfur hér á landi án þess að vitað sé að hann hafi komist í lífsháska, þá sé hægt að úrskurða hann látinn eftir að liðnir eru þrír mánuðir. Með sama hætti gerir þetta frv. ráð fyrir því, að ef maður hverfur af skipi eða flugfari í erlendri höfn eða á ferðalagi erlendis sé hægt að fá um það úrskurð eftir þrjá mánuði, að hann skuli talinn látinn.

Nefndin er sammála um að mæla með því, að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.