22.05.1980
Neðri deild: 84. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3047 í B-deild Alþingistíðinda. (2982)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Síðdegis í gær lagði ég fsp. fyrir hæstv. fjmrh. varðandi greiðslur til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Svör hans voru á þá leið, að framlag ríkissjóðs hefði verið greitt með nokkrum skilum. En það var ekki það sem ég var að spyrja sérstaklega um, því það vita allir og þó sérstaklega hann, að það fé, sem frá ríkissjóði kemur, framlag ríkissjóðs, það stöðvast ekki í sjóði þessum, heldur á það undir venjulegum kringumstæðum að halda áfram til Byggingarsjóðs ríkisins.

Ég var hins vegar að spyrjast fyrir um þá miklu fjármuni sem ríkissjóður hefur innheimt hjá atvinnuvegunum og hjá sveitarfélögunum og ríkissjóður hefur nú um nokkurra missera skeið tekið ófrjálsri hendi og haldið án þess að vextir komi fyrir, sem m. a. veldur því, að ef eitthvað kemur upp á hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, ef atvinnuleysi verður á einhverju svæði landsins, þá er hann ekki þess megnugur að standa undir atvinnuleysisbótum.