22.05.1980
Neðri deild: 85. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3051 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel að hæstv. fjmrh. væri meiri sómi að því, fyrst hann leggur það á sig að lesa upp úr nál. frá félmn., að greina satt og rétt frá því sem þar stendur, svo ekki þyrfti að toga upp úr honum með framíkalli frá einum hv. þm. að ég hefði skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Ég vil minna á í þessu sambandi, að þá brtt., sem hér er til umr., flutti ég við 1. umr. um þetta mál, til þess að félmn. gæfist færi á að líta á hana samhliða frv. Ég tók það fram áðan, að kallaðir hefðu verið til fulltrúar Landssamtakanna Þroskahjálpar sem lýstu stuðningi sínum við þessa brtt. Og þegar ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara, þá var það vegna þess að ég taldi það þó nokkurs virði sem fram kom í nál., en engan veginn fullnægjandi. Ég taldi það nokkurs virði að undir nál. skrifar t. d. einn nm. í fjvn., Alexander Stefánsson. Ef þessir sömu nm. verða í fjvn. á næsta ári, þá tel ég það nokkurs virði, að hv. þm. Alexander Stefánsson hafi skrifað undir slíkt álit, og vænti þess, að það njóti þá stuðnings þessa hv. þm. að t. d. verðtryggingin á framlagi til sjóðsins verði ekki skert á næsta ári.

Ég tók það skýrt fram í n., að ég mundi ekki draga þessa till. til baka, þrátt fyrir það sem fram kom í þessu nál. Ég byggi það á þeirri reynslu sem ég hef af því, hvernig að fjármögnun til öryrkja hefur verið staðið. Við höfum fyrir okkur núna síðast dæmi um afgreiðslu fjárlaga þar sem sjóðir öryrkja eru skertir um 800–900 millj. kr. Þar af er Erfðafjársjóður skertur um rúmar 300 millj., Framkvæmdasjóður um 300–400 millj. og felldur út Styrktarsjóður vangefinna kr. 150 millj. Gefur þetta nokkurt tilefni til að ætla að nokkur trygging sé fyrir því, sem hérna stendur, að við það verði staðið að taka tillit til þessara auknu verkefna sem þetta frv. gerir ráð fyrir við næstu fjárlagaafgreiðslu? Ég held ekki. Þess vegna stóð ég fast á því að flytja þessa brtt. Og ég tel mig hafa gert fullnægjandi grein fyrir því í n., að ég mundi ekki draga hana til baka og teldi enga ástæðu til þess.

Ég vil nú lýsa furðu minni á því sem fram kemur hjá hæstv. fjmrh. í þeirri brtt. sem hann leggur hér fram, að fella skuli niður þá brtt. sem nýlega hefur verið samþ. í þessari hv. d. (Fjmrh.: Það hef ég ekki lagt til.) Þú hefur lagt til að hún verði felld niður. Ég gat ekki skilið betur orð hæstv. fjmrh. (Fjmrh.: Þessa nýju mgr. — Forseti: Ekki samtal á fundinum.) Ég hef trú á því, að ég hafi rétt fyrir mér, að hann ætlist til þess að brtt. falli niður. En mér finnst furðulegt, ef það er rétt sem ég tel að fram hafi komið, að hæstv. fjmrh. ætli með þessu að láta reyna á það hér, að þeim meirihlutavilja, sem fram kom hér við 2. umr., verði ekki haldið. Ég trúi því ekki. Og ég skora á hv. þm. að fella þessa brtt. hæstv. fjmrh.