22.05.1980
Neðri deild: 85. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (3001)

Afgreiðsla þingmála

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að hæstv. fjmrh., sem er einn af þeim mönnum sem hafa verið að væna aðra menn um að vera með málþóf hér í d., gerir sér nú leik að því að flytja brtt. um það að færa frv. aftur til hins fyrra horfsins eftir að hv. d. hefur afgreitt málið. Væri það nú skemmtilegur leikur, ef menn á annað borð vildu fara í einhvern málþófsleik hér eða einhvern næturfundarleik, að hafa þetta fyrir fasta reglu við 3. umr., að endurflytja till. um að færa frv. í einstökum atriðum til hins fyrra horfs til þess að skemmta skrattanum og reyna með þeim hætti að koma í veg fyrir það, að raunverulegur vilji deildar nái fram að ganga, en hægt verði að setja á einstaka þm. meiri hl. einhverja hnappheldu svo þeir líti allir út eins og núll í snörunni.